Um þjóðlegheit

 Ég er ekki sérlega þjóðrækin manneskja og ekki þjóðleg á nokkurn hátt, kann varla þjóðsönginn frekar en aðrir Íslendingar. Þegar ég var barn óttaðist ég beinlínis allar stofnanir sem byrjuðu á orðinu þjóð eins og þjóðminjasafn og þjóðleikhús og finnst orðið þjóðarhöll alveg hræðilega fráhrindandi.

Núna þegar fyrsta haustlægðin á miðju sumri er gengin yfir og ekkert hægt að hlakka til nema þjóðhátíðar í Eyjum, verður mér hugsað til annarrar þjóðar sem ég kynntist fyrir tæpri hálfri öld, þjóðar sem Íslendingar elska að hata. Fáar þjóðir hafa þó sýnt Íslendingum jafn mikinn áhuga og virðingu og þessi þjóð sem veitti Halldóri Laxness Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955.

Ástæður hatursins eru og voru margvíslegar, allt frá hatri íslenskra hægrimanna á sænskum sósíaldemókrötum í kalda stríðinu þegar Mogginn kallaði sænskmenntaða menningarvita á Íslandi Sænsku mafíuna, til haturs á lýðræðislegri umræðuhefð sem Íslendingum leiddist óskaplega í Norðurlandasamstarfi hér á árum áður og duttu frekar í það en reyna að skilja skandínavíska kollega sína.

Þegar ég flutti til Uppsala í Svíþjóð til að hefja þar háskólanám, fékk ég aldeilis að heyra það bæði frá hægri og vinstri mönnum á Íslandi hvað Svíar væru óskaplega leiðinlegir og óspennandi. Ég tók aldrei undir það, hef aldrei skilið hvernig hægt er að alhæfa slíkt um heila þjóð. Sjálfir urðu Íslendingar æfir þegar þeir voru settir í flokk með hryðjuverkamönnum í bankahruninu. En auðvitað er munur á þessum tveimur frændþjóðum, menningu þeirra og samfélagi og jafnvel geðslagi.

  Það fyrsta sem ég þurfti að gera í Svíaríki forðum var að koma mér upp sænskri kennitölu. Ég fór á þar til gerða skrifstofu til að sækja um kennitöluna en komst fljótt að því að hana fengi ég ekki nema hafa heimilisfang. Heimilisfangi gat ég þó ekki fengið nema hafa kennitölu. Sem sagt Catch 22. Þetta var fyrsti skrifræðisáreksturinn í sænska kerfinu en ekki sá síðasti. Allt í þessu landi lýðræðis og velferðar var Íslendingnum sem óskiljanleg framtíðarskáldsaga.

Og ekki tók betra við þegar ég byrjaði í náminu í starfsmiðaðri leiklist. Hver morgunn byrjaði á hópfundi þar sem fyrsti liður á dagskrá var að ákveða hvenær ætti að fara í hádegismat. Fyrir Svíum er og var hádegismaturinn algjör helgistund og því mikilvægt að ákveða hvenær hún færi fram, 11.30. 12.00 eða 12.30. Síðar gat hún ekki orðið, því klukkan 13.00 var lokað fyrir matinn og engin undantekning gerð þar á.

Ég hafði enga sérstaka skoðun á matmálstímunum en því meiri áhyggjur af því að sitja með krosslagða fætur á námslánum frá íslenska ríkinu til að ákveða hvenær best væri að éta hádegismat, ákvörðun sem gat tekið uppundir tuttugu mínútur ef allir tjáðu sig. Heima á Íslandi þar sem allt var best, var ég vön að borða hrært skyr í hádeginu og eina rúgbrauðsneið með mysingi og málið var dautt.   

En þegar öllu var á botninn hvolft fjallaði allt þetta tal um tímasetningu á hádegismatum ekki um lýðræði heldur um það sem ég vil kalla átillsku (s. foderilska) sem má alls ekki rugla saman við átröskun (s.anorexi). Átillska er skapvonskuástand sem orsakast af sykurfalli í blóðinu en það getur leitt af sér græðgislegt skyndihungur. Verði því ekki fullnægt strax, bitnar átillskan á þeim sem liggja best við höggi eins og hjá Þorgeiri Hávarssyni forðum.

Allar siðmenntaðar þjóðir hafa gert sér grein fyrir að meginuppspretta flestra átaka, jafnvel stríða og innrása í ókunn lönd stafa af átillsku í einhverri mynd, þess vegna er svo mikilvægt að borða reglulega. Og Svíar eru siðmenntuð þjóð sem kann að gera áætlanir fram í tímann, borða reglulega og fara vel með peninga, þótt það sé alveg hundleiðinlegur kostur.

Íslendingar gætu auðvitað lært heilmikið af frændum sínum á þessu sviði ef þeir byggju ekki í lokuðu gervihagkerfi í eigu nokkurra fjármagnsgreifa þar sem handónýtur gjaldmiðill gerir það að verkum að almenningur missir hvað eftir annað tilfinninguna fyrir verðlagi og heldur bara áfram að borga óráðsíuna sama hvað.  

Alveg frá því ég flutti til Svíþjóðar þarna fyrir næstum hálfri öld og alveg fram á þennan dag þegar ég er flutt þangað aftur, finn ég fyrir sama viðkvæðinu hjá löndum mínum þegar það berst í tal að ég búi í Svíþjóð. „Eru þeir ekki svo helvíti leiðinlegir Svíarnir,“ spyrja þeir og fitja upp á nefið. Sumum Íslendingum finnst nefnilega vanta allt bráðlæti í Svía, þennan eftirsóknarverða eiginleika sem Íslendingar eru svo stoltir af. Svíar eru með öðrum orðum ekki nógu „spontant“ og „kreatívir.“  

 Á þessum námsárum í Uppsölum, var að sjálfsögðu stofnað Íslendingafélag sem stóð fyrir góðum fylleríssamkomum til að fagna fullveldinu, blóta þorrann ásamt öðru þjóðlegu. Á þeim samkomum voru sko engin leiðindi heldur brjálað stuð. Ég og skáldmælt vinkona mín skrifuðum revíuna Uppsalabusi eftir hrakfarir okkar um skrifræðið og gerðum þar gegndarlaust grín að sænska velferðarkerfinu.

Engu að síður nutum við góðs af því, Svíar reyndust okkur smáþjóðarsálum vel þegar kom að húsnæði, atvinnu og félagslegum bótum. Og þegar við sögðumst vera frá Íslandi, brostu þeir út að eyrum og gera enn. Þangað langar þá alla að fara, til sögueyjunnar í norðri.

Ég er ekki enn búin að læra sænska þjóðsönginn og ekki orðin neitt sérstaklega leiðinleg þótt ég viti hvað hlutirnir kosta og sé farin að borða hádegismat reglulega. Ég er hvorki Íslendingur né Svíi, hef þó ekki alveg glatað þjóðlegum eiginleikum eins og bráðlæti sem hefur oft komið sér vel í sænska kerfinu.

Myndin sem fylgir þessum þjóðlegheitum er tekin á hinu sögufræga Sauðafelli í Dölum á Jónsmessunni sem ég fagnaði í 4 stiga hita með ægilega skemmtilegri sænskri vinkonu minni á meðan vinir hennar í Svíþjóð fögnuðu Midsommar í 32ja stiga hita. Lengi lifi Svíþjóð en ekki íslenska rigningarsumarið.    

Previous
Previous

Pestargemlingur

Next
Next

Af óheppni