Ég er ekki normal

   Ég hef alltaf verið upp á karlhöndina. Eða svo segja vinkonur mínar, þær segja að ég sé meira fyrir karlmenn en konur. Og það er alveg satt, ég hef alltaf verið veik fyrir karlmönnum og er það enn, þótt það sé ekki beint í tísku hjá konum á mínum aldri og með mína fortíð. En hvernig sem á því stendur verð ég að viðurkenna að ég er gagnkynhneigð kona.

Hræðilega er þetta nú annars ljótt orð, „gagnkynhneigð“, er ekki hægt að nota eitthvað annað yfir okkur þessar eftirlegukindur sem erum ekki orðin hinsegin. Ég hef svosem aldrei verið normal ekkert frekar en normalbrauð, sem mér fannst aldrei normal. Fyrir mér var franskbrauð alltaf meira normal en normalbrauð.

En hvað um það ég ætlaði hvorki að tala um brauðsortir, né manneskjusortir, hvað þá kynhneigð, kyngervi eða kynvitund. Ég ætlaði bara að viðurkenna að ég hef alltaf verið upp á karlhöndina og laðast meira að karlmönnum en konum. Svona yfirleitt. Auðvitað hef ég oft verið skotin í konum en aldrei nógu mikið til þess að innleiða ástarsamband með þeim. En það er nú ennþá tími til þess, ég örvænti ekki.

Nú er ég komin á mjög virðulegan aldur og ætti í raun að vera hætt að pæla í svona ásta- og kynferðismálum. En nei, ég er ekki hætt því og sé mest eftir að hafa ekki lært kynfræði eins og mig langaði þegar ég var ung, þar hefði ég notið mín í botn.

En ég var víst að tala um að ég hafi alltaf verið upp á karlhöndina og áhugi minn á karlkyninu er nú þannig vaxinn að einn morgun fyrir skömmu þar sem ég lá með kærastann mér á vinstri hlið, dreymdi mig afar ljúfan draum. Á mína hægri hlið lagðist enginn annar en Mick Jagger og það var ekkert kynferðislegt við það, annað en að hann lagði höfuðið á bringuna á mér og kúrði þar ægilega ánægður með mig. Svo ljúfur, svo fallegur, nýorðinn áttræður.

Ég naut þess innilega að hafa þá báða tvo þarna með mér í rúminu og þegar Jaggerinn yfirgaf mig og ég áttaði mig á að þetta var bara draumur, varð ég pínulítið spæld. Ég sagði kærastanum að þessi áttræði karl hefði heimsótt mig í draumi og minn kippti sér svo sem ekkert upp við það, brosti pínulítið, kyssti mig og fór svo framúr að búa sér til te og rist.

Ég lá pínulítið lengur í rúminu og hugsaði um Mick Jagger, já, fékk hann pínupons á heilann.  Mér fannst Rolling Stones alltaf betri en Bítlarnir, vildi bara ekki viðurkenna það. Reyndi að bæta mér upp söknuðinn eftir Jagger með því að verða skotin í John Lennon en gaf hann samt eftir, því besta vinkonan var líka ástfangin af honum.  

Nema hvað, að þegar ég loksins kom mér framúr rúminu eftir þennan dásamlega morgun með Jagger, þá situr kærastinn við morgunverðarborðið og blastar á mig lagi allra laga: I can´t get no satisfaction alveg í takti við minn draum. Smyr svo ristaða brauðið í mestu makindum og drekkur sitt te. Það er alltaf gott þegar pör skilja þarfir hvors annars. Það þýðir ekki að vera með neina afbrýðisemi út í gamla rokkstjörnu þótt kærastan hafi haldið smá framhjá með henni í morgunsárið.

Nei, ég hef aldrei verið alveg normal og er það ekki enn, þótt ég sé gagnkynhneigð, því það er ekkert normal lengur við það að vera gagnkynhneigð kona. Verst af öllu er að hafa eytt svona mörgum árum í að leita að hinum eina rétta sem er ekki til og hefur aldrei verið til. En um þetta, um það að leita að ástinni og finna hana ekki fyrr en langt er liðið á ævina, fjallar nýja bókin mín sem er væntanleg í haust í tilefni af stórafmæli mínu. Hún er einhvers konar ástarrannsókn en um leið visst uppgjör við drusluna sem ég og fleiri konur telja sig hafa verið af því þeim tókst ekki að fóta sig í karlamálunum, ná í réttu mennina, en sváfu gjarnan hjá hinum og þessum, þó ekki alltaf þeim æskilegustu.

Ógæfa mín hefur oft falist í því að vera of mikið upp á karlhöndina, að þykja karlar merkilegri en konur, gáfaðri og betri. Líklega leifar af innrætingu úr móðurhúsum. Mamma bar takmarkalausa virðingu fyrir gáfum karla en var miklu gáfaðri en þeir sem hún bar mesta virðingu fyrir. En hún naut ekki sinna gáfna, ekki til fulls, ekkert frekar en margar aðrar konur af hennar kynslóð sem voru eingöngu upp á karlhöndina, af því það var ekki um annað ræða.

En mamma var það sem kallað var normal, svaf bara hjá einum manni um ævina, eftir því sem ég best veit og reyndi að sinna aðalhlutverki sínu sem móðir og húsmóðir. En samt var hún oft óhamingjusöm og ófullnægð, hefði þurft að hafa Mick Jagger oftar uppí rúmi hjá sér eða á fóninum. En Kinks var hennar hljómsveit, hún tók hana framyfir bæði Bítlana og Rolling Stones.

Ekki veit ég hvað það þýðir að vera normal, ég man bara þegar rætt var um konur sem voru upp á fleiri en eina karlhönd að þær voru ekki taldar alveg normal. Og ég er ein af þeim, semsagt abnormal. Það er auðvitað ekki normal að vera með Mick Jagger í rúminu komin á þennan aldur - svo ég kveiki á Spotify og set hann í eyrun á mér í staðinn, hann er betri þar: If you start me up, if you start me up, I‘ll never stop. Dansa svo eins og Jagger.

 

Meðfylgjandi mynd af Jagger er eftir Peter Lindbergh og er tekin á Fotografiska safninu í Stokkhólmi.  

 

    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Áhrifavaldur fellur frá

Next
Next

Grikklandsárin