Nóbel í nánd

Ekki fékk ég neina tilnefningu til bókmenntaverðlauna í ár frekar en í fyrra eða hitteðfyrra eða árið þar áður. Aumingja ég, kemst aldrei á blað hjá dómnefndum, verð aldrei þýdd á erlend tungumál, get ekki montað mig af neinum viðurkenningum á sívíinu mínu, ekkert sem vert er að nefna. Minn karríer er handónýtur og nú blasir ekkert við mér annað en ellin ljót og leiðinleg.

Nokkurn veginn svona gæti mér liðið eftir allar tilnefningarnar að undanförnu. Jafnvel margviðurkenndum höfundum líður illa í hvert sinn sem þeir eru ekki tilnefndir til bókmenntaverðlauna. Það er þetta með höfnunarkenndina sem flestir listamenn þjást af meira eða minna ef þeim er ekki hampað í sífellu. Vinkonan mín orðasmiðurinn mikli bjó til orðið „hömpunarblæti“ á dögunum. Margir þjást af því heilkenni og ég ekki alltaf undanskilin.

Til að róa mig aðeins á tilnefningaleysinu kíkti ég aðeins í Hugleiðingar Markúsar Árelíusar sem ég keypti á flugvelli á dögunum. Þar segist hann hafa lært að hata allan hégóma, að trúa ekki á særingamenn, spámenn og önnur viðlíka hirðfífl, að rækta ekki smáhæsn til hanaslags en hlusta heldur á heiðarleg orð og gera heimspekina að leiðsögukonu lífs síns.  

Já, það er leiðinlegt að vera ekki tilnefndur, Aumingja ég. Auðvitað væri handhægast að draga þá ályktun að við sem ekki fáum neinar tilnefningar séum bara svona miklu verri en þeir sem eru tilnefndir. Leyfa höfnunarkenndinni að grassera, leggjast í sjálfsvorkunn og tortímandi kvíðakast.

 Nú er sjálfur Nóbel í nánd og ekki allir á eitt sáttir um gildi Jon Fosse sem hreppti verðlaunin í ár. Hann þykir enginn þungaviktarmaður í augum sumra spámanna, hann skrifar einfaldan, ljóðrænan texta og svo er hann frá Noregi sem er ekki beint uppáhaldsland hjá kúltúrfólkinu.

Ekki voru heldur allir á eitt sáttir um Annie Ernaux sem fékk Nóbelinn í fyrra, hún skrifar stuttar bækur sjálfsævisögulegs eðlis sem þykja ekki góður pappír hjá þeim sem allt vita um innsta eðli listarinnar. Margir efuðust jafnvel um að skrif hennar væru nægilega bókmenntaleg til að hljóta Nóbel enda skrifar hún bara út frá sjónarhóli kvenna og það er ekki nógu efnismikið og spennandi.

Og svo var það hann Abdulrazak Gurnah sem fékk þau í hitteðfyrra. Hann fékk þau nú bara af því röðin var komin að Afríkumanni en hann var samt ekki alveg rétti Afríkumaðurinn, þeir voru til miklu betri en hann. „Nothing to write home about,“ gæti einhver sagt. Eða hvað?

Í hverju liggur sú snilld sem vert er að veita verðlaun á bókmenntasviðinu og hver er bestur að dæma um hana? Er þetta ekki bara eins og með fegurðarsamkeppnir, hvernig er hægt að velja ungfrú Heim? Eða er þetta kannski eins og með elskhugana, er sá eini rétti endilega sá besti? Eða öfugt, er sá besti sá rétti?

Austurríski rithöfundurinn Thomas Bernhard sem var mikill óþekktarangi í bókmenntaheiminum, skrifaði bráðfyndna bók sem heitir Meine Preise og þar lýsir hann níu bókmenntaverðlaunum sem hann hlaut um ævina og öllum skandölunum kringum þau. Hann gerir stólpagrín að sjálfum sér, bókmenntunum og heiminum öllum. Það besta við að fá verðlaun, hélt hann fram, er að þá loksins er hægt að kaupa sér nýtt hús, nýjan bíl og gera vel við sig í mat og drykk.

Nei, ekki fékk ég tilnefningu til bókmenntaverðlauna frekar en fyrri daginn. Ég verð víst bara að láta mér nægja að hafa verið hægri hönd Nóbelsverðlaunahafa, farið með honum á frumsýningu í Þjóðleikhúsinu á eigin verki sem hann var óánægður með, haldið um hann málþing, borðað með honum í norska sendiráðinu og fylgt honum síðan heim á hótel eftir viskídrykkju með sendiherranum.

En það var gaman hjá okkur og það er aðalatriði, indælismaður hann Jon Fosse sem nú er hættur að drekka og hættur að skrifa fyrir leikhús. Það fer kannski saman. Ég las öll leikritin hans á sínum tíma en á eftir að dýfa mér í nýja prósann hans. Bestu verðlaunin sem hver og einn getur veitt sjálfum sér, eru líklega þau að lesa meira.

Ekki aðeins verðlaunahöfunda og þá sem hafa verið tilnefndir, heldur líka þá sem puða árum saman í þögn án nokkurrar athygli fjölmiðla, án spádóma frá særingamönnum og án þess að vera hampað. Og mesta lánið er svo eftirsótt næði til að leggjast í ferðalag inn á við, ferðalag sem sífellt spyr hver við erum og til hvers?

  En nú er Nóbel í nánd og Jon minn Fosse búinn að halda Nóbelsræðu yfir rykfallinni Akademíu, þakka henni og ekki síst guði fyrir verðlaunin. Skáldskapurinn bjargaði kannski lífi hans, ljóðið er mörgum lífsbjörg í föllnum heimi. Nú fær hann að heilsa upp á Kalla kóng og Silvíu sætu, Silvíu penu með gullkeðju um sig miðja. Og maturinn, líklega betri en í norska sendiráðinu þarna um árið þegar við Jon tjúttuðum með sendiherranum gítarglaða og hans söngelsku frú.  

Og nú hlýtur röðin að vera komin að Íslandi aftur fyrst Noregur varð fyrir valinu í þetta sinn eftir langt hlé. Ísland er ekki nánda nærri jafn púkó og Noregur og er í tísku út um allan heim. Nú getur spurningakeppnin byrjað, hver fær Nóbelinn þegar hann lendir aftur á Íslandi, því hann lendir hér innan skamms segja mér spámenn, segja mér særingamenn og hirðfífl.     

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Óreiðan í tilverunni

Next
Next

Afmælisdiktur