Turnarnir falla

Fyrir tveimur nóttum dreymdi mig að ég hitti Halldór Laxness í útlöndum. Hann var þar ásamt Sigurði A. Magnússyni að hitta þriðja manninn sem var heimsfrægur rithöfundur. Þeir töluðu um manninn af mikilli virðingu og aðdáun en ég vissi ekki hver sá var eða hvað hann hét. ,,Veistu ekki hver hann er Helga mín?“ sagði Nóbelskáldið fullur af hneykslan. ,,Nei, ég veit það ekki og svo heiti ég Hlín en ekki Helga,“ svaraði ég.

 Báðum þessum mönnum kynntist ég sem barn og unglingur, Sigurður A. vélritaði fyrir mig fyrsta leikritið sem ég skrifaði ellefu ára gömul og leiddi mig síðan í allan sannleika um Grikkland. Halldór var enginn smá áhrifavaldur á uppreisnarskeiði unglingsáranna, engin bók mótaði mig jafnmikið og Salka Valka. Við vinkonurnar girtum okkur með snæri eins og hún.   

 Allt frá því ég var barn hef ég litið upp til karlmanna. Þeir voru hetjur en konur voru lítið annað en mæður og húsmæður. Bæði mamma og amma töluðu um föður minn sem hetju, enda var hann um langt skeið hetja hafsins, sá sem alltaf var hægt að treysta þegar kom að afkomu og lífsviðurværi.

Karlmenn voru frá upphafi helstu fyrirmyndir mínar á flestum sviðum. Ég leit upp til andans manna, þeirra sem fóru fyrir sósíalískri baráttu, þeirra sem fylltu dagblöð og tímarit af upplýsandi fróðleik og gagnrýni á misrétti og kúgun. Konur komu þar lítið við sögu og satt best að segja man ég ekki eftir einni einustu sem skrifaði lærðar greinar í öll þessi merkilegu tímarit.

 Ég las nær eingöngu ljóð, skáldsögur og fræðirit eftir karlmenn og reyndi eftir bestu getu að mennta mig og hugsa eins og karlmaður. Ég hélt að það væri eina leiðin til þess að tekið yrði mark á mér. Kvensjálfið var hvort eð er alltaf til trafala og ég vildi alls ekki verða eins og mamma. Hún var mér engin fyrirmynd, aðeins taugaveikluð húsmóðir alltaf á nippinu að fara yfrum af vanlíðan og streitu.

 Samt var það hún sem stóð fyrir hinu listræna og sósíalíska uppeldi, hún las bækurnar sem keyptar voru inn á heimilið og sagði kost og löst á þeim. Fræðibækur og tímarit voru þó ekki hennar uppáhald, hún lá frekar í skáldsögum og ljóðum. Það var hún sem uppfræddi um listirnar, kenndi mér að velja góðar höfunda, hlusta á klassíska tónlist, meta myndlist, nokkuð sem ég viðurkenndi auðvitað ekki fyrr en á fullorðinsárunum. Sjálf var hún alla tíð ófullnægður listamaður sem ekki fékk alvöru útrás fyrir hæfileika sína á myndlistarsviðinu.

 Ég skrifa þetta nú vegna þess að nýja bókin mín Meydómur kom út í gær. Í henni fjalla ég m.a. um foreldra mína eins og ég sá þau sem barn og unglingur og það er engin lofrulla, ekki heldur nein níðmynd. Þau voru dæmigerð karl og kona síns tíma og gegndu þeim hlutverkum sem ætlast var til af kynjunum, að uppfylla jörðina. Þau voru ekki fullkomin, ekki frekar en nokkur manneskja er í eðli sínu.

Hann var sá sem réði öllu og tuktaði okkur til, hún sú sem maldaði í móinn en fékku litlu sem engu ráðið. Sjónarhorn karlmannsins var allsráðandi, yfir og allt um kring. Þrátt fyrir það leit hún upp til hans enda algerlega háð honum á allan hátt, einkum fjárhagslega. Það var ekki fyrr en alsheimerinn tók yfir hjá honum að hún gat skammað hann eins og barn fyrir að setja banana úr innkaupapokanum inn á baðherbergi eða koma með borðlampa þegar hún sendi hann eftir framlengingarsnúru.

 Því lengra sem leið á ævina þótti mér stundum nóg um aðdáun hennar á eiginmanninum, ekki síst eftir að hún sjálf varð meðvituð um kvenréttindi og kvenfrelsi. Ef ég spurði hana hvað henni fannst um tiltekna bíómynd eða leiksýningu, ekki síst eftir að ég sjálf reyndi fyrir mér sem leikstjóri, byrjuðu allar hennar setningar á: ,,Pabba þínum fannst …,“ eða: ,,Ja, sko, pabbi þinn segir ... “.

Það þýddi ekkert að spyrja hana, hún treysti skoðunum hans betur en sínum eigin. Að lokum gafst ég upp á að þýfga hana um hennar álit og varð eins og pabbi, óþolinmóður karl sem þoldi illa heimskar konur eða það sem hann flokkaði sem heimsku í fari kvenna. En tímarnir hafa breyst og ég með. Konur eru nú í stórsókn á öllum sviðum samfélagsins.

 Á hverjum degi hriktir í stoðum karlaveldisins, turnarnir falla hver af öðrum. Um það vitna sögurnar sem konur skrifa og munu skrifa. Út úr myrkri og þögn læðast þær loksins fram í dagsljósið og segja frá því sem enginn nema þær geta tjáð sig um. Nú má skrifa um allt sem áður lá í þagnargildi.

 Á dögunum skilaði kona skömm sem hún hafði þagað yfir í sextíu ár. Í hennar tilviki var um að ræða gróft kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir níu ára gömul. Loksins var hennar tími kominn til að afhjúpa glæpinn. Það hefur tekið mig fjórtán ár að skrifa um það sem hefur legið á mér alla tíð eins og mara, mótað mig og háð mér sem fullorðinni konu.

Því miður get ég ómögulega munað hvað hann hét þessi heimsfrægi rithöfundur í draumnum en hann sagði til nafns og við horfðumst í augu þegar hann hitti þá Halldór og Sigurð A. Ég fann að honum þótti nærvera mín ekki þægileg. Hvað ætli gáfumennið Freud hefði sagt um þennan draum?

 

 

 

 

Previous
Previous

Dagarnir gleypa okkur

Next
Next

Um lestrarveislur