Upptekin í skóla

Eitt af fyrstu orðunum sem ég lærði í grísku þegar ég vann sem leiðsögumaður í Aþenu fyrir tæpum fjörtíu árum var orðið ”aposkolimeni” sem þýðir að vera upptekin. Þetta var alveg nauðsynlegt orð fyrir unga konu úr Norðurhöfum sem alltaf var verið að bjóða í kaffi á ströndinni og þá oftast af karlmönnum auðvitað. Nei, takk, sagði ég oftast, ég er aposkolimeni. Semsagt ég kemst ekki en takk samt.

 Frítími á grísku er skoli og apo er forskeyti sem þýðir frá eða án og þegar þessi tvö orð koma saman í aposkolimeni merkja þau að vera án frítíma, semsagt upptekin í kvenkyni. En það er ekki aðalatriðið hér, heldur að íslenska orðið skóli er sama orðið. Hvernig stendur á því að skóli geti þýtt það sama og frítími? Jú, í fornöldinni var auðvitað bara hægt að stunda nám þegar þegar vinnandi hendur voru í fríi sem er fullkomlega rökrétt. Ætli það sé ekki þannig enn þann dag í dag?

Núna er ég nokkuð aposkolimení við að kenna ungum háskólastúdentum sitthvað um íslenskar samtímabókmenntir og ritlist. En um leið er ég sjálf alltaf í skóla, mér finnst fátt skemmtilegra og hér í Ameríku er ekki hægt að komast í gegnum daginn án þess að læra eitthvað nýtt á hverjum degi.

 Ég er til dæmis nýbúin að læra að Michigan fylki er stundum kallað vettlingurinn, af því það er í aðalatriðum í laginu eins og vinstri handar belgvettlingur ef nyrsti hlutinn, Upper Peninsula eða Efranes, er undanskilinn. Fylkið er umkringt af Vötnunum miklu að hluta til, Michiganvatni og Huronvatni og áhrif vatnanna eru mikil á allt veðurfar og loftslag og ekki laust við að hér ríki hálfgert eyjaloftslag að minnsta kosti núna í marsmánuði.

 Sýslan sem ég bý í heitir Washtenaw og í henni búa um 370 þúsund manns, álíka margir og á Íslandi en í fylkinu öllu búa í kringum 10 milljónir sem er á við íbúafjölda Svíþjóðar. Alltaf gott að setja hlutina í skiljanlegt samhengi. Og þótt fylkið sé þekktast fyrir bílaiðnaðinn í Detroit er auðvitað ekki hægt að komast hjá því að sjá ummerki frumbyggjanna hér og þar og þá allra helst í nafnagiftum ýmiss konar. Þeir voru eins og kunnugt er dreifðir um öll Bandaríkin áður en hvíti maðurinn hóf að leggja undir sig landsvæði þeirra og byggðir.

 Í þessi sjö skipti sem ég hef komið til Bandaríkjanna hefur saga frumbyggjanna alltaf heillað mig, hvort heldur á vesturströndinni í fylkjum eins og Washington og Oregon eða í norðurfylkjunum Minnesota og Dakota og svo núna í Michigan. Í hverju spori má finna tengingar við sögu frumbyggjana. Nýlega ókum við hér á heimilinu eftir gamalli indjánaleið sem kennd er við indjánahöfðingjann Pontiac en nafn hans varð síðar eitt af bílamerkjum General Motors.

 Og talandi um frumbyggjana og þeirra slóðir. Hér í stofunni heima hjá frænku minni í Ann Arbor horfum við reglulega bæði á nýjar og gamlar kvikmyndir. Með þeim fyrstu á dagskrá var mynd Martins Scorsese Killers of the Flower Moon. Myndin er allt í senn, vestri, glæpasaga og átakanleg ástarsaga sem fjallar um skipulagt dráp á meðlimum Osage þjóðarinnar í Oklahoma á þriðja áratug síðustu aldar.

Osage þjóðin bjó á friðlandi þar sem miklar olíulindir fundust í upphafi aldarinnar. Þær voru eign einnar fjölskyldu sem tilheyrði Osage þjóðinni. Drápin á meðlimum fjölskyldunnar hófust einmitt á Flower Moon hátíð þjóðarinnar, vorhátíð sem haldin var til að minnast forfeðranna og afreka þeirra. Sá sem aðallega stóð fyrir morðunum var útsmoginn bandarískur sveitastjórnarmaður sem lét frænda sinn stofna til hjónabands við konu úr fjölskyldunni í þeim tilgangi einum að koma henni og fjölskyldunni fyrir kattarnef og þar með yfir olíuauðindina.  

 Myndin var tilnefnd til nokkurra Óskarsverðlauna en hlaut engin þrátt fyrir stórleik Lily Gladstone sem lék frumbyggjakonuna Mollie Burkhart. Ég hélt með henni allan tímann sem við horfðum á Óskarinn og eins með Carey Mulligan sem lék eiginkonu Leonards Bernstein í Maestro sem fékk ekki heldur nein verðlaun.

 Já, ég er oft aposkolimeni í kvikmyndaklúbbnum hér á heimilinu, endursá einmitt á dögunum svarthvítu kvikmyndina Who is Afraid of Virgina Woolf um alkóhólíska  sambandið milli þeirra Mörthu og George, gerð eftir leikriti Edwards Albee. Þá mynd hafði ég ekki séð síðan í Austurbæjarbíó 1972 og botnaði auðvitað lítið í öllu fylleríinu og sadómasókismanum milli hjónanna enda aðeins nítján ára. Skil hann betur í dag eftir að hafa kynnst svona hjónum af öllum kynjum og lesið leikritið nokkrum sinnum.

 En semsagt, ég er upptekin í skóla þessa dagana, þramma með minn sænska Fjallaref á bakinu út á stoppustöð eins og sjö ára stelpa og nýt þess að hossast með strætó sem skröltir hér um götur á lélegum dempurum. Á meðan fæ ég tækifæri til að stúdera litríkan farþegahópinn sem er auðvitað á leiðinni niður á Campus eða háskólasvæðið eins og ég sjálf.

 Hingað til hefur þó enginn karlmaður boðið mér í kaffi enda er ég hvorki sautján né tuttugu og sjö lengur. Það hlýtur samt að koma að því að einhver á mínum aldri, einhver svona vel rúmlega fimmtugur sérvitringur með Ísland á heilanum, bjóði mér í kaffi og þá þarf ég ekki endilega að segja að ég sé aposkolimeni eða upptekin í skóla.

 

    

 

 

 

Previous
Previous

Rétt og röng ritskoðun

Next
Next

Ameríka er stór