Útlagar og kanamellur

Ég átti því einstaka láni að fagna að sjá yngsta og elsta leikrit íslenskra leikbókmennta um daginn hvort á eftir öðru. Byrjaði á Tyrfingi sem bauð mér persónulega á frumsýningu á stóra sviði Þjóðleikhússins á nýja verkinu sínu Sjö ævintýri um skömm. Kvöldið eftir sá ég Skugga-Svein eftir Matthías norður á Akureyri, gekk framhjá Sigurhæðum í kvöldþoku og rigningu á leið í Samkomuhúsið til fundar við hann.  

 Áður en lengra er haldið skal það tekið fram að þetta verður engin umsögn, ég er svo drullufegin að vera ekki gagnrýnandi, Eiginlega ætti að leggja niður alla gagnrýni og hrósa öllu sem gert er í listum en láta svo djúpt hugsandi fræðimenn um að gera úttekt á listinni í fræðiritum sem enginn les hvort eð er nema fræðimennirnir sjálfir.  

 Bríet Héðinsdóttir heitin, sú ágæta leikkona og leikstjóri sagði við mig eitt sinn að það væri bara til ein uppeldisaðferð þegar að uppeldi barna kæmi. Sú aðferð gekk út á stöðugt hrós og hvatningu og ég held að sú aðferð eigi líka við um alla listamenn. Þeir eru nefnilega síleikandi börn, alltaf að finna upp á einhverju nýju, frumlegu og fyndnu. Það sást best í þessum tveimur leiksýningum sem eiga meira sameiginlegt en margan grunar þrátt fyrir árin 160 rúmlega sem skilja þau að. Í báðum leikritunum er fjallað um skömm, útilokun og refsigleði gagnvart þeim sem ekki kunna að virða reglur samfélagsins, þeim sem eru á skakk og skjön.

 Í leikriti Tyrfings er aðalpersónan, lögreglukonan Agla í stökustu vandræðum með geðið og mömmu sína, í leikgerð Mörtu Nordal á verki Matthíasar reynir ástfangin Ásta sem orðin er að dóttur Lárensíusar sýslumanns að bjarga Haraldi sínum undan refsivendi laganna. Þessar ungu konur eru báðar í uppgjöri ekki aðeins við feðraveldið heldur mæðraveldið líka. Feðraveldið í Skugga-Sveini birtist í yfirvaldinu en sömuleiðis í útlögunum, Skugga-Sveini og hans liði.

Mæðraveldið í leikriti Tyrfings birtist hinsvegar í móður Öglu, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem hefur ekki mikið álit á dóttur sinni, hvorki í starfi né einkalífi og síðan í útlægri ömmu hennar, kanamellunni Möllu sem hefur verið búsett í Flórída í áratugi. Amma Malla ásamt hinum kanamellunum eru auðvitað eins og hverjir aðrir útlagar sem flúið hafa til Ameríku í sínu mellustandi. Það er skammarlegt að vera útlægur hvort sem útlegðin er sjálfskipuð eður ei. Í tilviki Skugga-Sveins er útlegðin komin til af glæpsamlegu athæfi, hann er þjófur, nauðgari og morðingi og þarf þess vegna að flýja á fjöll. Í tilviki kanamellunnar var það hin djúpa skömm sem fylgdi því að vera í ástandinu, að hafa sofið hjá og gifst amerískum hermönnum af vellinum og yfirgefið íslensku greddupungana. Kanamellurnar í leikriti Tyrfings flýja ekki til fjalla heldur til gósenlandsins Ameríku.

 Í báðum uppsetningunum er lögð áhersla á showið sem leikritin tvö bjóða vissulega upp á því ekki eru þetta dramatísk verk í aðalatriðum þótt dramatíkinni bregði fyrir. Þetta eru farsakenndir gleðileikir sem eiga að skemmta áhorfendum en vera um leið viss ádeila á samfélagið. Marta Nordal ákveður að setja sinn Skugga-Svein inn í villta vestrið sem er alveg rökrétt því krimmarnir eru eins alls staðar. Með umgjörð og búningum undirstrikar hún amerísku áhrifin ásamt kántrísöng og línudansi. Stefán Jónsson og hans samverkafólk í Þjóðleikhúsinu njóta sín til fullnustu sem sviðslistamenn einmitt í þeim atriðum sem gerast á barnum hjá kanamellunum í Flórída eða á himnum þegar þær eru dánar. Úr verður kabarett og farsi sem nær ótrúlegum hæðum í sviðsetningunni ásamt músík og kóreógrafíu þar sem amerísku áhrifin eru ýkt til hins ýtrasta.

 Og það sem er enn betra, í þessari útlegð þarna á barnum í Flórída er auðvitað ekki hægt að hreinsa af sér íslenska eðlið alveg, ekki hægt að komast af án þess að borða ekta íslenskan mat. Kanamellurnar heimta sína hrútspunga og hrossabjúgu, saxbauta og harðfisk, þær eru skyldari Skugga-Sveini en ætla má í fyrstu. Skugga skortir svo sem ekki mat á fjöllum, sauðaþjófurinn sem hann er. Í einni bestu leiksenu sem ég hef séð í íslensku leikhúsi í áraraðir kjamsar hann á sviðakjamma og grobbar sig af afrekum sínum á meðan hungraður Skrækur saumar út og mænir upp til hans í veikri von um mjóa flís af feitum sauði.

 Ég hugsaði til Becketts sem mér skilst að fleiri hafi gert, einhver gagnrýnandi sem ég þori ekki að nefna á nafn. Svona er þetta bara, absúrdisminn var ekki fundinn upp á síðustu öld, Beckett má finna bæði í Shakespeare og hjá Matthíasi. Kannski hefur Matthías verið búinn að lesa Lé konung þegar hann sullaði saman leikritinu um Útilegumennina þarna á Latíunuskólaárunum en það er einmitt í Lé sem absúrdismanum bregður fyrir. Tyrfingur toppar þó absúrdisma þeirra allra oft og mörgum sinnum með dyggri aðstoð leikstjóra og leikhóps og gengur lengst þegar hann lýsir hungri sem komið er út í öfgar.

 Það er náttúrulega skömm af því að vera hungraður, ekki bara í mat, heldur í lífsins gæði yfirleitt, eigi maður ekki fyrir þeim. Allra verst er þó kynhungrið sérstaklega þegar farið er að harðna á dalnum í þeim efnum og ekki svo auðvelt að kalla fram löngu horfnar kenndir. Borgaralegu læknishjónin Inga og Vilhjálmur Briem í leikriti Tyrfings, sem hafa allt til alls og geta leyft sér að ferðast um hundruð hótellobbý í heimsborgunum, eiga brilliant senu eins og þeir Skuggi og Skrækur en í henni keppast kynsvelt hjónin Inga og Vilhjálmur við að hámarka kynsæluna með aðstoð Bónuspoka þar til allt loft er úr þeim báðum, pokunum líka.  

 Ég ætla ekki að segja mikið meira um þessar sýningar í bili en eitt er víst, íslenskt leikhús er sprelllifandi og við góða heilsu sýnist mér. Einhver kvartaði yfir því að ekki væri nógu sterkur heildarsvipur á uppsetningu Mörtu en það er öðru nær. Það sem einkennir sýninguna er einmitt sterk og skýr heildarhugsun leikstjórans sem allir á leiksviðinu dansa í takt við. Öll hugmyndin bakvið sýninguna, að tefla fram andstæðum samfélags og útlaga er ljóslifandi í þessu villta vestri leiksviðsins og auðvitað gleymir Marta ekki upprunanum og leyfir upphaflegum leiktjöldum Sigurðar Guðmundssonar að birtast sem málverkasýning í einu atriði sýningarinnar.

 Stefán Jónsson og hans lið hafa líka unnið kraftaverk með leikrit Tyrfings sem er margslungið, heildarsvipurinn þó ekki eins sterkur og í uppsetningu Mörtu, það hefði mátt stytta sums staðar, þessi tilhneiging til að teygja lopann gengur ekki alltaf upp í leikhúsinu og það vita sviðslistamennirnir manna best. En það er skiljanlegt, verk Tyrfings er svo ungt og glænýtt að það er rétt að byrja að ganga. Eftir 160 ár verður ef til vill gerð leikgerð eftir því eins og Marta gerði í tilviki Matthíasar ef leikhúsið eða mannkynið öllu heldur verður þá enn til.

Svo er það endahnúturinn, merkilegt að bæði verkin enda á sömu nótum, ástin sigrar að lokum, hvað annað.? Ásta fær sinn Harald og Agla sættist við sína Hönnu og kanamellurnar fá uppreist æru. Frekari annalísa á þessum verkum og tengslum þeirra bíður betri tíma en guð minn góður hvað það er gaman í leikhúsinu þegar það er sem best og djöfull hvað það er leiðinlegt þegar það er sem verst.

 

 

 

Previous
Previous

Peð á meðal Rússa

Next
Next

Dagarnir gleypa okkur