E F N I S Y F I R L I T

Kammermúsík - ljóðaflokkur frá 2007

Konur skelfa - leikrit frá 1996

K A M M E R M Ú S Í K

Hún ætlaði alltaf að skrifa þér bréf 
segja að hún elskaði þig 
segja að hún hataði þig
segja hver hún væri

Að hún væri skyggn
að hún væri önnur
að hún væri falleg 
og fyndi til

Segja þér til syndanna
segja þú værir ljótur
segja þú værir vondur

Segja að hún vildi eignast pabba
segja að föðurgervið væri lélegt 
og trúðsgervið sömuleiðis

Hún ætlaði alltaf að skrifa þér bréf
eins og Kafka
spyrja hvort þú héldir virkilega 
að þú værir tvíburabróðir guðs

Nú er það orðið of seint
kannski var það alltaf of seint
aldrei rétti tíminn hvort sem var
hvorki fyrir þig né hana

Aldrei rétti faðirinn
aldrei rétta dóttirin 

Nú bíðurðu eftir því að verða sóttur
situr prúðbúinn í sófanum
með gulhvítt hárið
sem liggur í fallegum sveipum
á litlu höfðinu 

Þér er kalt á höndum og fótum
leyfir henni að strjúka æðaberar hendurnar
finnst gott þegar hún strýkur þér um höfuðið 
nafnlausum strokum 

Manst ekki stundinni lengur hver hún er 
kannast ekki við þessa lófa
þeir hafa aldrei snert þig 
nema af illri nauðsyn

Best er andlitslaus blíðan

Forspil

Heyri 
hamarshögg í húsasundi 
söngl í konu á svölum 
hósta í karli og bölv í skúr
hjón að rífast og börn að leik

Bak við hús
í steinsteyptu porti  
stóð eitt sinn ryðguð tunna
sem tók að sér 
brotið mandólín
og skælandi balalæku


Fjölskyldurondó

Tekkhúsgögn og
þunnar ullargardínur í stíl
Axminsterteppi út í horn
eftirprentanir Van Goghs 
á veggjunum
og stolt heimilisins 
einn Jón Stefánsson

Allt of ung hjón 
halda utan um barnahóp
blikandi og glansandi 
líkt og andapar á tjörninni

Mamman nýbúin að eiga 
værukær á svip 
með hvítvoðunginn í fanginu
og laugardagslagningu í hárinu 
í sérsaumuðum kjól 
efnið úr Vogue

Undan faldinum 
gægjast feimin hnén 
og kyssast 
á kvenlegum leggjunum

Pabbinn kinnfiskasoginn 
og vatnsgreiddur
situr hnarrreistur í sófanum
silkibindi 
og silfurslegnir skyrtuhnappar 
vægt montglott 
í öðru munnvikinu 
hann á þennan barnaskara 

Barnungir bræðurnir 
í jakkafötum með hálstau
systurnar í dömulegum jólakjólum 
frá Amríku
gott að eiga flugmannsvin

Þvingað bros 
skríður fram 
á ungar barnsvarir 
mjólkurhvítar tennur 
skína í skærum andlitunum
atvinnuljósmyndari á ferð

*

Andahjónin elskast 
og rífast á víxl 
öndin gargar 
steggurinn heggur  

skotin stundum fleiri  
en stráin í hreiðrinu 
sem fjúka eitt af öðru 
í spjótkasti orðanna

Undir borðstofuborði 
andarungar 
skjálfandi á beinunum 
heimurinn alltaf að farast
yngri systir telur lífskjark 
í þá eldri

Auðvitað ferst heimurinn ekki 
þótt hann sé fallvaltur

Auðvitað halda þau áfram að vera hjón
þótt þau gargi af og til

Auðvitað er gaman að eiga börn 
þótt þau séu óhemjur

Já - auðvitað er gaman að eiga börn
fullt hús af börnum 

Gamalt sálmalag

Yfir hverfinu gnæfir 
hin gotneskja kirkja
og minnir á guð í upphæðum 
sem enginn trúir á 
en allir leita til 
í nauðum 

Í næsta nágrenni
biðsalur dauðans
fórnarlömb ellinnar 
í þungu lofti 

gamalt konfekt í skúffum
volgt maltið í glerflöskum 
á fölleitu harðplasti 
sem auðvelt er að þrífa

skúrepúlver 
í bland við hlandlykt 
úr gömlum 
lífrænum leiðslum

frelsarinn 
í líki dauðans 
fer með veggjum 
um völundarhús 
efstu daga 

Inni á herbergjum 
ljósmyndir 
af látnum börnum 
sem dóu ung 
úr kíghósta 

tárvotur öldungur 
kyssir mynd 
af ungum syni 
í blómum skrýddri kistu

Og gamlingjarnir 
eru góðir 
sérstaklega hún 
Guðrún frá Melgerði
með Jesú á bómull 
allan hringinn 
kringum rúmið

og saknaðarljóðin í bunkum 
sem harma horfnar sveitir landsins

lyngbrekkur dalanna
dúnmjúka árbakkana
sönginn í silungnum

Feðrafúga  

Feðurnir fara 
úr húsi 
fyrir allar aldir 
um aldir alda
hafa varla sést 
í aldaraðir

Ekki fyrr en þeir 
birtast 
aldurhnignir 
langt fyrir aldur fram

Grönvold
Hafstein 
Hjaltested
Norðfjörð 
Nordgulen 

og hvað þeir nú heita
og lenda hinum megin við götuna 
á Grundinni góðu

Feðurnir stíga ölduna 
færandi varninginn heim
langt fyrir allar aldir 
og um aldir alda
sækja þeir sjóinn 
stíma eftir soðningu 

Sumir koma í land 
og stíga ölduna á mölinni
skjótast snöggir milli skrifstofa
í frakka og sígildum feðrabúningi
heillum horfnir 

Ólánsamir herrar 
bakvið gervið 
hengdir upp á herðatré 
í hrönnum 
sem hlýðinn flokkur
dauðasök að skera sig úr

Þúfnagöngulagið 
arfur í beinan karllegg 
galvaskur göngutakturinn 
runninn þeim 
í merg og bein

Ósýnilegir feður 
fara þegar við sofum
koma þegar við erum sofnuð
sofa þegar við vökum 

Blessuð sé minning feðranna
um aldir alda

Barnagælur

Barnagælur hefjast 
um sumar 
með morgunsól í portinu
þar sem tvíhjólin 
liggja á hliðinni 
eins og börnin skildu við þau 
í gærkvöldi 

Þær hefjast 
þar sem barnavagnarnir 
standa tilbúnir 
fyrir uppgötvun dagsins 

Hlýir gærupokar 
bíða eftir grislingum 
sem kúra öruggir 
í kerrum allan daginn

Stelpur að passa 
í stretsbuxum með hárband 
í stöðugri vist og teygjutvist 
með munnfylli af tyggjó
blásandi kúlur 
sem springa og fleeetjast út 
á gelgjulegum andlitum 
stórar bleikar basúkakúlur

Strákar hlaupandi 
á skúrþökum í sundinu
stríðsöskrin 
enduróma um hverfið
sá sem ekki þorir 
að stökkva milli skúra 
fær stimpilinn 
ævarandi aumingi 

Frekar falla strákar 
milli skúra 
á steinharða stéttina 
en láta það spyrjast 
að hafa kveinkað sér

Frekar þagna strákar 
en sýna sársauka 

Þannig verður karlmaðurinn til 
en hinir verða aumingjar 
og aumingjar eru kellingar
þess vegna 
gráta karlmenn ekki

Það segir faðirinn 
og faðirinn 
hefur lög að mæla
lögin um sannleikann 
og lífið

*

Bræður reykja 
í laumi úti á Elló
fela sig 
í djúpum kjallaratröppum

Stela Hellas 
frá Stellu á tólf
og kafna næstum 
af versta smóknum
stela frá Silla og Valda 
af ávöxtunum 
skuluð þér þekkja þá  

Á meðan 
stunda systur læknisleik 
í hráslagalegum þvottakjöllurum
þar sem margfætlur 
dansa skottís í hornum

Með myglulykt í vitum 
leggjast þær til skiptis á bekk 
kanna áður óþekkta líkamsparta 
um horaða kroppana hríslast 
sæluhrollur spennunnar

*

Boltaleikir í sundinu
fíngert rykið af mölinni 
þyrlast upp í sumarljósinu 
undan ökklaháum strigaskóm 
sest að í saklausum andlitum 
og ljósu hári

Hlaupið milli potta 
í kýló
drepið af alefli 
í brennó
gátur leystar 
í píló

Leikhús á háaloftum
tombólur í húsagörðum
til styrktar sveltandi börnum 
í Kongó eða Bíafra

Mynd í Morgunblaðinu
Litlar telpur bjarga heiminum

Vögguvísa

Hvítvoðungurinn 
liggur hjalandi á hjónarúminu
brosandi í gulu lampaskini

Hún syngur fyrir litla bró
spriklandi á rúmteppinu
blómbóm og tsúmtsúm
bíbí og blaka

Allt þar til mamma kemur
og rífur hann burt
litlabró bróbró 
bróbró brabra

Á tjörninni 
endur og svanir 
og ljótur andarungi 
sem flýr upp í sefið
særður og hrakinn 

Hún setur hann í ilmandi eplakassa 
gengur honum í móðurstað
ó ó brabra bróbró

 

Mæðrasvíta

Kona í hagkaupsslopp 
viðrar sængurföt á svölum

Engin kona 
er kona með konum 
nema hún eigi nælonslopp 
úr Hagkaup

Meira að segja forsetafrúin 
gengur í hagkaupsslopp 
og skammast sín ekki fyrir það

Konur í hagkaupssloppum 
viðra sængurföt á svölum

Þetta eru litríkir sloppar 
með voldugum tölum
vel saumaðir sloppar 
sem hylja konur 
og verja þær 
fyrir óþægindum lífsins

Þeir þola allt þessir sloppar
slef úr kalli
ælu úr barni
matarleifar
hor og tár

Það er svo auðvelt 
að eiga við 
hagkaupssloppinn 

Hann þarf ekki að strauja
hann er alltaf sem nýr 
búrka sem felur það vel 
sem konur hafa að geyma
mæðrasloppurinn sígildi 

Hún vill ekki gleymast 
bakvið slopp 
sem einhver 
hefur slefað á

Hún vill ekki verða 
eins og mamma
pirruð og þreytt 
á börnum

Hún vill ekki enda 
í mjólkurbúð
verða send 
á grautarskóla
giftast vondum manni 
sem heimtar sitt

Þess vegna 
selur hún blöð 
eins og strákur
Vikuna og Fálkann 
í verkamannabústöðunum

hrópar fyrirsagnir á torgum 
eins og Óli blaðasali
gengur hús úr húsi 
með Happdrætti Krabbameinsfélagsins

styður gott málefni 
um leið og hún fær fúlgu 
til að sýna föðurnum

Mansöngur eitt

Stóra systir segir 
að hún giftist 
þegar hún fái brjóst

Stóra systir gaf henni 
snyrtibuddu í fermingargjöf
og rúllur til að setja í hárið
svo hún geti lært að vera kona

Ekki seinna vænna 
en á sjálfan fermingardaginn
að tína púður upp úr buddu
bláan augnskugga 
og bleikan lit á varir 
dökkan maskara 
á ljós augnhárin

Þannig verður hún falleg 
og fullkomin brúður 
þannig vill hana einhver maður
þannig gengur hún út 
og verður aldrei ein 

Góð snyrtibudda 
bjargar mörgum konum
frá hörmungum einsemdar 
og ástleysis

segja henni konur 
í fjölskyldunni
segja henni systur 
og vinkonur á götunni
segja henni kvennablöðin

Án snyrtibuddu 
verður hún ekki kona

Án snyrtibuddu 
fær hún ekki inngöngu 
í sálufélag kvenna

Sálufélag kvenna 
samanstendur af 
lekkerum konum 
í aðsniðnum kjólum
sem kunna að láta mat oní sig 
án þess að fitna

Sálufélagi kvenna
finnst of mikil matarlyst 
sumra kvenna 
refsiverð

Sálufélag kvenna 
gerir sér mikinn mat 
úr megrunarkúrum  

Sálufélag kvenna 
gætir þess 
að konur séu eingöngu konur
svo þeim haldist örugglega 
á körlum

Hún nær aldrei prófinu 
inn í sálufélag kvenna

Rómansa eitt  

Eftir umferðaræð 
sem kennd er við hring
ganga strætisvagnar 
í gagnstæðar áttir 
og halda uppi 
hringrás lífsins

Tignarlega rennur leið sextán 
út úr hliðaræð 
sem kennd er við furu

Undir stýri situr hann 
sem hún er skotin í 
af því hann er ekki 
eins og faðirinn


bros hans fyllir vagninn 
augun brún og hlý 
spékoppar dansa í kinnum
dökkar krullur í hárinu 

Hann leyfir henni alltaf 
að tala við sig 
jafnvel þótt samræður 
við vagnstjóra í akstri 
séu stranglega bannaðar 

þegar hann tekur 
stærstu beygjurnar
heldur hún sér í stöngina 
sveiflast til og frá 
létt og örugg ballettstelpa 
á leið til dansmeistara 
við Hverfisgötu

Hún vill að vagnstjórinn 
verði annaðhvort 
pabbi hennar 
eða maðurinn hennar 
hún veit ekki hvort
ruglar þessu tvennu alltaf saman

Mun hann bíða eftir henni
tólf ára stelpukjánanum

Mun hann bíða eftir henni
þrettán ára stelpuasnanum

Mun hann elska hana
fjórtán ára stelpufíflið 

Verður þetta sönn ást milli beggja
Eða bara mundu mig ég man þig tilfinning 
minningabókanna 

Rómansa tvö

Faðirinn brosir aldrei 
nema þegar hann stríðir henni
þá skín í tannlausan hákarl 
ógurlega skepnu 
sem syndir hratt í köldum sjó
augun svarblá af kulda
húðin strengd á kjálkabein
samt logar eldur í hári

Hann leyfir henni aldrei að tala 
þótt samræður við föður 
ættu alltaf að vera leyfðar
ekki aðeins í akstri
heldur á öllum gatnamótum 
og öllum beygjum
hvar sem er í heiminum

Þegar faðirinn er undir stýri 
sveiflast hún til og frá 
í kröppustu beygjunum 
þung og fyrirferðarmikil skessa 
á leið til helvítis 
ekkert til að halda sér í

Mansöngur tvö

Stóra systir flutti að heiman sextán  
fékk ferðatösku í afmælisgjöf 
frá föðurnum
svo hún gæti pakkað niður og farið

Fyrsta unganum 
fleygt úr hreiðrinu
ófleygum

Leigði sér herbergi 
á Melunum
breyttist í konu
í einni andrá

Stundum grætur mamma sáran
yfir glötuðu dótturinni
sem bráðung 
varð karlmannskrumlu 
að bráð

þá leitar hún 
í nærliggjandi hverfum
svo mömmu líði betur 

hleypur um götur 
og leitar að lífinu

eins og forðum 
á Freyjugöturóló
þegar hún klifraði upp kaðalinn 
nærbuxnalaus 
undir flaksandi kjólnum
og fann sæluna 
á toppnum


Mansöngur þrjú

Mamma opnar bakdyrnar út í portið
hún er enn á morgunsloppnum 
gulvatteruðum 
þótt sólin sé fyrir löngu komin á fætur 
og sumarið í góðu skapi

Mamma fer alltaf seint á fætur 
klæðir sig í hagkaupssloppinn
undir hádegi
rétt áður en hann kemur heim
húsbóndinn
herforinginn
stjórnandinn í lífi hennar

hann sem allt veit
hann sem allt getur
hann sem er mestur allra 

mesta happið 
stærsti fengurinn
aflið sem knýr hana 
á ólgandi heimshafinu

Undirniðri vill hún ekki 
verða morgunsloppnum að bráð
langar til að komast út úr húsi
sigla um víða veröld 

mála myndir
leita á náðir ljóðsins
það kvað vera fallegt í Kína

Tekkhillur svigna 
undan skáldskap
sem hún svolgrar í sig
djúpt sokkin 
í bláum hægindastól

allt þar til borðtuskan kallar
og kústurinn verður óþolinmóður

allt þar til hann kemur heim

Gamall húsgangur eitt

Hann kemur alltaf heim 
í hádeginu 
og heimtar sitt hrærða skyr 
heimtar sitt súra hvalspik
normalbrauð og mysing

og ómissandi hádegisfréttir 
af endalausum vígaferlum 
mannskepnunnar

Á meðan þegja þau 
og steinþegja
það má ekki heyrast múkk 
á meðan þulurinn 
bútar fréttirnar ofan í hann
lið fyrir lið

Mamma er aðstoðarkonan
hægri höndin trygga 
þerna hans 
gæslukona og fóstra

hún er hlustandinn eini 
dýrðlegur aðdáandi 
stöðugur fylgihnöttur 
fer sjaldan út af 
sporbaugnum

Mamma er 
fagur fylgifiskur
dularfullur fylginautur
haldreipið góða 
hóra hans og hamingja
huggarinn eini 
þegar enginn sér til

Hjá henni einni
sýnir hann sár sín
bernskuörin 
og löngu horfna 
strákssálina 

Hann má gráta 
á heitum 
margra barna 
brjóstum hennar
þegar enginn sér til

hann er svo blíður 
þegar enginn sér til

Ástarljóð

Þau kyssast 
í hverju hádegi 
og eftir matinn 
leggjast þau 
á gólfið í stofunni
eða upp í rúm 
í faðmlögum

Hún elskar þau
hún hatar þau
hún öfundar þau 
af þessari svokölluðu ást

Þau vita ekki 
að hún elskar þau 
að hún hatar þau 
að hún öfundar þau 
af þessari svokölluðu ást 
sem stundum springur í tætlur

aðallega um ellefuleytið
á sunnudagsmorgnum
þegar presturinn vælir í viðtækinu
og lyktin af lambahryggnum 
æsir upp hungrið

þá hverfur hann á bílnum 
og hún trúir 
og jafnvel vonar
að hann komi ekki aftur

en svo kemur hann aftur
hann kemur alltaf aftur
þögull og afundinn 

situr sviplaus við eldhúsborðið 
með hrygginn í kjaftinum
og þolir engan

Millispil 

Undir mánasigð 
og norðurljósadýrð
hvílir ísilögð tjörnin 

Hann gaf henni hvíta skauta
til að svífa um svellið kalda
í svartri vetrarkyrrð

Vinur hans flugmaðurinn 
keypti þá í Amríku 
glæsilega hvíta skauta
gott að eiga flugmannsvin 

Frosnar tær 
troðast hver um aðra þvera 

Támjó skautajárn 
skera rákir í þykkan ísinn
geómetrísk formin 
í ætt við Septemhópinn 

Fyrir ofan tjörnina  
hvíla framliðnir forfeður 
í köldum gröfum 

Heyra ekki tiplið í ullarsokkatám 
heyra ekki brakið í gúmmíbomsum
á gaddfreðnum leiðunum
þegar hún röltir heim
af ísilagðri tjörninni

 

Gamall húsgangur tvö

Faðirinn
húsbóndinn
herforinginn
sem allt veit og ræður öllu
hefur einungis lög að mæla

Það er bannað 
að andmæla honum 

og það er bannað 
að tjá sig í návist hans 

og það er bannað 
að hafa aðra skoðun en hann 

og það er bannað 
og bannað 
og bannað 
að fara gegn vilja hans

því verði ekki hans vilji 
ferst himinn og jörð

Þegar hann talar
þá talar hann

og þegar hann hefur talað 
þá er allt útrætt 

þótt ekkert sé rætt 
og enginn komist að 

nema hann

það er honum að mæta 
sé ekki farið eftir því 
sem hann hefur að mæla

amen 

Barnshjarta hennar 
vill ekki mæta honum 
hvorki í björtu 
né myrkri
þess vegna slekkur hún á því
gerist hermaður 
og hlýðir 

Þannig og aðeins þannig 
fær hann ást á henni
og þannig 
og þannig aðeins 
er henni borgið 
jafnt í reiði hans 
sem reiðileysi 

ef hún óhlýðnast 
alveg óvart 
eða af einskærri tilviljun
fær hún að kenna rækilega á því

Eiturgrænn vöndurinn 
glottir á snaganum
helvítis plastbankarinn 
sem myndar far á rassinum 
þegar brjálæðið stígur á stokk 
og höggin dynja 

gleraugu splundrast 
kvarnast úr tönn 

Guð þú hefur svikið
hver sem þú þykist vera 
óguð 

Ó fyrirgefðu guð  
að hún skuli segja þetta við þig 
þið sem voruð svo náin 
fram eftir öllum aldri.

Á hverju kvöldi kom hún til þín 
og trúði þér fyrir ótta sínum
og þú vissir ósköp vel 
að það þurfti ekki 
að refsa henni 

því þótt hún væri bara stelpa 
kunni hún að standa upprétt 
í stríði 
teinrétt og kórrétt


Kvöldsöngur

Hann 
þolir ekki stelpusálir 
sem vola og væla
hann vill aga þær og tukta 
þar til viðkvæm rödd þeirra hverfur

Hann
vill hafa þögn í stríðinu
nema þegar hann talar sjálfur
og slær á létta strengi 

Það kemur þeim óbreyttu
alltaf jafnmikið í opna skjöldu 
þegar hann kveikir sér í Sésterfíld 
og reytir af sér brandara

tekur kannski eina skák 
við einn úr liðinu

ropar eins og hvalur 
og rekur við með stæl

fær örlætiskast 
og sendir einhvern þeirra 
út í sjoppu 
að kaupa kók og prins 
á línuna

Þá kemur í ljós 
að hann er elskur að tónlist 
og talar fjálglega um þá stóru

við hlið Beethovens eru allir peð  
Puccini vekur hjá honum 
djúpar kenndir 

Hann dáist að Callas 
og tárast yfir Toscu 

keyrir allt í botn  
þegar gríska dívan tekur andköf
og slær hann út af laginu
svo hann lyppast niður 
lítill og meyr

Gleymir sér eitt andartak 
í tilfinningasemi
í andakt

Eitt stutt ómælanlegt andartak 

Kammermúsík

Já - faðirinn
sá ósýnilegi
er reglulega elskur af tónlist
kaupir hljóðfæri 
handa börnum sínum
sjaldgæf strengjahljóðfæri
mandólín og balalæku austan úr heimi
rándýr og listilega vel smíðuð

gott ef ekki gítar líka
þannig mynduðu börnin
hljómsveit í huga hans

Á röndóttum jólanáttfötum 
áttu þau að skemmta honum 
á síðkvöldum 
svo honum liði betur 
og gæti sætt sig við
sprengjuregn lífsins  

En ekkert þeirra kunni 
á framandi hljóðfæri 
og enginn kenndi þeim 
á gersemarnar

draumurinn um 
litla hljómsveit 
deyr á heimili hans 
og þernunnar 

Hljóðfærin fölna 
í hljómleysi sínu
rispur setjast að 
á gljáandi belgjum
strengirnir slitna 
einn af öðrum

Sorgarmars

Hún staldrar við ryðgaða tunnu 
í steinsteyptu porti
þar sem balalækan grét 
og mandólínið 
gaf frá sér síðasta hljóminn 

Faðirinn opnar dyrnar út í portið 
stendur við opna tunnu 
á hvítum hlýrabol
hver vöðvi þaninn
hver taug strekkt 
þegar hann mannýgur 
mölvar hljóðfærin
á hvassri brún tunnunnar ...

 járnið rífur mjúkan spóninn ... 
 tætlurnar sáldrast um loftið ...

 strengirnir æpa ...
 belgurinn springur ... 
 og þagnar að eilífu ...

Finale

Að draga andann 
er ekki að lifa

Að draga andann 
er að lifa af 
með herkjum

láta engan bilbug á sér finna
brotna ekki undan álagi

Vera beinn í baki
umfram allt
þráðbeinn

þegar kvöldið nálgast 
og lyktin af endalokunum
fyllir vitin

Þetta eru síðustu forvöð 
síðasta útkallið nálgast 
þú ert með 
tímasprengju í maganum

Þegar hún springur
kafnar sjónin
í svörtu myrkri
svarblár hákarlinn 
syngur sitt síðasta

Hjartaklukkan
slær lokahögg

Eftirspil

Heyri aftur
hamarshögg í húsasundi 
söngl í konu á svölum 
hósta í karli og bölv í skúr
hjón að rífast og börn að leik

Framan við hús  
á malbikaðri götu
kranabíll  
að hífa flygil 
inn um rúðulausan glugga 
á þriðju hæð

Nýr nágranni 
fyllir húsið 
af músík meistaranna

Og gott ef sólin ekki skín

Jú - hún skín

K O N U R S K E L F A

Skrifað fyrir Alheimsleikhúsið með styrk frá Leiklistarráði 1995 til uppsetningar á Litla sviði Borgarleikhússins í samvinnu við Leikfélag Reykjavíkur. Frumsýning 27. janúar 1996.

Persónur leiksins:

Regína 49 ára:

fráskilin eigandi snyrtivöruverslunarinnar Lissabon
á Laugaveginum, fyrir henni er það skylda hverrar konu að vera fallegri en hún er, á hæð á Hagamelnum. 65 kíló

Maggý 33ja ára:

fráskilin eigandi fataverslunarinnar Maggý makes it– öðruvísi föt
í Borgarkringlunni, þolir ekki allt þetta innávið kjaftæði sem tröllríður þjóðfélaginu, á raðhús á Nesinu, 53 kíló

Skúli 30 ára:

ógiftur trésmiður, keyrir sendiferðabíl og er að reyna að klára viðskiptafræði, finnst ljóð til alls vís
leigir íbúð tímabundið í Kóngsbakka, 185 cm

Sólveig 38 ára:

fráskilin skrifstofumaður hjá hinu opinbera
hefur farið á nornanámskeið langar til að vera kona í kvöld býr í blokk í Stigahlíð, 65 kíló.

Guðrún 35 ára:

ógift bókavörður á Borgarbókasafni
trúir því að sálfræðin eigi eftir að breyta mannkyninu, hjá henni gerist aldrei neitt í alvöru alvöru, leigir íbúð á Grundarstígnum. 68 kíló

Katrín 26 ára:

gift hámenntaður matreiðslumaður, sem þolir ekki biblíuna og guð húsmóðir í Gullsmáranum Kópavoginum 42 kíló og 500 grömm

Texti Sólveigar í seinni hluta (Ég fór á foreldrafund í vetur...etc.) og ýmsar hugmyndir aðrar sem tilheyra Sólveigu eru sóttar í texta eftir Hildi Finnsdóttur sem birtist í Lesendadálki Morgunblaðsins 29. mars 1995. Textinn og hugmyndirnar eru notaðar og birtar með fullu leyfi höfundar.

 

Skilgreining á Straumum:

STRAUMUR lýsir sér í eftirfarandi: Konur ganga inn og út af klósettum, stilla sér upp við vaska og spegil, skoða sig, mála, greiða sér, þvo sér og þurrka um hendur. Sumar halda á glasi meðan aðrar reykja. Þær kinka kolli, brosa, dæsa og stynja. Konurnar fimm mynda þessa umferð eða dans sem af og til brýtur upp og stöðvar framvindu verksins. Umferðin er einskonar helgiathöfn kvennaklósettsins, ritúal sem allar konur þekkja og kunna utanað, en öðlast leikræna merkingu ef henni er fylgt á eftir í útfærslu þ.e. með hreyfingum, hljóði, takti og ryðma. Einnig má líta á straumana sem mynd af skemmtistaðnum fyrir utan kvennaklósettið.

Fyrri hluti

(Sviðið er kvennasnyrting á stórum skemmtistað. Klósetthurðir, vaskar, speglar, flísar, ljós. Það er laugardagskvöld um miðjan vetur, klukkan er rúmlega ellefu. Þegar ljósin koma upp heyrist þó kliður í fjarska frá skemmtistaðnum, músík og mannamál, en straumurinn er ekki hafinn, þetta er ögurstundin áður en háflæðið byrjar. Við sjáum hægt og rólega móta fyrir Regínu sem stendur við einn spegilinn. Regína er glæsileg kona, allt að því óaðfinnanleg í klæðaburði og útliti. Hún líkist einna helst drottningu sem þarf að sýna sig fyrir framan erlenda gesti. Hárið á henni er mikið og vel greitt og andlit hennar fullkomin gríma. Það er eins og hún hafi staðið þarna í sömu sporunum í nokkurn tíma hreyfingarlaus, eins og könguló í neti sínu, tilbúin í aðgerð ef á reynir. Hún er með litla kventösku á öxlinni, en fyrir framan hana á vaskaborði er bjútíbox. Hún lítur af og til á úr sitt eins og hún sé að taka ákvörðun um eitthvað mikilvægt. Smám saman byrjar hún að skoða sig. Hún á við hárið á sér sem er vel til haft og lagar fötin, skoðar sig í krók og kima. Eftir smáþögn byrjar hún að tala við sjálfa sig)

Regína:

Er þetta virkilega ég ? Já, sæl, þetta ert þú, það er engin önnur þú en þú. Ekki sem verst, ekki sem verst góða mín. Þú heldur þér vel, komin á þennan aldur. Annars máttu fara að gæta þín... þótt ekkert sé að marka þessi ljós, þau sýna of mikið, hrukkur og strik, sem ég kannast ekki við. Did you get my postcard ? How long are you staying ? Það á að banna þessi ljós, ég get ekki verið svona hræðileg. (Rýnir á sjálfa sig) Hvað sé ég ? Hár, ofvaxið hár, hvernig gat þetta farið framhjá mér ? Hvar ertu flísatöng, besti vinur hverrar konu. (Nær í flísatöngina ofan í bjútíbox) Farðu burt búkonuhár, farðu burt ellilýja, ojbara, svona langt. Þarna lúrirðu og heldur að ég muni ekki koma auga á þig, en ég skal ná þér, ég skal svoleiðis ná þér. Hana. (Slítur hárið burtu) Ef þið leynist fleiri svona þá skuluð þið fá fyrir ferðina, því í kvöld ætlar hún mamma ykkar út að skemmta sér og leyfa sér að vera til, gleyma sér í draumi sumarsins og hitans, þar sem hjörtun slá hraðar en hér á landinu bláa. Kondu til mín suðræna sól og skín á mig, en ekki skemma á mér húðina, ekki láta mig fá fleiri hrukkur, ég er ekki ennþá orðin svo gömul. I want to show you my country. Would you like to go to the Blue Lagoon ? No, you don ́t want to go, are you afraid ?

(Maggý kemur móð og másandi inn á snyrtinguna í síðri flaksandi kápu,eins og hún sé nýkomin inn á staðinn og hafi farið beint inn á klósett. Hún heldur á bjórglasi, gengur furðu lostin að Regínu án þess að Regína taki eftir henni)

Maggý:

Við hvern ertu að tala ?

Regína:

Nei, Maggý, sæl, ég átti ekki von á að hitta þig hér.

Maggý:

Ég átti ekki heldur von á að hitta þig hér

Regína:

Ég fer líka voða sjaldan út á svona skemmtistaði.

Maggý:

Ég líka. Þú ert svo fín og með farangur, (kíkir ofan í bjútíboxið) mætt

Regína:

Ég var með námskeið í heimahúsi...

Maggý:

Æ, lánaðu mér smá kinnalit, ég er eitthvað svo mjallahvít í framan

Regína: (Réttir henni kinnalit og bursta í stíl)
Já, þú ert föl sem nýfallin mjöll. Ertu búin að vera lasin ?

Maggý:

Mér brá svo áðan, ég sá gamlan draug þarna frammi, þú skilur

Regína:

Nú, hver er það ?

Maggý:

snyrtibúðin bara

Æ, það er leyndarmál, ég má ekki segja frá því, þetta er þekktur maður í þjóðfélaginu, oh maður er alltaf að lenda í rugli.(Sólveig inn á klósett) Djöfull skal ég skemmta mér í kvöld, ég fer aldrei út að skemmta mér núorðið, ég var að vísu plötuð út um síðustu helgi en það var alveg óvart, helgina þar á undan skrapp ég aðeins út milli tvö og þrjú, ég má það alveg, strákarnir orðnir svo stórir, þurfa enga barnapíu, sitja bara með popp og videó, mér finnst ég eiga skilið að fara út að skemmta mér svona einstaka sinnum nýskilin konan á besta aldri

Regína:

Ertu skilin aftur ? Mér finnst ég vera nýbúin að skoða brúðkaupsmyndirnar í einhverju lífi

Maggý: (Syngur Stones lagið)
Who wants yesterday's papers, who wants yesterday ́s girls. (Guðrún inn á klósett)

Regína:

Fyrrum fótboltahetja og fyrirsæta á Nesinu, var það ekki

fyrirsögnin á forsíðunni ?

Maggý:

Æ, þetta entist bara í ár...

Regína:

Það þykir nú gott í dag

Maggý:

Hann vildi hafa helgi allan ársins hring og þegar ég var búin að fá nóg af helgidögum og sagði hann væri aumingi,þá vildi hann skilja, maður má ekki segja aumingi, þá hóta þeir alltaf skilnaði, svo það endaði með gúddbæ

Regína:

En leiðinlegt

Maggý:

Nei,nei,hann er kominn með nýja svo þetta er allt í lagi

Regína:

Yngdi hann upp ?

Maggý:

Nei, þessi er 10 árum eldri en hann, einhver leikkona, sem fær ekkert að gera, en hún er jógakennari líka og þau eru bæði á leiðinni inn á við. Ég skil ekki allt þetta inn á við kjaftæði sem tröllríður þjóðfélaginu...

Regína:

Þú hefur líka alltaf verið meira svona út á við...

Maggý: (Hlustar ekki) En þú gamla mín...

Regína:

Ha ?

Maggý:

Ert þú alltaf með sömu gömlu búðina...

Regína:

Sömu gömlu búðina...sömu gömlu merkin, sömu gömlu kúnana..

Maggý: (Tekur meira af snyrtivörum Regínu) Og sama gamla manninn...?

Regína:

Sama gamla manninn ?

Maggý:

Æ, þennan þarna með vindilinn og slaufuna, sem þú varst með á undirfatakynningunni í Naustskjallaranum fyrir jólin

Regína:

Nei, það kláraðist úti í Portúgal fyrir tveimur árum

Maggý:

Æ, æ, en leiðinlegt

Regína:

Nei, það er ekkert leiðinlegt

Maggý:

Hvað var hann þá að gera með þér á undirfatakynningu ?

Regína:

Hann er vinur minn...

Maggý:

Ég skil ekki hvernig fyrrverandi elskhugi getur verið vinur manns.

Regína:

Æ, hann hefur átt í erfiðleikum

Maggý:

Er hann kannski kominn með nýja ?

Regína:

Honum var harðbannað að vera í samböndum við konur í eitt ár

Maggý:

Ji, hvernig er hægt að banna fólki að lenda í samböndum, það er nú eitthvað sem maður ræður ekki við, maður lendir bara á einhverjum og búið ..

Regína:

Sumir eru búnir með kvótann

Maggý:

Búnir að fá það fyrir lífstíð. Ekki ég, ég ætla að skemmta mér 100% í kvöld (Katrín í fylgd Skúla inn á klósett og ælir) Það byrjar aldeilis vel kvöldið hjá þessari. En þú gamla mín, hvað ert þú eiginlega að gera hér ?

Regína: (Feimin en samt stolt)
Ég kom aðallega til að hlusta á Portúgalana

Maggý:

Hvaða Portúgala ?

Regína:

Sem eru að spila hérna í kvöld. Þeir hafa spilað fyrir Íslendinga í Portúgal í mörg ár. Ég kynntist þeim svo vel þegar ég var í Portúgal í fyrrasumar ?

Maggý:

Ekki varstu með allri hljómsveitinni ?

Regína:

Nei, nei, ég kynntist einum þeirra lítilsháttar

Maggý:

Ég ætlaði að fara að segja það. Oh, maður pissar svo af þessum bjór. (Fer á klósettið) Hey, þú verður að kynna mig fyrir þessum Portúgala á eftir.

(Nú heyrist í suðrænni tónlist frammi á staðnum í fjarlægð þó)

Regína:

Heyrirðu, þeir eru byrjaðir að spila...(Dillar sér sem í draumi) maður fer allur á ið (Hreyfir sig í takt við músíkina)

Maggý:

Er hann yngri en þú þessi sem þú þekkir í bandinu ?

Regína:

Yngri ?

Maggý:

Annað hvort er hann yngri eða eldri.

Regína:

Við erum fædd sama daginn...

Maggý:

Og..?

Regína:

Hann er að vísu 13 árum yngri

Maggý:

13 árum yngri, vá, sú gamla alltaf með sama gamla sénsinn í hvaða merki, í hvaða merki ?

Regína:

Við erum bæði sporðdrekar

Maggý:

Og hann líka ?

Regína:

Við bæði

Maggý:

Tveir sporðdrekar, vá það hlýtur að vera hot í rúminu hjá ykkur...kondu fram og sýndu mér hann (Er að fara út,en pilsið er uppi á læri öðru megin)

Regína:

Maggý, pilsið þitt

Maggý:

Já, takk, ji, asni er ég. (Eins og hana vanti selskap) Ætlarðu ekki að koma fram og sýna mér gæjann ?

Regína:

Rétt bráðum

Maggý:

Ekki geturðu hangið hérna eins og klósettvörður í allt kvöld, blessuð góða vertu ekki að hafa áhyggjur af þessum hárum, þær eru hvort eð er allar svo loðnar þarna suðfrá ...

(1. STRAUMUR. Tískusýningin. Allar konurnar. Endar með inn á klósett. Sólveig stendur ein við vaskinn)

Regína: (inni á klósetti)
Þú þarna frammi, ertu íslensk ?

að Regína fer ein

Sólveig: (Heldur á maskara og er að mála á sér augnhárin)
Já, auðvitað er ég íslensk, en amma mín var af dönskum greifaættum

Regína:

Það er enginn klósettpappír hérna...

Sólveig:

Er enginn klósettpappír...bíddu, hérna (Nær í klósettpappír inn á annað klósett og lætur klósettpappír undir hurðina)

Regína:

Takk

Sólveig:

Er þetta nóg ?

Regína:

Kannski aðeins meira

Sólveig: (Nær í meiri pappír) Viltu meira ?

Regína:

Þetta er fínt, ég sest aldrei beint á setuna skilurðu

Sólveig:

Ekki ég heldur

Regína:

Maður getur fengið alls konar bakteríur

Sólveig:

Já,það er svo margt í gangi núna

(Skúli hefur læðst inn á kvennasnyrtinguna og er á fjórum fótum að kíkja undir klósetthurðir. Sólveig sér hann allt í einu og hrópar upp)

Skúli: (Hvíslar)
Fyrirgefðu, fyrirgefðu, ég ætlaði ekki....

Sólveig: (Reið)
Ji, hvað mér brá, hvað ert þú að gera hér, þetta er kvennaklósett ?

Skúli:

Ég er að leita að vinkonu minni

Sólveig:

En þetta er kvennaklósett

Skúli:

Já, það vill svo til að vinkona mín er kona

Sólveig:

Og þykist þú vera vinkona hennar ?

Skúli:

Já, einmitt ég er besta vinkona hennar.Heyrðu,ertu nokkuð með töng á þér?

Sólveig:

Töng, hvernig töng, hvers vegna þarftu töng, ég er ekki með neina töng

Skúli: (Hlustar ekki)
Þessi vinkona mín á það til að vera soldið frumleg svona prívat og ég þarf að komast inn til hennar. (Bankar) Katrín, opnaðu.

Sólveig:

Ég er með skæri, viltu skæri ?

Skúli: (Þrífur í eina hurðina og bankar)
Nei, takk, kannski seinna. Katrín. Katrín. (Þögn) Ertu þarna Katrín ? (Þögn) Katrín, svaraðu mér. Gerðu það Katrín, kondu fram, Katrín...þetta er allt í lagi (bankar)

Sólveig:

Það er enginn þarna inni, þetta er bara bilað klósett

Skúli:

Ég veit hún er þarna, ég fylgdi henni sjálfur hingað inn áðan. (Bankar aftur í hurðina) Gerðu það fyrir mig Katrín að opna....(Bankar aftur)

Regína: (Bakvið hurð)
Viltu hætta þessum hávaða. Fyrst Katrín svarar ekki, þá er engin Katrín hérna, kondu þér út dóninn þinn. Þetta er kvennaklósett.

Skúli:

Ég veit það. Og ég veit ég á ekki að vera hérna. Fyrirgefðu, madame

Regína:

Það er ekkert að fyrirgefa, það er engin Katrín hérna. Kondu þér út.

(Þögn)

Sólveig:

Af hverju færðu ekki einhvern frammi til að opna dyrnar, ef þú ert viss um að hún sé þarna inni. Á ég að ná í dyravörðinn ?

Skúli:

Nei, nei, þetta er kannski allt í lagi, hún sefur bara, Þyrnirósaráráttan skilurðu...? (Horfir á Sólveigu eins og hann kannist við hana) Heyrðu, býrð þú ekki í blokk hlíðunum

Sólveig:

Jú, í Stigahlíð...

Skúli:

Manstu ekki eftir mér, ég flutti búslóð fyrir þig úr Breiðholtinu í fyrra, þú átt þrjú börn, tvær stelpur og einn strák...

Sólveig:

Hvernig manstu þetta ?

Skúli:

Þú varst svo þreytt og leið á lífinu man ég, alveg að gefast upp, þú áttir gamla Lödu, sem var öll í skralli, þú gast ekki losnað við hana, passar það ekki ?

Sólveig:

Jú, það passar, já, nú man ég eftir þér...

Skúli:

Ertu búin að selja hana ?

Sólveig:

Hverja ?

Skúli:

Löduna ?

Sólveig:

Já, systir mín keypti hana og hefur ekki talað við mig síðan

Skúli:

Aldrei, aldrei að selja fjölskyldu sinni gamlan bíl.

Regína: (Bakvið hurð) Af hverju ekki ?

Skúli:

Af því það endar alltaf með fjölskylduharmleik. Svo varstu svo reið út í húsbréfakerfið og enn reiðari út í bankana...ertu búin að jafna þig ?

Sólveig:

Já, alveg rétt þú gafst mér svo góðan afslátt af flutningabílnum

Skúli:

Konur eiga enga peninga, þær verða að fá afslátt. Misstirðu íbúðina ?

Sólveig:

Ég gat ekki haldið henni. Ekki svona ein. (Dregur upp fínlegan silfurfleyg úr tösku sinni) Hérna fáðu þér einn...

Skúli: (fær sér)
Og þú átt ekki einu sinni fyrir glasi...

Sólveig:

Ég verð að eiga fyrir tannréttingum handa krökkunum tónlistarskólanum, fimleikurnum og fötunum...svo þarf ég að eiga fyrir bensíni, það þarf að keyra þau og sækja þau

Skúli:

Já, það er það sem ég er alltaf að segja, konur eiga ekki að vera einar, bara alls ekki, það er tóm della.

Guðrún:(Kemur inn og þegar hún sér Skúla) Ó afsakið, er þetta ekki kvennaklósett ?

Skúli:

Jú. Þær eiga að hafa trausta karlmenn sér við hlið (Guðrún inn)

Sólveig:

En það eru engir karlmenn eftir og þeir fáu, sem eru á lausu eru annaðhvort hommar eða margnotaðir og hálfónýtir alkar, svo það er ekki um annað að ræða en gráta oní koddann sinn á kvöldin, ein

Skúli:

Já, þetta er svakalegt ástand á þjóðinni

Sólveig:

...og undir öllu þessu yfirborði er ólýsanlegur sársauki, enda eru konur að veslast upp og þessi litli tími sem fer í að rækta okkur sjálfar er stolinn tími og endar oftast í tómri buddu

Skúli:

Hvað getur maður gert ?

Sólveig:

Fyllt upp í sitt eigið tóm, farið á helgarnámskeið. Ég er ein núna um helgina, krakkarnir eru hjá pabba sínum og ég ætla gera eitthvað fyrir mig, vera til, skemmta mér...

Skúli:

Góða skemmtun vinan og gangi þér vel. (Skúli fer aftur að læstum klósettdyrum og bankar) Opnaðu Katrín, ég veit þú ert þarna inni. Hættu þessum leik. Vaknaðu !

Sólveig: (Með umhyggju)
Hún hlýtur að vera dauð, náðu í dyravörðinn

Skúli:

Nei, hún gerir þetta alltaf. Sko ef hún kemur út, viltu þá segja henni að maðurinn hennar sé að leita að henni út um allt

Sólveig:

Og ert þú maðurinn hennar?

Skúli:

Nei... ekki beint

Sólveig:

Ekki beint nei. Þú verður að biðja einhverja aðra en mig, ég er að fara fram að skemmta mér...(ætlar út)

Skúli: (Fer að dyr Regínu)
En þú þarna kveneðla með flottu röddina getur þú skilað þessu til Katrínar ?

Sólveig: (Pínulítið hneyksluð)
Kveneðla ? Hvernig talarðu við konur?(Fer út)

Regína:

Ertu þarna ennþá ?

Skúli:

Nei, ég er farinn

Regína: (Þegar hún heyrir hann fara út) Varstu að ávarpa mig áðan ?

Skúli:

Já, yðar náð, ég var að ávarpa yður áðan, það hefur enginn annar gefið sig fram

Regína:

Hvernig á ég að vita hver Katrín er...?

Skúli:

Það er enginn vandi. Hún er grönn, mjó með rautt tjásuklippt hár,sæt stelpa. Já. Virkilega sæt ef hún bara hlýddi einu sinni. (Regína hlær) Ekki hlæja, þetta er ekkert hlægilegt. Þetta er grafalvarlegt.

Regína:

Æ, kondu þér út labbakútur, þetta er kvennaklósett. Þú ert bara að reyna að húkka þér dömu

Skúli:

Nei, ég er á bakvakt, stofugangi....

Regína:

Nú ertu læknir ?

Skúli:

Nei, ekki beint

Regína:

Ekki beint nei. Farðu þá út

Skúli:

Já, ég er að fara. ég er farinn.

(Skúli fer að dyrunum, opnar þær og skellir. Stendur fyrir raman útgönguna: Þögn. Það er bankað í vegg)

Guðrún:(Bakvið hurð) Er hann farinn ?

Regína:

Er þetta Katrín ?

Guðrún:

Nei, ég heiti Guðrún

Regína:

Já, ég held hann sé farinn..oh....þessi líka smeðja

Guðrún:

Fyrirgefðu, en ertu nokkuð með dömubindi á þér ?

Skúli:

Nei, því miður, ég fer aldrei á túr

Regína: (Kemur snögglega fram af klóstinu, reið)
Viltu koma þér út á stundinni annars kalla ég á dyravörðinn !!!

Skúli:

(Það verður smáþögn á meðan hann horfir á Regínu og mælir hana út. Hún horfir líka á hann) Ég fann það á mér að þú værir rosalega mikil kona, svona major boddí, glæsikvendi, konan sem ég hef beðið eftir allt mitt líf.

Regína:

Æ, greyið kondu þér út

Skúli:

Rosalega geta konur verið lengi inni á einu klósti.

Regína:

Ætlarðu ekki út ?

Skúli:

Ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir eldri dömum. Ég er nýbúinn að lesa ævisögu Liz Taylor

Regína:

Ég les aldrei bækur, bara tímarit

Skúli:

Veistu hvað Liz Taylor eyddi mörgum tímum á dag í útlitið ?

Regína:

Ég veit það mætavel, því ég rek snyrtivöruverslunina Lissabon við Laugaveginn ( Réttir honum kort um búðina og Joop herrailm)

Skúli:

Er það já, takk. (Fer á dyrnar) Katrín, ég veit að þú ert þarna inni. Láttu ekki svona Katrín, komdu fram, opnaðu Katrín ! Ég er orðinn dauðhræddur um þig.

Regína:

Ætlarðu að hanga hérna inni í allt kvöld ?

Skúli:

Þú myndir nú alveg vilja hafa mig lengur hérna inni... eða jafnvel inní....

Regína: (Hlær og reynir að koma honum út) Heldurðu að þú sért skemmtilegur ?

Skúli:

Það er alltaf sama sagan þegar við förum saman út. Hún drekkur of mikið, stingur af og týnist og ég gref hana upp, eg er að verða brjálaður á þessu, þegar hún rankar úr rotinu, segðu henni þá að maðurinn hennar sé í drápsham...

Regína:

Ert þú maðurinn hennar

Skúli:

Nei, ekki beint. Við kannski sjáumst frammi á eftir súperskutla....(hann fer út).

( Dansmúsík inn, háværari en fyrr)

Regína:

Súperskutla. Er ég súperskutla ?

(Skúli kemur snögglega inn aftur og Regínu bregður)

Skúli:

Já, þú ert súperskulta

(2. STRAUMUR. Allt um dans. Dansgólfið og staðurinn. Skúli tekur nokkur spor með Regínu og hinar konurnar koma eins og dansandi fiskar út af klósettunum.Regína lafmóð við vaskinn. Skúli út.)

Maggý:(Bankar á klósetthurð)
Ætlarður að eiga afmæli þarna inni ? (Út)

Guðrún:(Bankar á klósetthurð) Halló...

Regína:

Halló...

Guðrún: (Opnar og kemur fram í gættina)
Áttu nokkuð dömubindi, ég var að byrja alveg svona upp úr þurru..

Regína:

Upp úr þurru..æ,æ, en leiðinlegt

Guðrún:

Ég átti eiginlega ekki að byrja fyrr en um mánaðarmótin ...

Regína:

Þetta hlýtur að eyðileggja kvöldið alveg fyrir þér

Guðrún:

Já, það er hætt við því

Regína:

Ég er því miður hætt að hafa á klæðum, svo ég geng ekki með neitt svona dót á mér

Guðrún:

Æ, æ

Regína:

Ekkert æ, æ, með það, ég er alveg rosalega fegin

Guðrún:

Nei, ég meina, æ, æ að þú eigir ekkert

Regína:

Já, soleiðis. Geturðu ekki bara keypt þér tappa úr handraðanum....

Guðrún:

Ég nota aldrei soleiðis..

Regína:

Nú...

Guðrún:

Mér finnst þeir svo óþægilegir... svona þegar maður er að byrja...

Regína:

Já, svona upp úr þurru ...

Guðrún:

Þeir eru kannski í lagi svona á öðrum og þriðja degi

Regína:

Já, eins og karlmennirnir

Guðrún:

Ha...

Regína:

...þá finnst mér nú oftast farið að slá í þá...

Guðrún:

Slá í þá ?

Regína: (Hlær).
Fyrirgefðu,þetta var ósmekklegt af mér, ég skal fara fram og athuga hvort ég finni ekki bindi handa þér

Guðrún:

Takk, en sætt af þér... það er ekki oft sem maður hittir á svona hjálpsamt fólk ...

Regína: (Skiptir snögglega um umræðuefni) Hvar fékkstu þessa skó sem þú ert í ?

Guðrún:

Skó, ég keypti þá í...guð ég man ekki hvar ég keypti þá en ég held þeir séu ítalskir...

Regína:

Nei, þeir eru portúgalskir, ég á svona skó sjálf. Hvernig bindi viltu ?

Guðrún:

Alveg sama..

Regína:

Stórt eða lítið...þykkt eða þunnt ?

Guðrún:

Þú ætlar þó ekki út í sjoppu eftir því ?

Regína:

Elskan mín, vinkona mín er með fulla tösku af þessu hérna frammi, hún er allaf að byrja og hætta...svona upp úr þurru

Guðrún:

Þarf hún ekki að láta athuga sig ? Hún gæti verið með frumubreytingar, óreglulegar blæðingar stafa oft af frumubreytingum í leghálsi og þá þarf að taka vefjarsýni og .....

Regína:

Þú ert þó ekki ein af þessum kvenkyns kvensjúkdómalæknum sem þykjast skilja konur svo vel ?

Guðrún:

Nei, ég fylgist bara vel með því sem er skrifað um líkama og heilsufar kvenna, ég vinn á bókasafni og ...

Regína:

Ég sagði þessari vinkonu minni að hún væri komin á breytingaskeiðið, en hún vill ekki viðurkenna það, hún vill ekki verða gömul, en hún breytir því ekki, hún verður gömul eins og ég og þú. Ætlarðu að hanga þarna í gættinni í allt kvöld....settu bara klósettpappír á meðan...

Guðrún:

Ég er búin að því

Regína:

Kondu þá fram manneskja, ég bít ekki. (Guðrún kemur fram) Vonandi verður skemmtilegt hérna í kvöld. Ertu ein ?

Guðrún: (Kemur alveg fram)
Já, eins og er, en ég ætlaði að hitta vinkonu mína, ég skil ekki af hverju hún er ekki komin.

Regína og Guðrún nær samtímis:

Kannski hefur hún ekki fengið barnapíu

(Maggý kemur inn í þessu og lítur í spegilinn við vaskinn)

Regína:

Ég get ekki gert að því ... en mér finnst eitthvað gelt við útlitið á konum sem eiga ekki börn...jafnvel líkamsburðurinn er öðruvísi, það er eins og þær hrörni fyrr og öðruvísi en við hinar. (Horfir rannsakandi á Guðrúnu. Áttar sig allt í einu) Þú ert nú samt undantekning. Húðin á þér virðist vera svo ung...og saklaus

Guðrún:

Þú átt börn geri ég ráð fyrir ?

Regína:

Þú hlýtur að sjá það, ég á fjögur

Maggý:

Og ég á tvö

Regína:

Öll uppkomin og farin að heiman

Guðrún:

Þú ert þá kannski orðin amma ?

Maggý:

Ég ?

Guðrún:

Nei, hún

Maggý:

Já, Regína, hún er löngu orðin amma

Guðrún:

Það hlýtur að vera enn skemmtilegra að vera amma en að vera mamma, meira jafnvægi svona og þroski...

Regína: (Skiptir um umræðuefni snögglega) Hvers vegna komstu hingað í kvöld ?

Guðrún:

Ha ?

Regína:

Á þennan stað ?

Guðrún:

Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem hingað

Regína:

Fyrsta skipti ?

Maggý:

Ertu utan af landi ?

Regína:

Þú lýgur því

Maggý:

Þetta er aðalstaðurinn í bænum...

Guðrún:

Ég fer voða sjaldan út á svona skemmtistaði....

Regína:

Þetta segiði allar. Ekki hangirðu ein heima allar helgar ?

Maggý:

Ji, maður pissar svo af þessum bjór (Inn á klósett)

Regína:

Ertu ekki ógift og barnlaus ?

Guðrún:

Jú.

Regína:

Mér datt það í hug

Guðrún:

En þetta er alltaf það sama.
hittir samt engan, það gerist aldrei neitt og þér að segja þá finnst mér þessi síðustu ár manns þegar maður stendur andspænis...

Regína: (Grípur framí) Guð, fyrirgefðu, ....

Guðrún:

Hvað ?

Regína:

Ertu með.......ég þori ekki að segja það...

Guðrún:

Jú,segðu það

Regína:

Ertu með krabbamein ?
(Þegar Maggý heyrir orðið krabbamein gægist hún út af klósettinu)

Maður fer á ball, labbar í hringi, hring eftir hring, en

Guðrún:

...krabbamein ?

Regína:

Já, krabbamein. Þú talaðir þannig, þessi síðustu ár manns..

Guðrún:

Nei, mér finnst þessi síðustu ár manns hafa verið svo mikil endurtekning....allt svo innantómt eitthvað, endalaust ráp...sem skilar engu...

Maggý:

Ég ætlaði að fara að segja það hvort þú værir með krabbamein ..

Guðrún:

Það gerist aldrei neitt í alvöru alvöru á svona stöðum

Maggý: (hlær)
Það gerist ekkert í alvöru alvöru ef maður hangir eins og pissudúkka inni á klói allt kvöldið...(Fer út )

Guðrún:

....ji, ég held ég sé komin í gegnum klósettpappírinn. (Fer inn á klósett)

Regína:

Þú varst aldrei búin að segja mér, hversvegna þú komst hingað í kvöld

Guðrún:

Vinkona mín á barn með Portúgala og hún elskar þessa músík.

Regína: (Með áhuga)
Á hún barn með Portúgala ?

Guðrún:

Já, hún var í sumarfríi í Portúgal og kynntist honum þar

Regína:

Jæja, hvað gerir hann ?

Guðrún:

Hann er hljóðfæraleikari svo kom hann hingað og hún fór til Portúgal, en það entist ekki, hann var giftur..

Regína:

Giftur. Æ, æ, en klaufalegt, var hann yngri eða eldri en hún ?

Guðrún:

Aðeins eldri held ég

Regína:

Tók hún það ekki nærri sér...?

Guðrún:

Nei, ekki svo, hana langaði í barn. Hún er svo sérstök og lífsglöð og það er ægilega gaman að fara út með henni, hún þekkir marga og getur talað við alla, en ég aftur á móti, ég hlusta oftast og hugsa ...

Regína:

Þú hlustar og hugsar...

Guðrún:

... stundum finnst mér allir horfa á mig, eins og þeir ætlist til einhvers af mér, en oftast sér mig enginn eins og ég er

Regína: (Byrjar að laga Guðrúnu til)
Það sér mann enginn ef maður gerir ekkert fyrir sig .(Tekur af henni gleraugun) Þú ættir að byrja á því að hætta nota gleraugu og fá þér linsur, þú ert með svo stór og falleg augu. Og kannski permanent. Ég veit ekkert skemmtilegra en að dressa mig upp og finna að ég hef ennþá séns.... ég hef aldrei haft frið fyrir karlmönnum, það má ekki skrjáfa í mér þá koma þeir skríðandi eins og krókódílar og ætla að éta mig upp til agna...þú heyrðir hvernig hann lét, þessi sem var hérna áðan, hann kallaði mig kveneðlu...kveneðla ! Hefurðu heyrt annað eins, en ég tek ekki hvern sem er, ég er vandlát þegar kemur að karlmönnum

(Guðrún brosir vandræðalega og Regína horfir einkennilega á hana)

Þú ættir ekki að nota þennan varalit

Guðrún:

Ha ?

Regína:

Þessi litur klæðir þig ekki, þú ert svo svipsterk kona, þú ættir frekar að nota eitthvað mildandi, það myndi gera meira fyrir þig

Guðrún:

Eins og hvað ?

Regína:

Eitthvað út í bleikt, já fölbleikt, ( Leitar að einhverju í bjútíboxinu og horfir á föt Guðrúnar - tekur upp bleika slæðu og bindur á hana ) bleikt og brúnt fer svo vel saman....

Guðrún:

En, ég fer aldrei í bleikt

Regína: (Með umhyggju)
Kona má ekki segja svona - ég fer aldrei í hitt eða þetta, kona veit aldrei hvað klæðir hana fyrr en hún hefur prófað.

Guðrún:

Ég þarf ekki að prófa, ég veit það, bleikt klæðir mig alls ekki

Regína:

Veistu, matvöndu börnin hafa sjaldnast smakkað matinn sem þau fúlsa við.

Guðrún:

Bleikt hefur aldrei farið mér.

Regína: (Hermir eftir henni)
"Bleikt hefur aldrei farið mér". Ekki mér heldur, en ég geng samt í bleiku ef ég þarf að ganga í bleiku. Það er skylda hverrar konu að vera fallegri en hún er

Guðrún:

"Það er skylda hverrar konu að vera fallegri en hún er"...hvar hef ég lesið þetta ?

Regína:

Hérna, prófaðu þennan. ( Réttir henni flottan varalit í gullhylki. ) Ég veit ekki hvort ég get selt þetta, þetta er svo dýrt ( Ætlar út en hættir snögglega við og horfir á skóna hennar) Má ég segja soldið við þig ?

Guðrún:

Hvað ?

Regína:

Þú ert allt of.... klossuð kona fyrir svona fínlega skó. Ég kem með bindið eftir augnablik. Bíddu hérna á meðan. (Regína fer út með bjútíboxið með sér)

(3. STRAUMUR. Skór og allt um skó og fætur. Guðrún stendur agndofa fyrir framan spegilinn, heldur á varalitnum frá Regínu og er búin að fara úr skónum og heldur á þeim)

Guðrún:

Er ég of klossuð fyrir þessa skó... þar hef ég það, skipta um varalit, skipta um skó, skipta um mig, alla mig eins og ég legg mig....breyta mér, laga mig, þá kannski, hver veit, þá kannski....hvað er ég að gera hérna, ég hef ekkert að gera hérna, það gerist aldrei neitt...(hún hendir skónum frá sér)

Skúli: ( fær annan skóinn næstum því í sig um leið og hann kemur inn) Hefurðu nokkuð séð stelpu hérna sem heitir Katrín ?

Guðrún: (Lítur undan) Það er engin Katrín hérna

Skúli:

Það er engin Katrín hérna ?

Guðrún:

Nei, ekki svo ég viti

Skúli:

Ertu búin að vera hérna lengi ?

Guðrún:

Já, ég er að bíða eftir vinkonu minni

Skúli:

Varst þú hérna áðan ?

Guðrún:

Áðan ?

Skúli:

Þegar ég kom

Guðrún:

Þegar þú komst, komstu hingað ? Varst þú...(Skúli kíkir undir lokað klósett) (Sólveig kemur inn og grípur orðið af Guðrúnu)

Sólveig: (Við Skúla)
Þú hér aftur. Út með þig, þetta er kvennaklósett

Skúli:

Ég er að leita að vinkonu minni. (Kallar) Katrín.

Sólveig:

Hún er ekki þarna inni, þetta er ræstiklefi. Má ég bjóða þér upp í dans hellisbúi ?

Skúli:

Hellisbúi ? Ég skil þig ekki.

Sólveig:

Vill Marsverjinn ekki dansa við Venusardísina ?

Skúli: (Hvumsa) Ha...

Guðrún:

Bókin þú veist, Karlmenn eru frá Mars, konur eru frá Venus, sem kom út fyrir tveimur árum

Skúli:

Já

Sólveig:

Ertu soldið hræddur við konur ? Viltu dansa eða viltu ekki dansa ?

Skúli:

Nei, nei... (Horfir á Guðrúnu um leið og Sólveig togar í hann) Ef þú sérð Katrínu, viltu þá segja henni að ég bíði eftir henni frammi

(Guðrún heldur á gullvaralitnum og skrúfar hann upp og horfir á hann. Í því opnast hurðin á einu klósettinu og út kemur afskaplega mjó og rengluleg stúlka í stuttum, þröngum kjól, dálítið tætt. Það er Katrín)

Katrín: (Kemur að Guðrúnu og rífur af henni varalitinn)
Oj, mér býður við þessum bleika kóngi. Allt sem er bleikt er feigt og ljótt og bilað, bilað (Skrifar með varalitnum á klósetthurð, spegil, eða vegg orðið BILAÐ)

Guðrún:

Ekki, ekki gera þetta, þú eyðileggur varalitinn...

Katrín:

Bilað klósett, biluð kona, bilaður heimur, væminn glassúr á snúði, sykurleðja, snuð, bleikt snuuuuð....

(Hún lætur sig falla fram á einn vaskinn og gerir tilraun til að æla. varalitinn og setur hann ofan í tösku)

Guðrún:

Líður þér eitthvað illa ?

Katrín:

Guðrún tekur

Nei, nei, þetta er allt í lagi, ég var úti að borða með manninum mínum og útlenskum vinum hans uh, ég er með svo mikið gallbragð í munninum...kom Skúli hingað ?

Guðrún:

Það kom einhver karlmaður hérna áðan já og var að leita að Katrínu..(Ætlar út)

Katrín:

Já, það er ég, ég er Katrín, sæl.

Guðrún:

Sæl.

Katrín:

Geturðu nokkuð lánað mér smámeik, ég er eitthvað svo tussuleg í framan..

Guðrún:

Því miður, ég er bara með púður

(Guðrún réttir henni með semingi púðurdós)

Katrín:

Jæja, þá nota ég bara púður og púðra á mér tussuna.... (Hlær) .... heldurðu að honum sé ekki sama hvernig ég lít út núna...hann er bara fullur með vinum sínum...og þeir eru alltaf að tala um flugur og ég veit ekki neitt...

Guðrún:

Hvernig flugur ?

Katrín:

Æ, svona fiskiflugur...ert þú inni í flugum ?

Guðrún:

Ég hef lesið soldið um flugur og skordýr...síðast í gær var ég einmitt að lesa athyglisverða grein um geitunga....

Katrín:

Ég er ekki að tala um venjulegar flugur, ég er að tala um gerviflugur, maðurinn minn er sérfræðingur í þeim og leirtaui

Guðrún:

Leirtaui ?

Katrín:

Já, hann flytur inn leirtau, við kynntumst í gegnum leirtau , ég var að vinna á veitingahúsi og hann var að selja leirtau, hann var svooo sæææætur!!!!

Guðrún:

En Skúli ?

Katrín:

Skúli hann er vinur minn...besti vinur minn...við erum búin að þekkjast síðan við vorum krakkar...hann var sæti, stóri frændi minn, en samt erum við ekkert skyld sko. Skúli veit allt um mig, ....en maðurinn minn veit ekkert....

Guðrún:

Já, já...

Katrín:

Við giftum okkur í fyrra....rosaleg veisla í félagsheimili Stangveiðifélagsins...allir með flugu í barminum...ég borðaði ekki neitt... eða samasem ekki neitt ....eina flugu held ég...

Guðrún:

Flugu ?

Katrín:

Nei, rækju, dáldið stóra samt og miiikið kampavín...hann skildi ekki neitt...hélt ég væri svona spennt...fyrir nóttina sko...hann. leigði svítu á Sögu...svo urðum við viðskila...ég fór í partí með einum vini hans...æ, ég man það ekki, drapst inni á einhverju klósti...ég er alltaf að drepast inni á klósti....Skúli bjargaði mér og sagði...sko Kata mín, ef þetta heldur svona áfram... nei, ég er ekkert að segja þér hvað Skúli sagði...Skúli segir nú svo margt eins og þegar við fluttum í Gullsmárann...og ég át ekkert í þrjá daga... þá sagði hann...sko, Kata mín....nú gengur þetta ekki lengur...

(Maggý kemur inn og sprayar djammsprayi Jean Paul Gaultier úr niðursuðudós undir hendur og í klof sér og býður hinum)

Maggý:

Stelpur er ykkur ekki sama þótt ég sprayi aðeins, þetta er alveg æðislegt djammspray

Guðrún:

Í niðursuðudós? (Maggý út)

Katrín:(Fyrir framan spegil)
Manninum mínum finnst ég allt of feit sko...

Guðrún:

Þú feit ?

Katrín:

Já, honum finnst það, hann þolir ekki feitar konur, hann er með þær á heilanum og þegar við kynntumst var ég 800 grömmum þyngri en ég er núna og hann þoldi það ekki, hann þooooldi það ekki. (Þögn)

Guðrún: (Reynir að skipta um umræðuefni)
Fyrirgefðu, en ekki býrðu svo vel að eiga dömubindi að lána mér...

Katrín:

Nei...

Guðrún:

Æ, æ

Katrín: (Kafar oní töskuna sína og tekur ýmisleg upp úr henni m.a. vasahníf, pilluglas, sígarrettur, kveikjara, og veiðiflugu sem er orðin að eyrnalokki. Hún reynir að festa hana í eyra sér.) Æ, ég stakk mig á eyrnalokknum...

Guðrún:

Ég hélt þetta væri fluga.

Katrín:

Þetta eru flugur....maðurinn minn lét útbúa þetta handa mér á eins árs brúðkaupsafmælinu, heyrðu hérna á ég eitt ólveis síðan í fyrra eða hitteðfyrra, ég vona að það sé ekki útrunnið....ég hef ekki farið á túr í meira en ár..

Guðrún:

Meira en ár, þarftu ekki að láta athuga þig ? Ef blæðingar falla niður um svona langt skeið, þá er hætta á því að.....

Katrín:

Ég nenni ekki að standa í því, það er svo mikið vesen í kringum það

Guðrún:

Það getur verið eitthvað að hjá þér ?

Katrín:

Hvað ert þú læknir ?

Guðrún:

Nei, nei...ég hef bara áhuga á.....

Katrín:

Gott, ég þoooli ekki lækna, þeir eru allta að skipta sér af manni

Guðrún:

Má ég eiga það ?

Katrín:

Heldurðu að ég ætli að leigja þér það ? (Hlær)

Guðrún:

Afsakaðu aðeins. (Fer inn á eitt klósettið)

Katrín: (Kveikir sér í sígarrettu)
Hvað gerirðu... þú þarna, hvað heitirðu....?

Guðrún:

Guðrún. Ég er bókasafnsfræðingur

Katrín:(Kveikir sér í sígarrettu upp við klósetthurð Guðrúnar)
Bókasafnsfræðingur. "Gæti ég fengið að tala við Guðrúnu bóksafnsfræðing" (Hlær) Nei, ég segi svona ef ég skyldi hringja í þig í vinnuna

Guðrún:

En þú ? Hvað gerir þú ?

Katrín:

Ég, ég er sálfræðingur

Guðrún: (Mjög hissa) Sálfræðingur ?

Katrín:

Nei, ég þoooli ekki sálfræðinga, það er önnur hver kona hjá sálfræðingi, ert þú kannski hin sem er ekki hjá sálfræðingi ?

Guðrún: (Hikandi)
Nei, ég er reyndar hjá sálfræðingi.

Katrín:

Lýgurðu ekki bara að honum ?

Guðrún:

Nei, ég held að sálfræðin eigi eftir að breyta mannkyninu á næstu öld...

Katrín:

Hvernig breyta mannkyninu, er ekki allt í lagi með þig ? Það er ekki hægt að breyta mannkyninu

Guðrún:

Jú, ég held það

Katrín:

Er allt í kássu inní þér ?

Guðrún:

Hvernig kássu ?

Katrín:

Svona brotið, brak út um allt ?

Guðrún: (Kemur út af klóstinu) Nei, en er allt brotið inni í þér ?

Katrín:

Þetta er allt saman gabb, við erum ekki einu sinni til, mér finnst ég ekki vera til, ég hef aldrei fengið að vera til

Guðrún:

Mér finnst ég einmitt vera svo mikið til. (Réttir henni höndina og ætlar að fara út)

Katrín:

Ég reyni að finna sem minnst fyrir sjálfri mér....þá líður mér best. Mamma bannaði mér að hugsa, hún sagði að ég gæti orðið brjáluð, ef ég hugsaði of mikið...einu sinni sat ég á klóstinu heima, innilokuð...ég var nýbúin að fatta að alheimurinn væri til og ég fór að hugsa hver skapaði heiminn? "Guð" sagði einhver rödd langt í burtu og þá spurði ég: ..." en hver skapaði guð ? "Guð", sagði röddin. En hver skapaði þann sem skapaði Guð, skapaði hann sjálfan sig", "Já", sagði röddin. "Hver er hann sjálfur þá ?" "Þú sjálf" og þá varð ég svo hrædd, að ég þaut ég eins og píla inn í eldhús til mömmu og hún gaf mér eina róandi og bannaði mér að hugsa um þetta....(Grætur)

Guðrún: (Huggar Katrínu)
Þegar ég var 10 ára...nei, ég var 11 ára, nei hvernig læt ég ég var orðin 12 ....þá var ég að koma heim úr dansskólanum, við vorum að læra vals og ég var svo ánægð og glöð, af því ég hafði fengið að dansa við uppáhaldsdansherrann minn...

Katrín:

Já ...

Guðrún:

Mamma sat grátandi inni í stofu...

Katrín:

Já, hvað svo ?

Guðrún:

Hún sagði að pabbi væri týndur...

Katrín:

Týndur ? Hvernig þá týndur ?

Guðrún:

...hann kom aldrei aftur...ég varð ekkert sorgmædd, ekki þá.... en ég var alltaf með sektarkennd yfir því að mömmu leið alltaf svo illa, en enginn vissi að mér leið kannski líka illa og síðan þá hef ég alltaf verið að reyna að finna einhverja leið út úr þessu öllu t.d. með því að lesa.. og ég lagðist í bækur og las og las

Katrín:

Mamma sagði alltaf að Guð einn vissi allt og við værum hluti af hans áætlun og þá varð ég enn hræddari og síðan hef ég forðast að pæla í mér og guði, ég át bara í staðinn, ég át og át, ég var með mat á heilanum og blés út og mamma gaf mér alltaf meira og meira að borða..svo þegar ég var 14 ára og fór á túr í fyrsta skipti þá gerðist eitthvað, ég þoldi það ekki, ég var að breytast í skrímsli, það var eitthvað inni í mér...líkaminn á mér var svo frekur....(Brennir sig á sígarettu)

(4. STRAUMUR.Líkamspyntingar í fötunum. Að reyra sig og troða líkamshlutum í föt. Allar konur inni nema Regína)

Regína:(Kemur allt í einu. Hinar konurnar troðast við vask og sepgil) Hún var því miður ekki með neitt á sér

Guðrún:

Það er allt í lagi, ég er búin að redda mér

Regína:

Það er brjálað stuð þarna frammi, þið megið ekki missa af Portúgölunum ?

Katrín:

Er þetta yfirbókavörðurinn ?

Guðrún:

Nei, við þekkjumst ekkert, við hittumst bara hérna á klóstinu

Katrín:

Ég hélt þetta væri vinkona þín.

Maggý:

Regína, finnst þér ekki sérkennileg blanda af fólki hérna í kvöld, það er eins og maður sé í útlöndum, listamenn og allskonar fjölmiðlafólk og fullt af sætum mönnum og ónotaðir...(Fer inn á eitt klósettið)

Regína:

Það eru Portúgalarnir

Katrín:

Hvaða Portúgalar - ég er búin að fá nóg af útlendingum í kvöld

Maggý:

Ég hitti einn alveg rosalega myndarlegan áðan..

Katrín:

Útlending

Maggý:

Nei, heldurðu að ég sé útlendingamella, Íslending auðvitað, hreinræktaðan. út af klóstinu með pilsið í kássu)

Regína:

(Kemur

Passaðu að missa ekki af honum, það eru minnst 5 konur um hvern karlmann sem gengur laus í bænum (Regína ætlar inn á eitt klósettið)

Maggý: (Við Regínu)
Er blaðran farin að síga soldið ?

Regína:

Ha ?

Maggý:

Nei, ég meina maður pissar svo af þessum bjór, ég held stundum að blaðran sé farin að gefa sig

Guðrún:

Ertu ekki bara með blöðrubólgu ?

Maggý:

Ég ?

Sólveig:

Er þetta ekki bara bjórinn ? Maður pissar svo af bjór.

Guðrún:

Hefurðu prófað að gera grindarbotnsæfingar, maður getur gert þær hvenær dagsins sem er, þegar maður er að vaska upp eða lesa eða horfa á sjónvarp

(Maggý ætlar út með pilsið oní sokkabuxunum)

Maggý:

Hefur þú ekkert betra við tímann að gera (Fer hlæjandi ásamt Sólveigu) (Regína kemur fram af klósettinu)

Katrín: (Við Regínu) Hvað gerir þú ?

Regína:

Af hverju spyrðu ?

Katrín:

Þú ert svo fín, þú ert yfir einhverju, deildar eitthvað?

Regína: (Réttir henni svart kort með gylltum stöfum) Ég rek snyrtivöruverslunina Lissabon við Laugaveginn.

Katrín:

Þá hlýturðu að geta gefið mér eina prufutúbbu af meiki

Regína:

Nei, ég geng ekki með prufutúbbur á mér

Katrín:

Geturðu þá lánað mér smámeik, ég er eitthvað svo bleik í framan og bleikt minnir mig á eitthvað ljótt, væmið og sætt, ælu...(Drekkur af glasi Regínu)

Regína:

Nei, þú verður bara að kaupa þér þitt meik sjálf. Svo áttu bara mála þig þegar þú ert edrú (Ætlar að fara út)

Katrín: (Snögglega)
Þú mættir alveg missa nokkur kíló (Þögn)

Guðrún:

Ertu að tala við mig ?

Katrín:

Nei, ég var að tala við snyrtistofuna

Guðrún:

Finnst þér hún feit ? Hún er ekkert feit. Hún er bara konuleg. Mér finnst konur sem eru komnar yfir fertugt, fimmtugt, alveg mega vera svona konur

Regína: (kemur að þeim)
Það ert bara þú sem ert mjó væna mín, allt of mjó fyrir minn smekk.

Katrín:

Fyrir þinn smekk, varstu að hugsa um að krækja í mig ? Ég er þvi miður gift.

Regína:

Aumingja maðurinn þinn. Sá hefur ekki mikið að taka í.

Katrín:

Nei, enda tekur hann sjaldnast í mig, hann fleygir mér oftast, þeytir mér eins og frisbee disk yfir stofugólfið ef ég held ekki kjafti á réttum stöðum

Regína:

Ég skil það, ef þú ert með svona kjaft við hann

Katrín:

Ég er aldrei með kjaft við hann, það er hann sem er með kjaft við mig

Guðrún: (Langar til að komast út úr þessu)
Fyrirgefðu Katrín.....(með semingi) gæti ég fengið púðrið mitt aftur....

Regína:

Nú, er þetta Katrín, maðurinn þinn var einmitt að leita að þér hérna áðan...flýttu þér fram áður en hann krækir sér í feitari bita

Katrín:

Þetta var ekki maðurinn minn, þetta var Skúli, besta vinkona mín

Regína:

Nú er hann soleiðis, það hlaut að vera, ég skildi ekki hvað "hún" var að gera hérna inni á kvennaklósetti

Katrín:

Hann er ekki hommi ef þú heldur það, hann elskar konur

Guðrún: (Reynir að fara)
Ég er að hugsa um að athuga hvort vinkona mín sé komin

Regína:

Hún er ekki komin...

Guðrún:

Hvernig veistu það ?

Regína:

Heyrðu vinan, hvað er það fyrsta sem kona gerir þegar hún kemur inn á skemmtistað ?

Katrín:

Er þetta spurningakeppni ?

Guðrún:

Hún fer í fatahengið býst ég við

Regína:

Allar konur fara fyrst inn á klósett og líta í spegil...

Katrín:

Það fyrsta sem ég geri er að fara inn á klósett og æla. Þegar ég er búin að æla, lít ég í spegilinn og þá fyrst kannast ég við mig.

Guðrún: (Reynir að bjarga sér) Merkilegt....

Regína og Katrín:

Hvað ?

Guðrún: (Tekur bók upp úr töskunni sinni)
Ég er einmitt að lesa bókina Women and mirrors eftir einn frægasta sálfræðing Bandaríkjanna og hann segir....(Nær í bókina oní töskuna sína)

Regína:

Ekki minnast á bækur við mig.

Guðrún:

Er þér eitthvað illa við bækur ?

Regína:

Ég reyni að komast hjá því að lesa bækur ef ég mögulega get..karlmenn að missa getuna nálægt sílesandi konum, það stóð í Cosmopolitan

Guðrún:

eiga á hættu

...en þessi bók fjallar einmitt um samskipti kvenna inni á kvennaklósettum, það myndast alltaf svona systrasambönd inn á kvennaklósettum...

Katrín:

Ása, Signý og Helga ?

Guðrún:

Já, einmitt, það er eins og konurnar hafi þekkst alla tíð, þær eru eins og systur á heimavist, eða jafnvel eins og systur í klaustri...

Katrín:

Ekki, ég þooli ekki biblíuna og guuuð

Regína: (með umhyggju, tekur bókina af Guðrúnu)
...stelpur mínar, konur sem lesa mikið, sérstaklega svona fræðibækur eins og þú ert að lýsa, þær verða miklu fyrr hrukkóttar, svo ég tali nú ekki um biblíuna með sínu smáa letri, þá fyrst þarf maður að píra augun...

Katrín:

... enda vildi mamma aldrei neitt annað en hrukkukrem í afmælisgjöf eftir að hún komst á þinn aldur, hún makaði þessu ógeðslega hrukkukremi á sig á milli þess sem hún prédikaði upp úr biblíunni

Regína:

Það er nú ekki langt þangað til þú verður eins og harmonikka í framan horgrindin þín og hvað ætlarðu að gera þá ? Ha ?

Katrín:

Þá læt ég bara strekkja mig eins og þig (Regína horfir hatursfullu augnaráði á Katrínu)

Guðrún: (Ætlar að fara)
Jæja, ég ætla aðeins fram og athuga...

Regína:

Ég var að segja, hún er ekki komin..

Katrín:

Ekki fara alveg strax Guðrún...ég er að tala við þig

Guðrún:

Ég ætla bara á barinn ...

Katrín:

Kauptu einn þrefaldan væt rössina handa mér. Ég borga þér hann á eftir

Regína:

Þú ert ekkert að flýja mig er það ? Erum við ekki vinkonur ?

Guðrún:

Vinkona mín er kannski að leita að mér frammi og ef hún finnur mig ekki fer hún heim

Regína:

Ekki ef hún elskar portúgalska músík ? Hefur hún ekki verið með Portúgala ?

Katrín:

Er hún útlendingamella ?

Guðrún:

Er hún hvað ? Hvað hef ég gert ykkur ?

Katrín:

Ekki ráðast á mig, ég lánaði þér dömubindi..og langar til að kynnast þér, mig hefur alltaf langað til að kynnast bókaverði

Regína:

Hvar er varaliturinn sem ég lánaði þér ?

Guðrún:

Hann á að vera hérna einhvers staðar (Gramsar í veskinu sínu)

Regína:

Þú ætlaðir bara að stela honum sísona

Guðrún: (Réttir Regínu varalitinn) Nei, alls ekki

Regína:

Þetta er rándýrt merki, skilurðu það ? Rándýrt. fram...

Guðrún:

Ég er með varalit

Regína:

Ekki réttan

Guðrún:

Settu hann á þig áður en þú ferð

Ekki réttan ? Sko, nú fer ég fram og klaga ykkur, það er eitthvað mikið að heima hjá ykkur

Regína:

Ertu eitthvað rugluð vinan ? Við erum bara þrjár ókunnugar konur á kvennaklósetti, sem erum að gera hver annarri greiða

Guðrún:

Sér er nú hver greiðinn

Regína:

Þú baðst mig um að lána þér dömubindi og ég átti það ekki, þá fór ég fram til að útvega þér það, kom aftur, þá varstu búin að redda þér eins og þú sagðir og svo sagði ég þér að þessi varalitur klæddi þig ekki...

Guðrún:

Þú sagðir líka soldið um skóna mína

Regína:

Ég sagði að þú værir of...

Guðrún:

Ekki aftur, annars klaga ég þig...

(Dyrnar inn á kvennaklósettið opna skyndilega og inn koma Maggý og Skúli. Guðrún gengur í fangið á Skúla og fer út. Katrín dettur í gólfið, Skúli hjálpar henni á fætur.)

Katrín:

Er hann farinn ?

Skúli:

Hann þoldi ekki þetta portúgalska pakk og skrapp á annan bar

Maggý:

Eins og þessir Portúgalar eru æðislegir.

Katrín:

Skúli viltu lána mér fyrir einum væt rössian, hann lét mig ekki hafa neina peninga (Skúli leitar í vösunum hjá sér að peningum og Katrín gerir það líka)

Maggý:

Regína, ætlarðu ekki að hitta rass í bala krúttið þitt í hljómsveitinni Ég veit núna hver hann er, rosalega er hann dökkur.

Katrín:

Skrifaðu ávísun handa mér Skúli

Maggý:

Ég fór upp á svið og sagði svona "Excuse me, do you know Regína in Lissabon" og trommuleikarinn nikkaði, ég hef heyrt að trommuleikarar séu frábærir í rúminu....

Katrín:

Skrifaðu fimmþúsund, ég borga þér á morgun

Maggý:

Þeir hafa svo mikinn ryðma. (Verður mál. Inn á klósett) Ji, hvað maður getur pissað af þessum bjór

Regína:

Já, er blöðruopið soldið slappt núna

Maggý:

Uss, ekki tala um það núna

Katrín: (Við Skúla)
Ætlarðu að lána mér eða ætlarðu ekki að lána mér ? (Skúli byrjar að skrifa ávísun)

Skúli:

Ókey

Regína:

Ég gleymdi að segja þér áðan, en þú skuldar mér alltaf 27.500 krónur fyrir snyrtivöruúttekt

Maggý:

Síðan hvenær ?

Regína:

Síðan hvenær ?

Maggý:

En þú ætlaðir að taka út föt hjá mér í staðinn ?

Regína:

Það var aldrei umsamið

Maggý:

Ég er bara svo blönk núna, elsku Regína mín, ég rek búðina á yfirdráttarheimildinni

Skúli:

Blessaðar, hættiði að rukka hvor aðra (Réttir Katrínu 1000 króna ávísun)

Katrín: (Þegar hún sér upphæðina á ávísuninni) Skúli, þúsund krónur er ekki nóg

Skúli:

Þetta er alveg nóg fyrir einum væt rössian Kata mín og rúmlega það

Katrín:

Djöfull ertu nískur. Á hvaða bar fór hann ?

Skúli:

Ég veit það ekki Kata mín....

Katrín:

Djöfull ertu leiðinlegur Skúli, það verður sko bið á að ég biðji þig að lána mér pening aftur

(Katrín rýkur út)

Skúli:

Jæja, mér tókst þó að koma henni á hreyfingu. Jæja stelpur, ætlið þið að hanga hérna eins og nunnur í klaustri.

Regína:

Við erum að bíða eftir vinkonu okkar

Skúli: (Við Regínu)
Og þarf abbadísin að vakta hana ? Komdu heldur fram og dansaðu við ábótann í næsta klaustri, hann hefur ekki fengið það óralengi...

Maggý:

Oh, Skúli, þú ert svo fyndinn.

Regína:

Ég hef ekki svona hallærislegan nunnuhúmor, fyrirgefiði. (Fer)

Maggý:

Hvað, er hún móðguð ? Regína, láttu ekki svona Regína, Regína, bíddu (Fer á eftir henni. Skúli einn eftir, ætlar út en mætir Guðrúnu sem er á leiðinni inn á eitt klósettið. Hún hellir óvart úr vatnsglasi yfir hann á fötin hans. Henni fallast hendur og brestur

í grát)

Skúli:

Hvað voðalega ert þú eitthvað domm og sorrý, kom eitthvað fyrir ?

Guðrún:

Viltu láta mig í friði.(Inn á klósett)

Skúli:

Vinnur þú ekki á bókasafninu í Þingholtunum ? (Þögn)

Guðrún:

Jú

Skúli:(Eins og hann sé að flytja ljóð á leiklistarnámskeiði)
"Stattu upp vina mín, fríða mín, æ kom þú, dúfan mín í klettaskorunum, í fylgsni

fjallhnúksins, lát mig sjá auglit þitt, lát mig heyra rödd þína! Því rödd þín er sæt og auglit þitt yndislegt"

(Þegar hann fær engin viðbrögð á þetta, ætlar hann út)

Guðrún:

Voru þetta ekki Ljóðaljóðin?

Skúli:

Jú. Veistu, ég hef lesið töluvert af ljóðum og mér finnst þau góð. Ljóð eru til alls vís. (Þögn) Af hverju segirðu ekki neitt ? Ha ?

Guðrún:

Mér finnst gott að fara ein, gráta ein og finna ein

Skúli:

Mér finnst líka gott að fara einn, gráta einn og finna einn. Viltu gera eitt fyrir mig ? Ha ?

Guðrún:

Hvað ?

Skúli:

Ekki fara ein heim í fýlu, það er svo óhollt að sofna í fýlu og enn verra að vakna í fýlu, einn sko ( Sólveig kemur inn án þess að Skúli verði hennar var).....á sunnudagsmorgna er best að vakna, drekka nokkur glös af vatni og fara síðan í göngutúr upp í Öskjuhlíð, eða upp á Esju, áttu nokkuð góða gönguskó ? (Skúli finnurekki fyrir Sólveigu, sem hefur læðst aftan að honum)

Sólveig:

Doctor Livingstone I presume

Skúli: (Bregður)
Æ, reyndu að hugga hana

Sólveig: (Með uppgerðar umhyggju) Er eitthvað að ?

Skúli:

Er ekki alltaf eitthvað að hjá konum, konur gráta og gráta út um alla heimsbyggðina...það eru allir svo vondir við konur.

Sólveig:

Kom eitthvað fyrir ? (Þögn) Get ég hjálpað þér ? (Þögn) Var einhver maður að fara illa með þig ? (Skúli fer út)

Guðrún:

Nei, þetta er allt í lagi

Sólveig:

Konur eru alltaf að þjást út af karlmönnum. Ef ekki í einkalífinu, þá í stjórnmálunum. Þær elska of mikið. Þær elska mennina burtu frá sér, langt burt frá sér...

Guðrún:

Það er ekki út af því...

Sólveig:

... karlmönnum finnst þeir verða að engu þegar konur elska svona mikið, þeir verða hræddir um að konurnar ætli að gleypa þá í einum munnbita...þeir leysast upp í frumeindir sínar og verða að dufti nálægt alltumvefjandi, elskandi konum sem tala mikið...

Guðrún:

Ég tala ekki mikið

Sólveig:

....sumir komast þó undan og flýja inn í hellinn sinn og týnast þar í völundarhúsi hans, konurnar fara á eftir mönnunum inn í hellinn til að bjarga þeim, en við það minnka líkurnar á að þeir komi nokkurn tíma tilbaka....en konurnar láta sér ekki segjast, þær eyða stundum allri ævinni í að eigra um rangala og krákustíga í þeirri einu von að finna þá. En svo finna þær ekki leiðina tilbaka og daga uppi eins og nátttröll í helli þeirra, búnar að týna öllum áttum, sjálfum sér og lífshamingjunni, lífið er liðið hjá og þeim finnst ekkert hafa gerst. Af hverju stend ég hérna fyrir framan spegilinn, nema af því að ég vil dragast að karlmanni sem dregst að mér og ég byrja að sofa hjá honum og allt í einu er ég farin að elska þennan mann eða kalla það að elska, þegar líkami minn hrópar á líkama hans og ég þurrka sjálfa mig út í nafni ástarinnar....

(Undir þessari ræðu hefur Guðrún smám saman komið fram án þess að Sólveig verði hennar vör )

Sólveig:

Þú ert hætt að gráta. (Tekur pela upp úr töskunni sinni) Hérna hresstu þig við.

Guðrún: (Horfir á Sólveigu)
Nei, takk mig langar ekki í. Vorum við ekki saman í dansskóla eionhvern tímann ?

Sólveig:

Jú, alveg rétt,, svið skiptum sama dansherranum á milli okkar, hann hét Páll

Guðrún: (Horfir í spegilinn)
Þegar égvar í dansskólanum fannst mér ég alltaf standa utan við alla og allt. Ég er eins og eins og felumynd í lífinu,
steingervingur úr Selárdal
verurnar í kringum mig
láta sem ég sé ekki til.
Enginn veit um veginn milli mín og þeirra.
En ég get ekki bitið á jaxlinn
og látið múra mig inni.

Svo kemur ókunnug kona
eins og þú að stumra yfir mér
og áður en ég veit af
er ég farin að trúa henni fyrir sjálfri mér, ég flæði yfir sjálfa mig....

Sólveig:

Þú getur treyst mér, ég hef lent í ýmsu um ævina...

Guðrún:

Finnst þér ég of klossuð fyrir þessa skó ?

Sólveig:

Þú, nei, alls ekki, mér finnst þeir klæða þig verulega vel, þú ert með grannan fót og átt einmitt að létta þig soldið niðrúr, fá svona meira jafnvægi í skrokkinn, þú ert líka með svo fínlegt andlit og já, þú ert svona eins og ég, stór kona, við erum tvær stórar konur...

(Skúli þeytir upp hurðinni inn á klósettið)

Skúli:

Stórar konur geta verið svo þokkafullar.

(Dans. Hann sveiflar Guðrúnu með sér í fjörugan dans. Hún lætur Sólveigu hafa töskuna sína, jakkann og gleraugun sín. Sólveig horfir á. Smám saman koma svo hinar konurnar og fylgjast með Skúla og Sólveigu. Þegar dansinn nær hámarki kemur Katrín æðandi inn og leitar Skúla uppi. Það blæðir úr andlitinu á henni)

Skúli:

Hvað er að Katrín, hvað kom fyrir ?

Katrín:

Hann er kominn aftur og er brjálaður

Skúli:

Sagði ég þér ekki að hann væri í manndrápsham, hvað gerði hann við þig ?

Katrín:

Æ, ég sagði eitthvað og þá sagði hann eitthvað ennþá verra og þá sló ég hann utanundir og hann henti glasi í hausinn á mér og þá varð allt vitlaust

Sólveig:

Djöfulsins ógeð

Maggý:

Henda glasi í hausinn á konu

Regína:

Þetta er brjálaður maður

Skúli: (Skoðar Katrínu) Það er gat á hausnum á þér

Katrín:

Fínt, þá fer kannski það litla sem eftir er út og ég verð loksins að engu, engu og allt endar vel

Skúli:

Þú verður að láta sauma þetta

Katrín:

Nei, nei, þetta er ekki neitt, þetta er bara gamla sárið

Skúli:

Nú ferðu heim til mín og sefur þar,

Guðrún: (Við Skúla)
Ég get líka alveg farið með henni ef þú vilt

Sólveig: (Við hinar konurnar)
Er ekki betra að hún fari í kvennaathvarfið

Katrín: (Við Skúla)
Hvað ætlar þú að gera Skúli?

Skúli:

Ég ætla vera aðeins lengur. Ég kem rétt á eftir, ha, allt í lagi ? (Við konurnar) Ekki standa svona eins og rollur á íslenskum þjóðvegi, ég er bara vinkona hennar ..

(Konurnar fjórar sem fylgst hafa með þessu ranka nú við sér og kippast við, fyrst Regína, svo Maggý, en Sólveig og Guðrún horfa hvor á aðra.Guðrún fer síðustu út)

Skúli:

Æ, Katrín mín, gerðu það fyrir mig að fara að losa þig við þennan mann, þetta endar bara með skelfingu

Katrín:

Hann er alltaf að segja þetta og ég þoli það ekki

Skúli:

Þetta hvað...?

Katrín:

Æ, þú veist "Hver er hann, mellan þín, hver er hann ?" Hann vill fá að vita hver hann er...

Skúli:

En þú veist ekki hver hann er, segðu það bara, þú veist ekki hver hann er, það hefur alltaf verið svoleiðis, er það ekki ?

Katrín:

Jú, það er svoleiðis.

Skúli:

Bara ég og þú vitum það.

Katrín:

Já, bara ég og þú.

Skúli:

Það er leyndarmálið okkar, manstu.

Katrín:

Já, ég man, þú ert svo góður Skúli.

Skúli:

Já, ég er góður. Mér þykir allt of vænt um þig til að horfa upp á þessu vitleysu. Ég er svo hræddur um þig elsku stelpan mín...

Katrín:
Ég er ekki hrædd um mig - ég er hrædd við mig.

Skúli:

Hérna eru lyklarnir mínir, nú ferð þú heim til mín og sefur þar (Skúli tekur utan um Katrínu og fylgir henni út)

Konur skelfa. Seinni hluti

(Þegar áhorfendur koma í salinn eru Skúli og Guðrún að dansa fallegan, rólegan dans í einu spotti. Sólveig fylgist með í fjarska)

Guðrún:

Ég ætlaði að segja þér að....

Skúli:

Já...

Guðrún:

.... ég hef oft séð þig á bókasafninu

Skúli:

Ég hef líka séð þig. Í mörg ár. Aldrei þorað að tala við þig, en langað.

Guðrún:

Já

Skúli:

Já, mjög mikið.

(Þögn)

Skúli:

Þú hefur kannski tekið eftir því, að ég er soldið mikið fyrir alls konar bækur um veiði og útivist

Guðrún:

Já, ég hef tekið eftir því og ljóðabækur í seinni tíð

Skúli:

Ég gæti samt aldrei skrifað ljóð, en ég gæti alveg hugsað mér að skrifa bók um veiði

Guðrún:

Er það ?

Skúli:

Það er svo mikill munur á veiði og veiði. Sum veiði er alveg hundleiðinleg og ekkert gefandi. Svona í byrjun. Svo getur allt
gerst. (Þögn) Þegar ég er að veiða þá tala ég fyrst svona við fiskinn, svona soldið létt og fallega og reyni að vekja áhuga hans... og svo kemur hann hægt og rólega og þá get ég farið að kasta og svo áður en ég veit af þá er hann farinn að tala og ég ræð ekki við neitt, ég leyfi honum bara að tala, narta svona, fikta í mér, oh, þetta er svo skemmtilegt, svo...oh ég get ekki lýst því...

(Smám saman koma ljósin upp á öllu sviðinu og músíkin feidast út á móti tali Maggýar. Hún og Regína hafa lokað sig inni á einu klósettinu í trúnaðarsamtali)

Maggý:

Skrítið, það er alveg sama hvernig maður heldur sér til ár og síð, þeir virðast ekki taka eftir því....eftir hverju fara þeir og ég sem er nýbúin að eyða fúlgu í fitusog

Regína:

Þurftir þú að fara í fitusog ?

Maggý:

Þurfti ég ? Það settist svo rosalega á lærin á mér eftir að ég eignaðist seinni strákinn. Ég hef aldrei losnað við það almennilega, alveg sama hvað ég fer oft í pallapuð og fitubrennslu. Æ, þessar barneignir setja mann alveg úr lagi. Eins og þau eru mikil krútt þessi börn...

Regína: (Með bældum sársauka)
Já, meðan þau eru lítil.....þú ert að tala um fitusog, það er til ýmislegt verra en það.

(Guðrún kemur inn á snyrtinguna og hlustar um stund á tal þeirra)

Maggý:

Eins og hvað ?

Regína:

Veistu ég var með svo fín brjóst áður en ég átti yngstu stelpuna, en hún þurfti svo mikið einhvern veginn og þau hurfu bara alveg. Þá fór kallinn að vera óánægður, kynlífið fór allt í vaskinn hjá okkur og það endaði eins og það endaði, hann náði sér í þessa ungu barnlausu flugfreyju, ég fór í aðgerð til láta laga á mér brjóstin, en hún þurfti auðvitað að misheppnast, þau urðu bara verri og ljótari ef eitthvað var, sílikonið hljóp allt í kekki...

Maggý:

Má ég sjá,má ég sjá....Guð, þetta er alveg hræðilegt....fórstu ekki í mál, fórstu ekki í mál ?

Regína: (herðir upp hugann)
Nei, ég var svo vitlaus, ég var bara tilraunadýr fyrir einhvern ungan lýtalækni, sem var að koma úr námi og þurfti pening til að borga allar námsskuldirnar, ég er enn að borga námslánin hans

Maggý: (Hressist og þær koma fram. Guðrún fer út. Regína heldur á háhæluðum skóm sínum og er á brjóstahaldaranum. Maggý heldur á bjútíboxinu hennar og er í jakkanum af henni utanyfir sín föt)
Minn lýtalæknir er alveg æðislegur, hann er eins og sálfræðingur, þú getur talað um allt við hann, um daginn var ég eitthvað miður mín út af karlmanni auðvitað, æ, þetta var rétt eftir skilnaðinn og þá hringdi ég í hann og hann bauð mér bara í lunch og við borðuðum þessa æðislegu fiskisúpu á meðan ég talaði og talaði

Regína:

Og sagði hann ekkert

Maggý:

Hann spurði hvort ég vildi vera vinkona hans

Regína: (Með vaxandi áhuga) Hvernig þá vinkona ?

Maggý:

Æ, þú veist, fara með honum út að borða, í kokkteilboð hjá Læknafélaginu og á ráðstefnur lýtalækna hér og þar um heiminn

Regína:

Já og slóstu ekki til

Maggý:

Æi, hann er miklu minni en ég og sköllóttur

Regína:

Ég hef einhvers staðar heyrt að sköllóttir menn séu svo góðir í rúminu

Maggý:

Ekki hann. (Reynir að bjarga sér) Og þó, ég veit það ekki, sumir leyna á sér, kannski er hann....algjör þruma. (Þögn) Stundum er ég algjörlega að drepast úr karlmannsleysi, þegar þetta kemur yfir mig, þá held ég að ég lifi það ekki af .... og þá langar mig svo til að hringja í einhvern vin minn og biðja hann að líkna mér

Regína:

Af hverju hringirðu þá ekki í lýtalækninn....?

Maggý:

Á ég að trúa því að þú hafir aldrei fundið fyrir svona óbærilegu karlmannsleysi, þannig að þú gætir stokkið á næsta mann, t.d. manninn sem kemur að lesa af rafmagnsmælinum hjá þér

Regína:

Það er alltaf kona sem les af mælinum hjá mér hjá mér

Maggý:

Einu sinni var ég ein heima og alveg að drepast, þá hringir dyrabjallan og ég fer til dyra og þá stendur maður þarna frammi á ganginum að rukka fyrir Morgunblaðið og það streymir einhver kynorka frá honum

Regína:

Kynorka frá rukkara

Maggý:

Eitthvað var það, svo ég bauð honum innfyrir og hann settist við eldhúsborðið hjá mér á meðan ég skrifaði ávísunina, svo þegar ég rétti honum ávísunina, þá snertust hendur okkar rétt sem snöggvast og ég fann hvernig ég hitnaði öll að innan eins og ég hefði fengið raflost, ég sver það, ég fór að ímynda mér hvernig hann væri í rúminu, horfði á hann allan, þar til hann sagði allt í einu, viltu kannski að við setjum þetta á Visakortið þitt ? Ég var farin að ímynda mér hvernig bibbinn liti út á honum

Regína:

Á Morgunblaðsrukkara ?

Maggý:

Já, ég sver það...á ég að trúa að þú hafir aldrei lent í þessu ? Ekki einu sinni í Portúgal, hiti gerir mig alveg brjálaða í henni....

(5. STRAUMUR-kynferðislegur straumur. Allar konur nema Katrín taka þátt í honum. GSM sími hringir í veski Maggýar)

Maggý:

Oh, nú er allt vitlaust heima. (Opnar og svarar símanum) Já, Siggi minn, mamma kemur heim klukkan þrjú, nei, þið eigið að fara sofa,nei,ekki Die Hard,var ég ekki búin að taka Paddingon,fariði svo að sofa, bless,bless (Slekkur á símanum)

Sólveig:

Jæja, nú eru Portúgalarnir hættir að spila og farnir á Hótel Sögu að lúlla og einhverjar smápíur með þeim.

Maggý: (Við Regínu)
Æ, en leiðinlegt, þá er hann farinn

Sólveig:

Hver ?

Maggý:

Regína kannaðist við einn í bandinu

Sólveig:

Já, er það ? Rosalega voru þeir skemmtilegir og þessi músík þeirra, hún kallar svo fram konuna í manni...

(Þögn)

Maggý:

Kvaddi hann þig ekki Regína ?

Regína:

Þetta var ekki neitt

Maggý:

En þú varst með honum í eina viku er það ekki ? Þú sagðir það.

Regína:

Þetta var ekki neitt, ég var að segja þér það, bara smá rómans á hótelherbergi í Portúgal, svo er hann giftur.

Maggý:

Var hann giftur, þú sagðir það ekki

Sólveig:

Ég átti einu sinni góða vinkonu sem lagðist alltaf á frátekna menn og helst á eiginmenn vinkvenna sinna. Þegar röðin kom að mér og hún tók manninn minn, þá sprakk allt í háaloft og ég missti þau bæði. Núna er hún í sálfræðimeðferð fyrir konur sem leggjast á lofaða menn.(Geispar) Jæja, klukkan er að verða tvö....

Maggý:

Heitasti tíminn er enn eftir

Sólveig:

Hvaða tími er það ?

Maggý:

Þegar slagsmálin byrja fyrir alvöru

Sólveig:

Hvaða slagsmál ?

Regína: (Horfir á Maggý)
Þegar gylturnar slást um feitasta göltinn í stíunni

Maggý:

Erum við gyltur Regína ?

Regína:

Ert þú ekki búin að vera á eftir einum hreinræktuðum gelti í allt kvöld

Sólveig:

Ég tek ekki þátt í svona subbutali (Fer út)

Maggý: (Hvíslar)
Lets face it, það þurfa allar konur á karlmanni að halda. Hey, Regína, talaðu við mig aðeins.... farðu fram og athugaðu hvort Skúli sé enn að dansa við þessa hlussu þarna 100 kíló

Regína:

Af hverju ferðu ekki sjálf, senda mig eins og eitthvert jójó, ég er engin senditík fyrir þig ? Farðu bara sjálf.

Maggý:

Æ, ég þori ekki, ég er svo hrædd um að ég missi alveg stjórn á mér ef ég sé hann og gleraugnagáminn saman

Regína:

Elsku Maggý mín, þú ert nú bara hlægileg hvernig þú lætur (Fer fram. Þögn. Maggý ein, byrjar að eiga við hárið á sér með bursta. Sólveig kemur aftur inn, hefur gleymt töskunni sinni)

Maggý: (Við Sólveigu sem ætlar út)
Afsakaðu þetta subbutal áðan, hún Regína er búin ganga í gegnum svo mikla

erfiðleika í lífinu, fyrst fór maðurinn frá henni fyrir unga konu, næsti var alkóhólisti

og svo núna þessi Portúgali, hann fer án þess að kveðja hana, hún hefur verið svo óheppin með menn og svo lenti hún í svo gasalega slæmri aðgerð með brjóstin á sér, en alltaf stendur hún sig, að vísu fylgist hún ekki alveg nógu vel með því sem er að gerast í merkjunum, en ég get alveg fyrirgefið henni þótt hún sé stundum soldið nasty...guð, hvar fékkstu þennan kjól sem þú ert í ?

Sólveig:

Ég erfði hann eftir mömmu mína, hún dansaði í honum á Borginni í gamla daga, af hverju spyrðu ?

Maggý:

Nei, ég er með fataverslun í Kringlunni og sel svona öðruvísi föt (Gramsar í töskunni og réttir henni nafnspjald úr búðinni)

Sólveig: (Les)
Maggý makes it-öðruvísi föt - já, já, hvernig öðruvísi föt ertu með ?

Maggý:

Ég er með öðruvísi föt bæði fyrir konur og kalla og líka föt fyrir svona konur eins og þig, sem passa ekki í réttar dömustærðir og vilja fela maga, rass og læri.

Sólveig:

Ég þarf ekki að fela neitt

Maggý:

Ef þú kemur í búðina til mín þá færðu 15% afslátt, af því þú ert þú. Þú ert eitthvað svona í listum...?

Sólveig:

Nei,ég er nú bara óbreyttur skrifstofumaður hjá Menntamálaráðuneytinu og fæ 68.458 krónur í laun á mánuði eftir skatt

Maggý:

Það er ekki neitt, það er ekki neitt, hvernig lifirðu ?

Sólveig:

Ég versla ekki í Evu og kaupi mér ekki kjút konubíl beint úr kassanum, ég er ekki á leið í utanlandsferð og borða ekki úti um helgar...(Ætlar út)

Maggý:

Hey, bíddu, ekki fara geturðu krækt brjóstahaldaranum mínum, mér finnst eins og brjóstin á mér hangi í lausu lofti

(Hún fer úr að ofan og stendur á brjóstahaldaranum. Sólveig hjálpar henni að krækja)

Maggý:

Þakka þér ofsalega vel fyrir, heyrðu gætirðu klórað mér aðeins á bakinu ?

Sólveig:

Klórað þér á bakinu ?

Maggý:

Hérna rétt fyrir neðan vinstra herðablaðið, já svona, nei neðar, já, ofar, ofar, þarna já, já, ég er að drepast í öxlunum, má ég dobbla þig til að nudda þær aðeins ? (Sólveig nuddar Maggý með punktanuddi. Maggý bregður) Heyrðu rosalega ertu með fínar neglur,þú ættir að tala við hana Regínu, hún gæti örugglega kennt þér að lakka á þér neglurnar á mettíma, hún er með námskeið í heimahúsum fyrir framakonur...

Sólveig:

Ég er engin framakona, framakonur eyða ekki tímanum á skemmtistöðum um helgar

Maggý:

Hvað gera þær þá um helgar ?

Sólveig:

Ætli þær séu ekki á súperframhaldsnámskeiði í sjálfsstyrkingu hjá tíbetskum múnki í leit að leyndardómum kveneðlisins

Maggý:

Hvernig þá leyndardómum?

Sólveig:

Hefurðu aldrei fundið fyrir norninni í sjálfri þér eða gyðjunni ? madonnunni eða hórunni ?

Maggý:

Ég er ekkert inni í listum. Hvernig virkar þetta sem þú ert að tala um ?

Sólveig:

Innra með þér berjast allar þessar mismunandi konur um völdin í sálarlífi þínu og þú finnur engan frið fyrr en þú hefur tekið þær í sátt og gert þær að vinkonum þínum

Maggý:

Ég á nóg af vinkonum, ég verð alveg rugluð ef einhver talar svona við mig...(Regína kemur inn og er með bjútíboxið og yfirhöfnina sína) Regína, ég var að segja við hana að hún væri svo mikil týpa, finnst þér ekki hún mætti gera meira fyrir sig ?

Regína: (kemur nálægt Sólveigu og skoðar hana)
Ysta húðlagið er að vísu dálítið þurrt og dautt, þú ættir kannski að prófa nýja kremið frá Lancome, sem leysir upp dauðar húðfrumur og smeygir sér inn í undirhúðina og örvar háræðarnar sem stjórna blóðstreyminu út í ysta húðlagið og þá losnarðu um leið við þessi kýli sem mér sýnist taka sig upp aftur og aftur á sama stað

Sólveig:

Kýli, ég er ekki með nein kýli

Regína: (nær í krem)
Prófaðu þetta krem og gáðu hvort það sjatnar ekki í kýlunum

Sólveig:

Heyrðu, það er andskotann ekkert að húðinni á mér,ég trúi ekki baun á öll þessi krem

Maggý:

Þú þarft ekki að trúa á kremin, þau virka, ef þú nuddar bara nógu mikið (Regína og Maggý syngja "nudda, nudda ,nudda")

Sólveig:

Þetta er allt saman eintóm della, allt þetta alpha-hydroxy kjaftæði, lípíðar og míkrókúlur, virk efnasambönd, kísilúrefni, hún mamma var að drukkna í þessu, allir skápar fullir af kremum, það mátti enginn í fjölskyldunni fljúga út úr landinu án þess að koma við Fríhöfninni og kaupa krem, krem, krem, vitið hvernig hún dó síðan, Ha ? Hún tók inn of stóran skammt af kremum, hún át þau, til þess að húðin að innan myndi ekki eldast, svo hún yrði ung út í gegn-forever young...

Regína:

Veistu Sólveig, þú ættir að ganga með slæðu til að fela hrukkurnar á hálsinum og undir hökunni...

Maggý:

Ég sel ógurlega mikið af slæðum til kvenna sem vilja ganga í flegnu, en geta það ekki út af hálsinum á sér

Sólveig:

Selurðu ekki líka hauspoka og líkpoka, húðpoka og fitupoka og poka sem er hægt að loka og stinga konu oní og henda í Sorpu, það myndi örugglega leysa vandann í heilbrigðiskerfinu.... (Fer í fússi)

Regína:

Er þetta ekki dæmigert fyrir konu á besta aldri, forpipruð og ósmekkleg, að drepast úr karlmannsleysi

Maggý:

Hún þyrfti að fá það almennilega í eitt skipti fyrir öll, hvað eru svona Kvennalistakellingar að gera á svona stað ? Og ég sem gaf henni15% afsláttarkort í búðinni minni

Regína:

Og ég ætlaði að gefa henni þessa kremtúbbu

Maggý: (Skiptir snögglega um umræðuefni) Hittirðu Skúla ?

Regína:

Hann var að dansa við bókavörðinn

Maggý:

Ég trúi þér ekki. Hvað sér hann við hana,finnst þér hún ekki ósexí?

Regína:

Hún hefur kannski einhverja innri fegurð

Maggý:

Ekki tala við mig um innri fegurð og innra hitt og þetta, hvað er allt þetta innra sem allir eru að tala um núna ? (Guðrún kemur inn syngjandi glöð,heilsar og fer á klósettið) Varstu ekki með flísatöng áðan ?

Regína:

Jú.

Maggý:

Lánaðu mér hana ? ( Regína réttir henni flísatöng)

Regína:

Hvað ætlarðu að gera ?

Maggý:

Ég ætla prófa soldið sem ég lærði í skátunum í gamla daga

(Maggý fer að klósetthurðinni þar sem Guðrún er, stingur flísatönginni inn í læsinguna og snýr og læsir þar með hurðinni að utan. Hún tekur í hurðarhúninn um leið)

Maggý:

Halló, er einhver þarna inni ?

Guðrún: (Fyrir innan) Því miður, það er upptekið

Regína: (Hvíslar)
Hvað ertu að gera manneskja. Þú ert búin að eyðileggja flísatöngina mína, þetta er uppáhaldstöngin mín. (Þær fara út.Guðrún reynir að opna, en kemst ekki út. Allt í einu birtist Katrín óvænt. Hún er í brúðarkjólnum sínum og sturtar í sig hnefafylli af pillum)

Guðrún:

Halló, er einhver þarna frammi, ég get ekki opnað, ég er læst inni. Hjálp, ég er læst inni. Viljiði opna fyrir mér ég er læst inni. Ekki láta svona, ég brjálast úr hræðslu, opniði, opniði (Hún reynir að skríða undir klósetthurðina en tekst ekki)

(Katrín heyrir í Guðrúnu en er smástund að átta sig áður en hún gengur að læstum dyrunum)

Guðrún:

....það hefur einhver læst mig hérna inni...

Katrín:

Er þetta bókavörðurinn ?

Guðrún:

Já, ert þú þessi sem...

Katrín:

Já, ég er þessi sem lánaði þér dömubindið áðan

Guðrún:

Já, en ætlarðu ekki að gista hjá vini þínum

Katrín:

Jú, en ég hætti við og kom aftur, en hann veit ekki að ég er hérna. Ertu einmana þarna inni ?

Guðrún:

Já, soldið, en mér finnst samt gott að heyra í þér

Katrín:

Ég skal koma til þín og halda utan um þig....

Katrín:

Ég ætlaði ekki að vera svona dónaleg og leiðinleg við þig áðan

Guðrún:

Þú varst ekki dónaleg við mig, en hin konan þarna, hún Regína var miklu meiri padda, mér leið eins og á pödduþingi..

Katrín:

Ég er engin padda í eðli mínu (Kúgast og missir töskuna sína á gólfið)

Guðrún:

Er þér illt ?

Katrín:

Nei, nei (Leggst á bakið við hurð Guðrúnar og horfir á hana) Finnst þér ég ljót ?

Guðrún:

Nei, alls ekki

Katrín:

Hann þolir ekki ljótar konur.

Guðrún:

Hann hver ?

Katrín:

Maðurinn minn, maðurinn minn...Honum finnst ég svo ljót þegar ég græt...ég á alltaf að vera svo sæt og brosandi...hann vill bara litla, sæta konu, sem rétt nartar í matinn

sinn... svo fleygir hann mér eins og tusku og svo þegar við komum heim, nei ég er ekkert að segja bláókunnugri konu frá því...

Guðrún:

Þú getur treyst mér, ég hef lesið margar greinar um karlmenn sem kúga konur ..

Katrín:(Reynir að mjaka sér á bakinu undir hurðina inn til Guðrúnar)
Hann skilur ekki hvers vegna ég verð ekki ólétt..."ef þú gast orðið ólétt þegar þú varst 15 ára, af hverju geturðu þá ekki orðið ólétt núna ..."

Guðrún:

Varstu ólétt ?

Katrín:

Ja, ólétt og ólétt, þetta er leyndarmál, (Katrín er nú alveg komin inn á klósettið til Guðrúnar)... ég átti eða sko kannski ekki átti, en mamma og pabbi ...þau voru í þessum söfnuði, þetta stóð ekki í biblíunni, þetta var ekki inn í áætlun guðs "svona kemur ekki fyrir hjá okkur", sögðu þau, "þetta vill guð ekki, bara alls ekki"...þetta var bara slys....(Þögn) alltaf þegar hann er fullur heimtar hann að fá að vita hver hann er...

Guðrún:

Hann hver ?

Katrín:

... ég segi alltaf ég veit það ekki og þá lemur hann mig og kallar mig mellu, hann heldur að það sé einhver úr söfnuðinum, og ég segi nei og þá segir hann að ég sé síljúgandi, en ég veit alveg hver á hana...alveg upp á hár

(Þögn)

Guðrún:

Hver á hana ?

Katrín:

Þetta var bara slys og eftir að hún var farin...þá hætti ég að borða, læknirinn minn segir að það sé einhver sjúkdómur, ég má ekki tala um það...hann þooolir ekki sjúkdómatal, ég má ekki segja kúka þá verður hann brjálaður, konur kúka ekki

Guðrún:

Ha?

Katrín:

.. konur kúka ekki, segir hann sko, (Hurðin hrekkur skyndilega upp á klóstinu. Þær koma fram)Kondu vinan, ég skal bjarga þér (Tekur í hönd Guðrúnar og leiðir hana fram afklósetinu)

Guðrún:

En hver er hann ?

Katrín:

Hann hver ?

Guðrún:

Pabbinn...

Katrín:

Æ, það er allt vitlaust sem ég segi...þetta var bara slys...trúirðu mér, trúirðu öllu sem ég segi ? Sko maðurinn minn er svona maður sem vill ekkert vesen og engin leiðindi...þetta er brúðarkjóllinn minn,við búum sko í nýju einbýlishúsi í Gullsmáranum, þú ættir að koma og heimsækja mig, ég fæ aldrei gesti, samt er gestaherbergi og allt, sko fyrir hana, ef hún skyldi koma einhvern tíma suður, í skóla, Skúli var einmitt að leggja parkett á herbergið hennar í kvöld,ókey, stundum drekk ég of mikið,en hann drekkur jafnmikið ef ekki meira... ég er búin að standa mig ofsalega vel...ég er inni á einhverju spori sem ég kemst ekki út af, en nú get ég ekki meir, en geri það samt, viltu ná í eitthvað að drekka handa mér...en ef þú sérð Skúla, ekki segja honum að ég sé hér og alls ekki segja honum að ég hafi sagt þér frá henni....þetta er leyndarmálið okkar, bara milli mín og þín...

Guðrún:

Hvernig maður er Skúli ?

Katrín:

Skúli er bara Skúl, hann Skúli hefur aldrei átt konu, samt elskar hann konur, feimnar konur sem byrja allt í einu að tala...ætlarðu að ná í eitthvað að drekka handa mér ...

Guðrún:

Er nokkuð að líða yfir þig ?

Katrín: (Guðrún nær í vatn) Nei, mig langar heldur í einn White Russian, það er það eina sem mig langar í, því þá verð ég öll eins og mjúk að innan, svona dúnmjúk og ekki svona mjó, finnst þér mjó, ég er svo mjó, ég er bara eins og rák á himninum, en ég vil vera svona, ég vil ég ekki vera öðruvísi...

Guðrún:

Þú þarft að borða meira, hollan og góðan mat, ég get gefið þér fullt af uppskriftum, alls konar létta grænmetisrétti sem eru mjög ríkir af næringarefnum og eggjahvítu

Katrín:

Oj ekki segja þetta orð (Kúgast)

Guðrún:

Hvaða orð? Eggjahvítu ?

Katrín:

Mér verður svo flökurt af eggjum....

Guðrún:

Ég get lánað þér matreiðslubækur af safninu, Matur er mannsins megin, Grænt og gómsætt, Pottarím

Katrín:

Hættu, hættu þessu ! (Kúgast)

Guðrún:

Fyrirgefðu, ég vissi ekki að þú værir svona slæm í maganum

Katrín:

Ég er ekkert slæm í maganum, ég er slæm í sálinni,ég á allar þessar bækur, ég er lærður kokkur....skilurðu það

(Katrín staulast inn á klósettið og lokar en læsir ekki)

Guðrún:

Viltu ennþá White Russian ? (Þögn) Er allt í lagi með þig ? (Þögn) Ég fer þá fram og kaupi White Russian. (Fer fram snögglega eins og hana gruni eitthvað. Við sjáum inn á klósett Katrínar, þar sem hún reynir að klæða sig úr fötunum og skoðar sig alla eins og viðundur)

Katrín:

Er þetta ég ? Guð er þetta ég ? Taktu þennan líkama frá mér, ég hef enga þörf fyrir hann, hann flækist bara fyrir mér, gerðu það guð, það er svo lítið eftir, ég er búin að standa mig svo vel og nú finn ég ekki lengur til, ég er hætt að finna til, ég er alveg að verða eins og þú, ekki neitt, ég er ekki lengur til, aðeins rák á himninum, sem breytir um stefnu, birtist og hverfur og hverfur síðan að eilífu, ef guð skapaði heiminn, hver skapaði þá guð, skapaði guð sjálfan sig, get ég þá skapað sjálfa mig, ég get skapað sjálfa mig, ég get skapað sjálfa mig ( Katrín fær léttan krampa og lyppast niður á klósettsetuna) Skúli, Skúli...við skulum bara segja honum það....

(Þögn.Maggý togar Skúla inn á klósettið)

Maggý:

Kondu, það er enginn hérna. Við erum ein.

Skúli:

Hvað viltu ?

Maggý:

Ég þarf að segja þér soldið. Láttu ekki svona, það er enginn hérna. Bíddu ég ætla aðeins að pissa. (Fer inn á klósett og hallar hurðinni.) Maður pissar svo af þessum bjór, en ég er ekkert full, er það nokkuð ? Hey, Skúli, gáðu hvort það sé klósettpappír á klóstinu við hliðina.... (Skúli fer og finnur pappír og lætur Maggý hafa) Kondu inn, ekki vera svona feiminn

Skúli:

Nei, ég er ekkert að fara með konu inn á klósett

Maggý:

Ég hef aldrei hitt sjarmerandi endurskoðanda áður...

Skúli:

Ég er ekki endurskoðandi

Maggý:

Þú sagðir það

Skúli:

Já, ég var að ljúga

Maggý:

En hvað ertu þá ?

Skúli:

Hvað er ég ?

Maggý:

Hvað gerirðu ?

Skúli:

Ég verð kannski endurskoðandi einhvern tíma, ef ég drullast til að klára viðskiptafræðina

Maggý:

Og þá sérð þú um bókhaldið hjá mér, það er ekki alveg í lagi.(Kemur fram og fer að speglinum, málar á sér varirnar, horfir síðan á Skúla) Hæ. Ofsalega gaman að dansa við þig. (Kyssir hann) Fyrirgefðu. (Kyssir hann aftur og meira, hann tekur fyrst við en hættir svo)

Skúli:

Ég er farinn

Maggý:

Ekki fara strax

Skúli:

Ég nenni ekki að hanga hérna lengur.

Maggý:

Ertu hrifinn af einhverri þarna frammi ?

Skúli:

Nei, nei, ég get bara ekki hangið hérna inni á kvennaklósetti í allt kvöld. Sko, mér finnst þú voða sæt og allt það, en mig langar til að tala við konur

Maggý:

Ertu ekki að tala við mig, er ég ekki kona

Skúli:

Jú, en ...

Maggý:

Finnst þér ekki gott að kyssa ?

Skúli:

Jú, en ekki svona fljótt.Konur eru svo skemmtilegar, þær segja manni svo margt eins og Katrín...Katrín er ofsalega fín stelpa og mér þykir rosalega vænt um hana...

Maggý:

En hún er farin. Ekki vera alltaf að tala um aðrar konur við mig, þegar ég er að tala við þig

Skúli:

Katrín er besta vinkona mín, ég er búin að þekkja hana síðan við vorum krakkar, hún er að vísu illa gift, frekar leiðinlegum manni myndi ég segja, en ég get veitt með honum og þá er hann ágætur, einu sinni vorum við að veiða í Norðurá og það bítur á hjá mér, einhver rosafiskur....

(Maggý nennir ekki að hlusta á hann og kyssir hann aftur. Sólveig kemur inn og horfir á þau um stund, fer að speglinum og síðan inn á klósett. Skúli horfir á eftir henni)

Maggý:

Á hvað ertu að glápa eins og eldgömul sápa. Þekkirðu hana ?

Skúli:

Flott kona

Maggý:

Flott kona. Fannst þér hún ekki aðeins of feit ?

Skúli:

Feit ?

Maggý:

Hún er með rosalega appelsínuhúð á upphandleggjunum

Skúli:

Ég er líka með rosalegan melónubörk á herðablöðunum

Maggý:

Æ, Skúli, þú ert svo fyndinn

Skúli:

Hvaða fitutal er þetta alltaf í konum. Mér fannst hún bara svona kona, eins og konur eiga að vera, boddí, svona hrygna...

Maggý:

Hrygna ?

Skúli:

Heyrðu, þetta var hrygna sem beit á hjá mér þarna í Norðurá svo ég sleppti henni og vinurinn var alveg brjálaður, sleppa svona fiski..

Maggý:

Veistu ég vann einu sinni í fiski og fékk nóg af fiski og fiskilykt og ég nenni ekki að tala um fisk (Sprautar á sig ilmvatni) en mér finnst hrogn mjög góð, já og plokkfiskur

Skúli:

Ég er ekki að tala um fisk, ég er að tala um lax, það er álíka munur á að veiða lax eða annan fisk og á að.... fá sér almennilega konu sem maður elskar eða mellu

Maggý:

Það er nú varla hægt að fá sér mellu á Íslandi

(Sólveig kemur fram af klósettinu )

Sólveig:

Það er kona að leita að þér út um allt þarna frammi

Skúli:

Hvaða kona ?

Sólveig:

Konan sem þú ert búin að vera að dansa við megnið af kvöldinu

Skúli:

Já, hún, hvað vildi hún ?

Sólveig:

Hún sagði það ekki, en hún var frekar örvæntingarfull á svipinn....ég skal ekki trufla ykkur

(Sólveig fer fram. Maggý læsir hurðinni á eftir henni og stekkur allt í einu á Skúla eins og köttur og kyssir hann ofsalega og reynir að losa af honum fötin, hann hefur gaman af þessu um stund, en reynir síðan að verjast henni)

Maggý:

Kondu, kondu, mig langar í þig, núna, strax, ég get ekki beðið, finndu hvernig ég blotna, kondu við mig, taktu mig, kondu inn í mig strax, finndu hvað ég er góð, hvað ég geri það vel, þú sérð ekki eftir því, graðfolinn þinn, þú ert helvítis graðfoli er það ekki, (Skúli kinkar kolli) langar þig ekki að fá það almennilega með mér, kondu, kondu, ég bið þig, kondu við mig, Maggý elskar þig, Maggý litla þráir þig, kondu já, kysstu mig, kysstu mig,þú ert að ná mér núna, gerðu meira, meira, meira, ég þoli þetta ekki lengur, ég er búin að bíða svo lengi...það er svo langt síðan...

Skúli: (Hættir allt í einu við) Nei, ég get þetta ekki

Maggý:

Hvað, nærðu honum ekki upp ? Ertu virkilega búinn að drekka of mikið, mér fannst þetta svo gaman, ég blotnaði öll, af hverju viltu þetta ekki ?

Skúli:

Er eitthvað að þér í skemmtanalífinu ? Þetta verður bara mórall á morgun, ég þoli ekki móral

Maggý:

Ég fæ aldrei móral

Skúli:

Næst þegar við hittumst þá verðum veið eins og tveir kúkar og getum ekkert sagt

Maggý:

Við þurfum ekkert að hittast aftur, við látum bara eins og þetta hafi aldrei gerst...

Skúli:

Já, en mig langar ekki. (Hendir henni af sér,hún öskrar upp)

Maggý:

Ó,guð...

Skúli:

Fyrirgefðu,ég ætlaði ekki..

Maggý:

Ég þarf að pissa, maður pissar svo af þessum bjór...(Maggý tekur í hurðarhúninn þar sem Katrín er og þegar hún sér hana æpir hún upp í skelfingu)

Skúli:

Hvað ?

Maggý:

Oj, sjáðu, sjáðu

Skúli:

Æ, góða besta, þú nærð mér ekkert svona, góða nótt

Maggý:

Þetta er hún, þetta er hún, vinkona þín (Skúli hleypur inn á klósettið)

Skúli: (Dregur Katrínu meðvitundarlausa fram af klóstinu)
Katrín, Katrín, hvað ertu að gera hér, Katrín, vaknaðu, enga leiki núna, skilurðu það, hættu þessum leikaraskap sýknt og heilagt

Maggý:

Er hún sofandi ? Svakalega sefur hún fast

Skúli:

Það er enginn púls....

Maggý:

Er hún dáin ?

Skúli:

Þegiðu og farðu fram og náðu í hjálp

Guðrún: (Fyrir utan snyrtinguna)
Opniði, opniði hurðina. Hverjir eru þarna inni?

Sólveig: (Fyrir utan snyrtinguna) Ég er með skæri, ég er með skæri

Guðrún:

Náiði í dyravörðinn, ég þarf að komast inn, það er eitthvað að þarna inni, ég veit það

Skúli: (Öskrar) Opnaðu hurðina

Maggý:

Vertu ekki svona reiður (Maggý fer og opnar og læsir sig inn á klósti volandi)

Skúli:

Ég átti að passa þig betur...

Katrín: (Rankar aðeins við sér) Passaðu litlu stelpuna þína

Skúli:

Uss, Katrín, ekki, ekki segja þetta, ekki..

Katrín:

Ert þú Guð ?
( Guðrún og Sólveig koma inn, Regína í humáttinni. Við sjáum ekki framan í hana)

( 6. STRAUMUR - Allt er að liðast í sundur. Guðrún og Sólveig hlaupa til Skúla og hjálpa honum að lyfta Katrínu upp. Skúli ber Katrínu út. Guðrún og Sólveig fylgja á eftir. Regína stendur ein eftir. Lítur í spegilinn eins og í byrjun leikritsins. Þögn)

Regína:

Þessi ljós eru alveg ómöguleg, maður verður eins og ófreskja í þeim, af hverju skipta þeir ekki um lýsingu hérna, so, you didn ́t get my postcard after all ? ...Were you afraid of me ? Don ́t you like my country, my body, myself ? I don ́t like myself..

Maggý: ( Opnar gættina á klóstinu. Sjokkeruð)

Við hvern ertu að tala ? Svakalega var hún mjó, getur einhver karlmaður verið með svona mjórri konu. Afhverju rakaði hún sig ekki undir höndunum ? (Guðrún kemur inn til að ná í töskuna sína. Maggý við Guðrúnu) Dó hún ?

Regína: (Við Guðrúnu eftir stutta þögn)
Ég ætlaði ekki að særa þig áðan, ég bið þig afsökunar, ég missti stjórn á mér. Ég hélt kannski að hann myndi tala við mig, heilsa mér...

Guðrún:

Hver ?

Regína:

Æ, ég kannaðist við einn af Portúgölunum...ég kom bara út af honum, en hann sá mig ekki, hann tók ekki einu sinni eftir mér, ég er greinilega ekkert í hans augum, bara ein kona í viðbót, ein í safninu hans og ég sem var með allt tilbúið í bjútíboxinu mínu, ef ske kynni, nærbuxur, tannbursta, bókstaflega allt....(Hún fleygir nærbuxum og tannbursta í ruslið)

Maggý:

Oj, að deyja svona inni á klósti. Nei látiði ekki svona er hún dáin ? Hvernig dó hún ? Og ég sem ætlaði bara út að skemmta mér...

(Sólveig kemur í gættina)

Sólveig: (Við Maggý)
Ballið er búið, það er búið að kveikja frammi...er þetta ekki kápan þín ?

Maggý:

Ég fer ekki fram í þessi ljós svona útlítandi, hvað heldurðu að fólk haldi um mig ?

Regína:

Klukkan er orðin þrjú og allir eru hvort sem er orðnir svo fullir að þeir taka ekki eftir neinu eða neinum, ekki einu sinni sjálfum sér, hvað þá þér eða öðrum.

Maggý: (Á leiðinni út)
Regína, ég lofa að borga þér þessa skuld, ég lofa því...

Regína:

Ég þarf líka að borga mínar skuldir...annars missi ég hæðina á Hagamelnum

(Guðrún og Sólveig einar eftir, Sólveig byrjar að taka til)

Guðrún:

Mig langar til að eignast barn, ég finn það svo vel einmitt núna, ég vil finna lyktina af barni sem elskar og þarf á mér að halda alltaf, alltaf ...?

Sólveig:

Það vilja allar konur alltaf eignast börn, þær halda að börn sé eina tryggingin fyrir eilífri ást, en það er ekki þannig, við þurfum að vinna fyrir þeim. Ég fór á foreldrafund í vetur. Þar voru samnkomnar mæður tólf ára barna plús einn faðir. Þetta er algeng samsetning á samkomum foreldra, sem haldnar eru vegna barna þeirra. Ég beið eftir að fundurinn hæfist og virti fólki fyrir mér, þarna streymdu þær inn þessar konur flestar ungar að árum eða frá 30 - 40 ára eins og við. Það flaug í gegnum huga minn að aldrei hefði ég séð svona margar "tættar" konur á einum stað, þar með talin ég sjálf. Þarna vorum við mættar, herptar í framan eins og gamlir handavinnupokar, einhvern veginn hroðalega illa til hafðar. Búnar að fá frí frá vinnu til að mæta þarna, búnar að þeysast í gegnum umferðina og orðnar of seinar að sækja litlu börnin okkar. Bara þreyttar og útjaskaðar konur. Síðan þetta var, hef ég tekið eftir því að við erum mjög algengar, við erum út um allt..

(Skúli kemur aftur hálf niðurlútur og vansæll)

Skúli:

Ég kom til að ná í lyklana mína, þeir eiga að vera í töskunni hennar (Fer inn á klósettið sem Katrín var á) Hafiði séð töskuna hennar ?

Guðrún: (Leitar)
Já, hún er hérna...(Réttir Skúla töskuna, hann nær í lyklana sína og tekur eitt og annað lauslegt upp úr töskunni m.a. pilluglös)

Sólveig: (Eftir yfirvegaða þögn) Treystiru þér til að vera einn í nótt ?

Skúli:

Já, ég held það

Sólveig:

Það er ekki gott að vera einn eftir svona áfall, þekkirðu einhvern sem þú getur gist hjá ?

Skúli:

Ætli ég fari ekki bara heim og jafni mig

Guðrún:

Við gætum líka gist hjá þér ef þú vilt

Sólveig:

Það er kannski óþarfi að við séum þar báðar, vilt þú ekki bara fara með honum heim ?

Guðrún:

Honum finnst það kannski óþægilegt, ég er að vísu ekki með gestaherbergi, en það er nóg pláss

Sólveig:

Það er líka nóg pláss hjá mér. Krakkarnir mínir eru ekki heima, svo rúmin þeirra eru laus

Guðrún:

En ég á nóg af sængurfötum, slopp og....

Skúli:

Stelpur, takk, þetta er allt saman mjög vel boðið, en ég held ég fari einn heim til mín

Sólveig:

Eins og þú vilt auðvitað, en þú veist að það er ekki hollt fyrir þig aðvera einn eftir svona áfall

Guðrún:

Viltu að önnur hvor okkar komi með þér heim ?

Sólveig:

Ég hef nógan tíma og er ekkert að flýta mér

Guðrún:

Það sama segi ég

Sólveig:

Þú vilt kannski tala um þetta

Guðrún:

Já, þú vilt kannski tala um þetta ?

(Skúli grætur í fanginu á Sólveigu og hún umfaðmar hann sigri hrósandi)

Guðrún:

Jæja þá. Ég fer þá. Góða nótt.

Skúli:

Nei, bíddu, bíddu aðeins, þú veist það er ekki hollt að fara ein heim í fýlu

Sólveig: (Við Guðrúnu)
Líður þér mjög illa ? Þú vilt kannski að við komum heim með þér ?

Guðrún:

Mér fannst ég rétt búin að ná sambandi við hana

Skúli:

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún gerir þetta. En hvað getur maður gert...ég reyndi að hringja í manninn hennar, en það svaraði enginn og foreldrar hennar eru á trúarþingi í Bandaríkjunum

Sólveig:

Hvað viltu gera Skúli minn ?

Guðrún:

Já, hvað viltu gera Skúli minn

Skúli:

Sko mér finnst þið báðar alveg rosalega flottar og fínar konur, en ég veit ekki hvernig ég á að segja það, helst af öllu vildi ég að við svæfum öll saman hlið við hlið eins og eftir barnaafmælin í gamla daga án nokkurra skuldbindinga og vöknuðum síðan í fyrramálið eins og ekkert hefði í skorist og þú eða þú eða ég færi út í bakarí og keypti volg rúnstykki og vínarbrauð og svo myndum við borða saman morgunverð og þegja saman

Sólveig: (Blítt)
Viltu vera með okkur báðum, er það sem þú ert að reyna að "böggla" út úr þér, vinur ?

Skúli:

Nei, það er ekki þannig, alls ekki, æ, þetta er bara svona tilfinning, ég get ekki orðað hana öðruvísi

Sólveig: (Blítt)
Ef þú vilt fara með henni heim, þá ferðu með henni heim, punktum basta, ekki vera að taka tillit mín

Skúli:

En ég vil ekki fara heim.... með hvorugri ykkar, ég vil fara heim til mín og þið megið báðar koma með eða réttara sagt mér þætti mjög vænt um það

Sólveig: (Áfram blítt)
Áðan sagðirðu að þú vildir vera einn. Vilt þú ekki bara fara heim til þín og láta okkur konur í friði. Kannski er það best.

Guðrún:

Mér finnst alveg eðlilegt að hann geti ekki gert upp hug sinn eftir það sem á undan er gengið

Sólveig: (Blítt)
Ertu soldill vingull Skúli minn

Skúli:

Vingull, ég er enginn vingull, ég veit bara ekki hvað konur vilja, hvað vilja konur ? Það er ekkert rétt sem ég geri, ef ég er mjúkur, þá er ég of linur of mikill ostur einhvern veginn, skríðandi rola að þóknast ykkur sýknt og heilagt og ef ég er harður, þá er ég ruddi, vondi strákurinn, tilfinningalaus tuddi sem þið þolið ekki heldur, ég er bara alveg ruglaður í þessu, ég er alltaf að reyna að vera bara svona ég sjálfur

Sólveig: (Missir sig)
Og þú sjálfur ert kannski ekkert annað en vingull, þú ert búinn að vera að reyna við okkur allar hérna í kvöld, en getur ekki valið, ég skil ekki að nokkur kona geti fallið fyrir þér

Skúli:

Hver hefur fallið fyrir mér ? Ha ? Það er ég sem fell fyrir konum, ég get ekki gert að því, mér finnst konur yndislegar, líka þegar þær eru vondar og reiðar þá finnst mér þær enn yndislegri og mér fer öllum að hlýna og ég finn einhverja von um...

Sólveig:

Von um drátt er það ekki ?

Skúli:

Nei, samkennd, þú misskilur

Sólveig:

Það er ekkert að misskilja

Guðrún:

Hættiði ...hvernig getiði..en ósmekklegt

Sólveig:

Þið eruð allir eins

Skúli:

Þið eruð líka allar eins, þessvegna er svo erfitt að gera upp á milli ykkar, allir eru eins, já, allir eru eins, einir og eins.

Sólveig: (Brotnar niður)
Jæja, ég ætlaði að vera fyrir löngu farin heim,
en ég lét freistast í þeirri von að hitta...
þetta að hitta einhvern,
fólk hittist ekki,
það dettur á hvort annað, óvart,
æ, hvað er ég þvæla um þetta við ykkur, ég skal ekki trufla ykkur....fyrirgefiði (Fer)

Guðrún:

Sólveig, Sólveig, ekki fara Sólveig...

(Skúli og Guðrún standa tvö eftir)

Skúli:

(Soldið klökkur) Ég er ekkert að monta mig, en ég fæ voða lítinn frið fyrir kvenfólki og stundum lendi ég í konum sem ég ræð ekki við....

Guðrún:

Já, er það ?

Skúli:

Já. En það eru bara svo fáar sem ég fíla alveg sko

Guðrún:

Alveg sko ?

Skúli:

Já, allt of fáar. (Þögn. Sólveig kemur inn aftur, hún hefur gleymt töskunni sinni)

Sólveig:

Fyrirgefiði, ég ætlaði ekki að trufla ykkur

( Skúli herðir upp hugann)

Skúli:

Jæja, við erum ein eftir

Guðrún:

Já. Við erum ein eftir.

Skúli:

Já, við tvö. (Þögn) Hvar býrðu ?

Guðrún:

Ég leigi á Grundarstíg

Skúli:

Það er stutt héðan

Guðrún:

Já. Ég get gengið heim. En þú ?

Skúli:

Ég bý í Kóngsbakka

Guðrún:

Það er dáldið langt héðan

Skúli:

Jaaá, það er dýrt að taka leigubíl þangað

(Þögn)

Guðrún:

Katrín trúði mér fyrir leyndarmáli ( Skúla bregður dálítið.)

Skúli:

Nú ?

Guðrún:

Hún sagði mér frá barninu (Þögn)

Skúli:

Sagði hún þér hver pabbinn væri ?

Guðrún:

Nei, en ég held ég viti það

Skúli:

Það veit það enginn. (Þögn) Finnst þér vera eitthvað á milli okkar ?

Guðrún:

Finnst þér vera eitthvað á milli okkar ?

Skúli:

Já, ég verð að viðurkenna það, mér finnst það og ég ræð voða lítið við það og mig langar ekki til þess að ráða við það. Veistu, því oftar sem ég horfi á þig, því öruggari finnst mér ég vera hjá þér... ... þú ert eins og stoð... já, svona...... bókastoð (Þögn)

Guðrún:

"Hafið þér séð þann sem sál mín elskar..." (Skúli brosir)

Skúli:

Ljóðaljóðin.

Guðrún:

Ljóðaljóðin.

Skúli:

Ertu soldið feimin ?

Guðrún:

Ert þú soldið feiminn ?

(Skúli hallar sér upp að Guðrúnu og kyssir hana hægt, fallega og blítt og hún tekur á móti hægt, fallega og blítt og ljósin fara rólega út)

Endir

Skrifað í Reykjavík, Aþenu og Ölfusborgum apríl 1995- janúar1996. Jan. 1997.

.