Að háma í sig

Þegar ég var nýbúin að kynnast bestu vinkonu minni í Kvennaskólanum aðeins þrettán ára gömul, fór ég auðvitað oft í heimsókn til hennar, borðaði með fjölskyldunni, gisti jafnvel og átti dýrðlegar stundir í ævintýraherbergi sem eldri systir hennar hafði innréttað uppi á háalofti með fiskinetum, netakúlum, gæruskinnum og “grúví” lýsingu.

Mamma hennar var duglegur bakari og bjó til uppáhaldsköku sem kölluð var sírópsterta, tveir brúnir botnar með þykku smjörkremi á milli. Ég gat gjörsamlega hámað hana í mig þegar hún var sett á borðið í drekkutímanum en át hana auðvitað ekki upp til agna, ég kunni mig.

Það kemur auðvitað enn fyrir að ég háma í mig mat og það sama gildir um bækur, kvikmyndir og sjónvarpsseríur. Samt les ég ekki hvað sem er og háma aðeins í mig af verulegri græðgi ef ég fæ ábendingu um eitthvað stórkostlegt sem ég verð að lesa eða sjá á nóinu. Sem dæmi um slíkan hámlestur vil ég nefna bókina All Fours eftir bandarísku skáldkonuna Miröndu July. Ég heyrði fyrst talað um hana í útvarpinu og þáttastjórnandinn og viðmælendur hans voru eiginlega orðlausir af hrifningu.

Bókin fjallar um 45 ára gamla gifta konu og móður sem er á „forbreytingarskeiði“ og leggur einsömul upp í þriggja vikna bílaferðalag þvert yfir Bandaríkin. Ferðinni er heitið til New York en hefst í heimaborg konunnar Los Angeles. Hún kemst þó ekki lengra en í eitt úthverfi borgarinnar eftir rúmlega hálftíma akstur og þar leigir hún sér herbergi á móteli og lætur innrétta það fyrir 20.000 dollara. Þar dvelur hún svo þessar þrjár vikur og herbergið verður umbreytandi vettvangur fyrir fantasíur hennar og drauma sem snúast aðallega um ást og kynlíf, dauða og listsköpun.  

  Ég spændi þessa bók í mig og tæpu ári síðar er hún enn í mikilli útbreiðslu og umræðu og hefur haft gífurleg og felsandi áhrif ekki síst á líf lesandi kvenna. Meginástæða þess er að höfundurinn ögrar öllum viðteknum skoðunum um heterónormatíft hjónaband og veigrar sér ekki við að fara inn á áður yfirlýst bannsvæði, einkum þau sem lúta að forboðnum kynlífsnautnum kvenna.

Sumum finnst nóg um og telja höfundinn bara vera að storka lesendum til að fá athygli og umtal en aðrir fullyrða að hér sé um vatnaskil að ræða í bókmenntaheiminum. Áhrifum bókarinnar Á öllum fjórum hefur verið líkt við bækur eins og Sérherbergi Virginíu Woolf og Flughræðslu Ericu Young.   

Þau eru mörg ævintýraherbergin sem hægt er að uppgötva í bókmenntum og listum, sé kona nógu forvitin og eitt þeirra fann ég um daginn þegar ég hámhorfði á bresku sjónvarpsseríuna Wolf Hall sem gerð er eftir þríleik skáldkonunnar Hilary Mantel um einn helsta ráðgjafa Hinriks áttunda Englandskonung, Thomas Cromwell.

Í þessari sjónvarpsseríu er áhorfandinn bókstaflega læstur inni í andrúmslofti og tíðaranda stjórnmála á fyrri hluta sextándu aldar í Englandi. Það er tíminn þegar Hinrik áttundi sagði skilið við páfadóm og stofnaði sína eigin kirkju, ensku biskupakirkjuna. Það gerði hann aðallega til að geta skilið við sína fyrstu konu Katarínu af Aragon og gifst konu númer tvö, Anne Boleyn, en alls urðu konur Hinriks sex talsins.

Það er enginn annar en Thomas Cromwell sem verður hans aðalráðgjafi í öllu þessu stússi, deilum við Vatíkanið og önnur ríki Evrópu, kvenna- og hjúskaparmálum sem urðu fræg af endemum. Ég skrifaði einu sinni ritgerð um Hinrik og konurnar hans sex í menntaskóla og hef alla tíð síðan haft áhuga á þessum tíma í enskri sögu. Hinrik áttundi hikaði ekki við að hálshöggva fólk ef hann taldi það sitja á svikráðum við sig og þannig lentu tvær eiginkonur hans á höggstokknum sem og sjálfur Thomas Cromwell að lokum, besti ráðgjafinn, trúnaðarvinurinn.

Öll Wolf Hall serían er með eindæmum áhrifarík einkum vegna þess að höfundurinn Hilary Mantel tekst að sýna okkur nýja hlið á Thomas Cromwell, hann er ekki sá svikari og ómerkingur sem sagan hefur gjarnan haldið fram, heldur hugsandi, breyskur maður sem á ekki alltaf sjö dagana sæla við hirð konungs. Öfundarmenn hans voru margir og flestir af aðalstétt en sjálfur var hann af efnalitlu fólki kominn en tókst að vinna sig upp og verða einn nánasti þjónn konungs og hljóta aðalstign.

En það er auðvitað fleira sem læsir áhorfandann við sjónvarpið en spennandi saga og mögnuð skrif Hilary Mantel og þar er leikur Mark Rylance í hlutverki Cromwells eitt helsta aðdráttaraflið. Leikur hans er svo áreynslulaus en um leið aðlaðandi og áhrifamikill að áhorfandinn bókstaflega flyst með honum aftur til sextándu aldar og næstum heyrir hann hugsa. Jafnframt skynjar áhorfandinn hvernig Cromwell berst við sjálfan sig og sitt innra líf í átökunum við duttlungafullan og skapheimskan konunginn sem leikinn er af Damien Lewis og minnir oftar en ekki á þekkta þjóðarleiðtoga samtímans einkum þá sem eru haldnir sjálfhverfri persónuleikaröskun.

Ævintýraherbergin eru margs konar bæði raunveruleg og uppdiktuð og okkur jafn nauðsynleg og matur og drykkur, ást og draumar. Í ævintýraherberbergi eldri systur bestu vinkonu minnar var hægt að liggja á gærum og háma í sig gömul prógrömm sem systirin hafði safnað úr flestum kvikmyndahúsum Reykjavíkur. Það kom því ekki á óvart að hún varð síðar meir einn af frægustu kvikmyndaklippurum samtímans. Því segi ég að háma í sig er gott og þroskandi svo framarlega sem græðgin stendur ekki í manni.

     

  

 

 

 

Next
Next

Ferðalög annarra