Rétt og röng ritskoðun

Það kom að því, þessu sem ég hef kviðið mest hér í Bandaríkjunum, að mér yrði slaufað, að ég væri ekki alveg nægilega hreintrúar í afstöðu minni til viðkvæmra mála eins og kynþáttar eða kyns, að ég yrði stimpluð sem hvít, gagnkynhneigð forréttindakona, kannski ekki beint rík en þó betur sett en mörg önnur sem búa við ójöfnuð. Það kom að því að ég lenti í ritskoðun.

Mér var boðið að lesa upp úr verkum mínum í bókabúð hér í Ann Arbor sem ég og gerði í vikunni sem leið. Mig langaði til að lesa upp úr tveimur síðustu bókum mínum, Meydómi og Einlífi-ástarrannsókn. Ég ákvað að lesa kafla úr Meydómi sem heitir Guð er ekki til í enskri þýðingu að sjálfsögðu. Til að fá smá breidd í lesturinn bað ég unga háskólastúlku sem ég kynntist hér að lesa þennan kafla úr Meydómi sem fjallar um tíu ára gamalt stúlkubarn sem er í stríði við guð og dauðann.

Kaflinn er meira og minna samtal við guð um óréttlætið í heiminum, stúlklubarnið skilur ekki hvernig hann getur látið það viðgangast að það sé hungursneyð í Afríku. Árið er 1964 á Íslandi þar sem svartur maður hefur varla stigið fæti sínum á land nema þá kannski í herstöðina í Keflavík. Íslensk stjórnvöld fóru reyndar fram á það við bandarísk stjórnvöld á sínum tíma að senda helst ekki þeldökka hermenn til þjónustu í herstöðinni. Og hvort sem það er brandari eður ei, var það forsíðufrétt þegar sást til karlmanns af afrískum uppruna ganga um göturnar, hvort sem það var nú í Reykjavík eða á Dalvík.

Eitt af því sem stúlkubarnið þarna 1964 á í miklum vandræðum með sálarlega er að horfast í augu við bæklingana sem streyma inn um lúguna heima hjá henni með myndum af sveltandi börnum í Kongó sem stara á hana með útstandandi augu og uppþembdan maga af næringarskorti. Hún fyllist heimshryggð og missir trúna á guð sem hún hefur beðið til á hverju kvöldi um langt skeið eða síðan hún byrjaði í sunnudagaskóla. Hún biður guð að losa heiminn undan þeim þjáningum sem þessi börn í Afríku mega þola.

Unga háskólastúlkan sem átti að lesa þennan kafla í bókabúðinni sagði ekkert þegar við fórum í gegnum textann en sama kvöld sendi hún mér tölvupóst og sagðist ekki treysta sér til að lesa kaflann ef ég gerði ekki breytingar á honum. Hún vildi að ég tæki út það sem gæti minnt á „Hvíta björgunarhyggju“ eða White Saviourism.

Hún benti mér vinsamlega á nígeríska rithöfundinn Chimamanda Ngozi Adichi og Ted fyrirlestur hennar um „The Danger of A Single story“ sem fjallar um tilhneigingu hvítra til að einfalda ástandið í löndum Afríku í skrifum sínum um álfuna. Allt í einu var ég orðin ein af þessum hvítu sem hallast undir hvíta björgunarhyggju af því að ég skrifaði um tíu ára gamalt stúlkubarn sem botnar ekkert í því hvernig sá guð sem hún trúir á, getur látið óréttlætið í Afríku viðgangast.  

Eftir smá umhugsun og samtal við mína nánustu, ákvað ég að breyta engu í textanum bara til þess að þóknast ritskoðunaráráttu sem í reynd átti ekki við nein rök að styðjast. Textinn fjallaði alls ekki um hvíta björgunarhyggju heldur fyrst og fremst um samband lítillar stúlku við guð og ekki síst samband hennar við dauðann sem hún lítur á sem sinn helsta óvin.  

Ég svaraði tölvupóstinum og reyndi eftir bestu getu að sýna háskólastúlkunni fram á að mér væri fullkomlega ljóst hvað hún væri að tala um þegar „Hvíta björgunarhyggjan“ væri annars vegar en ég tæki ekki í mál að breyta eða endurskrifa kaflann svo hún gæti lesið hann án þess að finnast hún samsek heimska hvíta fólkinu. Niðurstaðan varð sú að ég leysti hana undan verkefninu og las kaflann sjálf í bókabúðinni.

Eftir þessa reynslu fór ég að hugsa um ritskoðun og þessa áráttu sem hefur gert vart við sig á undanförnum árum að útiloka vissa rithöfunda sem ekki skrifa rétt eða í samræmi við lífsskoðanir ritskoðaranna. Það skiptir ekki máli hvort það er Salman Rushdie, J.K. Rowling eða Margaret Atwood eða ég sjálf, það er einhver hræðileg og illskiljanleg mótsögn í þessu öllu saman, einhver vanskilningur á því hvernig og á hvaða tímum skoðanir verða til. Hvernig stendur á því að fólk sem fyrirlítur ritskoðun og ofsóknir á Rushdie eða yfirleitt bann á bókum umdeildra höfunda, getur á sama tíma hugsað sér að ritskoða og banna bækur og texta sem ekki falla því sjálfu í geð?

Að einhverju leyti fjallar þetta um fáfræði eða hugsunarleysi en þegar unga kynslóðin á í hlut fjallar þetta líka um einhverja misskilda samstöðu með þeim sem eru eða hafa verið undirokaðir, utangarðs, öðruvísi. Af og til spretta upp miklar og háværar deilur um þetta allt, um „inngildingu“ og viðurkenningu á því sem ekki er hvítt, gagnkynhneigt, ófatlað, forréttindafólk. Sumt í þeirri umræðu á alveg við rök að styðjast en guð forði okkur frá fanatík og einsýni, ritskoðun og stimplunum.

Já, það kom að því að mér var slaufað, að ég var ekki nógu hreintrúuð af því að ég leyfði mér að nefna Afríku og hungursneyð sem átti sér stað árið 1964. „Hugsaðu um hungruðu börnin í Kóngó eða Biafra“ sögðu mæðurnar þegar hvítu börnin á Íslandi vildu ekki borða það sem lagt var á borð fyrir þau. Ég borðaði allan minn mat og afgangana líka, svo þeir lentu ekki í ruslinu. Þannig tókst ég á við vonsku heimsins og mína sektarkennd.   

 

Next
Next

Upptekin í skóla