Þrotfræði

Ég veit ekki hvaðan þetta orð þrotfræði er upprunnið en ég hef vinkonu mína grunaða um að hafa búið það til yfir alls konar fræði, fyrirlestra og námskeið sem gera sér mat úr engu nema sjálfsögðum hlutum eins og til dæmis að mæta á réttum tíma í vinnuna, á fundi eða stefnumót. Eða að læra að vinna undir álagi, skipuleggja tíma sinn, forðast streitu og kulnun í starfi. Þegar betur er að gáð hefur þetta orð þrotfræði margar hliðar.

Mér var einu sinni boðið á eitt svona þrotnámskeið í tímastjórnun hjá ríkisreknu menningarfyrirtæki sem ég vann hjá. Sá sem stjórnaði námskeiðinu var ungur maður í jakkafötum sem kom á hlaupum tuttugu mínútum of seint. Hann afsakaði sig fyrst með því að segjast ekki hafa fundið húsið og síðan fann hann ekki heldur bílastæði og hafði rúntað  um nærliggjandi stræti í dálítinn tíma áður en hann loksins gat lagt. Við starfsfólkið vorum auðvitað öll mætt á réttum tíma, nema skipulagsstjórinn sem var auðvitað á þönum um húsið og afar tímabundinn.

Ég varð svolítið pirruð á þessari seinkun hjá stjórnandanum og sagði að nú væri hann búinn að stela af okkur starfsfólkinu tuttugu mínútum og orðinn tímaþjófur. Hann kastaði mæðinni, baðst innilega afsökunar, fór úr jakkanum, dró tölvu upp úr pússi sínu og setti sig í stellingar. Samanlagt tók þetta um tíu mínútur sem þýddi að ekki voru nema fimmtán mínútur eftir af áætluðum fyrirlestri um tímastjórnun.

 Blessaður maðurinn baðst aftur afsökunar á því hve tíminn væri orðinn naumur. Hann notaði þó síðasta korterið til að spyrja hvort við kynnum á almanak. Almanak væri alveg lífsnauðsynlegt tæki til að skipuleggja tíma sinn svo maður lenti ekki í tímahraki. Hann kveikti á skjávarpa og tengdi tölvuna sem tók smátíma, það vantaði rétta millistykkið eins og alltaf.  

Ég beið spennt eftir að sjá fyrstu glæruna sem hann varpaði á vegginn. Þegar hún loksins birtist mátti lesa eftirfarandi:

Skipuleggðu tíma þinn vel.

Mættu alltaf á réttum tíma.

Það er aldrei tími til að koma of seint.

Þú ert þinn eigin tímastjórnandi

Þegar hann hafði rennt hratt í gegnum þessi grundvallaratriði í tímastjórnun var tími hans því miður á þrotum og ekki gafst tími til frekari spurninga enda ekki um neitt að spyrja. Þetta voru fullkomin þrotfræði og fyrirlesarinn sjálfur komin í þrot. Hann var sveittur og taugaveiklaður og augnaráð hans varð órólegt og röddin titraði. Því miður þurfti hann að flýta sér á næsta fyrirlestur í tímastjórnun og vildi alls ekki koma of seint.

Ég segi þessa sögu af því ég hef sjálf kennt svona þrotnámskeið í fyrirtækjum þar sem stjórnendur vilja brydda upp á einhverju nýju og uppbyggilegu til að auka starfsánægju svo undirmennirnir drepist ekki úr leiðindum. Um leið telja þeir sig bæta starfsandann og afköstin. Þá er gott að leita til sviðslistafólks sem er svo frumlegt, óheft og skemmtilegt og kann mikið af æfingum til að hressa upp á vinnustaðinn og fá fýlupokana í gang með tilheyrandi hlátri og rassaköstum. Sem dæmi má nefna að láta fólk, sem er límt við tölvuskjáinn allan daginn og hætt að brosa, fara hoppandi á einum fæti horna á milli í fundarherberginu og hneggja um leið eða hrína; hani, krummi, hundur, svín.

Já, það er gott að breyta sér í dýr, fara úr mannshamnum og virkja frumstæða og skapandi orku sem býr í heilanum á okkur öllum áður en heilabilunin ríður yfir. Einu sinni skrifaði ég leikrit sem var aldrei sýnt um sex karlmenn sem voru allir sendir í meðferð af þeirri ástæðu einni að þeir voru karlmenn. Það voru auðvitað konurnar í lífi þeirra sem sendu þá í meðferðina, þær voru búnar að fá nóg af þeim.

Meðferðarheimilinu var stjórnað af ofurpari og miklum áhrifavöldum sem einmitt notuðu dýraæfingar til að frelsa karlmennina úr hefðbundnum hlutverkum sínum. Ofurparið setti upp svokallaða KK fundi en þessir bókstafir höfðu ekkert með Kristján Kristjánsson kántrísöngvara að gera. KK stóð fyrir „karlar kveljast“ svona eins og AA fyrir „alchoholics anonymous.“ Á þessum KK fundum áttu karlmennirnir að tjá sig um allt sem angraði þá í lífinu og losa sig þannig undan aldalöngum byrðum feðraveldisins og verða aðeins mýkri og mannlegri svo konurnar þyldu þá betur.

Eins konar sinnaskipti hét þetta leikrit og það leikur enginn vafi á því að heimurinn þarf á sinnaskiptum að halda áður en við tortímum jörðinni og hvert öðru. Hvort einhver þrotfræði geti  komið þar að notum er ég ekki viss um. Nútvitund, markþjálfun, jóga og að finna dýrið í sjálfum sér gerir örugglega heilmikið gagn fyrir þá sem vita ekki á hvaða tímum þeir lifa, svo ekki sé minnst á þá sem eru að drepast úr meðvirkni og ákvarðanafælni.

Þrotfræðin eru nefnilega hönnuð fyrir samfélag sem er komið í þrot, fyrir vinnumarkað þar sem hinn vinnandi maður er undir stöðugu álagi og fær sjaldan næði til að vita hver hann er. Þegar maðurinn veit ekki lengur hver hann er myndast einhver tímaskekkja í lífi hans, ekki sökum tímaleysis eða tímahraks heldur af því hann getur ekki lengur stillt sína innri klukku eftir einhverjum ytri takti sem ákveðinn er af öðrum.

Maðurinn þarf stundum að taka sér pásu frá heimi sem hann hefur ekki mótað sjálfur, annars er hætt við kulnun í starfi, hann hættir að ráða við sjálfsagða hluti eins og að mæta á réttum tíma í vinnuna, á fundi eða stefnumót, kann ekki að stjórna sínum eigin tíma ... svei mér þá, ég held ég sé komin í algjör þrot með þessar hugleiðingar, best að fara út í skóg að faðma tré og hugleiða smá við gárað vatn.

       

   

Previous
Previous

Draumur flækingsins

Next
Next

Ímyndunarveiki