Ameríka er stór

 Ameríka er stór, svo mikið er víst. Svo stór að ekki er hægt að hafa neitt annað orð yfir hana en einmitt það að hún er stór, risastór. Að minnsta kosti í samanburði við litla Ísland sem er eins og dvergur við hliðina. En  við erum auðvitað best í öllu miðað við höfðatölu eins og alltaf var sagt hér áður fyrr þegar Íslendingar vildu stæra sig af því að vera þjóð á meðal þjóða. Nokkuð sem Ari Eldjárn hefur síðan gert að standardskets í sínu uppistandi, þegar Ísland er annars vegar.

Ég kom fyrst til Bandaríkjanna árið 2000 og þá einmitt til Ann Arbor í Michiganfylki þar sem ég mun nú dvelja fram í maímánuð. Ég bý í sama húsi og þá, hjá náskyldri frænku minni, mikilli handverkskonu og hennar manni sem var prófessor við Leikhús- og sviðslistadeild háskólans. Þau hjónin skrifuðu á sínum tíma feminíska viðtalsbók sem heitir Public Selves and Political Stages (Opinberar persónur og pólitísk leiksvið) með viðtölum við konur sem þá voru og eru sumar hverjar enn virkar í íslensku leikhúsi og stjórnmálum. Og satt best að segja er afar áhugavert að lesa þessi viðtöl aftur nærri þremur áratugum síðar. Þau sýna ótrúlega vel hvernig íslenskar konur þurftu að hafa fyrir þátttöku sinni í listum og samfélagi, einkum ef þær vildu eiga erindi og láta til sín taka.   

Síðast þegar ég heimsótti Bandaríkin árið 2016 var leiklesið verk eftir mig í Scandinavian House á Park Avenue í New York, Refugees eða Flóttamenn, leikrit sem ég skrifaði 2011 en hefur ekki enn ratað á svið. Ég gæti trúað að það ætti vel við í dag þegar flóttamannavandi heimsins er í brennidepli. Hvenær verðum við sjálf orðin flóttamenn?  Mér hraus hugur við fréttinni um að möttulstrókurinn sem liggur að mestu undir Vatnajökli, væri hugsanlega að færast til og flytja sig undir Reykjanesið. Íbúar höfuðborgarsvæðisins gætu auðveldlega orðið að flóttamönnum ef til meirháttar goshrinu kæmi sem setti alla helstu innviði úr sambandi. Kannski erum við öll flóttamenn í einhverjum skilningi.

Erindi mitt núna í henni stóru Ameríku er að kenna við háskólann í Michigan, Íslenskar bókmenntir og skapandi skrif. Það var Skandinavíska deildin hér sem leitaði til mín og fékk mig út í þetta ævintýri sem er rétt að byrja. Í þeirri deild er reyndar líka verið að lesa bæði Laxdælu og Njálu á námskeiði um íslensku fornsögurnar. En ég ætla ekkert að eiga við fornsögurnar, mínir nemendur munu fá innsýn í íslenskar samtímabókmenntir, einkum smásögur og ljóð sem til eru í ágætis enskum þýðingum frá síðustu árum. Og þar koma margir íslenskir höfundar við sögu. Það hefur verið mér sönn ánægja að lesa þessa samlanda mína á ensku og margt komið á óvart sem ég hlakka til að miðla á næstunni.

Mér er líka gert í þessari dvöl að halda einn opinberan fyrirlestur við háskólann og þar ætla ég að tala um mikilvægi þýðinga þegar tungumál eins og íslenska er annars vegar, tungumál sem aðeins er talað af 380.000 manns. Við gætum varla skrifað allar þessar bókmenntir sem koma út árlega á Íslandi án þess að hafa alla þessa þýðendur á okkar snærum, fólk sem hefur lagt það á sig að læra þetta mínítungumál í útrýmingarhættu.

Og svo á ég líka að tala á fundi hjá Sænska félaginu í Detroit sem að hluta til styrkir dvöl mína hér. En þar ætla ég að tala á léttari nótum um sambandið milli náttúru og menningar á Íslandi, hvernig óblíð náttúran og eldarnir undir okkur hafa haft mótandi áhrif á bókmenntir og listir. Og þar sem ég ber nú þann virðulega titil Writer in residence eða Rithöfundur með aðsetur mun ég auðvitað lesa upp úr eigin verkum í bókabúðinni Literati hér í miðborginni.

Ann Arbor er háskólabær og lítil borg miðað við bílaborgina Detroit sem liggur hér í næsta nágrenni. En þrátt fyrir smæðina er mannlíf og menning afar fjölbreytt. Fyrir forvitna konu eins og mig sem er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt í þessari tilveru, er af nógu að taka. Hér eru leikhús, tónleikahús, gamlir bíósalir, bókabúðir og kaffihús sem sinna þessum 50.000 stúdentum og starfsfólki Háskólans í Michigan.

Þar sem ég er auðvitað bíllaus er mér oft skutlað millli heimilis og háskóla eins og hverjum öðrum krakka en ég er líka með ókeypis strætókort sem ég mun að sjálfsögðu nota. Ég hafði það í flimtingum hér á dögunum á kaffistofunni meðal amrískra kollega að ég hefði flúið til Svíþjóðar frá Íslandi af því að almenningssamgöngur væru betri þar. Sænska samstarfskona mín, sú sem nældi í mig hingað til Ann Arbor, var fljót að leiðrétta mig, „það var út af dálitlu öðru sem þú fluttir til Svíþjóðar,“ sagði hún.

Annars er hvunndagurinn hér sama rútínan og annars staðar. Það er þetta hafragrautur með eplum á morgnana og gott pressukönnukaffi í framhaldi og síðan einn rúntur um lendur enskunnar, það stóra tungumál. Merkilegt þó hvað heilinn er fljótur að kveikja á enska málhólfinu sem stækkar ört þegar kona þarf að virkja orðaforðann. Stundum er þrýstingurinn í þessu kvika málhólfi ansi mikill. Mikið sem kemur inn og mikið sem vill út. Enskan er nefnilega risatungumál. Það er allt stórt í Ameríku. Engin furða að dvergþjóðir á borð við Ísland þurfi að miða allt sitt við höfðatölu.

 

    

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Upptekin í skóla

Next
Next

Óreiðan í tilverunni