Ég var yfirhomminn

Þegar Borgarleikhúsið setti upp bandaríska leikritið Englar í Ameríku eftir Tony Kushner árið 1993 var regnboginn ekki til á Íslandi og hinsegin umræðan ekki heldur. Leikritið var nýskrifað og Borgarleikhúsið var með fyrstu leikhúsum sem sýndi það utan Bandaríkjanna og ég var leikstjórinn.

Í stuttu máli fjallaði verkið um samkynhneigð og alnæmi og hvernig afstaðan til einstaklinga með sjúkdóminn mótaðist af íhaldssömum viðhorfum í bandarísku í samfélagi. Þar léku stjórnmál og trúarskoðanir stórt hlutverk. Þetta var óvenjulegt leikrit á allan hátt, bæði umfjöllunarefni þess og öll bygging. Það var meira í laginu eins og kvikmynda- eða sjónvarpshandrit enda var síðar gerð sjónvarpssería upp úr verkinu.

Öll hlutverkin, sem voru í kringum tuttugu, voru leikin af fimm karlmönnum og þremur konum að ósk höfundar. Karlleikararnir léku homma sem voru annað hvort komnir út úr skápnum, lifðu í óhamingjusömu heteró hjónabandi eða voru í algerri afneitun á kynhneigð sína. Leikkonurnar léku hvorutveggja kven- og karlmannshlutverk sem var óvenjuleg áskorun fyrir þær á þessum tíma einkum þá elstu í hópnum.

 Þegar æfingatímabilið hófst var ljóst að það þyrfti að koma leikhópnum í skilning um þann heim sem verkið endurspeglaði enda var þetta fyrir daga fyrstu gleðigöngunnar á Íslandi. Opinberlega voru kynin aðeins tvö og það fór lítið fyrir hinsegin fólki nema helst á barnum á 22 sælla minninga. Flestir voru því alveg óundirbúnir að fást við þá menningu og samfélag sem Kushner fjallar um í verkinu.

 Ég tók því fljótlega ákvörðun um að fyrsta æfingavikan yrði gerð að hommaakademíu eins og ég kallaði hana. Aðeins einn leikari í leikhópnum var yfirlýstur hommi en hinir leikararnir voru allir heteró eftir því sem ég komst næst og ég sjálf líka. Leikritið fjallaði náið um ástar- og kynlífssambönd samkynhneigðra karlmanna, niðurbældar tilfinningar og kynóra en undir kraumaði bandarískt samfélag þar sem Roy Cohn var í einu aðalhlutverkinu.

 Roy þessi Cohn var lögfræðingur að mennt og hafði verið einn helsti ráðgjafi hins illræmda Josephs McCarthy sem ofsótti kommúnista í byrjun sjötta áratugarins. Cohn var samkynhneigður gyðingur sem hataði homma og afneitaði hommasjúkdómnum en dó sjálfur úr honum 1986. Einn af aðdáendum Cohns var enginn annar en Donald Trump en Cohn sá til þess með lagaklækjum að Trump hlyti ekki dóma fyrir ólöglega auðsöfnun sína og valdabrölt.

Í hommakademíunni kom einn gestur á dag og fræddi leikarana um allt sem skipti máli varðandi efni leiksins. Við fengum til okkar ónefndan homma sem hafði smitast af sjúkdómnum. Þorvaldur Kristinsson allsherjar hinseginfræðingur talaði við okkur um ástir og kynlíf homma á einlægan og opinskáan hátt. Þórir Kr. Þórðarson guðfræðingur útskýrði fyrir okkur Gyðingdóm og Mormónatrú og þýðingu þeirra fyrir verkið og persónur þess. Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðingur sagði okkur allt um Roy Cohn og hlutverk hans í bandarískum stjórnmálum en vildi ekki kalla hann homma, af því hann var ekki reseptívur hommi eins og hann orðaði það. Ég læt lesendum eftir að túlka hvað hér er átt við.

 Í þessari akademíu var ég yfirhomminn og leiddi umræðuna áfram með spurningum til gestanna en síðan mátti leikhópurinn spyrja þá um allt nema eitt. Það var ekki í boði að spyrja hvort þeir sjálfir væru hommar því það var einkamál hvers og eins og kom okkur ekki við.

Fyrsti maðurinn sem ég varð alvarlega ástfangin af var hommi en auðvitað vildi hann ekki sofa hjá mér, bara eiga mig sem vinkonu. Og þannig hefur það verið með fleiri homma sem ég hef fallið fyrir. Ég hefði þurft að skipta um kyn til að hafa séns í þá. Kannski hef ég aldrei komið út úr skápnum með að ég er kvenkyns hommi af því mér var snemma kennt að vera heteró kona. En nú eru kynin svo mörg að ég get valið hvað ég vil vera hvenær sem er. Líklega er ég kvár þegar allt kemur til alls. Eða segi ég það bara af því það er ekki lengur smart að vera heteró?

Málið er að öll barátta hinsegin fólks beinist gegn úreltri heteróhugsun og valdastrúktúr feðraveldisins. Þetta er sama feðraveldið og feministar börðust gegn og gera enn. Og baráttar ratar víða m.a. inn í tungumálið. Við þurfum að læra að tala um hinseginfræðin með nýjum orðaforða og hugtökum.

Þess vegna þurfum við hinsegin daga og hinsegin akademíur með reglulegu millibili. Mikilvægast er þó að gangast við kynhneigð sinni því annars er hætt við að tilveran verði ekki sú gleðiganga sem flestir óska sér eða eins og sungið var í gömlu leikriti:

,,Að vera heteró, að vera hómó, að vera bíbí, þríþrí eða sómó, það skiptir engu en er þó málið, að koma úr felum, felum, felum. Að vera kona, að hætta að vona, að vera hinsegin eða bara svona, það skiptir engu en er þó málið, að koma úr felum, felum, felum.“

Gleðilega hinsegin daga!

 

 

 

 

           

 

 

.

Previous
Previous

Sorgardagar

Next
Next

Forvitni