Ég er Daniel Blake

Ég var að horfa á bresku bíómyndina I, Daniel Blake eftir Ken Loach frá 2016 sem  sósíalistarnir á Facebook eru svo hrifnir af. Einn þeirra segir að allir ættu að horfa á hana að minnsta kosti einu sinni í viku. Hún gerist í Newcastle á Englandi og segir af baráttu verkamannsins Daniel Blake við skrifræðisskrímslið, lýsir vel fátæktargildrum lágstéttarinnar og ekki síst ömurlegu húsnæðinu sem Bretar bjóða þegnum sínum upp á.

Ég dvaldi í Newcastle fyrstu þrjá mánuði ársins 1980. Á kvöldin þegar ég fór í háttinn var hitinn í herberginu mínu stundum við frostmark. Þá var nú gott að hafa hitateppi í rúminu sem hægt var að kveikja á hálftíma áður en farið var upp í. Konan sem ég bjó hjá var þó enginn fátæklingur, heldur háskólakennari. Hún bjó í rúmgóðu húsi en eina herbergið sem hún kynti og dvaldi í var eldhúsið. Það var jafnvel of dýrt fyrir hana að kynda upp óeinangrað húsið þessa köldustu mánuði ársins.  

Upphaflega fór ég til Newcastle til að læra af þesari konu en hún var sérfræðingur í að nota leiklist sem aðferð við kennslu. Um leið var ég að leggja drögin að því að verða heimskona með því að sjá leiksýningar Konunglega Shakespearsleikhússins sem var á leikferðalagi í borginni, drekka í mig heimslitteratúr á bókasafninu og fara í bíó á kvöldin.

En ég  kynntist líka öðrum hliðum á Newcastle og mannlífinu þar. Lögreglan var að leita að fjöldamorðingjanum Peter Sutcliffe sem myrti samtals þrettán konur á þessum árum og  þess vegna var ég stranglega vöruð við að vera einsömul úti á kvöldin. Og ég kynntist lágstéttinni þegar ég heimsótti skóla í námumannabænum Blyth og talaði um Ísland við tólf ára gömul börn sem vissu ekki einu sinni að landið væri til. Kennari þeirra sagði að þau hefðu mjög gott af því að víkka út sjóndeildarhringinn og átta sig á að heimurinn endaði ekki við bæjarmörkin í Blyth.

Dvölin í Newcastle rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á bíómyndina um smiðinn Daniel Blake sem fær hjartaáfall og missir þar með vinnuna og er af læknum talinn óvinnufær. En áður en hann getur sótt um sjúkrabætur sem hann vissulega á rétt á, þarf hann að ganga í gegnum heilsumat hjá heilsufulltrúa kerfisins sem metur hann að lokum vinnufæran þvert ofan í mat læknanna. Og þar sem hann hefur misst vinnuna reynir hann að sækja um atvinnuleysisbætur en þær fær hann ekki nema hann geti sannað að hann sé í virkri atvinnuleit 35 klukkustundir á viku.

 Daniel Blake fer eftir öllum tilmælum kerfisins en allt kemur fyrir ekki, hann lendir alltaf aftur á byrjunarreit. Hann fær hvorki vinnu, af því hann ræður ekki við hvaða vinnu sem er, né bætur, af því hann gerir ekkert rétt. Hann verður fórnarlamb kerfis sem byggir á hringrökum og minnir oft bæði á skáldsögurnar Catch 22 eftir Joseph Heller og 1984 eftir George Orwell. Ég lenti í svipuðu hringferli og Daniel Blake þegar ég flutti til Svíþjóðar 1976. Þá gat ég ekki fengið húsnæði af því ég var ekki með kennitölu og ekki fengið kennitölu af því ég var ekki með húsnæði.

 Í kvikmyndinni um Daniel Blake er það mjög skýrt að kerfið reynir með öllum ráðum að hrista af sér umsækjendur um bætur, þreyta þá til uppgjafar. Margir gefast upp í umsóknarferlinu, ekki síst þeir sem ekki hafa nægilega tölvufærni til að geta sótt um og fylgt málum sínum eftir á netinu. Þannig getur kerfið losað sig við margan ,,ónytjunginn,“ sem er því miður álitið sem margir hafa á þeim sem þurfa á bótum að halda.

Sumir halda því jafnvel fram að fólk sem þiggur samfélagsbætur sé undirniðri óheiðarlegir svindlarar, einstaklingar sem gera sér upp alls konar mein til að komast hjá því að vinna heiðarlega launavinnu en lifa svo góðu lífi á kostnað skattborgaranna. Þegar Daníel Blake hefur reynt allar leiðir til að komast af og halda íbúðinni, bregður hann á það ráð að selja allt innbúið sitt til að hafa upp í leiguna, því ekki vill hann lenda á götunni og verða að heimilislausum umrenningi, þá fyrst glatar hann sjálfsvirðingunni. Og hún er það dýrmætasta sem hann á.

 Þegar ég fór til Newcastle á sínum tíma, kostaði ég ferðina og uppihaldið sjálf og þótt ég reyndi að lifa sparlega rann sá dagur upp að peningarnir voru uppurnir. Einu verðmætin sem ég átti var ágætis Pentax filmumyndavél. Þegar allt um þraut sá ég mér ekki annað fært en að selja hana. Ég fann ljósmyndavöruverslun niður við bakka Tyne og seldi hana fyrir 80 pund. Daginn eftir gekk ég framhjá glugganum á versluninni og sá að myndavélin mín var komin með verðmiða upp á 135 pund.

 Bíómyndin um Daniel Blake minnti mig ekki bara á þegar ég seldi myndavélina heldur þegar ég seldi píanóið mitt til að geta lokið við að skrifa skáldsögu og sófann minn til að geta borgað af húsnæðisláninu sem át upp íbúðina mína í aðdraganda bankahrunsins.

Nú er ég komin á eftirlaun og við mér blasir nýtt vandamál, áður óþekkt fátæktargildra. Ég verð að gæta þess að tekjur mínar fari ekki yfir ákveðið mark því annars þarf ég að greiða Tryggingastofnun tilbaka af þessum 180.000 krónum sem ég fæ á mánuði. Og lífeyrissjóðurinn vill fá árlegt lífsvottorð, stimplað og staðfest af yfirvöldum, svo hann sé ekki hugsanlega að borga líki 75.000 krónur mánaðarlega.

 En ég get ekki kvartað, ég er við fulla heilsu held ég alveg örugglega og þarf ekki að ganga í gegnum sömu píslargöngu í kerfinu og Daniel Blake. Ég tek undir með hinum sósíalistunum á Facebook, mikið djöfulli er þessi bíómynd góð. Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að hvetja fólk til að horfa á hana einu sinni viku, það gæti orðið ávísun á þunglyndi. En oftar einu sinni alveg hiklaust eins og gildir um öll góð listaverk.

 

Previous
Previous

Ýmis konar systrabönd

Next
Next

Mont er best í hófi