Lokuð herbergi
Í marsmánuði átti ég því láni að fagna að fá að dvelja á rithöfundasetri í Visby á Gotlandi sem fyrir mér varð að einhvers konar blöndu af klausturlífi og heimavistarskóla. Þar myndaðist samfélag skrifandi fólks frá átta löndum í Evrópu. Hver og einn hafði sinn eigin klefa í tveggja hæða húsi sem áður var vistheimili fyrir fátæka drengi.
Í öðru húsi handan við götuna deildu allir ekki aðeins eldhúsi, heldur einnig bókasafni, vinnustofum og menningarherbergi. Í menningarherberginu horfðum við gjarnan á heimildamyndir um skáld og rithöfunda, kvikmyndir og sjónvarpsseríuna Adolescence sem hefur verið á allra vörum að undanförnu.
Eitt af því besta við svona samfélög eru samtölin sem eru á pari við bestu sálfræðitíma, hlustunin, skilningurinn og tillitssemin er í öndvegi. Ég hafði á orði við félaga mína á setrinu að þetta væri eins og gott fjölskyldulíf, við höfundarnir vorum systkinahópurinn, kominn af barnsaldri en nutum samt nærveru og stuðnings foreldranna, tveggja starfsmanna setursins. Alltaf til staðar fyrir okkur eins og góðir foreldrar eiga að vera án þess að vera að skipta sér of mikið af börnunum eða kássast upp á þau í tíma og ótíma.
En hversu góðir sem foreldrar eru, geta þeir því miður ekki komið í veg fyrir þær hrellingar sem við lifum núna þar sem fíflin eru orðin einvaldar og leika sér að að mannfólkinu með ólíkindalátum og háskalegum heimskupörum. Þegar þannig er ástatt, er gott að loka á heiminn, án þess að gleyma honum eða skella í lás, bara loka í smástund og fara inn á við.
Ég hef verið inni í lokuðu herbergi undanfarnar vikur og mánuði, í mínu eigin klaustri án þess að loka mig af. Ég fylgist með og veit hvað er að gerast í heiminum, hann hefur ekkert breyst nema að því leyti að þeir sem áður þóttust vera frjálshyggjumenn vestur í Ameríku eru nú að verða að samblöndu af keisurum og kommúnistum.
Yfirleitt byrja ég morgnana á því að taka heimsfréttirnar, svona til að minna mig á að ég er hluti af þessum háskaleik öllum þrátt fyrir allt, ein agnarlítil ögn í mannhafiu og stjörnuþokunum. Ákaflega hollt að gera sér grein fyrir því en gerist ekki fyrr en fólk hefur öðlast níundu greindina, tilvistargreindina samkvæmt fjölgreindakenningu Howards Gardner.
Þegar ég er búin að fá nóg af öllu ógeðinu í heiminum, því fréttir fjalla ekki um neitt annað, skipti ég yfir á rás tvö sem í þessu landi sendir aðeins út klassíska músík og þar fæ ég minn skammt af huggun og gleði til þess að ég geti gengið hnarrrreist út í daginn eða boðið hann velkominn inn á gafl til mín því ég er mest inn á gafli þessa dagana eins og áður sagði.
Og inni á þessum gafli geri ég mínar uppgötvanir, sumar hverjar sem ég hefði átt að vera fyrir löngu búin að uppgötva eins og ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur Bréf frá borg dulbúinna storma eða skáldsögur Agotu Krystof. En það er bara fyrst nú sem ég hef fundið friðinn og næðið og veitt sjálfri mér leyfi til að gera uppgötvanir.
Og þær eru reyndar líka fyrir utan gaflinn á húsinu og þá sérstaklega þegar ég læt líkamann dansa með öðru fólki sem ég þekki ekki neitt, þar sem fjölbreytileiki og inngilding ræður ríkjum og ég verð ein af fjöldanum og finn að hver og einn hefur sinn djöful að draga.
Í dansinum fá allir útrás og pláss, fyrir framan mig hreyfast mjúkar mjaðmir frá Suður-Ameríku, við hliðina liðast kappklædd kona með slæðu á höfðinu að múslimasið, fyrir aftan mig dansar broshýr stúlka með Downs heilkenni og fyrir aftan hana reynir svört kona að ná sporunum sem kennarinn dælir úr sér við síbreytilega tónlistina.
En það er ekki aðeins líkaminn sem þarf að hreyfa og styrkja, hugurinn þar líka sitt og tilfinningarnar og þar koma jógatímarnir til sögunnar. Um þá gildir það sama og annað sem ég hef loksins leyft mér að uppgötva eftir allt lífsstreðið, þeir eru einfaldlega bráðnauðsynlegir til að kyrra órólega hugsun og ólgandi tilfinningar, til að endurnýja orkuna innanborðs.
Ég beygi mig undir agaðan kennarann, anda að mér, anda frá mér, tæmi hugann, teygi, hugleiði, slaka á undir ábreiðu í lokin og tek á móti heiminum þegar ég kem aftur út undir bert loft, hærri í loftinu en nokkru sinni, teygjurnar lengja mig og þannig kemst ég í snertingu við almættið.
Almættið já, ég komst líka í snertingu við það í Visby, átta hundrað ára dómkirkjan var minn helsti nágranni og ekki hægt að komast hjá því að umgangast hana daglega. Það endaði með því að ég gekk til altaris í fyrsta sinn frá því ég fermdist. Ég fann til lotningar og fyrir auðmýkt gagnvart öllu og öllum sem hafa reynst mér vel í gegnum tíðina en mest af öllu fann ég til þakklætis fyrir að fá að vera hér með ykkur öllum, að vera ein af ögnunum í alheimi.
Jæja, nú er þetta orðið svo væmið að ég verð að hætta áður en ég skelli upp úr og hendi þessu í ruslið. Vil ekki eyðileggja stemninguna sem ég er í. En eitt get ég sagt ykkur að í Visby var ekki aðeins hægt að ganga til altaris heldur líka hægt að fara í svokallaðan lesbískan morgunverð sem er miklu lengri en heterósexual morgunverður, bara svo að því sé haldið til haga.