Meyjan talar út

Fyrir tuttugu árum kom fyrsta skáldsagan mín út. Hún hét Hátt uppi við Norðurbrún og fjallaði um þerripíuna Öddu Ísabellu sem tók fólk í meðferð heima hjá sér uppi í rúmi. Hún var pía sem þerraði tár. Orðið var afbökun á orðinu þerapía.

Ekkert kynferðislegt við meðferðina í rúminu, Adda Ísabella var bara með sína kenningu um að best væri að tala við skjólstæðingana uppi í rúmi þar sem hún sat við höfðagaflinn eins og drottning með viðfangið til fóta.

 Ég var tiltölulega nýbúin að slá í gegn með leikritinu Konur skelfa og væntingarnar voru miklar bæði hjá útgefanda og lesendum þótt ég fyndi fyrir smá loddaralíðan (e. Impostor syndrome). Hvað var ég að vilja upp á dekk meðal rithöfunda?

Ég fór í viðtöl og einn blaðamaður spurði hvort ég væri ekki orðin ansi gömul til að gefa út mína fyrstu bók? Jú, ég var 48 ára gömul frumbyrja með þetta fyrsta afkvæmi mitt svo ég grípi til líkingamáls sem mörgum karlkyns rithöfundum er ekki að skapi.

 Svo komu dómarnir, fyrsti var alveg glimrandi, mér var líkt við Hallgrím Helgason og Mikael Torfason, þótti geysast fram á ritvöllinn af miklum krafti, háðsk og fyndin en líka beitt og gagnrýnin á samtímann þarna árið 2001. Útgefendur mínir voru alveg í skýjunum, þessi dómur hlyti að ýta sölunni í gang.

Næsti dómur var miskunnarlaus aftaka í sjónvarpi, það tók tvær mínútur að rústa bókinni í beinni útsendingu. Eftir það var á brattan að sækja og salan varð ekki í samræmi við væntingar útgefenda sem höfðu kostað miklu til að auglýsa þessa fyrstu bók mína, þar á meðal sjónvarpsauglýsingum sem tók mörg ár að borga upp.  

 Þótt afkvæmið hafi lent í fallöxinni, kyngdi ég af því ég var vön því og hélt áfram og skrifaði næstu bók. Hún hét Að láta lífið rætast og var svokölluð sannsaga (e. Creative nonfiction) sem þýðir að sannri sögu er miðlað með aðferðum skáldskapar. Bókin var ástarsaga aðstandanda, trúnaðarbréf til lesenda um samband mitt við alkóhólista sem dó langt fyrir aldur fram. Hún var sár og sorgleg, ég miðlaði henni af einlægni og opnu hjarta.

Nú brá svo við að bókin fékk ekki eingöngu góðar viðtökur gagnrýnenda heldur var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og mér var boðið á Bessastaði þótt ekki hlyti ég nú verðlaunin. Bókin seldist vel, var gefin út í kilju og sjaldan eða aldrei hef ég fengið jafn mikið af bréfum, símtölum og götustoppum þar sem lesendur tjáðu sig um áhrif bókarinnar.

 Síðan liðu nokkur ár áður en næsta bók kom út sem var skáldsagan Blómin frá Maó um litla Maóistahreyfingu í Reykjavík á áttunda áratugnum. Hún vakti enga sérstaka athygli og hvarf bara niður stóra svelginn eins og margar aðrar.

Eftir það kom enn lengra hlé, ég gat ekki leyft mér að vera rithöfundur í fullu starfi, vann alltaf meðfram skriftum, fyrst í leikhúsinu og síðar við Háskóla Íslands þar sem ég kenndi ýmsa áfanga í ritlist, aðallega þó leikritunaráfanga.

Á þessum árum safnaði ég auðvitað í sarpinn, var skúffuskáld. En nú hef ég dregið ýmislegt upp úr skúffunni, efni sem ég hef meira eða minna verið með í smíðum frá árinu 2007 og kemur nú út tuttugu árum eftir að ég lagði út á þessa braut sem er hálari en flestar aðrar.

Að vísu þrengdi sér ein skáldsaga að í millitíðinni, Hilduleikur, einhvers konar framtíðarsaga um öldrun og dauða. Kveikjan að henni var andlát móður minnar en allar sögur eiga sér sannar kveikjur í annað hvort einhverri persónu eða atburði hvort sem höfundurinn viðurkennir það eður ei. 

 Sumum fannst ansi langt liðið frá því ég skrifaði síðustu bók eða heil ellefu ár og já það er langur tími og hætt við að manni fatist flugið, að erindið sé þrotið. En ég þráaðist samt við, því alla tíð hefur þetta verið mitt mesta yndi að skrifa þótt ég hafi farið leynt með það. Og hvers vegna skyldi það vera svona mikið yndi eins djöfullega erfitt og það er?

Jú, yndið felst í því að fá að tala út eins og Auður Haraldsdóttur rithöfundar segir í viðtali í hlaðvarpinu Skúffuskáld. Hún skrifaði til að fá að tala út um það sem enginn nennti að hlusta á. Bókin sem nú er á leiðinni frá mér heitir Meydómur og flokkast sem sannsaga. Í henni tala ég út m.a. um áhrif heimilisofbeldis á mig og systkini mín.

 Meydómur er ferðalag meybarnsins frá sakleysi æskunnar til uppreisnar unglingsáranna. Verkið byrjaði sem ljóðaflokkur, þróaðist síðan út í frásögn en endaði sem sambland af hvoru tveggja. Eiginlega er þetta annað trúnaðarbréf mitt til lesenda, bréf sem ég skrifaði upphaflega til föður míns en síðar til mín.

Ég horfi á mig og fjölskyldu mína úr miklum fjarska og reyni að miðla ástandi, myndum og tilfinningum úr barnæskunni eins og hún kom mér fyrir sjónir. Bókin er löng af-meyjun, ekki bara kynferðisleg, heldur af-meyjun þar sem meybarnið herðist í eldinum sem mótar það.

 Í dag er ég tuttugu árum eldri en frumbyrjan gamla sem skrifaði bókina um þerripíuna Öddu Ísabellu og á orðið fimm börn sem eru afar ólík innbyrðis. (Ég veit, sumir þola ekki þegar bókum er líkt við börn).

Oft hef ég þurft á einhverri Öddunni að halda til að þerra tár mín í öllu öldurótinu. Þær hafa að vísu þerrað tár af meiri kunnáttu en amatörinn í skáldsögunni minni. Þess vegna hef ég enn kjark til að skrifa þótt það jaðri oft við masókisma ekki síst þegar meyjan talar út. Vonandi er þó einhver að hlusta.

Previous
Previous

Sænska næðið

Next
Next

Brjóst og blygðun