Ímyndunarveiki

Þegar ég var í menntaskóla fékk ég stundum kvilla sem ég kallaði saltsýki. Þessi kvilli lýsti sér í því að mér fannst fingur mínir þrútna óeðlilega mikið og ég öll vera undirlögð af innri þrýstingi sem ég kunni engin skil á. Ef mér leið illa í hausnum, ef eitthvað var að trufla mig var það saltsýkinni að kenna. Eina skýringin sem mér kom til hugar var að hugsanlega væri ég með of mikið saltmagn í líkamanum. Á þessum tíma voru miklar umræður í þjóðfélaginu um óhollustu þess að salta mat of mikið. Ég yrði að forðast salt.

Ég hef alltaf verið smá ímyndunarveik, það tilheyrir þegar fólk er við hestaheilsu og tekur engin lyf að staðaldri eins og ég og ekkert, bókstaflega ekkert amar að því. Ef það eru ekki líkamleg einkenni sem ég þjáist af eins og hjartsláttaróreiða, heilablæðingar, æxli og hnútar hér og þar um líkamann og innri blæðingar sem verða líklega mitt banamein hugsa ég, þá er það einhver önnur óreiða, gott ef ekki upplýsingaóreiða og almenn vænisýki, ég gruna alla um græsku.

Á þessum síðustu og verstu þegar allir hafa aðgang að öllum og geta borað sér inn í einkalíf manns með því einu að opna tölvuna er ég hræddust um að rússneskir njósnarar fylgist með öllu sem ég tjái mig um þegar rússneskt stjórnarfar er annarsvegar. Eftir að hafa horft á nýja heimildamynd um Navalny einn helsta stjórnarandstæðing í Rússlandi, sem nýlega var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir skoðanir sínar, og séð hvernig hópur af handlöngurum FSB fylgdu honum eftir á ferðalögum hans um Rússland, til þess síðan að eitra fyrir honum með Novichok eins og frægt er, er ég viss um að samskonar handlangarar rússneskra yfirvalda séu út um allt og auðvitað á hælunum á mér. Þess vegna er ég afar vör um mig þessa dagana, sérstaklega þegar Svíar eru að bræða það með sér að ganga í Nató sem hefur vakið reiði Rússa, afleiðingarnar af inngöngu gætu reynst þeim afdrifaríkar segir Kreml.

Og þar sem ég er stödd í Svíþjóð og ekki svo langt undan ströndum Eystrasalts þar sem rússneskir kafbátar liggja í leyni fer ég að ímynda mér svona reyfarakenna atburðarás svona eins og í  þáttunum sem ég er nýbúin að horfa á í sænska sjónvarpinu um hann Harry Palmer. Það er sería sem gerist í kalda stríðinu og er byggð á frægum njósnatryllum eftir Len Deighton. Fátt gleður mig nefnilega jafnmikið í sjónvarpsseríubransanum og einmitt sögur af njósnurum. Ein sú allra besta var frönsk sería Le Bureau í 50 þáttum og ég er enn með fráhvörf eftir að hafa horft á hana. Þessi nýja breska sería er hreint nammi hvað varðar skrif, leik, sviðsmyndir og búninga en skemmtilegast er auðvitað að allir njósna um alla og ekki hægt að treysta neinum.

Sögur af njósnum næra auðvitað ímyndunarveiki mína. Ég fer varla í strætó eða lest hér í Svíaríki án þess að kanna vel hverjir eru í kringum mig. Ég gæti mín líka inni á kaffihúsum, börum og veitingahúsum, það er aldrei að vita nema það séu einhverjir FSB gæjar með Novichok í vasanum, tilbúnir að byrla mér. Í tilfelli Navalnys tókst þeim að koma eitrinu í nærbuxurnar hans, smurðu því inn í líningu á buxnaklaufinni. Hvernig í ósköpunum fóru þeir að því? Jú, þeir komust í hótelþvottinn hans á einu hótelinu sem hann bjó á, þegar hann var á yfirreið um rússneska ríkið til að tala gegn Pútín. Líklega best að ganga ekki í nærbuxum.

Ímyndunarveikin gerir það líka að verkum að ég forðast fólk og fer varla út úr húsi lengur nema til að ganga. Ég fer aðeins fáfarnar gönguleiðir og þá helst út í skóg og reyni að ganga á þeim tíma dags þegar allir hinir eru ekki að skokka um stígana eða viðra hundana sína. En nú er skógurinn líka orðinn óvinur minn. Ég mætti nefnilega sama manninum tvo daga í röð inni í miðjum skógi. Þetta var tiltölulega ungur maður, ekki beint svíalegur, klæddur austantjaldslegum útivistarfötum og með grunsamlega stóran bakpoka. Jæja, hugsaði ég með mér, þá er stundin runnin upp, nú verð ég myrt og husluð hér undir steini eða brytjuð og sett í pokann. Við mættumst og hann heilsaði vingjarnlega eins og allir sem maður mætir á göngu í skóginum.

Þegar ég hitti hann svo í annað sinn var ég alveg viss um að kenning mín myndi ganga upp, að hér væri á ferðinni maður frá leyniþjónustunni í Moskvu. Við mættumst og hann heilsaði sem fyrr og gekk síðan framhjá með sama pokann á bakinu. Ég hef ekki þorað aftur út í skóg, er eiginlega alveg viss um að þriðja skiptið skipti sköpum. Svo ég held mér núna við öruggari leiðir á malbikinu og um leið fer ég auðvitað á mis við ósnortna náttúru sænska skógarins.

Ímyndunarveikin lætur ekki að sér hæða. Oft held ég að nú sé þessu lokið, lífinu sjálfu, finnst ég sjá merki þess alls staðar, sé jafnvel ævi mína líða hjá eins og kvikmynd, þó ekki njósnamynd. Nú hlýtur stundin að vera runnin upp, banamein mitt verður þó líklega ekki afleiðing af saltsýki, eða ímyndunarveiki, heldur bara þetta gamla góða, ellin sjálf, ég er svo helvíti spræk. Eftir þessi skrif finnst mér fingur mínir þó hafa þrútnað töluvert, ég finn fyrir innri þrýstingi. Mér er orðið illt í hausnum, það er eitthvað að trufla mig. Ég nota líklega allt of mikið af Maldox salti í matargerð. Kannski er ég komin með saltsýkina aftur.   

   

Previous
Previous

Þrotfræði

Next
Next

Peð á meðal Rússa