Pestargemlingur

  Nei, nei, ég er ekkert með kóvíd, sagði ég sigri hrósandi eftir að hafa tekið tvö hraðpróf og fengið neikvætt út úr báðum. Þetta er eitthvað annað, bara kvef eða venjuleg flensa. Svo er ég búin að fá kóvíd, upprunalega Alfa afbrigðið, mynda mótefni, fara í þrjár sprautur og er gasalega hraust, með góð lungu og gott úthald. Nýbúin að fara í sjósund í köldum sjó hér út við eilífðarsæ, berja mér á brjóst og þakka almættinu fyrir heilsu mína og hreysti.

En ég féll nú samt fyrir veirunni í annað sinn þótt ekki væri það sjónum hér í Töfrafirði að kenna þar sem ég hef dvalið á þriðju viku, heldur helgarferð minn til höfuðborgarinnar. Þar var mér boðið í þriggja manna kjötbolluboð í heimahúsi. Einn gestanna var nýkominn frá Ítalíu og flutti með sér nýjasta afbrigðið sem hlífir engum.

Ég sat við hlið hans og það nægði, tveimur dögum seinna var ég komin með kverkaskít og daginn eftir fékk ég staðfestingu frá Ítalíufaranum að hann væri með veiruna. Ég rétt náði að aka vestur aftur og komst með herkjum undir sæng, hríðskjálfandi í lopapeysu og lopahúfu á hausnum og hef verið þar síðan að mestu leyti. Og alltaf kappklædd.

Stuttu síðar kom hjúkrunarlið að sunnan með hraðpróf í farteskinu til að staðfesta meint smit. Æðibunugangurinn var svo mikill við að taka prófið að ég kom út neikvæð, fyrst einu sinni og svo tvisvar. Ég hrósaði sigri, þetta var ekki veiran, bara slæm pest, afneitunin alger. En þegar veikindin urðu verri og lögðu mig að lokum flata, ákvað ég að taka prófið í þriðja sinn og vanda mig.

Ég fór nákvæmlega eftir leiðbeiningunum, kafaði djúpt með pinnanum, sneri og hrærði í nefholinu til að ná nægilega magni, hrærði því síðan saman við prufuvökvann í 30 sekúndur eins og lög gera ráð fyrir, hristi og kreisti glasið vandlega og lét dropana fjóra síðan leka á mælistikuna. Og bingó, rauðu strikin tvö komu strax í ljós, þurftu engar fimmtán mínútur, hvað þá hálftíma. Ég var með bullandi kóvíd, afneitun minni lauk skyndilega.

Í fyrra skiptið sem ég fékk veiruna, lá ég í rúminu fullkomlega rænulaus í þrjá sólarhringa og missti lyktar- og bragðskyn, druslaðist síðan á lappir aftur föl og fá og fann fyrir vöðvaverkjum í nokkrar vikur á eftir. Ég var hæstánægð með heilsuna í tvö ár og þótti undarlegt að margbólusett fólk væri að hrynja niður allt i kringum mig, vinir og vandamenn.

Ég prísaði mig sæla með allar mínar varnir og var viss um að ekkert myndi henda mig. Auðvitað vissi ég að um nýtt afbrigði af veirunni væri að ræða sem öll bóluefnin dygðu ekki gegn og að án þeirra gætu afleiðingar veikindanna orðið alvarlegri og jafnvel banvæn. En ég ég skildi samt ekki hvers vegna ég veiktist aftur, ég sem var með svo góð lungu og mikið úthald og enga undirliggjandi sjúkdóma.

Nú eru tólf dagar frá því ég smitaðist og enn fæ ég kuldaköst, hnerra- og hóstaköst. Höfuðverkurinn ætlar ekki að hverfa, heilu búntin af verkjatöflum hverfa ofan í mig og svefnþörfin eykst. Ég kemst vart út fyrir hússins dyr, þreytist eftir að hafa boðið góðan daginn, sef heilu og hálfu dagana og held alltaf þegar ég vakna úthvíld að nú fari þessu að ljúka. En nei, hóstaköstunum fækkar að vísu en þau verða verri þegar þau koma, ég stend á öndinni í nokkrar mínútur og nýja hjúkrunarliðið er tilbúið að kalla á þyrfluna ef í harðbakkann slær.

 Eina tilraun gerði ég hér á dögunum til að anda að mér frísku sjávarlofti, gekk eftir hvítri fjörunni inn að Bernskuánni til að heimsækja vini mína, straumandaparið, sem á sinn uppáhaldsstað rétt fyrir neðan flúðirnar neðst í ánni. En þær voru ekki heima, engin hreyfing í grennd, ekki einn fugl á sjó, ekki á lofti heldur.

Refurinn kannski búinn að flæma straumendurnar burt, éta ungana þeirra í sefinu, sporin í fjörusandinum augljós merki um endalaust ráp hans í leit að æti handa sér og sínum. Fyrsta kvöldið sem ég var hér spígsporaði hann ánægður með sig eins og hver annar landeigandi rétt handan við bæjarlækinn, enn ekki kominn úr vetrarhamnum, hvítar skellur enn á brúnum feldinum og þykku skottinu.

En nú er ég komin undir sæng aftur og út um gluggann minn sé ég ofurlitla duggu að prófa hvítu seglin sín í fjarðarmynninu. Hún lætur berast fyrir hægum vindi og nú hefur sólin brotist fram og glampar á merlandi hafinu. Mesta skjólið og hlýjan er sunnan við hús og þar leyfi ég mér að setjast í grassvörðinn til að drekka í mig dévítamínin úr sólargeislunum í þeirri von að hressast.

Sóleyjarnar standa í fylkingum við bæjarleikinn, þrestirnir leika sér í nýræktuðum skóginum og hrossagaukurinn spilar á sitt stél á meðan maríuerlur hreiðra um sig undir þakskegginu og dansa ballett á hlaðinu. Fjallið fyrir ofan bæinn er í senn mikilúðlegt og verndandi, svartir og sorfnir klettarnir eru höggmyndir skaparans, minna á verkin hennar Brynhildar Þorgeirs.

Birtan á himninum er aldrei eins, tekur stöðugum breytingum allt eftir því hvernig ljósið fellur á þessa haganlega útskornu leikmynd, ljósameistarinn greinilega mikill listamaður. Hér eru engir ferðalangar, engin kjötbolluboð, bara útvarp og hlaðvarp sem gott er að sofna út frá og hlusta aftur.

Ég þakka guði fyrir einangrunina en kvíði væntanlegu ferðalagi heim, má ekki fá svona óvænt hóstakviðukast í flugvélinni. Óþarfa faðmlög og kossaflens ekki lengur í boði, gríma og spritt við hendina og það sem skiptir mestu, halda fjarlægð frá öðru fólki. Nei, nei, ég er ekkert með kóvíd, ég er svo hraust og búin að fá pestina, ég þarf ekkert að passa mig sérstaklega. Ég er enginn pestargemlingur. Stundum er afneitunin verri en pestin sjálf. En ég er samt að hressast.

 

Previous
Previous

Forvitni

Next
Next

Um þjóðlegheit