Heimskautaverur

Alveg er það dæmigert á bíllausum degi að einmitt þá geti ég ekki án bíls verið. Blessuð gamla Yaris druslan min sem hefur þjónað mér á malbikinu og upp um fjöll og firnindi undanfarin sextán ár. Stundum höfum við báðar haldið að hún væri jeppi ekki síst eftir að  hún druslaðist alla leið austur á Font á Langanesi. En nú fer hún brátt að syngja sitt síðasta segja mér mætir menn á alvöru bílum, brátt verður hún öll.

Annars hef ég ekki þurft á henni að halda hér í borginni vikum saman heldur tekið strætó og notið þess í botn að fylgjast með mannlífinu um borð. Í strætó er nefnilega hægt að sópa upp samtölum „plebejanna“ eins og þekktur leikritahöfundur orðaði það einu sinni. Plebejarnir eru sá hluti hluti almennings sem ferðast eingöngu með strætó, fólkið sem ekki á bíla, fólkið sem lærir að nota strætó með góðum árangri.

 Samkvæmt minni mannfræðistúdíu eru notendur strætó mestmegnis útlendingar bæði innflytjendur og ferðamenn, flóttamenn og erlent vinnuafl, eldri borgarar á göngugrind, öryrkjar, börn og unglingar og svona heimskona eins og ég eða á ég kannski að segja heimskautakona. En ég hef líka séð unga feður með börnin, skvísur á leið á djammið og alls kyns vesalinga og furðufugla um borð. Í reynd er hægt að sjá stóran hluta mannlífsflórunnar í strætó nema Sjálfstæðismenn og þá sem vilja Dag feigan.

 Því miður hafa almenningssamgöngur ekki átt upp á pallborðið hjá Íslendingum eins dásamlegar og þær eru. Kapítalistunum og aðdáendum ameríska lífsstílsins tókst að koma því þannig fyrir að allir yrðu að eiga bíl. Allt skipulag búsetu og fólksflutninga miðast því við einkabílinn með tilheyrandi tráfíkjustöppum og mengun. Nú er svo komið að vegakerfið ber ekki lengur bílaþungann og það verður bæði dýrt og flókið að byggja fleiri umferðarmannvirki. Snobbið fyrir einkabílnum er landlægt og lífseigt fyrirbæri.

Fyrri skömmu var mér boðið í sumarbústað í Kjósinni og hætti mér út í eftirmiðdagsumferðina á föstudegi á druslunni minni góðu. Það tók mig klukkutíma að komast úr austurbæ Reykjavíkur í gegnum Mosfellsbæ og út á þjóðveginn upp í Kjós. Stemningin í bílabiðröðinni minnti helst á framtíðartrylli og ég prísaði mig sæla að þurfa ekki að standa í þessu bílablæti á hverjum degi eins og stór hluti fólks neyðist til eða neyðir sig til, hvað veit ég?  

 Reynsla mín af vítahringnum á malbikinu barst í tal þegar þegar ég hitti listamennina Hrafnkel Sigurðsson, Óskar Jónasson og Stefán Jónsson sem nýlega stóðu að stórkostlegri ljósmyndasýningu á Hafnartorgi, Arctic Creatures eða Heimskautaverur. Ég rétt náði í skottið á sýningunni áður en henni lauk nú í byrjun hausts. Ég hef reyndar fylgst með þeim á Facebook undanfarin sumur þar sem þeir birtu fyrstu ljósmyndaraðirnar frá ferðum sínum á Hornstrandir og satt best að segja kolféll ég fyrir þeim, hvílíkt hugmyndaflug.

 Myndirnar eru einhvers konar performans eða gjörningur, listamennirnir stilla sér upp í senur sem allar hafa einhverja skírskotun í menningu og sögu mannkyns allt frá fornöld og fram á okkar daga. En það sem gerir ljósmyndirnar að einstökum listaverkum með dýpri og mikilvægari merkingu en hægt er að skynja við fyrsta tillit, eru tengslin við umræðuna um lofslagsvá og hamfarahlýnun.

 Listamennirnir búa til gervi og múnderingu úr ýmiss konar úrgangi og drasli sem flotið hefur upp á strendur landsins, drasli úr gerviefnum eins og harðplasti og næloni. Í bland við draslið notast þeir við sprek af reka, harðgerðar jurtir eins og hvönn, fjöruþang og annað sem finna má í „óspilltri“ náttúru landsins. Með þessu sjónarspili sem er bæði frumlegt og litríkt tekst  þeim að minna á tillitslausa umgengni við náttúruna, virðingarleysi og græðgi, sóðalega mengun hafs og jarðar. Til verður nýtt sjónarhorn á umræðuna um hamfarahlýnun, orkuskipti og kolefnajöfnun þar sem hugmyndaauðgi og kímnigáfa leika stór hlutverk á sjónrænan hátt.

 Í Svíþjóð þar sem Greta Thunberg hefur opnað augu marga um loftslagsvána, eru sumir ekki  aðeins orðnir þreyttir á heimsendaumræðunni heldur beinlínis haldnir lamandi kvíða og framtíðarangist. Ungt fólk sér ekki lengur tilganginn í að stofna fjölskyldu og eignast börn eða yfirleitt að vera „nýtir þjóðfélagsþegnar,“ hvað sem það þýðir nú, það er hvort eð er vita vonlaust. Það er engin framtíð. Með stanslausri áherslu á hættuna sem stafar af hamfarahlýnun er auðveldlega hægt að drepa fólk áður heimurinn ferst og þá einna helst úr leiðindum eða að minnsta kosti úr þunglyndi og aðgerðaleysi.

 Einn af listamönnunum á Hafnartorgi hafði orð á að mörgum Íslendingum fyndist púkó að ferðast með strætó, þess vegna taka þeir oftast einkabílinn framyfir og skutlast á honum í öll sín erindi. Skutl er reyndar orðin að þjóðaríþrótt Íslendinga. Strætó er fundið flest til foráttu, hann gengur ekki nógu oft, kemur aldrei á réttum tíma, það er tafsamt að komast milli hverfa og leiðinlegt að bíða. Ef til vill er betra að bíða í bílabiðröðinni, þar er aðeins hlýrra. Við erum heimskautaverur og það er oft kalt í biðskýlunum, þess vegna er mikilvægt að kunna að klæða sig eftir veðri. En hver nennir að bíða eftir strætó eins og rúllupylsuhlussa þegar einkabíllinn stendur í hlaðinu? Ekki ég, ekki þú. Hver þá?

  Getum við snúið þróuninni við og endurheimt jörðina? Hvaða aðferðum er best að beita til að opna augu fólks, breyta hugarfari og lífsstíl? Líma sig við malbikið á fjölförnum leiðum eins og unga fólkið gerir nú í borgum Þýskalands til að vekja athygli á loftslagsvánni. Eða nota listina og kímnigáfuna eins og listamennirnir á Hafnartorgi? Kannski er best að gera eins og Gandhi lagði til á sínum tíma, að byrja á sjálfum sér, ef við getum breytt sjálfum okkur, breytist heimurinn um leið. Annars verðum við brátt öll.

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 

 

 

 

  

Previous
Previous

Við búum öll á Brimhólum

Next
Next

Sorgardagar