Af óheppni

Ýmiss konar óheppni um ævina rifjaðist upp fyrir mér á dögunum þegar ég átti von á peningasendingu sem hvarf án skýringa. Vesalings stúlkan í afgreiðslu bankans tilkynnti mér eftir langa leit og samtöl við mennina bakvið tjöldin að hún gæti ekkert gert fyrir mig. Það sæist engin hreyfing á reikningnum mínum í bankanum, jafnvel þótt ég hefði staðfestingu í höndunum sem sýndi svart á hvítu að peningarnar hefðu verið lagðir inn. Hún benti mér á að hafa samband við tæknideild bankans en ég stakk upp á Interpol.

Annað dæmi um óheppni var þegar ég heimsótti Strassbourg rétt áður en pestin skall á. Ég leigði mér Airbnb herbergi í nokkra daga hjá ungum lögreglumanni sem var tveir metrar á hæð og þóttist ég mjög örugg með mig. Hann kynnti mig fyrir kærustu sinni, indælisstúlku sem bauð af sér góðan þokka. Svefnherbergið þeirra var við útidyrnar og sneri út á stóra umferðargötu en mitt var alveg hinum megin í íbúðinni og sneri út í garð, heppin þar.

Daginn eftir komuna þegar ég var búin að fara í dásamlega sturtu, blása á mér hárið, komin í létta ullarkápu og góða gönguskó, ætlaði ég að trítla um strætin eins og sannur og kúltíveraður Evrópubúi. Veðurútlit var gott og því lagði ég af stað glöð í bragði til að skoða Nýlistasafn borgarinnar sem var á næsta leiti. Ekki var ég fyrr komin út fyrir hússins dyr en það byrjaði að rigna með látum svo blásið hárið kolféll eftir aðeins nokkur skref. En ekki nóg með það, þegar ég reyndi að koma mér í skjól undan skyndilegri rigningunni, vildi ekki betur til en svo að ég steig ofan í volgan hundaskít sem eigandinn hafði ekki nennt að hirða upp í bleytunni.

Ekki gat ég haldið áfram eftir þessar hrakfarir svo ég sneri tilbaka til að skipta um skó og yfirhöfn sem hentuðu betur þessu veðurfari. Þegar ég var rétt komin inn fyrir dyrnar bárust ástríðufull samfarahljóð út úr herbergi lögreglumannsins. Hann og kærastan höfðu greinilega ætlað að nota tækifærið á meðan leigjandinn brá sér af bæ. Það var ekki um annað ræða en snúa við í gættinni og hraða sér út aftur með hundaskítinn undir sólanum.

Þreföld óheppni í röð sama daginn, lengi gat vont versnað en svona hefur þetta oft verið hjá mér og sérstaklega á ferðalögum. Mér tekst mjög oft að lenda í vondu veðri t.d. á göngum um hálendið. Mín fyrsta ferð um öræfin var svo ævintýraleg að heilu dalirnar breyttust í stórfljót á einni nóttu og fararstjórinn varð að fergja tjaldið sem við sváfum í  með stórgrýti til að það héldist á jörðinni, þannig var stormurinn.

Mesta óheppni sem ég hef lent í var þó þegar ég gekk á Heklu. Það var mín fyrsta og eina ganga á tindinn hingað til. Eða ég held að ég hafi komist alla leið á tindinn, ég er ekki alveg viss. Þokan og vaxandi slagveðrið á leiðinni var svo hrikalegt að eftir óhemju erfiða göngu upp brattar og snævi þaktar hlíðar eldfjallsins settist fararstjórinn allt í einu niður, dró upp nestisboxið sitt og sagði: „Jæja, við erum víst komin alla leið upp.“ Við sátum sem sagt á gígbrúninni skildist mér en sáum ekkert, hvorki niður til helvítis né yfir landið fríða þar sem grænar grundir líða eins og Jónas talar um í kvæðinu fræga: „Þú stóðst á Heklu tindi hám.“

En þetta er nú ekkert á við alla óheppnina sem ég hef orðið fyrir þegar ég kaupi mér ný tæki. Síðast var það sódastrímtækið sem frussaði vatni út um allt en aldrei bólaði á sódavatni. Áður var það þráðlausa ryksugan, batteríið í henni gafst upp eftir nokkrar ryklufsur. Þar áður vildi nýr æfónn ekki slökkva á sér og skíðlogaði öllum stundum, svo ég minnist ekki á flatskjáinn sem er svo snjall að hann er með eigin dagskrá.

  En ég er heppin með eitt. Mér verður bara aldrei misdægurt nema þegar ímyndunarveikin tekur af mér öll völd. Og svo er ég heppin með vini mína, sérstaklega þá sem eru aldrei óheppnir. Þessa sem fá alltaf gott veður á öllum ferðalögum, borða aðeins gúrme mat, gista á einstökum hótelum og lenda aldrei í biðröðum hvorki í bönkum né flugvöllum. Eða kannski er það bara þannig að þessir heppnu vinir mínir eru ekki eins vitlausir og ég, þeir passa sig á segja aldrei frá óheppni sinni, mistökum og klaufaskap. Það kemur ekki nógu vel út.

Annars ætti ég ekki að vera kvarta yfir óheppni, ég hef aldrei verið rænd, aldrei týnt verðmætum (fyrr en núna), aldrei misst af flugi. Ég lendi bókstaflega aldrei í neinu hræðilegu á ferðalögum, það hefur ekki sinni fugl dritað á mig. Þetta með hundaskítinn var algjör undantekning. Ég ferðaðist um allt Indland án þess að fá í magann og aldrei var ég bitin af sporðdreka eða öðrum eitruðum skordýrum.

Hins vegar eltir óheppnin mig hér í Svíþjóð um leið og moskítóflugurnar vakna til lífsins. Gegn þeim duga engin meðul og þær hika ekki við að bíta mig út um allt, meira að segja í andlitið. En ekki þýðir að fást um það. Ég þarf að hringja í Interpol og athuga hvað varð af peningunum sem hurfu einhvers staðar á leiðinni milli banka. Eða ætti ég kannski frekar að hringja í tæknideildina?     

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Um þjóðlegheit

Next
Next

Draumur flækingsins