Mynd af Þjóðleikhúsinu

Þegar ég var 10 ára var ég send í vist vestur á Þingeyri við Dýrafjörð til að passa sex börn. Það elsta var einu ári yngra en ég, það yngsta var 2ja ára. Og ég átti líka að vera ráðskona, sjóða þverskorna ýsu og kartöflur oní mannskapinn í hádeginu. Hjónin sem ég dvaldi hjá voru harðduglegir Vestfirðingar, konan vann í frystihúsinu, karlinn reri til fiskjar á hverjum degi.

 Ég svaf með öllum börnunum nema því yngsta í svefnherbergi uppi á lofti í Pálshúsi eins og húsið hét. Fyrstu dagana þótti mér gott að geta kúrt undir nýju dúnsænginni minni og finna lyktina af hreinum rúmfötum frá mömmu. Þannig fann ég til öryggis og gat sætt mig við að vera þarna, ein og þekkjandi engan.   

 Ég skrifaði foreldrum mínum bréf, stílaði það á mömmu því ég vissi sem var að pabbi hafði ekki tíma til að lesa bréf frá mér. Í fyrsta bréfinu var það tvennt sem mig vanhagaði um og bað mömmu að senda mér með næstu rútu. Í fyrsta lagi voru það inniskór, í öðru lagi mynd af Þjóðleikhúsinu.

 Mig langaði nefnilega til að sýna börnunum mynd af álfahöllinni við Hverfisgötu til samanburðar við samkomuhúsið á Þingeyri sem þó var með því veglegasta á Vestfjörðum. Þar sá ég leiksýninguna Sunnudagur í New York með þeim Erlingi Gíslasyni og Guðrúnu Ásmundsdóttur en þau voru á leikferðalagi um Vestfirði þetta sumar 1964. Ég stalst út úr húsinu á náttfötunum þegar börnin voru sofnuð og læddist inn í samkomuhúsið bakdyramegin og lá svo í sviðsvængnum og horfði á þetta ofur leikarapar renna sér í gegnum þessa rómantísku kómedíu.

 Eitt af því sem ég tók mér fyrir hendur á Þingeyri var að opna leikhús í þvottahúsinu á jarðhæð hússins við Aðalstræti og seldi aðgöngumiða fyrir 25 aura stykkið. Ég man nú ekki hvað ég lék fyrir áhorfendur en það hefur áreiðanlega verið heimasmíðað stöff, blandað á staðnum, spuni.

Mér dettur þetta í hug núna þegar ég er nýkomin að vestan eftir að hafa hrist eina menningarhátíð farm úr erminni á tveimur vikum. Litla Menningarhátíð að vísu en með stóru emmi, afar einfalda í sniðum en metnaðarfulla engu að síður. Þessi hátíð fer fram á Tálknafirði í gamla samkomuhúsi sveitarinnar sem heitir Dunhagi.

Til Tálknafjarðar var ég líka send eins og pakki með strandferðaskipinu Esjunni sumarið eftir ferð mína til Þingeyrar sem endaði vægast sagt illa. Ég var orðin 11 ára og átti aftur að passa börn. En í þetta skiptið var ég heppin, svo heppin að ég eignaðist eiginlega nýja fjölskyldu og foreldra, vini til lífstíðar.

Það er þess vegna, af ást til Tálknafjarðar sem ég legg mig fram við að skapa menningarviðburði sem upphaflega átti bara að vera einn upplestur úr bók sem ég er með í smíðum og fjallar m.a. um þessa dvöl þarna fyrir rúmlega hálfri öld, dvöl sem mótaði mig og gerði ef til vill að verkum að ég komst í gegnum barnæskuna og unglingsárin tiltölulega ósködduð þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og mótlæti.

 Fáir vita að á Tálknafirði er heitt vatn í jörðu og þar hefur heilmikil skógrækt farið fram á undanförnum áratugum sem hefur haft mjög jákvæð áhrif á loftslag og umhverfi. Meðalhitinn á Tálknafirði er alltaf aðeins hærri en í nágrannafjörðunum segja mér heimamenn. 

 Nú hafa afkomendur bændanna sem fóstruðu mig gert jörðina að skógræktarjörð og endurbyggt íbúðarhúsið og stefna að því að gera það að dvalarstað fyrir listamenn í framtíðinni. Ég hef fengið að fylgjast með því ævintýri frá upphafi og nú sé ég fyrir mér tengingu milli listamannasetursins þar og menningarhátíðarinnar í Dunhaga.

 Þegar veitingahaldarinn í Dunhaga, hún Dagný Alda, bauð mér að koma til að lesa þar í sumar, gerði ég mér litla grein fyrir hvað ég var að fara út í. Að lesa upp í einhverjum samkomusal vestur á fjörðum er svosem ekkert tiltökumál en því fylgir samt smástúss, stúss sem í samtali okkar Dagnýjar vatt upp á sig og varð að heilli dagskrá.

 Við sóttumst eftir að fá skáld og listamenn til að koma fram, sem annað hvort áttu rætur að rekja til Tálknafjarðar eða Vestfjarða eða höfðu skrifað og skapað listaverk sem tengdust þessum landshluta. Það er auðvitað von okkar að þessi menningarhátíð geti öðlast svipaðan sess og Skjaldborgarhátíðin á Patreksfirði eða Einleikjahátíðin á Suðureyri, að menningin fái enn að blómstra í þessum vogskorna og fámenna fjórðungi.

 Á leiðinni heim hitti ég eina aðalsprautuna í menningarlífinu á Vestfjörðum, sviðslistamanninn Elfar Loga Hannesson sem rekur leikhús í einu minnsta þorpi landsins í  Haukadal í Dýrafirði og líklega minnsta samkomuhúsinu. Kómedíuleikhúsið hans fagnar nú 20 ára afmæli og þeir eru orðnir ansi margir Vestfirðingarnir sem hann hefur leikið á sviði, Gíslarnir þó vinsælastir.

 En engin menning getur þrifist án styrkja og þrátt fyrir að Elfar Logi hafi nánast rekið einsmanns atvinnuleikhús í þessa tvo áratugi ásamt konu sinni og fjölskyldu hefur hann aldrei hlotið náð hjá Menntamálaráðuneytinu eins og önnur atvinnuleikhús landsins. Það finnst mér skammarlegt. Elfar Logi er hluti af Þjóðleikhúsi Íslendinga.

 Mamma sendi mér hvorki inniskó né mynd af Þjóðleikhúsinu þarna fyrir meira en hálfri öld, því um mitt sumar fékk húsmóðir mín alvarlegt heilablóðfall aðeins 35 ára að aldri og var send samdægurs með sjúkraflugvél suður. Mér var komið fyrir hjá ókunnugri konu í ytri kanti þorpsins eins og hverjum öðrum niðursetningi og beið þar eftir rútunni til Reykjavíkur í fjóra daga.

 Engir farsímar, ekkert sms, símstöðin aðeins opin tvisvar í viku milli 4 og 6 og það var of dýrt að hringja suður. Ég hossaðist því með rútunni í tólf tíma til Reykjavíkur og lenti á Kalkofnsvegi í sumarbirtunni síðla kvölds. Foreldrar mínir voru í sumarfríi þegar ég kom heim svo ég þurfti að redda mér húsaskjóli í nokkra daga. En ég hafði dúnsængina mína og hún veitti mér hlýju og öryggi. Síðan þá hef ég verið reddari af guðs náð.

 

Previous
Previous

Utangarðs í listinni

Next
Next

Menningarverbúð