Hamlet í Stokkhólmi

Ég sá Hamlet á dögunum í Stokkhólmi, í Elverket eða gömlu Rafstöðinni á Östermalm en hún hefur um árabil verið tilraunaútibú frá Dramaten, þjóðleikhúsi Svía. Það var fráfarandi leikhússtjóri hússins Matthias Anderson sem leikstýrði og skrifaði leikgerð upp úr verkinu. Leikgerðin var að vissu leyti yfirlýsing um leikhúsið, um tilvist þess og dauða, því nú á að loka þessu leiksviði, Dramaten hefur ekki lengur efni á að reka það. Niðurskurður til menningarmála er staðreynd hér í ríki hægri manna og leikhúsin mörg berjast í bökkum.

 En líklega hefur aldrei verið jafnmikil þörf fyrir leikhúsið og einmitt núna þegar gervigreindin er að taka allt yfir og háværar raddir segja að listin sé eiginlega óþörf, allir geta orðið listamenn á einfaldan hátt, þurfa hvorki menntun né reynslu, hvað þá listamannalaun. Það nægir bara að hafa rétta appið og réttu tækin. En auðvitað er þetta ekki svona einfalt, ekkert frekar en að fara í sálgreiningu með gervigreindarmenni eða stofna til ástarsambands við stafræna rödd.

 En víkjum aftur að Hamlet sem hefur líka verið á fjölunum í Reykjavík og vakið mikla athygli skilst mér og umræður að minnsta kosti í hópi leikhúsmanna og gagnrýnenda. Einn gamall gagnrýnisskarfur varpaði því nýlega fram að Hamlet væri svo leiðinleg persóna að hann skildi ekki alveg hvers vegna hann væri svona vinsæll meðal leikhúsmanna. Það sama má segja um margar manneskjur, sérstaklega þær sem synda á móti straumnum og eru með uppsteyt, þær fara í taugarnar á ógurlega mörgum, sérstaklega valdhöfunum.

 Og það er einmitt það sem leikritið Hamlet fjallar um, um ungan „leiðinlegan“ mann eða öllu heldur leiðan mann sem sér í gegnum glæpi og svikráð valdhafanna og getur ekki hugsað sér að verða erfingi þeirra þótt hann eigi tilkall til þess. Hann verður því mjög pirrandi í allri sinni framgöngu og hegðun og svoleiðis fólk viljum við helst losa okkur við, loka inni á geðdeildum eða fangelsum, ef ekki senda það í útlegð eða koma því endanlega fyrir kattarnef. Hvað varð ekki um Navalny?

 Nei, það er fjarri því að Hamlet sé leiðinleg persóna, hann er að vísu dyntóttur í sinni borgaralegu óhlýðni og uppreisn og þess vegna hafa leikhúsmenn leyft sér að túlka ólíkindalæti hans allt eftir því hvernig vindar blása í því samfélagi og heimi sem við búum í. Hamlet er ekki heilagt verk, reyndar dauður stafur í bók á meðan það safnar ryki uppi í hillu en hægt að lífga við og gera að leikhúsi um leið og einhver frjór leikhúsmaður tekur sig til og breytir orðum skáldsins í gjörðir og gjörninga. En til þess þarf ákveðna listræna stefnu, hugrekki og greind. Þannig verður gjörningurinn að yfirlýsingu um ástand. Og það gerðist einmitt á sýningunni í Stokkhólmi.

 Leikmyndin er opin fjöldagröf, við sjáum líkin í svörtum plastpokum allt í kringum höll valdhafans. Kládíus hefur nýlega rænt völdum og spígsporar á rauðu hallargólfinu sem reist hefur verið ofan á líkhrúgunni, sjálfumglaður morðingi, dasaður eftir glæpinn og druslulega klæddur. Það tekur svolítið á að myrða bróður sinn og giftast svo konunni hans henni Geirþrúði. Hún stendur auðvitað með sínum manni undirgefin og þögul í gulum kjól eins og þykjustusól. Kládíus getur þó hrist af sér mesta hrollinn með því að spila golf á hallargólfinu.  

 Hamlet veit þó sínu viti, þótt hann sýnist geðveikur, hann setur líf sitt og annarra á svið, notar aðferðir leikhússins til að sýna hirðinni hvernig allt er í pottinn búið. Og það er einmitt hlutverk listarinnar og til þess eru notaðar ýmsar uppskriftir. Hamlet notar uppskrift leikhússins til afhjúpa óbragðið af þykjusturéttunum sem stöðugt eru bornir á borð fyrir okkur sakleysingjana. Við þekkjum þessar uppskriftir allt of vel, þeim er einmitt beitt af mikilli leikni þessa dagana í pólitíkinni.  

 Og af því klassíkin er klassík og ekkert fær hróflað við henni á meðan hún rykfellur uppi á hillu, var alveg ægilega gaman að sjá þessa nýju og vel hugsuðu leikgerð þarna í Rafstöðvarleikhúsinu. Áhorfendur fengu hreinlega stuð, sérstaklega í lokin þegar ljóst varð að nýju valdhafarnir deyja ekki eins og í verki skáldsins, þeir halda bara áfram að spila golf eftir að ungmennin öll eru fallin og harma svo dauða þeirra með klisjukenndum orðum og ræðuhöldum.  

 Hamlet vill hefna fyrir föður sinn en mistekst, hefnd kallar á hefnd og þess vegna lemur Laertes Hamlet uppeldisbróður sinn í spað til að hefna fyrir ótímabæran dauða systur og föður. Vissulega er kinkað kolli til samtímans í þessari uppsetningu til allra ungu drengjanna sem hafa fallið hér í gengjastríðum, þrír þeirra voru myrtir með köldu blóði í sömu götu og ég bý við fyrir nokkrum mánuðum. Og Ófelíurnar falla fyrir eigin hendi þegar þær fá ekki að ráða sínu eigin lífi eins og títt er um ungar stúlkur í samfélagi heittrúaðra þar sem heiður fjölskyldunnar er í veði.  

 Ísrael hefnir fyrir Hamas, Hamas fyrir Ísrael, Úkraína fyrir Rússland og Rússland fyrir Úkraínu og Evrópu þegar fram í sækir ad infinitum. Og hvað getum við gert í öllum þessum ósköpum? Verið eða ekki verið eins og allar persónur leiksins hér í Stokkhólmi veltu fyrir sér og síðast en ekki síst grafarinn gamli þar sem hann situr á grafarbakkannum og fer með eintalið fræga langþreyttur á öllum líkgreftrinum.

Það var dimmt yfir þessu, það er dimmt yfir Evrópu þessa dagana, Bandaríkjamenn hafa sagt skilið við álfuna og halda því fram að það taki ekki nema tuttugu ár að gera ríki hennar og ríkjasamband að engu. Stríðið er á næsta leiti segja menn hér, innan fimm ára brýst það út.

Þessi uppsetning á Hamlet var kveðja leikstjórans til Rafstöðvarinnar sem hefur gefið áhorfendum stuð aftur og aftur, þess vegna kallar hann sýninguna Hamlet, dauði leikhúss sem má skilja á ýmsa vegu, valdhafarnir vilja ekki sjá sín eigin voðaverk á leiksviðinu. En eitt er þó víst, klassíkin er ekki dauð, nema þegar hún stendur upp í hillu sem dauður stafur á bók.  

 

  

 

 

 

Next
Next

Kafka í Keflavík