Flugukona strákanna

Ég var ekki á Lækjartorgi á kvennafrídaginn 1975 eins og allar aðrar ungar og róttækar konur. Ég var í Alþýðuhúsinu á Siglufirði að halda ræðu. Ég var rétt að verða 22ja ára, bjó í kommúnu og var í kommúnistasamtökum. Hluti af því starfi var að taka þátt í Rauðsokkahreyfingunni þar sem kjörorðið var „Kvennabarátta er stéttabarátta.“

Feminismanum á þessum tíma var skipt upp í borgaralegan og róttækan feminisma og auðvitað var sá róttæki og byltingarkenndi miklu réttari en hinn eins og gefur að skilja. Strákarnir sem stjórnuðu kommúnistasamtökunum fannst alveg upplagt að við stelpurnar tækjum þátt í Rauðsokkahreyfingunni aðallega til að freista þess að gera konurnar þar að maóistum.

Við urðum því nokkurs konar flugukonur strákanna, áttum að bora okkur inn og breiða út fagnaðarerindið um alræði öeiganna. En það var ekki eins létt og við héldum, því flugukonur úr Fylkingunni voru á palli fyrir og þær voru trotskíistar sem var álíka slæmt og að vera borgaralegur feministi.

Ég man ekki hvort strákarnir í þeim samtökum sendu sínar konur inn til að frelsa ráðvilltu feministana í Rauðsokkahreyfingunni en ég man að það kom til átaka milli þessara tveggja hópa flugukvenna um réttasta feminisman. Pólitísk rétthugsun varð ekki til í gær. Hugsa sér hvað þetta var flókið allt og skringilegt þegar litið er tilbaka, innbyrðis smásmyglisátök um réttan skilning á feminisma. Dauðans alvara en bráðfyndið í dag.

En það er fleira sem er skringilegt þegar litið er tilbaka, þar á meðal minnið. Mér finnst ég hafa átt hugmyndina að því að kvennafrídagurinn yrði haldinn á degi Sameinuðu þjóðanna þann 24. október. Ég held líka að ég hafi búið til orðið túrhestur þegar ég var að þræla á Edduhótelunum á sumrin á menntaskólaárunum. Það var þegar Ferðaskrifstofa ríkisins átti bransann, þegar ríkið var og hét.

En það er ekki lengur hægt að treysta á ríkið, ekkert frekar en minnið og það skiptir heldur ekki máli, því það er dagurinn í dag sem er aðalatriðið. Og auðvitað er ekki hægt að efna til kvennaverkfalls á þessum degi án þess að minnast þess hvar kona var stödd þarna árið 1975. Flestar konur voru auðvitað á Lækjartorgi og götunum í kring að syngja „þori, vil ég, get ég,“ eins og alþjóð veit. Nema ég.

Strákarnir í samtökunum gerðu mig að flugukonu á Siglufirði. Þar átti ég að halda barátturæðu í Alþýðuhúsinu, því kvennafrídagurinn eins og hann hét, (það mátti ekki segja verkfall, það var of vinstrisinnað fyrir borgaralegu feministana),var líka haldinn heilagur út um allt land með tilheyrandi lúðrablæstri kvenna og öðrum skemmtiatriðum sem karlar stóðu fyrir, þar á meðal dansi, þó ekki súludansi sem ekki var búið að finna upp.

Unga flugukonan, flaug með lítilli farþegarellu til Siglufjarðar í norðanstrekkingi sem var svo mikill að flugmaðurinn ætlaði varla að hafa það af að taka beygjuna inn á Siglufjörð, slíkur var garrinn út af Skagafirði. Vélin lenti í nokkrum loftgötum á leiðinni og maginn fór upp í kok á farþegum. Nema á mér. Ég var svo mikil flugukona og kommúnisti að mér varð ekki einu sinni flökurt. En svo var nú lent og gott ef ekki var móttökusveit á vellinum til að fagna ungu konunni að sunnan.  

Samkoman byrjaði upp úr hádegi með tilheyrandi söng og gleði og svo sté sunnanstúlkan í pontu, galvösk og keik. Ég get ómögulega munað um hvað ræðan var, býst fastlega við að hún hafi fjallað um fiskverkakonur og nauðsyn þess að þær gengu til liðs við maóistahreyfinguna. Aðeins þannig sýndu þær rétta stéttarafstöðu og hina eina sönnu stéttvísi eins og það hét þá. Flugukonan sem aldrei hafði unnið í fiski og hafði því mjög loðna stéttarafstöðu, predikaði með þrumuraust yfir hausamótunum á þreyttum verkakonum og húsmæðrum á Sigló, stað sem hún þekkti ekkert til og hafði aldrei áður heimsótt.

Mig minnir að þessi ræða hafi nú ekki fallið í góðan jarðveg, það kom enginn á eftir og þakkaði mér fyrir og því var einsýnt að best væri að drífa sig sem fyrst suður aftur. En flugvélin var farin svo ekki var um annað að ræða en húkka sér far í bæinn. Ég lét þau boð út ganga að ég þyrfti helst að leggja í hann strax um kvöldið, hvort einhver vissi um far?

Það leið ekki á löngu þar til vel klæddur eldri herramaður á splunkunýjum eðalsjeppa bauð mér að sitja í með sér suður. Hann var hvorki meira né minna en þingmaður í þessu kjördæmi, að vísu fyrir Sjálfstæðisflokkinn, hafði verið á yfirreið og þurfti að mæta á fund í Valhöll snemma næsta morgun. Það kom smáhik á mig. Gat ég flugukonan ógurlega og kommúnisti í þokkabót, verið þekkt fyrir að þiggja far með jafn stækum hægrimanni? Var það ekki full borgaralegt? Sleikjuskapur við íhaldið? Stéttasvik?

En ég vildi komast heim, ekki endilega á sellufund í kommúnunni, heldur upp í rúm með kærastanum eftir allan flughrollinn og ræðu sem ekki sló í gegn. Ég gæti kannski þegið farið án þess að láta nokkurn mann vita af því að ég hefði ekið með erkióvini alþýðunnar alla þessa leið á malarvegum í myrkri og slyddu.

Það varð úr að við Eyjólfur Konráð Jónsson urðum samtalsfélagar í uppundir átta klukkustundir sem það tók að aka til Reykjavíkur. Ég man ekki hvað við töluðum um á leiðinni, kannski um kvennafrídaginn en ekki pólitík. Ég var umfram allt diplómatísk, skil ekki enn afhverju ég varð aldrei sendiherra frekar en flugukona.

Nei, ekki varð ég sendiherra og ekki var ég á Lækjartorgi á þessum degi 1975. Og ég verð ekki heldur þar í dag. Ég er á leið út á flugvöll að sækja kærastann. Ég er svo mikil karlasleikja.

 

Previous
Previous

Afmælisdiktur

Next
Next

Ástarfeimni