Peð á meðal Rússa

Það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna á morgnana er að kveikja á heiminum. Hnötturinn lýsist upp og ég sný honum einn hring eða svo. Stundum staðnæmist ég við eitthvert land sem ég hef heimsótt gegnum tíðina. Einu sinni ætlaði ég aldrei til Indlands, var orðin gegnsósa af fordómum um landið, óaði við mannfjölda og fátækt en fór nú samt á endanum og sé ekki eftir því.

Einu sinni var ég svo mikill kommúnisti að ég hataðist við allt sem var bandarískt. Bandaríkin voru ekkert nema kapítalismi og ómenning og þangað ætlaði ég sko aldrei að fara. Ég fór þó á endanum til Bandaríkjanna og það oftar en einu sinni og fátt jafnast á við þau ferðalög sem náðu alla leið vestur til ríkjanna við Kyrrahaf. Ég þurfti að éta ansi margt ofan í mig í þeim ferðum, kanamenningin var ekki alveg eins og stalínistarnir sögðu að þrifist þar. Og ég fór líka til Kanada og meira segja alla leið til Kína. Það væri nær að tala um heimsálfur þegar þessi lönd eru annarsvegar, því má segja að ég hafi varla komið til þeirra, þótt ég hafi tyllt þar niður fæti.

 Það sama má segja um Rússland, sem ég hef heimsótt í tvígang. Aðra eins gestgjafa hef ég sjaldan hitt svo ekki sé minnst á rausnarskapinn og hlýjuna. Tvö sumur í röð var mér boðið á kvikmyndahátíð í Jaroslavl sem stendur við hina breiðu og voldugu Volgu. Fyrra sumarið var ég í fylgd með íslenskri kvikmyndagerðarkonu sem sýndi mynd sína Sumarbörn en seinna sumarið var mér boðið að sitja í dómnefnd hátíðarinnar og þá fyrst kynntist ég Rússum og átti í nánu samstarfi við þá.  

  Strax við opnun hátíðarinnar var ljóst að hún var studd í bak og fyrir ekki bara af borgaryfirvöldum í Jaroslavl og ýmsum öðrum stofnunum og einkaaðilum, heldur líka af rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Prestar kirkjunnar voru áberandi gestir á helstu viðburðum hennar og blessuðu hana í bak og fyrir enda voru íhaldssöm fjölskyldugildin sem hátíðin flaggaði þau sömu og meðal kirkjunnar manna.

Hafi mér fundist ég og föðurland mitt, saga og menning lítil í samanburði við Indland, Bandaríkin og Kína, fannst mér ég verða að peði meðal Rússa. Ég var margoft minnt á yfirþyrmandi stærð þessa stórveldis, sögu þess og menningu og sumir fóru ekki leynt með aðdáun sína á því nýja heimsveldi sem Pútín var smám saman að þenja út með ósýnilega stríðinu í austurhéruðum Úkraínu og innlimun Krímskaga. Það var sérstaklega ein kona í dómnefndinni, kvikmyndaframleiðandi frá Moskvu sem lét mig finna fyrir því hversu mikið peð ég væri. Hún hló þegar ég sagðist vera frá Íslandi og enn meir þegar ég sagði henni hver íbúatalan væri. Ég hef heyrt þennan hlátur áður hjá hrokafullum fulltrúum stórþjóða þegar þeir gera sér grein fyrir að mannfjöldinn á Íslandi er á borð við meðalborg í þeirra eigin löndum.  

Þessi kona framleiddi m.a. stríðsmyndir sem hefja afrek Rússa í seinni heimsstyrjöldinni upp til skýjanna, fórnir þeirra og hetjudáðir í baráttunni gegn nasisma Hitlers. Eins og það hafi ekki verið framleitt nóg af þeirri tegund stríðsmynda gegnum tíðana. Nei, ekki þegar þær leika stórt hlutverk í áróðursmaskínu valdhafanna. Frúin opnaði tölvuna sína og sýndi okkur nokkur vel valin aksjónsbrot úr þeirri síðustu sem verið var að klippa, eiginmaðurinn var leikstjórinn og hún að springa úr stolti yfir snilldinni. Í eftirrétt sýndi hún síðan myndir af sumarhúsi þeirra hjóna í Flórída. Svo sneri hún sér að mér og spurði hversu margar kvikmyndir ég hefði gert.

Enga, sagði ég án þess að hika.

Nú, hvað ertu þá að gera hér í dómnefnd?

Ég reyndi að bera mig vel og sagðist hafa unnið í leikhúsi sem leikstjóri, hefði skrifað nokkur leikrit og skáldsögur og ... en nei, það fannst þessari voldugu pútínkonu ekki merkilegt og virti mig varla viðlits eftir það enda há og mikil á velli í samanburði við mig þótt ég sé 164 cm í vegabréfinu og ekki með beinþynningu.

Svo var það í einu hádeginu þegar dómnefndin kom saman til að borða að ég minntist óvart á Úkraínu svo frú framleiðandi sperrti eyrun. Ég og fylgdarkona mín íslensk sátum með okkar ágæta úkraínska bjór og dásömuðum einstaklega gott bragðið. Gott ef ég minntist ekki á Gogol líka í leiðinni, hvað hann hefði verið brjálæðislega góður höfundur og hvað það væri merkilegt að margir af bestu listamönnum Rússa hefðu verið Úkraínumenn.

Hversvegna ertu að tala um Úkraínu, spurði Rússlandsdrottning hálfmóðguð, Úkraína er ekki til, Úkraína er hluti af Rússlandi, staðhæfði hún.

Er það, sagði ég, er Úkraína ekki sjálfstætt ríki?

Það er enginn munur á Rússum og Úkraíunumönnum. Þeir eiga eftir að átta sig á þessari vitleysu og koma tilbaka, svaraði hún.

Hinir Rússarnir í dómnefndinni, frægur og sjarmerandi kvikmyndaleikari á níræðisaldri og afar elskulegur og smekklega klæddur kvikmyndagagnrýnandi frá Moskvu, sögðu ekkert. Kvikmyndaleikarinn dreypti bara á sinni Tundru, ansi hreint góðri vodkategund sem hann drakk ótæpilega en gagnrýnandinn teygaði sívílíseraður sína rauðu sólberjasaft enda skildu hvorugur orð í ensku og túlkarnir voru ekki að hafa fyrir því að þýða þetta ómerkilega samtal drottningarinnar og peðsins. En peðið skildi þarna að það átti ekki séns á þessu taflborði.

Á  hverjum morgni kveiki ég á litla hnettinum mínum á meðan aðrir kveikja í honum og láta okkur halda að það sé nauðsynlegt til að kveða niður „nasisma“ í sjálfstæðu ríki. Þeir búa við tímaskekkju, rugla saman nasisma og sjálfstæði en eru sjálfir ekkert nema þjóðremban uppmáluð. Þeir hafa snúið heiminum á hvolf, ætla að hrista peðin af hnettinum, þetta fólk sem heldur að það sé eitthvað þótt það hafi lýst yfir sjálfstæði. Ég er sjálfstætt peð, sný hnettinum og horfi á Úkraínu, þangað hef ég aldrei komið, þangð langar mig til að fara, til Kiev, til Kiev! En mig langar líka aftur til Moskvu eins og hana Írínu í Þremur systrum en þó ekki fyrr en seinni heimsstyrjöldinni lýkur endanlega.

 

 

 

 

Previous
Previous

Ímyndunarveiki

Next
Next

Útlagar og kanamellur