Sænska næðið

Það er ekki laust við að ég finni fyrir nettum kvíða þessa dagana, æ, þið vitið hauströkkrið yfir mér og allt það. En ástæðan er önnur, ég er á leiðinni heim til Íslands til að taka þátt í Jólabókaflóðinu. Annað árið í röð og í þetta sinn með sannsögu sem hefur tekið á mig að skrifa.

Ég kvíði öllu stússinu í kringum kynningu á bókinni, ég kvíði samkeppninni um plássið á dansgólfinu. Já, ég hreinlega kvíði því að koma heim en neita því ekki að ég hlakka líka til. Þannig er það alltaf þegar maður lætur frá sér nýtt verk, því fylgir þessi blanda af kvíða og tilhlökkun sem er órjúfanlegur hluti af sjálfu sköpunarferlinu.  

Undanfarin sex ár hef átt því láni að fagna að búa með annan fótinn í Svíþjóð og í sænska næðinu hef ég fengið dýrmætt tækifæri til að jarðtengja mig, skoða ofan í kjölinn hvernig sálarlíf mitt er samsett, hvernig ég hef ferðast í gegnum lífið með aðra blöndu í heilanum, blöndu af léttri maníu þegar ég hef verið í uppsveiflunum og andfélagslegri depurð þegar ég hef hrapað niður úr háloftunum.

 Sveiflurnar hafa stundum gert það að verkum að mér finnst ég vakna sem drottning á morgnana en enda í sjálfsvígshugsunum á kvöldin eins og einhver sálfræðingurinn lýsti borderline persónum. Auðvitað hef ég tekist á við þessar hugsanir annars væri ég ekki á lífi. En þær hverfa ekki þótt aldurinn færist yfir, þær dúkka alltaf upp með reglulegu millibili en sem betur fer er ég farin að þekkja þær nokkuð vel. Reyni ekki að hrekja þær burt, leyfi þeim bara að koma inn, streyma í gegnum hugann eins og draugum úr fortíð. En ég bara veit ekki hvaða fortíð það er, hvort það er mín eigin eða fortíð forfeðra minna, hugarangur þeirra og sársauki sem bankar upp á í genamenginu. Þetta er víst 50/50 erfðir og umhverfi segja sérfræðingarnir.

 Nú þegar allt er uppi á borðinu, ekki síst geðveiki og geðheilsa get ég viðurkennt að ég hef skammast mín ógurlega fyrir þessar sveiflur og eiginlega ekki skilið hvernig ég hef komist í gegnum kaldranann á Íslandi með þær í farteskinu. Satt best að segja hef ég rifið mig upp á rassgatinu hvað eftir annað, beitt mig hörku og sjálfsaga til að týnast ekki í sjálfri mér, til þess að vofurnar næðu ekki tökum á mér. Það þarf kjark til að horfast í augu við djöflana sem berjast um völdin í sálarlífinu eins og margir sem búa á okkar breiddargráðu hafa reynt.

 Í sænska næðinu hef ég loksins viðurkennt að þetta hefur háð mér alla tíð, þessar hræðilegu sveiflur, óútskýrð reiðiköst sem ég skammast mín mest fyrir, reiðiköst sem hafa bitnað á öðrum, nánum vinum og samstarfsfólki, sérstaklega þegar ég vann í leikhúsinu hér áður fyrr. Fyrir mér var leikhúsið oft spegilmynd af þeim fjölskylduátökum og andlegu þrengslum sem ég bjó við sem barn og nota nú sem efnivið í nýju bókinni minni Meydómur.  

 Það er og var þröngt á Íslandi og flestir listamenn lenda í þrengingum fyrr eða síðar, þurfa að berjast fyrir sínu plássi í þeim darraðardansi sem listin er. Margir eru og verða alltaf börn sem skortir viðurkenningu og sum börn fá aldrei nóg af henni. Ætli ég sé ekki eitt af þeim? Og nú byrjar enn einn darraðardansinn sem ég kvíði. Hann fer fram á ýmsum stöðum en þó einkum á Facebook sem heldur áfram þrátt fyrir kærkomna truflun á dögunum, þrátt fyrir afhjúpanir um falsfréttir og misnotkun á algóryðmanum.

 Ég stend í ásthaturs sambandi við Facebook sem tengist áðurnefndum geðsveiflum. Ég öfunda þessa fáu vini mína sem eru ekki á miðlinum. Jú, þeir eru kannski á Facebook en óvirkir og andlitslausir, finnst best að vekja ekki óþarfa athygli á sér. Þeir neyðast þó til að vera þar til að geta fylgst með fjölskyldunni eða tekið þátt í félagsstarfi segja þeir en eru annars ekkert að fylgjast með okkur hinum sem erum ofurseld miðlinum.  

 Jú, þeir njósna stundum, freistingin til að forvitnast um hagi annarra stundum meiri en þykjustu áhugaleysið. Getur verið að þessir andlitslausu vinir mínir sem aldrei setja svo mikið sem eitt lækmerki, hvað þá komment á nokkra færslu og birta hvorki myndir af roðnandi berjalyngi né kettinum sínum sem kannski heitir Jónatan, getur verið að þeir séu meira á lífi en við hin sem erum alltaf að derra okkur? Er jafnaðargeð þeirra meira en okkar hinna?  

 Þótt ég öfundi þessa óvirku vini mína, öfunda ég þó mest þá sem haggast ekki og verða aldrei fyrir áhrifum, sem tjá sig sparlega, sýna engin viðbrögð eða merki um geðshræringu svona eins og hún Ratched hjúkrunarkona í Gaukshreiðrinu hans Milosar Foreman. Þessa yfirveguðu einstaklinga sem aldrei brjóta reglur, sem líða um geðdeildir heimsins með svipbrigðalaust andlit, andlit sem aldrei gárast hvað sem gengur á.

 Hér í sænska næðinu reyni ég að ná tökum á kvíðanum, sætta mig við geðsveiflurnar og halda áfram í sjálfhverfu minni að nota Facebook í flóðinu sem er framundan. Ég þarf að koma bók á framfæri, búa til viðburð, bjóða vinum mínum í partý, vekja athygli, ná besta plássinu á dansgólfinu.

 Til að lifa kvíðann af hef ég hef gert skóginn að trúnaðarvini mínum, hitti hann helst  á hverjum degi, hann sem ég óttaðist áður en hef nú tekið í sátt. Án hans og án mállausu vina minna sem þar búa, væri ég alveg búin áðí.

Og nú kalla þeir á mig, ekki bara vinirnir heldur gönguskórnir í forstofunni, þeir vilja út í sænska næðið að skoða haustlaufin.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Um lestrarveislur

Next
Next

Meyjan talar út