Innri auðævi
Ég hef dvalið vestur í mínum uppáhaldsfirði undanfarnar vikur fjarri heimsins vígaslóð. Þar hef ég aðallega átt í samtali við fjöllin, fjöruna og hafið. Og auðvitað fuglana, aðallega krumma en gott ef ég sá ekki örn á flugi hér á dögunum. Rebba hef ég líka hitt nokkrum sinnum, nú síðast uppi í fjallshlíð á leið frá galdramönnum í Serlárdal. Hann var alveg til í spjall, líklega unglingur á ferð, afar leitandi í sínum mjúka, dökkbrúna feldi.
Ég fer ekki ofan af því, Vestfirðir eru með því besta sem prýðir Ísland. Þeir eru öldungarnir í íslenskri náttúru, hrikalegir en heillandi um leið. Þar er aldrei sama birtan og þess vegna er svo freistandi að fylgjast með litbrigðunum sem ljósið kallar fram. Ég hef horft út um sama gluggann kvölds og morgna og séð guð í miklu stuði. Hann brosir og grettir sig, hlær og grætur til skiptis, er dulúðugur og harður af sér þegar hann vill, lætur engan og ekkert stjórna sér. Já, ég segi hann, gæti sagt þau, ætli hann sé ekki bara þau guð og gyða, vil ekki láta málfræðilegt kyn spilla fyrir mér ánægjunni af guðinu en geri það samt.
Langt frá heimsins vígaslóð sagði ég af því heimurinn í allri sinni mannvonsku hefur ekki farið framhjá mér undanfarna mánuði frekar en öðrum. En hver skilur mannvonskuna, skelfinguna og þjáninguna? Eða er hún nægilega fjarri til að ekki þurfi að skilja hana? Ég hef að minnsta kosti hvílt mig frá mannvonskunni þessar vikur og varla heyrt fréttir nema í Pollinum, aðeins hlustað á ölduna þegar hún skellur á fjöruborðið og vindinn þegar hann lætur kræla á sér en hann hefur að mestu verið til friðs, lognið og blíðan höfðu vinninginn síðustu daga ágústmánaðar.
Undanfarin tíu ár hef ég haft annan fótinn í Svíþjóð og síðustu þrjú hef ég búið þar með báða. Ég hef ekki komist hjá því að skynja heimsins vígaslóð af þeirri einföldu ástæðu að hún er nærri mér þar en hér norður við Dumbshaf. Svíar óttast stríðið og eru í óða önn að undirbúa sig fyrir átök, veita nú miklu fjármagni af fjárlögum til vígbúnaðar. Öll Evrópa vígbýst þessi dægrin, vígvélar og vopnaframleiðsla eiga nú sína sæludaga eða öllu heldur þeir sem græða á vopnaiðnaði. Það getur verið erfitt að skilja vopnaiðnaðinn, rétt eins og skelfinguna og þjáninguna en hann er engu að síður óaðskiljanlegur fylgifiskur valdabrölts og mannvonsku.
Æ, getum við ekki hætt að hugsa um þetta, hætt að tala um þetta ljóta, séð fegurðina í mannlífinu frekar, gleðina og hamingjuna yfir að búa í þessum heimshluta, við þessa velferð, því staðreyndin er sú, þrátt fyrir allt kvart og kvein - býr meirihluti fólks í okkar heimshluta við velferð, þótt hún geti ekki alltaf af sér þá hamingju sem ætti að vera fylgifiskur hennar. Óhamingjan er nefnilega svo frek og uppáþrengjandi í velferðinni, ekkert er alveg nóg, við viljum meira eins og plantan í Hryllingsbúðinni.
Stundum spila ég í lottóinu og um síðustu helgi voru 80 milljónir í boði og auðvitað spilaði ég. Ef ég fengi vinninginn ætlaði ég að láta einn af mínum draumum rætast sem er að koma mér upp húsi hérna fyrir vestan. Engu óðali, engri villu, bara litlu húsi með útsýni út á hafið, þar sem kaffikannan mín fær að gutla á eldavélarhellu á morgnana með matarborði sem rúmar að minnsta kosti samtal fyrir tvo en mætti alveg rúma fjóra á góðum degi svo ég geti útbúið mína Michelin máltíð úr fjársjóði hafsins.
Draumar eru nauðsynlegir en oftast best að þeir rætist ekki. Draumórar um hús út við ysta haf eiga bara við þegar sumarið er gott, þegar loftslagið leikur við mann eins og þetta sumar sem senn er horfið, þegar ljós og birta leika við sálina. Draumurinn á það til að gleyma öllum hinum mánuðunum, myrkrinu, snjóþyngslum og vetrarstormum. Ef draumurinn rætist, gæti veruleikinn orðið sá að litla húsið væri fokið á haf út þegar ég kæmi að vori og ætlaði að setja kaffið yfir og kokkahúfuna á hausinn.
Nei, líklega er best að vera ekki að gera sér neinar vonir um að vinna í lottóinu, halda bara áfram að lifa af því sem mér er skammtað og vera sátt við það, leyfa draumunum bara að hringla áfram í kollinum, láta þá rætast þar með því að halda áfram að skapa. Hin sönnu auðævi liggja í sköpuninni, í hugsuninni, tilfinningalífinu, ástinni til manna, dýra og náttúru. Það er alltaf hægt að leigja sér kofa til að njóta þeirra auðæva í botn og síðan er gott að snúa aftur heim á öruggan stað til að vera á.
Minn öruggi staður til að vera á er heimili mitt og þótt ég sé bölvuð flækingsrófa og flandrari, þykir mér fátt betra en að koma heim aftur í minn eigin rann. Þess vegna kveð ég nú fjörðinn og fjöllin mín hér fyrir vestan. Ég veit að þau standast alla storma og stríð. Þau munu taka á móti mér aftur og aftur, líka þegar ég verð farin eða runnin saman við þau því á endanum verður það þannig, við munum renna saman við allt. Ég kveð birtuna og ljósið, refinn og örninn sem kannski var ekki örn og held suður á vígaslóðir höfuðborgarinnar, í umferðina.