Utangarðs í listinni

Ein er sú tilfinning sem ég hef aldrei almennilega unnið bug á og hún fjallar um listina og það að vera listamaður. Alveg frá því ég reyndi fyrst við listagyðjuna fannst mér ég vera utangarðs, ekki mega koma inn, ekki vera hluti af þeim heimi sem listamenn höfðu tileinkað sér. Frá því ég var barn langaði mig þó alltaf mest til að skrifa og ég skrifaði mikið, aðallega bréf. Bréf úr sveitinni, úr vistum sem ég var send í eða í dvölum erlendis. En svo kom að því að ég vildi skrifa eitthvað annað en bréf og það fyrsta sem ég skrifaði af einhverri alvöru var leikrit, það lá vel fyrir mér.

 En einhvern veginn voru leikritin ekki nóg, mig langaði alltaf til að skrifa annars konar texta en þorði það ekki. Ég veit núna hvað fældi mig frá skrifum og get í fyrsta sinn viðurkennt það. Sem ung kona með skrifdrauma var ég einfaldlega drullu - skíthrædd við karlmennina sem skrifuðu, öll skáldin og rithöfundana sem mér fannst svo miklu æðri mér, betri og hæfileikaríkari. Fyrirmyndir mínar lýstu í flestum tilvikum karlkyns heimi eða skrifuðu með karllægu sjónarhorni.

Aðgangurinn að þessum heimi karla var mér fjarlægur og ég fann ekki heldur til mikils stuðnings úr mínu nánasta umhverfi til að skrifa. Ég hef því verið frekar feimin við að kalla mig listamann, þótt ég hafi unnið stóran hluta lífs míns við sviðslistir, hvað þá rithöfund, þótt ég hafi skrifað nokkrar bækur. Ein af þeim kom út á dögunum í Bandaríkjunum og þar er ég allt í einu orðin ljóðskáld. Það var nú það síðasta sem ég gat hugsað mér að kalla mig, bara orðið sjálft virkar fráhrindandi svona eins og orðið leikskáld. Það er einhver tilgerð í þessum orðum sem ég hef átt erfitt með.

Í þessari bók sem er gefin út í afar takmörkuðu upplagi hefur bandarískur listfræðingur að nafni Sheldon Hurst ritstýrt útgáfu á myndlist eftir utangarðs listamanninn Jóhann Vilhjálmsson en hann hefur á undanförnum árum sérhæft sig í að gera blekpennateikningar sem falla undir skilgreininguna ,,asemic art“ sem mætti kalla óhlutbundna túlkunarlist, þ.e. sá sem horfir á verk Jóhanns getur sjálfur spáð í hvað þau merkja þótt hann sjálfur hafi ákveða markmið í huga þegar hann teiknar.

Þessi tegund myndlistar er skyld því sem hefur verið kallað ,,asemic writing“ og finna má í ýmiss konar helgilist um allan heim. Þetta er órætt munstur eða ósjálfrátt letur sem minnir á texta eða skrift. Lesandinn eða viðtakandinn verður þó sjálfur að leggja merkingu í skriftina og njóta listarinnar á sinn hátt. Málið er að listsköpun er ein af bestu aðferðum í heimi til þess að tjá það sem ekki er hægt að skilja. Þótt skilningskrafan sé afar ríkur þáttur í mannseðlinu er það því miður þannig að aldrei verður hægt að skilja eða skýra öll fyrirbæri tilvistar okkar.

En það er hægt að gera ýmsar uppgötvanir og það gerði Sheldon Hurst þegar hann fann listina hans Jóhanns sem flokka má sem utangarðs eða útlagalist að því leyti að Jóhann er ekki einn af myndlistarelítunni íslensku. Hann er ekki menntaður myndlistarmaður, hann er menntaður pípulagningamaður.

Nú fer þetta allt að hljóma svo abúrd að enginn trúir mér lengur. Ég gæti verið að ljúga en sannleikurinn er sá að við Jóhann kynntumst fyrir rúmlega 35 árum þegar skólplagnirnar í húsinu hjá mér brustu. Hann kom á vettvang frá tryggingarfélaginu ásamt sínu liði og hófst handa við að brjóta sér leið niður í húsgrunninn til að skipta út gömlum skólplögnum fyrir nýjar. Það tók nokkra daga og atgangurinn var mikill í anddyrinu þar sem opið sárið í húsgrunninum blasti við þegar gengið var inn í húsið með tilheyrandi steinhnullungum, steypu og ryki.

Jóhann og hans lið voru drullugir upp fyrir haus en það kom ekki í veg fyrir að ég bauð þeim í kaffi og vínarbrauð, vorkenndi þeim iðnaðarmönnunum sem hömuðust og svitnuðu við að koma húsinu í lag. Í þessum drekkutímum kynntist ég Jóhanni sem eftir það gekk alltaf undir nafninu Jói píp og reddaði mér í pípulagninganeyð og síðar meir vinkonum mínum líka.  

Það kom fljótt í ljós að Jói píp var áhugamaður um bókmenntir, hann las mikið, var alinn upp á menningarheimili, langaði bæði til að skrifa en ekki síst til að stunda myndlist sem hann og gerði í hjáverkum. Í myndlistarskóla fór hann þó aldrei af því það var ekki arðbært sagði faðir hans.

 Það tók nokkur ár að fá að líta verk hans augum, hann var með þau í felum svona eins og margar konur sem eru gjarnan með verk sín í felum fram eftir öllu. Jóhann var kominn yfir sextugt þegar hann byrjaði fyrir alvöru að helga listinni krafta sína. Hann gerði það þegar hann var búinn að sprengja sig á pípulögnunum og eiginlega missa heilsuna. En nú situr hann við öllum stundum og má engan tíma missa. Hann á eftir að gera svo mikið.

Fyrir rúmu ári bað hann mig um að vinna að ljóðaþættinum í áðurnefndri bók sem heitir  Etudes on Solitude, en hún samanstendur annars vegar af verkum sem Jóhann gerði í einangrun kófsins og tvímála ljóðabálknum mínum DÁDÝRAVEIÐAR og dádýraveiðar.

Þegar ekki var hægt að hitta nokkra lifandi sálu í óratíma, varð grænn garðurinn í hinu landinu mínu eina athvarfið og allt sem fyrir augu bar þegar horft var nákvæmlega á lífið þar dag eftir dag. Allt stórt, allt smátt, allt greinilegt og ógreinilegt tók á sig mynd með orðum sem túlka má á ýmsa vegu eins og verk Jóhanns.

Ég veit ekki enn hvort ég get kallað mig ljóðskáld en eitt veit ég fyrir víst. Ég get ekki lifað án þes að skapa. Sköpunin getur tekið á sig ýmsar myndir og hún verður aldrei öllum að skapi. Aðalatriðið er að ég hræðist engan lengur. Ég er frjáls. Ég get kallað mig það sem ég vil.

 

Previous
Previous

Brjóst og blygðun

Next
Next

Mynd af Þjóðleikhúsinu