Kafka í Keflavík

Ég átti bókað flug heim til mín í Svíþjóð á þriðjudaginn þegar snjókoman mikla á suðvesturhorninu kom Isavia alveg í opna skjöldu. Góð vinkona ráðlagði mér að gista í Keflavík nóttina fyrir brottför, hún hafði hlustað á vonda veðurspá. Og af því við báðar erum skynsamar konur sem tökum mark á Veðurstofu Íslands, pantaði ég mér ódýra gistingu í Ásbrú.  

Allt gekk vel í byrjun, ég komst út á völl og inn í vél á réttum tíma með minn fríhafnartoll í handfarangri. Brátt var þó ljóst að það yrði seinkun á fluginu, það þurfti að bíða eftir farþegum sem voru að koma úr öðru flugi, afísa vélina og síðast en ekki síst ryðja flugbrautirnar.

Þegar þessi bið um borð í hálf rafmagnslausri og loftlausri flugvél var orðin að fjórum klukkustundum, var fluginu aflýst og við farþegarnir sendir í land aftur. Samtals ellefu flugum á vegum Icelandair var aflýst á sama tíma og rúmlega 2000 strandaglópum var sagt að bíða eftir farangri sínum áður en næstu skref yrðu tekin.  

Ég beið æðrulaus við færiböndin í fimm klukkustundir og allan þann tíma var hvorki vott né þurrt að fá. Farþegar sátu eða lágu á gólfum eða upp við veggi og biðu og biðu, börn og fullorðnir, gamalmenni og fatlaðir. Í eitt sinn gekk eitthvert unglingsgrey um með vagn og brynnti mannskapnum eins og skepnum. Varla sást til nokkurra starfsmanna hvorki á vegum Icelandair né Isavia enda allir líklega snjóaðir inni.

Eftir illan leik komst ég út úr flugstöðinni en hafði áður náð að krækja mér í tvo skammta af jógúrt og tvö rúnstykki fyrir 5000 kall í bakaríinu í komusalnum og hlaða símann til að geta bókað gistingu í Keflavík. Ég átti ekki annan kost þegar ég sá 2000 manna biðröðina sem Icelandair var að reyna að útvega gistingu. Ég var svo heppin að fá herbergi á gistiheimilinu EASY STAY, staðsett í einbýlishúsi í Ytri-Njarðvík.

Í leigubílaröðinni fyrir utan flugstöðina stóðu yfir100 manns skjálfandi á beinunum og aðeins einn bíll í sjónmáli. Aftur fór ég inn í flugstöð að hlýja mér smá og svo út aftur þegar fleiri leigubílar höfðu bæst í lestina. Loks kom röðin að mér, palestínskur flóttamaður frá Gaza sat undir stýri og talaði hvorki íslensku né ensku og hafði aldrei keyrt innanbæjar í Keflavík, aðeins fram og aftur Reykjanesbrautina. En það var ekki auðvelt fyrir Gazabúann að finna EASY STAY og uphófst nú mikið hringsól um vegakerfi Reykjanesbæjar.

Á EASY STAY voru strandaglópar úr öllum heimshlutum. Engan mat var þar að hafa og næsta búð í korters göngufjarlægð. Ég ætti ekki annað eftir en að hálsbrjóta mig í hálkunni til að seðja hungur mitt. Örmagna fleygði ég mér upp í rúm og lét aðstandendur vita að ég væri orðin húsmóðir í Keflavík og beið eftir að fá SMS frá Icelandair um áframhaldandi ferðalag mitt til Stokkhólms. Pantaði leigubíl til öryggis upp á völl morguninn eftir ef ske kynni að ég fengi far.

En ég gat gleymt því þegar ég sá skilaboðin á miðvikudagsdagsmorgun um að ég ætti að fara með fimmtudagsflugi til Kaupmannahafnar og þaðan til Stokkhólms. Ókey, ég hélt áfram að vera húsmóðir í Keflavík, drattaðist út í búð á mínum heilsársskóm og keypti fiskibollur í karrýsósu frá Þykkvabæ og setti í örbylgjuna í hvítu háglans eldhúsinu á EASY STAY.  

Á fimmtudagsmorgun kom íslenskur bílstjóri frá Aðalstöðinni og sótti mig og sagði farir sínar ekki sléttar af skipulagsleysinu kringum flugstöðina og einkum varðandi leigubílaksturinn en tók fram að það hefði ekkert með rasisma að gera eins og haldið hefur verið fram. Það var bara allt miklu betra þegar herinn rak flugstöðina.

Við tók nýtt innritunarferli og lengsta biðröð sem ég hef séð í öryggisleitinni, hún náði alveg niður í brottfararsalinn. Eftir 40 mínútna mjak í átt að færiböndunum var röðin komin að mér. Ég fann til feginleika, þessu var alveg að ljúka, þessum hryllingi öllum, jafnvel þótt búið væri að fresta fluginu til Köben mörgum sinnum.

En, nei, ó, nei, ég var auðvitað enn með vökva í handfarangrinum, áfengið úr aflýsta fluginu sem ég hafði keypt fyrir vini mína og láðst að pakka niður í ferðatöskur. Mér var boðið að fara tilbaka og troða flöskunum tveim í innritaða farangurinn sem var alger ógerningur í allri óreiðunni.

Ég lét kalla út yfirmanninn og hann endurtók eins og hinn óbreytti starfsmaður, að svona væru bara reglurnar, það mætti ekki fara með vökva í handfarangri. Fríhöfnin blasti við okkur og ég spurði hvort ég fengi þá ekki bætur fyrir þessar flöskur sem ég hefði keypt fyrir áður innritað flug? Nei, þetta var nýtt flug og svona eru bara reglurnar,

Þegar hér var komið sögu var þolinmæði mín á þrotum, ég æsti mig og sagði yfirmanninum að hirða tollinn og strunsaði eins og fúría í gegnum Fríhöfnina. Niðurbrotin settist ég um borð í breiðþotuna á leið til Köben og enn hafði flugi verið frestað. Ég yrði kannski líka strandaglópur í Köben ?

Til að kóróna þetta kafkaíska klúður var mér úhlutað sæti við hliðina á klósetti vélarinnar með tilheyrandi ónæði og biðröðum. Í flugtakinu setti ég Bach í eyrun, prelúdíu í B moll og leyfði tárunum að trilla niður vangana. Ferð sem upphaflega átti að taka þrjá tíma var komin á þriðja sólarhring. Ég hef þó ekki verið handtekin enn eins og Jósef K.

 

 

 

 

 

Next
Next

Innri auðævi