Forvitni

Ég hef alltaf verið forvitin. Ekki um fólk endilega, jú, jú, líka um það en samt ekki um sænsku eða bresku konungsfjölskylduna. Hinsvegar er ég brjálæðislega forvitin um hvernig fólk hugsar og finnur til, hvernig það hagar sér og kemur fram við hvert annað, já hvernig það hagar öllu lífi sínu.  

Í gamla vinkvennahópnum mínum byrjuðu mörg samtöl okkar á að spyrja í gamni hverjir væru byrjaðir eða hættir að vera saman, óléttir eða nýbúnir að eiga. Nú sér Facebook um það slúður og óþarfi að spjalla um það í síma eða á förnum vegi. Ég byrja þó alltaf á því að segja vinkonum mínum að ég sé enn á föstu þegar þær spyrja mig frétta en þó ekki ólétt og gifting sé ekki í nánd.

Svo snýst samtalið fljótt upp í hvað kona hafi verið að bardúsa að undanförnu. Þegar bókasöfnin streyma beint í eyru og bíómyndir í augu er af nógu að taka. Nútímamaðurinn býr á netinu og nærir forvitni sína þar. Þessi aðgangur að ýmiss konar veitum er alger gullnáma fyrir svona forvitnispúka eins og mig.

Að undanförnu hef ég þó sagt upp mörgum streymisveitum af því ég hafði aldrei tíma til að horfa á þær, ekkert frekar en fólkið hér fyrir tíma alnetsins sem tók upp bíómyndir og þætti sem það ætlaði alltaf að horfa á síðar þegar það hefði tíma. En þetta „síðar“ kom auðvitað aldrei og því hlóðust upp hillumetrar af VHS spólum og rykféllu á heimilum áður en þær lentu í Sorpu.  

 Nú læt ég mér nægja það sem hægt er að finna í fjölbreyttum sarpi sænska sjónvarpsins. Þar sá ég á dögunum mjög forvitnilega kvikmynd um líf bandaríska ljósmyndarans Roberts Mapplethorpe, sem eitt sinn var elskhugi Patti Smith (svo slúðrinu sé haldið til haga), en Robert heillaðist þó alla tíð meira af karlmönnum eins og ljósmyndalist hans vitnar um. Hann var meistari ljóssins, notaði linsuna sem pensil þar sem líkami karlmannsins var oftast í aðalhlutverki. Því miður slokknaði ljósið í lífi hans allt of snemma en hann varð eitt af fórnarlömbum alnæmis og féll frá aðeins 43ja ára að aldri.

Önnur forvitnileg heimildamynd fjallaði um dýrasta málverk í heimi Salvator Mundi (Frelsari heimsins) eftir Leonardo da Vinci sem dúkkaði allt í einu upp í New Oreleans 2005 öllum að óvörum. Eigendasagan undanfarna öld var óljós sem og hvort þetta væri orginalinn eða fölsuð eftirmynd en engu að síður endaði hún á uppboði hjá Christie´s og var þar slegin á 450 milljónir dollara líklega versta einræðisherra heims, núverandi konungi Saudi-Arabíu sem eflaust sá sjálfan sig í málverkinu.

Jackie Collins og hennar reyfaraveldi er umfjöllunarefnið í myndinni Lady Boss þar sem farið er ofan í saumana á ævi hennar, vinsældum og áhrifum meðal kvenna. Fáar skrifandi konur í Bandaríkjunum höfðu fyrir hennar tíð leyft sér að lýsa kynlífi kvenna á jafn bersöglan hátt og hún gerði í sínum bókum. Og hvað sem fólki kann að finnast um Jackie og hennar skrif, leit hún alla tíð á sig sem feminista og bækur hennar höfðu tvímælalaust frelsandi áhrif á konur út um allan heim sem bjuggu við niðurlægingu í sínum hjónaböndum.    

Allt er þetta afar forvitnilegt en það sem er forvitnilegast er þó hlaðvarpið. Ég hef verið að hlusta á tveggja manna samtal á Spotify, Myter och mysterier (Goðsagnir og ráðgátur) þar sem bókstaflega ALLT er til umræðu sem varðar manneskjuna. Umræðuefnin eru óteljandi, allt frá trúarbrögðum til vísindaskáldskapar og fljúgandi furðuhluta.

Um daginn hlustaði ég á söguna af Páli postula sem áður hét Sál af Tarsus og var fanatískur farísei. Sál ofsótti fyrstu áhangendur Krists í Jerúsalem og var einmitt á leið til Damaskus í Sýrlandi í sömu erindagjörðum þegar Jesús upprisinn birtist honum í skæru ljósi. Við það blindaðist hann en fékk síðan sjónina þremur dögum síðar og hafði þá frelsast til kristni. Allir þekkja framhaldið, fáir postular hafa haft jafn mikil áhrif með orðum sínum og Páll. 

Mér varð hugsað til móðurbróður míns sem var mikill Hvítasunnumaður allt frá því hann frelsaðist rúmlega tvítugur. Hann hringdi reglulega í mig til að reyna að frelsa mig, sendi mér bækur og rit sem hann vildi að ég læsi. Lengi vel leiddist mér þessi trúarlegi ágangur eða allt þar til ég varð nægilega forvitin um sjálfa frelsunina.

Hvernig frelsaðist hann eiginlega? Jú, hann var að læra húsasmíðar og í einu hádegishlénu gerðist það. Hann stóð hátt uppi á stillans norður á Akureyri þegar honum skyndilega birtist skært ljós af himni. Hann varð sem blindaður eins og Sál forðum en um leið fór um hann mikil sælutilfinning. Hann fann að nú væri ekki aftur snúið, Kristur hafði birst honum og upp frá því skyldu þeir eiga samleið.

Þegar ég var komin til vits og þroska svona rétt upp úr fimmtugu (svo ægilega seinþroska), fór ég að spekúlera mikið í þessari frelsun frænda míns og reyna að skilja hvað í reynd gerist þegar ljósið birtist svona fyrirvaralaust í lífi fólks. Hvaða ljós er þetta eiginlega og hvaðan kemur það? Er það eitthvað raflost í heilanum eða straumrof?  

Mér er það enn sem hulin ráðgáta en ég hef auðvitað giskað á ýmislegt sem tengist þjáningunni af því að vera til, innri átökum sem stundum einmitt leiða til straumrofs svo  stýrikerfi sálarinnar hrynur. Stýrikerfið í mér hefur hrunið tvisvar um ævina og ég lent í almyrkva. En af því ég er svo forvitin tókst mér að klöngrast út úr honum og sjá ljósið á ný.

En forvitni minni eru þó viss takmörk sett. Konungsfjölskyldur eiga ekki upp á pallborðið hjá mér. Lýg því reyndar því fyrir skömmu grennslaðist ég fyrir um það á google hversu mörg börn þau ættu, Harry og Meghan, af einskærri forvitni. Hélt þau ættu ekki nema eitt, hafði ekki hugmynd um að þau væru orðin tvö!

 

 

.

Previous
Previous

Ég var yfirhomminn

Next
Next

Pestargemlingur