Við búum öll á Brimhólum

Það er mikið talað um snilld og meistaraverk þessa dagana í tengslum við jólabókaflóðið. Svo sem ekkert nýtt, þetta tal endurtekur sig á hverju ári í nóvember þegar umsagnir og dómar um nýjar bækur streyma inn í fjölmiðla og alls konar bloggsíður um bókmenntir á samfélagsmiðlum. Flestir höfundar verða þá að snillingum og meisturum. En menn eru þó ekki endilega sammála um merkingu þessara orða þegar á reynir.

Hallgrímur Helgason rithöfundur fékk aldeilis að kenna á því að dögunum þegar hann stakk sig óvart á Kaktusnum sem er bloggsíða um bókmenntir og bókaútgáfu. Honum varð nefnilega á að kalla nýjustu bók Guðna Elíssonar, Brimhólar, meistaraverk. Kaktusinn gat ekki tekið mark á því, Hallgrímur hafði líka kallað ljóðabók Bubba Morthens meistaraverk. Kaktusinn hafði lesið bók Bubba og varð fyrir vonbrigðum með hana og gat alls ekki flokkað hana sem meistaraverk.

Kaktusinn var þó ekki búinn að lesa meistaraverk Guðna sem hann kallar háðulega bókmenntaprófessorinn (sem minnir mig á það þegar vinir gamals kærasta spurðu hann frétta af mér en gátu alls ekki nefnt nafn mitt og kölluðu mig því leikstjórann). Ég er hinsvegar búin að lesa Brimhóla eftir Guðna Elísson og langar til að segja Kaktusnum hvað mér fannst um hana. Já og kannski fleirum, að minnsta kosti þeim sem eru að velta fyrir sér merkingu orðsins meistaraverk.

 Eins og Kaktusinn frétti ég að Guðni væri að skrifa ástarsögu þótt ég hafi nú ekki skrifað honum bréf í því sambandi og spurst frétta af innihaldinu löngu áður en bókin kom út. En bara tegundarheitið ástarsaga vakti auðvitað forvitni mína og ég hugsaði með mér að það gæti nú ekki verið nein venjuleg ástarsaga af því Guðni er nú enginn venjulegur meistari og hlýtur því að skrifa óvenjulega ástarsögu. En hvað er þá venjuleg ástarsaga? Jú, hún fjallar yfirleitt um ást í meinum milli karls og konu eða tveggja einstaklinga sem ná ekki saman af því örlögin haga því þannig að aðrar manneskjur eða úthöfin skilja þau að eða jafnvel óútreiknanlegur dauðinn.  

En auðvitað er ástin miklu meira en ástarsorg og dauði, hún er leit að merkingu og skilningi eins ástarsagan Brimhólar vitnar um. Þar eru tveir einstaklingar sem tengjast fyrst og fremst í gegnum skáldskap sem er ekkert venjulegur. Og hann er ekki íslenskur heldur pólskur og í gegnum hann endurspeglast þjóðirnar tvær sem búa í þessu landi sem kalla má Brimhóla. Því bæði hér og í skáldsögunni næðir um manneskjurnar, brimið skellur á þeim eins og á ströndum eyjunnar í norðri. Og brimið nær langt inn í sálir þeirra og brýtur þar allt og bramlar alveg eins og hjá mörgum sem hafa glímt við tilveruna og ástina.

Mér varð að orði í gær að skáldskapur væri ekkert annað en einn allsherjar aðdáendaspuni eða fanfiction um lífið, dulkóðuð skilaboð um það sem gleður okkur eða hryggir, hugsanir og tilfinningar sem ekki fá útrás annars staðar en í skáldskapnum. Þeir sem hrífast af lífinu en sjá um leið alla vankanta þess og móthverfur, finna oft þörf til að tjá sig um þessar mótsagnir allar með skáldskap. Og Pólverjar eru sterkir á því sviði eins og allir vita sem þekkja til ljóðskálda eins og Zbigniew Herbert, Czeslaw Milosz og Wislövu Szymborsku.

Í téðu meistaraverki Guðna, leggur hann út af og vitnar í nokkur ljóð þessara skálda til þess að segja okkur þessa mögnuðu og harmrænu ástarsögu. Hann notar pólskan skáldskap til að varpa ljósi ekki bara á ástarsamband áðurnefndra einstaklinga, hugsanir þeirra og tilfinningar, heldur til að lýsa mismunun og misnotkun í íslensku samfélagi á okkar dögum, næstum óbrúanlegu bili milli þeirra sem eiga og eiga ekki, milli innfæddra og innflytjenda og grimmilegum afleiðingum þess.  

Gömul vinkona mín er að læra pólsku í háskólanum og allir spyrja um ástæðu. Það er eins og fólk átti sig ekki á að Pólverjar eru langfjölmennasti hópur innflytjenda á Íslandi. Þeir halda þjóðfélaginu gangandi, þeir eru aðalvinnuaflið hér á úthafsverstöðinni Brimhólum, þeir verka fiskinn, byggja húsin, þjóna og þrífa eftir okkur og ferðamennina en eru líka skáld sem skrifa meira segja á íslensku, eru listamenn og hugsuðir.

Mér varð strax hugsað til vinkonu minnar þegar ég frétti af bók Guðna, hún yrði að lesa hana af því hún stendur í nýju ástarsambandi við pólska tungumálið. Og það sama er uppi á teningnum hjá Guðna, þar byggir ástarsagan á sameiginlegum áhuga aðalpersónanna á tungumáli og skáldskap. Ef til vill er skáldskapurinn ein besta leiðin til að miðla og lýsa þeim flóknu þráðum sem líf okkar og ást er ofin úr.

 Ég ætla að taka undir með Hallgrími Helgasyni og segja, Brimhólar er ósvikið meistaraverk sem hreyfði við mér og kom verulega á óvart. Það stakk mig þó ekki eins og kaktus, nálar þess ristu miklu dýpra. Ég á enn eftir að lesa ljóðin hans Bubba og get því ekki tjáð mig um þau og ég á líka eftir að lesa fleiri meistaraverk sem eru að koma út þessa dagana. Ástæðan er einföld, ég hef verið önnum kafin við að flytja frá þessum Brimhólum.

 

 

Previous
Previous

Fley og fagrar árar

Next
Next

Heimskautaverur