Áhrifavaldur fellur frá

   Best að viðurkenna það strax. Fáir rithöfundar hafa haft jafnmikil áhrif á mig og Guðbergur Bergsson. Ég var bara 14 ára þegar ég heyrði hann fyrst nefndan. Það voru jól og mamma og pabbi voru að lesa Ástir samlyndra hjóna sem þá var nýkomin út og hlógu upphátt. Hvílíkur titill á einni bók. Hvað var svona fyndið við þennan höfund? Ég varð að komast að því.

Á menntaskóla- og háskólaárunum féll ég algerlega fyrir Guðbergi. Fyrst voru það auðvitað Tangasögurnar óborganlegu sem við vinkonurnar lásum upphátt fyrir hvor aðra í kommúnu vestur í bæ og kútveltumst af hlátri. Við höfðum aldrei lesið og heyrt aðrar eins lýsingar úr íslenskum samtíma. Í einni þeirra var lýsing á fiskvinnslustúlkunum á Suðurnesjum sem pökkuðu þorskblokkum í smjörpappír sem fóru frystar á Ameríkumarkað.

Þær skrifuðu stundum skilaboð á ensku á smjörpappírinn, gáfu upp nafn og heimilisfang og vonuðust auðvitað til að einhver ríkur Kani myndi bjarga þeim úr þessu vesældarlífi uppi á Íslandi. Var þetta ekki bara ein af þessum lygum sem rithöfundar skálda upp til að krydda sögur sínar? Ó, nei, ég fékk sönnun þess að svo var ekki þegar kærasti, sem steikti þorsk á veitingahúsi, fann skilaboð frá einhverri Möggunni í einni þorskblokkinni, reif þau af smjörpappírnum og sýndi mér.  

Guðbergur var því ekki að ljúga upp á íslenskar fiskvinnslustúlkur, þær dreymdi um betra líf eins og þjóðina alla eftir hernámið i seinni heimsstyrjöldinni. Já, þau miklu siðaskipti sem urðu hjá íslenskri þjóð og samfélagi eins og Páll Baldvin Baldvinsson orðaði það við útkomu bókar sinnar Stríðsárin. Um þessi siðaskipti var Guðbergur alla tíð að skrifa, ástandið sem skapaðist eftir stríðsárin í vanþróuðu samfélagi Íslendinga. Ástand sem ríkir enn í dag, hin óseðjandi þrá eftir að ameríski draumurinn rætist, að verða frekar að ríkum Kana en siðmenntuðum Skandínava.

Eftir Tangasögurnar komu skáldsögur eins og Hjartað býr enn í helli sínum og Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma sem ég las mér til ánægju og skemmtunar og inn á milli þeirra Svanurinn sem var allt annars eðlis og hitti mig beint í hjartastað, varð uppáhaldsbók. Líklega var ástæðan sú að sagan er sögð út frá sjónarhorni stelpu sem er send í sveit og sér tilveruna í dreifbýlinu með framandi augum.

En auðvitað var Guðbergur umdeildur og ekki af ástæðulausu. Allir sem ekki feta hefðbundnar slóðir í samfélagi manna verða umdeildir. Guðbergur leyfði sér að segja margt og misgott sem fór í taugarnar á mörgun, ekki síst konum. Hann gerði  lítið úr þeim, bæði í pólitík og listum, kallaði listsköpun þeirra föndur og dútl og hafði ekki mikið álit á okkur sem vorum að brölta þetta í feminismanum með kvennaframboðum á níunda áratugnum.

Og í pistlum sínum hreytti hann stundum ónotum og skít í aðra stóra listamenn og kollega sína í rithöfundastétt eins og Halldór Laxness og síðar meir algerum óþverra í Hallgrím Helgason. Hann vildi auðvitað vera aðalhaninn á rithöfundahaugnum, stærstur og mestur, þess vegna leyfði hann sér að vera með þessi ónot.

Mér líkaði aldrei þegar þessi gállinn var á Guðbergi, hann gat verið mjög andstyggilegur og meiðandi. Smám saman missti hann svo marks í samtímaumræðunni og áhuginn á honum minnkaði. Það breytir því þó ekki að hann var stórkostlegur höfundur þegar hann var upp á sitt besta og algerlega sér á parti í höfundaflórunni.

Ég hitti Guðberg í fyrsta sinn í kringum 1975 þegar hann var með gjörning í SÚM við Vatnsstíg. Hann gaf ekki mikið fyrir list ungu myndlistarmannanna sem voru aðal í þá tíð.

„Hí á SÚM, þeir falla í kramið hjá miðaldra frúm“, rappaði hann. Síðar sá ég ljósmyndasýningu hans frá portúgölsku byltingunni á áttunda áratugnum í sömu húsakynnum. Við fengum einkaleiðsögn hans um sýninguna ég og vinkona mín, aðdáendur hans frá unglingsaldri.  

 Síðast sá ég Guðberg 2020 á Hrafnseyri við Arnarfjörð þar sem hann hélt hátíðarræðu í tilefni af þjóðhátíðardeginum. Í henni hélt hann uppteknum hætti, dró þjóð sína sundur og saman í háði, nokkuð sem aldrei yfirgaf hann. Í þetta sinn var það þríeyki Landlæknisembættisins í heimsfaraldrinum sem varð fyrir barðinu á honum.

En nú dvelur Guðbergur í „einu sígildu tungu lífsins, þeirri að vera að eilífu dáin” en þannig orðaði hann það sjálfur þegar hann minntist skáldvinkonu sinnar og skólasystur, Vilborgar Dagbjartsdóttur við andlát hennar fyrir tveimur árum. „En sál mín og okkar, sem lifum enn og söknum hennar, er „barmafull af tárum“ eins og segir í ljóði,“ sagði hann líka um Vilborgu.

Ég veit ekki hvort sál mín er barmafull af tárum núna þegar Guðbergur er allur en ég neita því ekki að hann hafði verulega mótandi áhrif á alla mína hugsun, ekki bara í bókmenntalegu tilliti heldur í þeim eilífa vanda sem það er fyrir okkur flest að vera Íslendingur.

 

    

Previous
Previous

Ástarfeimni

Next
Next

Ég er ekki normal