Samtíminn á leiksviðinu

Í dag eru nákvæmlega 2067 ár síðan Júlíus Sesar, einvaldur í Róm á sínum tíma, var veginn af nokkrum samsærismönnum í Pompejus leikhúsinu í nágrenni við Campo diei Fiori torgið í miðborginni. Einn besti vinur hans Brútus var þar í forvígi eins og allir vita, en lokaorð Sesars á dauðastundinni: Et tu, Brute (og þú líka Brútus) eru líklega þekktust af leikriti Shakespeares Júlíus Sesar.

Leikritið Júlíus Sesar er mannmargt karlaverk um valdagræðgi og valdarán, Júlíus Sesar er myrtur inni í miðju verki og þar með er verkinu eiginlega lokið, að minnsta kosti ódæðisverkinu sjálfu. Seinni hluti verksins fjallar um eftirmálana þegar samsærismennirnir eru eltir uppi af erfingjum Sesars, þeim Markúsi Antoni og Oktavíusi.

Það segir sig sjálft að það getur ekki verið áhlaupaverk að koma verkinu til skila á leiksviði fyrir nútímaáhorfendur, verki sem skrifað er í lok sextándu aldar undir ógnarstjórn Elísabetar fyrstu og látið gerast í Rómaveldi skömmu fyrir daga Krists. Það þarf að minnsta kosti að viðhafa einhverjar dramatúrgískar brellur, fækka persónum eða slá þeim saman, stytta og fella burtu einhvern hluta textans og síðast en ekki síst taka ákvörðun um erindið, hvernig best sé að bera þessi ósköp á borð svo skiljanlegt sé í okkar samtíma.

 Verkið er þegar betur er að gáð auðvitað pólitískur þriller af bestu sort þar sem allir svíkja alla svona eins og gengur og gerist í stjórnmálum heimsins, ekki aðeins í fornöldinni heldur bæði nú og ekki síst á Elísabetartímanum. Slík svik geta ekki endað öðruvísi en allir drepi alla líka eða þar til nýir valdhafar ná ríki og þjóð undir sig. Þótt verkið sé ekki beint árennilegt í sviðsetningu formsins vegna, er texti þess í fullu gildi, einkum innra stríð persónanna, tilvistarlegar pælingar og efasemdir um ásetning og gjörðir. Í eintölum og ræðum persónanna birtist okkur innsæi skáldsins, dæmalaus mannþekking og afhjúpandi tungutak oft falið með íróníu eins og í frægri ræðu Markúsar Antons yfir líki Sesars.

Ég hafði aldrei séð uppsetningu á Júlíusi Sesar og varla lesið leikritið fyrr en um síðustu helgi þegar ég fékk gullið tækifæri til að sjá alveg splunkunýja uppsetningu á því hér í Borgarleikhúsinu í Uppsölum. Leikhúsið er fyrsta flokks, hefur á að skipa úrvals leikurum og sviðslistamönnum, er nútímalegt og með allt á hreinu, menningarnámið líka. Júlíusi Sesari er bókstaflega breytt í spennutrylli á leiksviðinu, sem minnti helst á sjónvarpsseríu á streymisveitu enda býður formið upp á slíka meðhöndlun.

Höfuðpaurarnir Brútus og Kassíus eru útpældir plottarar, svona eins og ýmsir stjórnmálamenn heimsins af verri gerðinni, jakkafataklæddir og vopnaðir byssum. Blóðið sprautast og flýtur um sviðið þegar samsærismennirnir láta skotin dynja á Sesar en NB, hér er einn þeirra, Kaska, leikinn af konu - þó það nú væri í þessum karlasæg. Aðrar konur sem koma við sögu eru eiginkonur Sesars og Brútusar þær Kalpúrnía og Portia, leikurinn berst inn á heimili hjónanna þar sem einkalífið er til skoðunar, því auðvitað stendur ástalífi og hjónabandi hætta af valdabrölti karlanna.

Leikstjóri verksins er aðeins 35 ára gamall og nógu djarfur og hugmyndaríkur til að taka verkið föstum tökum og gera nauðsynlegar dramatúrgísku breytingar til að þjóna hugmynd sinni og sýn. Hann lætur tvo myndatökumenn fylgja leikurum inn í allar senur þess hvort sem þær gerast fyrir augum áhorfenda eða baksviðs. Leiknum er síðan varpað upp á þrjá stóra skjái, áhorfandinn sér hin ýmsu rými í leikmynd sem minnir á kvikmyndastúdíó og getur látið augun flakka milli sviðs og kvikmyndar.

Og leikrýmin eru margskonar, allt frá opinni götu og torgum þar sem lýðurinn fagnar Júlíus Sesari sem nýjum leiðtoga til svefnherbergis í hýbýlum hans. Margar aðrar vistarverur rúmast á sviðinu, fundarherbergi í þinghúsinu þar sem Sesar er myrtur, almenningssalerni þar sem samsærismenn reyna að komast undan hefndum erfingjanna.

Með nærmyndatökum er hægt að fylgjast með leikurum flytja eintöl sín og tveggja manna tal, skynja öfund og afbrýði persónanna, sjá kvíða og spennu í andlitum, augnaráði og öllu látbragði. Hljóðnemar eru ekki faldir heldur sjást vel á vanga leikaranna. Það gerir þeim fært að flytja magnaðan textann af enn meiri nákvæmni og þyngd. Við erum þrátt fyrir allt stödd í leikhúsi. Aðferðin fer að minna á framandgervingu í anda Brechts. Jafnvel regnið í verkinu er sviðsett fyrir framan augu okkar og látið leika sjálft sig.

Textinn er byggður á tveimur sænskum þýðingum og fær að halda sér aðalatriðum en leikstjórinn er líka skrifaður fyrir verkinu enda matreiðir hann það ofan í áhorfendur. Önnur Shakespearesýning, Ofviðrið, er núna á fjölunum á Dramaten í Stokkhólmi og þar er það sama upp á teningnum. Leikstjórinn hefur skapað nýtt verk upp úr verkinu með nýrri og gagnrýnni nálgun á textann í ljósi kynþáttafordóma sem í honum birtast. Sú spurning vaknar óneitanlega hjá ýmsum hvort þetta sé ekki full langt gengið, að „betrumbæta“ verk skáldjöfursins?

Svarið við þeirri spurningu er einfalt. Sérhver hugsandi sviðslistamaður veit að ekki þýðir að bjóða áhorfendum í dag upp á úreltar og vanhugsaðar leiksýningar úr klassíkinni, jafnvel þótt höfundurinn sé „snillingur.“ Bestu leikstjórar heimsins hafa eitthvað fram að færa með sínum uppfærslum, af því þeir eru vel læsir á efniviðinn. Þannig opnast ótal möguleikar til túlkunar allt eftir ástandi heimsins hverju sinni. Brútus og hans lið er út um allt á öllum tímum.

Það er fyrst og fremst sýn leikstjórans sem skiptir máli við sviðsetningu á klassíkinni, hann er líka höfundur og sú sýn sprettur upp úr textanum en ER ekki textinn. Textinn er alltaf til á bók sem bíður þess að verða að nýjum texta á leiksviðinu. Þess vegna er alltaf gaman að sjá klassíkina á leiksviði, sérstaklega þegar frumleg nálgun og skapandi hugsun haldast í hendur eins og gerðist í þessari blóðugu uppfærslu á Júlíus Sesar 2067 árum eftir dauða hans.

 

       

  

 

Previous
Previous

Óvenjulegur höfuðverkur

Next
Next

Fyrir alla muni