Brjóst og blygðun

Þegar Rauðsokkahreyfingin kom fyrst fram í Danmörku skömmu fyrir 1970 fóru konur í mótmælagöngu á götum Kaupmannahafnar brjóstahaldaralausar undir mussunum og brenndu síðan brjóstahaldarana á báli. Í þeirra augum var brjóstahaldarinn eitt helsta merki um kúgun kvenna, óþægilegt undirfat sem hafði þróast yfir í kyntákn.

 Vorið 1971 kom ég sautján ára gömul til Kaupmannahafnar í brjóstahaldara (sem ég var fljót að fleygja) til að vinna sem stuepige á Hótel D‘Angleterre við Kongens Nytorv. Sama sumar gekk mikil klámbylgja yfir borgina og eigendur klámklúbbanna sendu berbrjósta stúlkur í mínípilsum upp og niður Strikið með auglýsingabæklinga um lævsjóv sem þær dreifðu frjálslegar og glaðar til gangfarenda. Það var verið að losa um öll smáborgaraleg höft, allt var leyfilegt, klámið líka.

 Hipparnir lögðu þó undir sig það sem kallað var frjálsar ástir og það þótti fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að allir svæfu hjá öllum strax eftir fyrsta sleikinn. Frelsi í kynferðismálum jókst með tilkomu getnaðarvarnapillunnar og um leið og stúlka varð kynþroska fékk hún pilluna hjá kvensjúkdómalækni þannig að engin hætta væri á óléttu þótt hún svæfi hjá. Sumir vildu þó meina að allt þetta meinta frelsi væri aðeins frelsi karlmannsins sem gat haldið áfram að vera lausríðandi án þess að þurfa að bera nokkra ábyrgð á getnaðarvörnum.

 Í  þessari fyrstu bylgju róttæka feminismans tóku konur upp á því í auknum mæli að bera brjóst sín á baðstöðum og ströndum, mörgum karlmönnum til mikillar ánægju og gleði en öðrum til hneykslunar, einkum siðprúðu fólki sem enn var ekki búið að losa sig við kristilega blygðunarkennd. Með því að vera berbrjósta vildu konur storka karlaveldinu og öðlast þannig sjálfsstyrk og sjálfstæði. Þessi berbrjósta tíska varði í nokkur ár og engin þótti kona með konum nema hún vingsaði berum brjóstunum með stolti.

 En svo kom bakslag í þessa brjóstatísku og konur fóru aftur í efri hlutann á bikiníinu eða í sundbol, mörgum karlmanninum til mikilla vonbrigða. Það voru margar ástæður sem lágu að baki, ekki bara siðprýði og blygðunarkennd. Klámbylgjan hafði eyðilagt kynfrelsið sem var ekki lengur á forsendum kvenna. Konur áttu á hættu að verða áreittar af glápsjúkum körlum eða stjórnlausum greddupungum. Ábyrgðin á óheftri kynhvöt karla fluttist yfir á þær eins og svo margt annað í kynferðismálum. Þetta skildi markaðurinn og tók að framleiða stoppaða brjóstahaldara sem földu viðkvæmasta hluta brjóstsins, geirvörtuna sem átti það til að sjást í gegnum blússur og peysur þegar síst skyldi og valda óþarfa athygli.

 Ég gleymi ekki þegar enskukennarinn minn í menntó var tala um ,,stream of consciousness“ hjá Joyce með miklum tilfþrifum. Ég sat á fremsta bekk og hann var með augun á brjóstunum á mér. Þegar hann sá að ég tók eftir því, fataðist honum mælskuflugið eitt andartak og varð kjaftstopp. Og ég sem var í lopapeysu. Málið er að karlmenn hafa í gegnum tíðina verið með brjóst kvenna á heilanum og rassinn á þeim líka. Um það vitnar öll listasagan sem er full af nöktum konum sem liggja passívar og óintressant á einhverjum legubekk, persónuleikalausar og án skapahára, líklega unglingsstúlkur í mörgum tilfellum, vart komnar af barnsaldri, hreinar meyjar, hin fullkomna bráð og brúður.

 Brjóst kvenna eru ekki aðeins efri hluti líkama þeirra eins og brjóskassi karlmanna. Þau eru líkamshluti sem hefur kynferðislegt aðdráttarafl og enginn getur neitað. Þess vegna felast alltaf tvöföld skilaboð í því að vera berbrjósta. Í fyrsta lagi kvenfrelsisskilaboðin, ég á minn líkama sjálf og gef skít í hvað öðrum finnst um mína nekt. Í öðru lagi kynferðisskilaboðin, ég er kynvera og stolt af mínum brjóstum. Það er sem sagt bæði sjálfseflandi og ögrandi að bera brjóst sín. Í því felst ákveðið vald sem tekur hvorki tillit til þeirra sem hugsanlega örvast, né hinna sem finna til blygðunar.

 En burtséð frá alls konar áhrifum sem brjóst hafa á fólk er það staðreynd að þegar stelpur verða kynþroska og brjóst þeirra koma í ljós, hafa sumar miklar áhyggjur af útliti, lagi og einkum stærð brjóstanna. Sumar þjást jafnvel árum saman yfir of litlum brjóstum eða of stórum brjóstum og geta ekki hugsað sér að bera þau, jafnvel ekki fyrir framan kynsystur sínar. Samanburðurinn verður þeim um megn. Þær leggja í rándýrar brjóstastækkanir til að fá kvenlegra útlit, passa betur í föt ætluð konum með brjóst og síðast en ekki síst til að verða kynþokkafyllri, allt til að styrkja eigin kvenímynd. Aðrar þurfa að fara í brjóstaminnkun af heilsufarsástæðum.  

 Það er því ekki einfalt mál að rífa sig úr brjóstahaldaranum og bera á sér tútturnar hvorki fyrir framan karlmenn né konur, þótt það hafi þótt sjálfsagt mál í mínu ungdæmi og mjög töff að vera berbrjósta á ströndinni. Við viljum vera siðmenntuð, við búum ekki lengur í frumskóginum, en það er styttra í frummanninn en okkur grunar. Hormónarnir stjórna okkur að minnsta kosti á ákveðnu skeiði ævinnar.

 Kannski er best að við hættum öll að vera kynverur og rennum saman í eina kynlausa heild. Þá geta allir verið á sínum túttum og sprellum án þess að það káfi upp á nokkurn mann. Þá gæti ég líka hlaupið um allsnakin hvar og hvenær sem er eins og þegar ég var barn og hljóp berrössuð niður nýslegin túnin hjá móðursystur minni í hreppunum í allsherjar fögnuði yfir náttúrunni.

 Ég gæti líka brennt brjóstahaldarana mína eins og Rauðsokkurnar dönsku gerðu í den. Verst hvað hvað kviknar illa í þessum gerviefnum sem þeir eru flestir, bölvað drasl. Nei, ætli ég neyðist ekki til að nota þetta undirfat áfram og láta það gegna sínu upphaflega hlutverki, að halda brjóstunum uppi, svo þau séu ekki að flækjast fyrir mér og öðrum á opinberum vettvangi. En auðvitað er allra best að vera brjóstahaldaralaus og kviknakin. Undir þunnri mussunni.

 

    

Previous
Previous

Meyjan talar út

Next
Next

Utangarðs í listinni