Um lestrarveislur

,,Engin lestrarveisla“ sagði grísk-sænski rithöfundurinn Theodor Kallifatidis í sænska bókmenntaþættinum Babel þegar hann var spurður um álit sitt á Abdularazak Gurnah sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum á dögunum.

Hvað átti hann við með engin lestrarveisla? Jú, það kom ekkert á óvart hvorki í efnistökum né stíl, textinn rann áreynslulaust ofan í lesandann og það var ekki einu sinni vottur af húmor hjá höfundinum. Þetta voru semsagt engin tíðindi, ekkert fjör, greinilega ,,nothing to write home about.“  Reyndar náði hann bara að lesa aðra af þeim tveimur bókum sem hafa verið þýddar á sænsku eftir Gurnah og hann hafði ekki hugmynd um hver höfundurinn var fyrr en Sænska akademían tilkynnti um verðlaunin.

Hreinskilni Kallifatidis virtist koma þáttastjórnandanum Jessiku Gedin á óvart en hvað gat hún sagt, hún var eins og aðrir málsmetandi menningarvitar og bókmenntamenn sem höfðu aldrei lesið stafkrók eftir Gurnah. Hann var óskrifað blað en tókst að stela verðlaununum af þekktari mönnum og konum í rithöfundastétt sem spáð hafði verið Nóbelnum.

 Ekki ætla ég að reyna að tjá mig um ummæli Kallifatidis því ég hef ekki heldur lesið orð eftir Gurnah. Hins vegar varð ég hugsi um þetta með lestrarveisluna, ekki síst vegna þess að nýlega hafði ég sporðrennt ensku skáldsögunni Jane Eyre eftir Charlotte Bronte frá miðri nítjándu öld, 500 síðna doðranti sem ég gat varla slitið mig frá loksins þegar ég dýfði mér í hana. Í kjölfarið fékk ég svo 800 síðna klump í fangið með póstinum, nýja íslenska skáldsögu Ljósgildruna eftir Guðna Elísson.  

 Áður en ég byrjaði að lesa Ljósgildruna horfði ég á viðtal við Guðna í Kiljunni þar sem hann lýsti þeirri skoðun að honum fyndist margir rithöfundar ekki hafa lesið nóg. Ég tók það auðvitað strax til mín, sérstaklega í ljósi þess að þótt ég hafi alltaf vitað af Jane Eyre og þeim Bronte systrum, svo ég tali nú ekki um bækur Jane Austen, hef ég aldrei lesið þær af neinu afgerandi viti fyrr en nú. Og það á reyndar við um fleiri höfunda og bækur sem tilheyra hinni svokölluðu bókmenntakanónu, sem allir eiga að hafa lesið, vilji þeir láta taka sig alvarlega á ritvellinum.

 Í Ljósgildrunni er augljóst að höfundurinn hefur ekki bara lesið kanónuna heldur allar tegundir bókmennta jafnt viðurkenndar sem faldar, jafnvel týnda ástarrómana. Ástarsögurnar eru reyndar uppáhaldsbækur forseta lýðveldisins sem er ein af fjórum aðalpersónum bókarinnar. Hinar eru forsætisráðherra landsins og formaður Sjálfstæðisflokksins og ljóðskáldin tvö H.M.S Hermann og Jakob sem eru vægast sagt ólík að allri gerð.

 Nú veit ég ekki hversu vel lesnir íslenskir rithöfundar eru hvorki í heimsbókmenntum né landa sinna en eitt veit ég þó fyrir víst, sumir lesa helst ekki aðra en þá sem eru nánir vinir eða í sömu bókmenntaklíku og hafa sama smekk. Af hverju ætti maður líka að lesa einhverja höfunda sem maður hvort eð er hefur ekkert álit á eða enginn hefur sagt manni að lesa. Aðrir höfundar geta verið ógn við manns eigið höfundarverk, stolið senunni, fengið verðlaun sem maður hefði frekar viljað fá sjálfur.

 Innan stéttar rithöfunda eins og meðal allra listamanna ríkir hörð samkeppni um viðurkenningu, verðlaun og völd þótt það sé sjaldan til umræðu af ástæðum sem ættu að vera augljósar. Það er of viðkvæmt og eldfimt efni, persónulegt og flókið. Bókmennta- og listaheimurinn ásamt öllu sem honum fylgir endurspeglar að einhverju leyti stétt- og valdskipt samfélagið sem við hrærumst í. Skoðanir okkar og smekkur á flestum sviðum ákvarðast af uppruna, menntun og stjórnmálaskoðunum og þar eru bókmenntirnar ekki undanskildar.  

 Um þetta samspil stjórnmála og bókmennta fjallar Ljósgildran að miklu leyti og þar eru áðurnefndar aðalpersónur fulltrúar sjónarmiða og bókmenntasmekks sem öll skrifin hverfast um. Hún fjallar um litla og stóra bókmenntaheiminn, um það lesna og ólesna, um íslenska pólitík frá aldamótum, einkum ítökin sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum haft í þessu eyríki og eru sem álög á þjóðinni. Hún fjallar um samtímann, orðræðuna á netinu, afneitunarpólitík í loftslagsmálum, feminisma og pírata og margt, margt fleira.

Spurningin sem óneitanlega vaknar er auðvitað hvort Ljósgildran sé sönn lestrarveisla? Hvort hún sé skemmtileg aflestrar eins og margir hafa spurt mig? Kemur hún á óvart, eru efnistökin frumleg, er höfundarröddin sterk? Eða eru hún jafn daufleg og honum Kallifatides grísk-sænska þótti rödd nýja Nóbelskáldsins, höfundarsins sem enginn man hvað heitir og enginn hefur lesið.

 Ljósgildran er hiklaust lestrarveisla í margföldum skilningi. Hún leiftrar af frásagnargleði, höfundurinn hefur gífurlegt vald á texta og tungumáli og hikar ekki við að beita ærslafengnum húmor og háði. Það ríkir sem sagt engin deyfð í texta og stíl, þar er bæði að finna fantasíu og súrrealisma í þeirri ádeilu á íslenskt samfélag sem bókin er. En gamanið kárnar vissulega. Undir öllum textanum liggur tragedía skáldsins sem ekki finnur merkingu í táradalnum sem þessi stutta dvöl okkar í alheimsgeimi er, jafnvel þótt hann fái eftirsótt bókmenntaverðlaun.   

 Ljósgildran er enginn dísætur konfektkassi eins og mörgum bókum eftir viðurkennda snillinga er gjarnan lýst í hrifningarvímu jólabókaflóðsins. Hún er miklu frekar kalt borð og kokkurinn í eldhúsinu er með pottþétt konsept. Hann býður upp á alls konar rétti, missterka en þó vel kryddaða og kostulega. Í þannig veislum getur gesturinn ekki gleypt alla réttina í einni ferð, hann þarf að fá sér aftur á diskinn.

 Ég er búin að fara einu sinni að borðinu og líta yfir réttina. Þetta er enginn pinnamatur, ekkert léttmeti. Kræsingarnar renna ekki áreynslulaust niður um kokið á manni. Það þarf að tyggja. Næst ætla ég að gæða mér sérstaklega á ljóðabókinni Ljósgildrunni sem fær bókmenntaverðlaun Sjálfstæðisflokksins í þessari geggjuðu samtímasögu. Svo er aldrei að vita nema ég reyni að lesa Abdularazak Gurnah. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Turnarnir falla

Next
Next

Sænska næðið