Óvenjulegur höfuðverkur

 Það hefur tekið á að flytja til annars lands og koma sér fyrir og þess vegna þarf ég stundum á slökun að halda. Hana fæ ég í faðmi kærastans þegar ég fer til hans í hvíldarinnlögn en hann býr í Hveragerðisfjarlægð frá mér. En ég fæ hana líka í faðmi náttúrunnar sem umlykur litla þorpið hans.

Það er alltaf heilnæmt að hitta skóginn aftur, heilsa upp á vorið og finna ilminn af greninu. Heilnæmt fyrir sál og líkama. Undanfarið hef ég nefnilega fundið fyrir óvenjulegum höfuðverk sem ætlar ekki að hverfa þrátt fyrir ýmsar aðgerðir af minni hálfu.  

Heilsugæslan er í göngufjarlægð frá nýju heimkynnum mínum í borginni og þar er ég búin að hitta minn nýja heimilislækni, unga, kínverska konu sem tók afar vel á móti mér. Hún hlustaði á mig - og hlustaði mig, sagði að hjartahljóðin væru falleg, að lungun væru  sömuleiðis með skýran og hreinan tón, blóðþrýstingur í lagi en stðafesti smáhækkun í neðri mörkum eftir þrjár mælingar. Lét mig síðan leggjast á bekk og kannaði alla reflexa, sló létt á liði og bankaði af kurteisi, aðeins til að fullvissa mig um að ekkert væri að mér. Lét mig svo gera jafnvægisæfingar til að ganga úr skugga um að enginn tappi væri á leiðinni, æðaþrenging eða heilablæðing. Sumsé, engin aldurstengd hnignunarmerki.

 Ég er pínu hysterísk, viðurkenni ég, má ekki fá höfuðverk án þess að halda að ég sé að fá heilablóðfall. Skammast mín fyrir að vera svona ótrúlega ímyndunarveik - en helvítis höfuðverkurinn er samt ekk farinn. Geta þetta verið augun, er ég með vitlaus gleraugu, ský á auga, of háan þrýsting í glerhlaupinu? Eða er þetta bara flutningastreita?

Eða eru þetta hormónarnir sem ég hef étið síðan allt var rifið úr mér, á ég kannski að hætta á þeim? Einu lyfin sem ég tek. Nei, sú kínverska vill ekki að ég hætti á þeim enda væri það katastrófa, ég færi á breytingaskeiðið og yrði bandbrjáluð og þyrfti móteitur. Eftir að allsherjarrannsókn lýkur kveð ég þá kínversku sem vill senda mig heim með blóðþrýstingsmæli svo hægt sé að fylgjast með þróuninni í neðri og efri mörkum.

Ég vona að hún verði áfram heimiislæknirinn minn, þoli illa að þurfa hitta nýjan lækni í hvert sinn sem ég fer á heilsugæsluna. Er ekki enn búin að jafna mig eftir að íslenski heimilislæknirinn minn fór á eftirlaun fyrir nokkrum árum, hringi meira að segja stundum í hann enn ef mikið liggur við. Þá er hann kannski með konunni í sumarbústað eða á sólarströnd í Florida. En hann tekur mér vel enda vorum við saman í meira en 35 ár, eitt lengsta samband sem ég hef átt við nokkra manneskju. Hann vissi allt um mig, bókstaflega allt. Nema náttúrulega þetta sem enginn veit, hvenær mun ég deyja?

Jæja, en ég er nú ekkert að fara að deyja þótt ég sé með þennan leiðinda hausverk. Um að gera að fara bara út að ganga, hreyfa sig og hreyfa, láta símann telja kílómetra og skref, borða hollt, sofa vel, kyssa kærastann oft og mikið. En djöfullinn sjálfur, hann er þarna ennþá höfuðverkurinn. Allt í lagi, best að fara í bíó, þá hverfur hann örugglega. Og já, hann gerir það, sérstaklega þegar ég sé langar myndir sem krefjast þess af mér að ég einbeiti mér.

Nýlega sá ég Guðsvolaða land sem var úthald og Banshees of Inisherin sem var samskonar úthald. Í báðum kvikmyndum eru aðalátökin milli tveggja karlmanna sem ekki ná saman enda er fátt talað í fyrri myndinni sem er íslensk. Í þau fáu skipti sem talað er, koma tunugmálaörðugleikar þó í veg fyrir að farið sé á djúpið. Í stað orðanna er náttúran látin tala og sýna okkur samband karlanna sem líklega á að endurspegla aðra og stærri sögu af átökum Íslendinga og Dana á nýlendutíma þeirra.

Í seinni myndinni, sem gerist á Írlandi, er aðaldriffjöðurin aftur á móti samtalið sem þagnar skyndilega eftir áralangt samband tveggja vina. Annar vinurinn segir hinum upp, hefur fengið nóg af honum eða öllu heldur, fær ekkert meira út úr samræðum við hann þar sem þeir eru ekki jafningjar þegar kemur að gáfnafari og menntun. Í kjölfarið fylgir miskunnarleysi og grimmd af sérstakri sort sem minnir helst á fornsögurnar. Miklar pælingar sem sumir vilja heimfæra upp á samband Írlands og Englands í gegnum tíðina, pælingar sem sumir fengju höfuðverk af en lækna minn.

Og ekki eru þær minni pælingarnar í sögunum af konunum í Tár og Women Talking sem eru hvor á sinn hátt ákveðið innlegg og stef við #metoo umræðuna. Cate Blanchett leikur hljómsveitarstjórann Lydiu Tár sem er á hátindi ferils síns, konu með botnlaust sjálfsálit og vald yfir sínum nánustu samstarfsmönnum en dramb er falli næst eins og Grikkirnir vissu manna best í fornöldinni. Fall Lydiu Tár er meira en umhugsunarvert og getur valdið hausverki ekki síst í allri umræðunni um slaufunarmenningu og góða listamenn sem eru vondar manneskjur.

Ef land og náttúra léku aðalhlutverkin í Guðsvolaða land, leikur samtalið, rökræðan og kynjapólitíkin stærsta hlutverkið í Women Talking sem er líkari samræðudramatík en kvikmynd. Engu að síður, úthugsaðar pælingar um kynbundið ofbeldi, aðgerðir gegn því og síðast en ekki síst um möguleikann á fyrirgefningu. Íslandskonan gleðst jafnframt yfir því að sitja í bíó í útlöndum og sjá nafn Hildar Guðnadóttur birtast á kreditlista beggja mynda um konur.  

Í hvíldarinnlögninni í sófanum hjá kæró, horfi ég svo á Clint Eastwood í Spaghetti vestrunum frægu eftir Sergio Leone með frægu tónistinni hans Ennio Morricone og hlæ mig máttlausa af machokúltúrnum sem er auðvitað fyrsta flokks skemmtun fyrir margreyndan feminista eins og mig. Mikið assgoti er hann Eastwood annars sexí í ponsjóinu og kábojskónum. Svei mér þá, hausverkurinn hverfur alveg við að horfa á hann. En ætli sé samt ekki best að taka blóðþrýstinginn. 

       

  

 

Previous
Previous

Hreinsun

Next
Next

Samtíminn á leiksviðinu