Afmælisdiktur

Í dag hef ég lifað í sjötíu ár. Trúi því varla sjálf en verð víst að trúa því. Á þessum degi er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að lifa öll þessi ár við tiltölulega góða heilsu eða eins og ég sagði við gamla vinkonu: Í minni fjölskyldu er ekki mikið um arfgenga sjúkdóma - ja nema helst á geði. Ætli ég þakki ekki bara fyrir það líka að hafa ekki alltaf verið alveg fullkomin á geði.

Þegar ég komst að því komin hátt á þrítugsaldur að það væri ekki í lagi að mér liði stundum herfilega illa, að kvíðinn gengi stöðugt mér við hlið, að skapið hlypi stundum með mig í gönur, þótti mér gott að geta leitað mér hjálpar. Og það hef ég gert allar götur síðan þegar ég hef ekki ráðið fram úr hlutunum, misst tökin á tilfinningalífinu, hrapað niður í dýpstu myrkur.

Þess vegna get ég nú haldið upp á sjötugsafmælið mitt tiltölulega heil á geði. Mér hefur hreinlega aldrei liðið jafnvel. Það hefur tekið mig marga áratugi að átta mig á að mér megi líða vel og þurfi ekki að þykjast vera eitthvað sem ég er ekki. Stundum held ég að það taki alla ævina til að jafna sig á að hafa fæðst.  

Ég man eftir sjö ára afmælinu mínu, þá fékk ég fyrstu alvöru bókina í afmælisgjöf frá frænkum mínum, Börnin í Ólátagarði eftir Astrid Lindgren. Ætli fyrsta ástin á Svíþjóð hafi ekki kviknað þá. Mér fannst hún Lísa eiga heima í svo skemmtilegu húsi. Þegar ég var tíu ára héldu foreldrar mínir í síðasta sinn upp á afmælið mitt. Það var pulsupartý sem þóttu mikil tíðindi.

Tvítug að aldri var ég ungur kennari austur á fjörðum og allir krakkarnir sem ég kenndi færðu mér afmælisgjafir, keramik og kertastjaka úr kaupfélaginu. Þegar ég varð þrítug bauð ég vinahópnum í heljarinnar partý í Þangbakka. Hugsa sér þar hef ég líka búið. Og guð minn góður hvað það var mikið drukkið á þeim tíma. Fertugsafmælið hélt ég á Sólon Íslandus sem var nýbúið að opna. Ljóðskáld, leikarar og trúbadorar héldu uppi fjörinu fyrir afmælisbarnið. Þá átti leikhúsið mig alla.

Á fimmtugsafmælinu hélt ég boð í Gunnarhúsi, þar kom Keikklúbburinn fram og gerði stólpagrín að mér. Keikklúbburinn var félagsskapur sex skemmtilegustu kvenna í heimi. Við kynntumst allar í Kvennaframboðinu 1982 og höfðu húmor sem ekki allir skildu en keikar vorum við engu að síður og miklar gjörningalistakonur. Á stórafmælum hver annarra færðum við afmælisbarninu svokallaða farandsgjöf, þurrkuð blóm á hraunplatta pökkuðum inn í sellófan með silkislaufu, einhvers konar borðskraut. Gott ef íslenski fáninn, var ekki á plattnum líka, ómissandi borðprýði á hverju heimili.

Þegar ég varð sextug leigði ég Tjarnarbíó og fékk stórleikkonur til að leiklesa Oníuppúr fyrir fullu húsi, sundleik eftir sjálfa mig sem aldrei var sýndur. Og núna á sjötugsafmælinu mínu gaf ég sjálfri mér bókina Einlífi, ástarrannsókn og hélt upp það í Ásmundarsal fyrir tæpum mánuði. Núna þegar ég er loksins orðin sjötug ætla ég að vera heima hjá mér en ekki að heiman. Hér verðum við samankomnar þrjár systur til að fagna hver annarri, til að fagna því að vera enn á lífi. Það hefur svosem ekkert hræðilegt drifið á daga okkar, nema þetta venjulega að hafa lifað af við ýmsar aðstæður.

Í dag er ég afar þakklát fyrir þær og öll systkini mín, að eiga þau ennþá að þrátt fyrir allt sem hefur gengið á, harmleikirnir hafa þó aldrei verið af óyfirstíganlegri stærðargráðu. Ég er líka þakklát fyrir alla góðu og tryggu vinina sem hafa sýnt mér skilning, nærgætni og síðast en ekki síst þolinmæði í öldurótinu. Og svo er ég þakklát fyrir alla kærastana, aðallega þessa góðu sem geta alveg orðið vondir - en samt aldrei jafn vondir og þeir vondu.

Einn morgun fyrir skömmu vaknaði ég við hlið elskhugans og þessi orð urðu til:

Þegar að því kemur  

þegar ljós augna minna hefur verið slökkt

vil ég að þú og aðeins þú einn

klæðir mig í kjólinn

þennan sem þú hefur svo oft klætt mig úr

flöskugræna silkináttkjólinn

sem bylgjast svo fallegaí  tunglsljósinu

en áður máttu lauga líkama minn

greiða hvítt hárið og strjúka fingri yfir kinn

leggja mig síðan í látlaust himnafarið  

varlega varlega

horfa á mig hlýjum augum

lengi lengi

láta svo lokið aftur.

Auðvitað vitum við ekkert hvenær dauðinn bankar upp á, þess vegna ber að þakka fyrir allt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða, ekki síst í listum, án þeirra hefði ég aldrei lifað af.

Eitt það mikilvægasta við að eldast, ef geðheilsan er þokkaleg, er að halda áfram að leyfa sér að hrífast, að verða fyrir áhrifum, að láta góð verk snerta sig. Þetta þrennt ætla ég að hafa í huga svo ég geti sagt ykkur á áttræðisafmælinu hvað hefur mótað mig mest þau tíu ár ævinnar sem nú fara í hönd.

Að sjálfsögðu veit ég ekki hvort ég verð á lífi þá. Dauðinn er stundum svo leiðinlega uppáþrengjandi. En takk öll fyrir að vera samtímamenn mínir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Nóbel í nánd

Next
Next

Flugukona strákanna