Draumur flækingsins

Alla ævi hef ég verið að leita að hinu fullkomna draumahúsi, ekki aðeins á Íslandi heldur út um allan heim. Um síðustu helgi svaf ég eins og prinsessa í lítilli höll rétt sunnan við Stokkhólm þar sem næturgalinn söng og talaði tungum í hallargarðinum og sagði dobre, dobre með slavneskum hreim. En þetta var ekki alveg mín höll. Rúmið sem prinsessan svaf í var þó ekkert slor heldur Hästens rúm, handgerð sænsk gæðavara sem toppar tuttugu dýnur og tuttugu dúnsængur.

 „I like living in one room and have never known what people do with the room they are not in“, sagði breski rithöfundinn, leikarann og húmoristann Quentin Crisp sem alla ævi bjó í einu herbergi. Ég hef oft vitnað í þessi orð hans, sérstaklega eftir að ég flutti í 48 fermetra íbúð í Reykjavík sem er eiginlega bara eitt stórt herbergi. Mér hefur aldrei liðið betur og ástæðan er líklega sú að ég hef fullkomna yfirsýn yfir allt mitt hafurtask. Ég er fljót að pakka niður og ganga frá þegar ég fer á flakk, tiltektir taka engan tíma og svo gleypir íbúðin ekki þau litlu laun sem kona á aflifunaraldri hefur milli handanna.  

Þetta er þó engin ellikúpa, frekar stúdentaíbúð fyrir flækingsketti eins og mig, því í eðli mínu er ég flækingur, spartanskur eilífðarstúdent og gott ef ekki kameldýr líka. Ég get verið án vatns svo tímum skiptir og þarf sjaldan að pissa á ferðalögum. Ég neita því þó  ekki að stundum dreymir mig um annað herbergi, um rúmgott svefnherbergi inn af stórri stofu þar sem allt er hjúpað grænum og gulum litum og dumbrauðri birtu af lampaskini. Á milli herbergjanna er rennihurð úr gleri svo marglit töfrabirtan úr stofunni geti streymt upp í rúm til mín áður en ég slekk ljósið og legg augun aftur. 

 Áður en ég flutti í þetta eina herbergi bjó ég í 100 fermetra íbúð á besta stað í miðbænum en þar var engin rennihurð með gleri en ýmislegt annað sem mig hafði lengi dreymt um, stórar stofur sem rúmuðu bæði borð- og vinnustofu, svalir með útsýni, stórt svefnherbergi og meira að segja barnaherbergi sem ég kallaði rúmenska herbergið. Það átti að vera fyrir barnið sem mig langaði til að ættleiða frá Rúmeníu, eitt af þessum munaðarlausu börnum sem fundust innilokuð og vanrækt á barnaheimilum eftir fall einræðisherrans Ceausescus. En ekki fékk ég að ættleiða ein og ógift konan.

Í sannleika sagt hafði ég aldrei efni á að búa í þessari íbúð og var sífellt að leigja hana út til að hafa upp í húsnæðisskuldir. Á endanum bjó ég sjaldnast heima hjá mér, leigði  kvistherbergi út í bæ til að airbnb fólkið með skröltandi ferðatöskur gæti búið á mínu heimili. Líf mitt var orðið að algerri þversögn líkt og draumurinn um hið fullkomna hús sem mig langaði mest til að teikna og byggja sjálf. Margir Íslendingar eru haldnir þessari ólæknandi húsbyggingaáráttu. Ef til vill er hún merki um genetíska áfallastreituröskun eftir aldalangt hokur í moldarkofum.

 Alveg frá því ég man eftir mér hefur fólk verið að byggja einbýlishús yfir sig og sína, oft eftir eigin höfði en í dag monta sig margir af arkitektum sem þeir hafa keypt til að teikna villurnar jafnt að utan sem innan. Þegar inn í þessar stórvillur er komið blasir hinsvegar oft við manni eitthvert sálarleysi sem minnir á dauða að minnsta kosti þegar fasteignaauglýsingar eru skoðaðar. Ekki er það þó sami dauði og í moldarkofunum forðum daga heldur einhver ofhönnun sem gerir ráð fyrir að dauðar sálir svífi um alla fermetrana.   

Einkennandi fyrir hönnunina er litleysið, allt er eins hjá öllum, innréttingar, húsgögn og skrautmunir, að ógleymdri risaklukkunni vinsælu sem hangir á hverjum einasta borðstofuvegg. Klukkan sem minnir okkur á að allt hefur sinn tíma og íbúarnir líka. Að minnsa kosti virðast þeir ekki tolla mjög lengi í glæsivillunum sem oft eru til sölu á uppsprengdu verði hver sem ástæðan er.

„Er hægt að elska í svona húsi?“ var spurt í frægri heimildamynd Fiskur undir steini frá upphafsárum íslenska sjónvarpsins, mynd sem fjallaði á háðslegan hátt um menningu í litlu sjávarþorpi og allt varð vitlaust í þjóðfélaginu og höfundarnir úthrópaðir sem fjandmenn fólksins.

Ekki ætla ég að reyna að svara þeirri spurningu, hitt veit ég að flækingskötturinn í mér heldur áfram að leita að draumahúsinu og nýjum svefnstöðum. Þegar ég finn fyrir andstreymi í lífinu og mér finnst eins og þrengst sé að mér, dett ég í fasteignaauglýsingar og alls konar þætti um hús og hýbýli og læt mig dreyma um húsið eina og fullkomna fjarri heimsins glaumi, helst á Vestfjörðum þar sem hvorki jarðskjálftar né eldgos geta grandað því. Vinir mínir segja þá en hvað með veturna Hlín?  

Þessa stundina bý ég í stóru sænsku timburhúsi sem ungum frænda mínum fannst vera eins og betri sumarbústaður á Íslandi, sem þýðir líklega að húsið stenst ekki mælikvarða um dæmigeret íslenskt einbýlishús en myndi sóma sér vel í kjarrinu í Þrastarskógi. Spurningin sem vaknar hlýtur að vera hvort það sé eitthvað betra að elska í þessu húsi en í 400 fermetra steinsteypuvillunum á Íslandi?

Eigi veit ég það svo gjörla en hér er að minnsta kosti enginn skortur á ást og kærleika. Næsti svefnstaður minn verður eins herbergis íbúð á Södermalm í Stokkhólmi, þar sem er hátt til lofts, auðir veggir og gamalt sígilt parkett á gólfinu. Ég geri fastlega ráð fyrir að þar verði ekkert Hästens rúm heldur bara ósköp venjulegt IKEA rúm en þau eru víst ekkert verri en Hästens segir sænsk vinkona mín, mikil smekkkona. Vonandi verður engin baun á botninum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Af óheppni

Next
Next

Þrotfræði