Fjórtánda hverfi
Íslendingar eru ferðagalnir. Sjálf er ég alltaf á ferð og flugi, held mér þó mest við Evrópu þessi misserin. Reyni samt að vera heima af og til svo sjálf mitt leysist ekki upp í öreindir. En hvað er heima? Ég er þannig gerð að í hvert sinn sem ég kem á nýjan stað, vil ég setja niður tjald eins og hirðingi. Þá skiptir ekki máli hvort það er lítil fjörubakki vestur á fjörðum eða gata í stórborg með langa sögu.
Á dögunum var mér boðið til Parísar sem var mín þriðja heimsókn til borgarinnar. Ég var fylgdarkona eldri herramanns sem átti sér þá ósk heitasta að sækja afmælisráðstefnu um hans sérlega áhugasvið. Án mín hefði ferðin auðvitað ekki verið eins ánægjuleg, því ég er svo gasalega skemmtileg og drep allt vesen með jákvæðu hugarfari um leið og það kemur upp.
Við bjuggum í fjórtánda hverfi öðru nafni Montparnasse. Á meðan herramaðurinn sat á sínum fundum fór ég eins og hótelkötturinn (það var gulbröndóttur Diegó sem var fastagestur á hótelinu) í mínar leynilegu leiðangra aðallega um þetta hverfi sem enginn annar en Sigurður Pálsson heitinn ljóðskáld bjó í fyrstu árin sín í París.
Reyndar bjó ég í næstu götu við fjórtán hæða stúdentagarðinum á Rue Darreau sem hann lýsir í Minnisbók og ber ekki vel söguna enda afspyrnu ljót bygging. Ég gat meira að segja horft á ferlíkið út um gluggann á hótelherberginu mínu. Þessa fimm daga uppgötvaði ég það sem ég hafði ekki áður uppgötvað og uppgötvaði ekki almennilega fyrr en ég kom aftur heim þegar ég fór að blaða í Minnisbók að nýju.
Rue Darreau liggur niður að breiðgötunni Boulevard Saint-Jaques en við þá götu bjó einn af helstu áhrifavöldum í skáldalífi Sigurðar, sjálfur Samuel Beckett. Beckett keypti heila íbúðarhæð í nýbyggðu húsi á númer 38 og bjó þar ásamt eiginkonu sinni Suzanne Dechevaux-Dumesnil frá 1960 og alveg þar til hann lést 1986. Þau höfðu þó aðskildar vistarverur í íbúðinni á sjöundu hæð og hvort um sig með sérinngang. Ég fór auðvitað þangað. Stóð fyrir utan húsið snemma morguns og virti það fyrir mér út frá byggingarlagi og útliti.
Alveg undarlegt að arkitektar og aðrir hýbýlafræðingar hafi ekki fengið byggingaverktaka í lið með sér til að hanna svona íbúðir fyrir hjón og góða vini sem vilja eiga náið samneyti án þess að ganga frá hvert öðru úr nöldri og leiðindum.
Beckett gat keypt íbúðina fyrir ágóðann af frægasta leikriti sínu Beðið eftir Godot, leikriti sem allir nemendur í skrifum fyrir leiksvið verða dolfallnir yfir við fyrsta lestur, annan og þriðja. Áhrifin eru svo mikil að fólk breytist eftir lesturinn ef það er nægilega móttækilegt fyrir mætti orðanna. Þannig er það með alvörulist, hún breytir manneskjunni og skynjun hennar á heiminum.
Sigurður Pálsson er ekki nema rúmlega tvítugur þegar hann býr þarna á ljóta stúdentagarðinum við Rue Darreau og hann á skiljanlega oft leið um Boulevard Saint-Jaques ekki síst í Metróinn sem liggur ofanjarðar á þessum stað. Beckett á líka oft leið um breiðgötuna, hann sótti reglulega kaffihúsið á horninu við Darreau þar sem nú er Hótel Marriott, var ekki mikið að spóka sig og flanera, orðinn of frægur til þess eða innhverfur.
Og einn daginn mætast þeir skáldin í hverfinu, reyndar ekki á Boulevard Saint Jaques, heldur á á Rue de l‘Observatoire sem liggur í hlýlegri hluta hverfisins nálægt metróstöðinni Port Royal. Sigurður sér ljósa, hávaxna Írann koma gangandi á móti sér og fær eðlilega stjörnuglýju í augun.
Lýsingin hjá SP þegar hann sér Samuel Beckett er alveg dæmigerð fyrir hrifnæm ungskáld á öllum tímum: „Ég fékk hjartslátt, mig hefði ekki grunað hvað það yrði stórkostleg stund að koma auga á hann, fá staðfestingu á því að hann væri raunverulegur ...“ en Sigurður kynntist fyrst verkum Becketts í MR þegar hann lék í sviðsetningu á Endatafli.
Það er þetta með fræga fólkið og hjartsláttinn sem eykst þegar maður kemst í nálægð við það. Sjálf fékk ég ást á verkum Bertold Brecht þegar ég las leikhúsfræði og gerði mér ferð að gröf hans í Berlín þegar við fórum þangað í námsferð frá háskólanum í Stokkhólmi. Lét mynda mig þar meira að segja. En hann var dauður svo ég fann ekki fyrir neinum hjartslætti, bara innprentaðri virðingu á listrænum afrekum karlmanna sem voru mér æðri.
Í Minnisbók segir SP frá því þegar hann er að skrifa Meistararitgerð í leikhúsfræðum við Sorbonne háskóla um allar sviðsetningar í Frakklandi á leikritinu Herra Púntila og vinnumaður hans Matti eftir Brecht. Ég gerði nýja uppgötvun sem fór framhjá mér þegar ég las bókina í fyrsta sinn eða ég er búin að gleyma. Lokaritgerð mín í leikhúsfræðum við Stokkhólmsháskóla fjallaði nefnilega líka um eina tiltekna sviðsetningu á sama leikriti Brechts hjá Fria Proteatern sem var róttækt leikhús í Stokkhólmi á sínum tíma. Svona liggja ýmsar leiðir saman mörgum árum eftir að þær voru farnar.
Fræga fólkið í fjórtánda hverfi hvílir í Montparnasse kirkjugarðinum, ekki aðeins Beckett og Sartre heldur ein merkilegasta kona allra tíma, engin önnur en Simone de Beauvoir sem skrifaði feministabiblíuna miklu Hitt kynið eða Kyn númer tvö öllu heldur. Ég var á leiðinni á litla fallega Giacometti safnið í hverfinu þegar ég gekk framhjá húsinu sem hún bjó í.
Út um stóran stofugluggann gat hún horft yfir kirkjugarðinn sem átti eftir að verða hennar endastöð. Ég rölti inn í kirkjugarðinn, þó ekki að leiðinu hennar en horfi þess í stað inn um stofuglugga madame úr garðinum og hugsa um hana, áhrifavaldinn. Hvílík uppgötvun sem lífið er og ljóðræn með köflum.