Skál, pabbi minn

Í dag er fæðingardagur föður míns. Margir minnast látinna foreldra sinna á samfélagsmiðlum í kringum fæðingardag þeirra og oftast eru þau skrif á einn veg. Flestir hafa átt gegnumgóða foreldra, ástríka og styðjandi og þeirra er sárt saknað.

En auðvitað vitum við að engin manneskja getur verið gegnumgóð alla tíð. Þess vegna ljúgum við alltaf pínupons um foreldra okkar. Við stöndum í svo mikilli þakkarskuld við þá. Ég væri sjálf að ljúga ef ég segði að faðir minn hafi eingöngu verið alvondur, kaldlyndur og lítt styðjandi. En sem barni og unglingi fannst mér það oft og þannig lýsi ég honum í bókinni minni Meydómur úr frá sjónarhorni barnsins. Það þýðir samt ekki að hann hafi verið alger skepna eða skrímsli alla tíð eins og sumir kynnu að álykta.

Auðvitað bjó skepna í honum eins og okkur öllum. Og stundum braust út skrímsl og gerði mig frávita af ótta. Langt fram á fullorðinsár. En svo tókst mér smátt og smátt að ná tökum á óttanum og eftir að ég komst á fertugsaldurinn þurfti pabbi stundum á mér að halda sérstaklega þegar hann langaði til að skrifa minningargreinar um nýlátna vini sína.

Þá leitaði hann til mín pínulítið taugaveiklaður, þorði að afhjúpa veikleika sína sem komu mér á óvart. Ég þekkti bara hans sterku hliðar. Hann gerði sér grein fyrir að ég hafði eitthvað framyfir hann, eitthvað sem hann gat haft gagn af, eitthvað sem ég gat aðstoðað hann við. Alveg eins og ég hafði gagn af honum. Án hans hefði mér aldrei tekist einni að koma yfir mig þaki. Þegar ég reyndi í annað sinn að kaupa mér íbúð, eftir að hafa misst þá fyrstu út úr höndunum fyrir algeran glannaskap í fjármálum, rétti hann mér hjálparhönd.

Þau komu til mín mamma og hann og tilkynntu að þau vildu styrkja mig með ákveðinni upphæð sem var þrisvar sinnum hærri en ég hafði safnað upp í útborgun á nýrri íbúð. Þetta var svolítið eins og að fá stærstu jólagjöf í heimi. Eða eins og að fá litlu, hollensku postulínsskóna sem þau gáfu mér þegar ég var sex ára ef ég lofaði að vera þæg stúlka alla tíð.  

 Í gleði minni yfir þessari ríflegu fjárhagsaðstoð, rauk ég upp um hálsinn á þeim, fyrst henni, svo honum, mig langaði til að faðma hann og kyssa, þakka honum fyrir stuðninginn sem skipti öllu en hann ýtti mér frá sér með sama fálætinu og þegar ég var barn. Honum fannst þetta óþarfa kjass í mér fullorðinni konunni. Mamma horfði á og gerði athugasemd: „Hvað er þetta maður, leyfðu nú dóttur þinni að sýna að henni þykir vænt um þig.“  Hann gaf eftir við þessi orð og ég fékk að umfaðma hann og kjassa.

Við það varð hann hálfvandræðalegur, vissi ekki hvernig hann átti vera, hann sem alltaf var svo orðheppinn og fyndinn. En oftast á kostnað annarra. Hann kunni ekki að taka á móti þakklæti mínu en gerði það samt. Hann elskaði mig þrátt fyrir allt, hugsaði ég og skammaðist mín fyrir allar ljótu hugsanirnar um hann. Pabbi minn var ekki vondur maður, hann hafði líka verið barn, hann hafði gengið í gegnum sínar hremmingar. Ég vissi bara ekki hverjar þær voru, því hann talaði aldrei um sjálfan sig.

   Og auðvitað elskaði ég hann líka þótt ég gæti ekki alltaf sýnt það í verki. Hann var höfðinginn, hinn gestrisni, sá sem veitti, sá sem deildi út öllu, bæði peningum og tilfinningum eftir eigin hentisemi. Þótt hann væri spar á blíðuna var hann því rausnarlegri þegar kom að peningum, með þeim sýndi hann hug sinn, velvilja og hjálpsemi.

Án hans aðstoðar stæði ég líklega ekki í þeim sporum sem ég stend í núna. Á dögunum fjárfesti ég nefnilega í íbúð og það merkilega við hana er að hún er staðsett í húsi sem byggt var 1953, árið sem ég fæddist. Og hún stendur í húsi við götu sem heitir eftir fyrsta forsætisráðherra sósíaldemókrata í Svíþjóð en hann var fæddur sama dag og ég 23. nóvember.

Það eru einhver teikn í þessum tölum, eitthvað munstur sem ég tengi þó ekki endilega við föður minn heldur feðraveldið sem mótaði okkur. Mér finnst pínu sérkennilegt að búa við götu sem ber svona voldugt karlmannsnafn, Hjalmar Brantingsgatan, en ég læt mig hafa það. Það er þó skárra en Gränby bilgata. Best hefði þó verið að búa við Selmu Lagerlöfsgötu.

En í dag er semsagt fæðingardagur föður míns og honum á ég margt að þakka, þrátt fyrir að hann hafi oft verið ósanngjarn og grimmur við okkur systkinin þegar við vorum börn. En ég get ekki sagt að ég sakni hans sárt eins og margir sem minnast foreldra sinna gera, ekki tiltakanlega, ekkert frekar en svo margs annars úr margendurteknu lífinu. Það eina sem ég sakna er framtíðin.

Ef ég væri á Íslandi núna myndi ég líklega skála fyrir föður mínum og móður á Kramberinu við hliðina á Kramhúsinu sem ég reyndar sakna, kannski með systkinum mínum. Þau voru nú ágæt þessar elskur. Skál. Svona inn við beinið. Skál. Já og reyndar miklu meira en það. Blessuð sé minning þeirra. Megi sálir þeirra hvíla að eilífu við örbylgjuklið alheimsins. Þreföld skál! Og sjálf lofa ég að vera þæg stúlka - alla tíð.            

 

Previous
Previous

Fyrir alla muni

Next
Next

Fley og fagrar árar