Sorgardagar

Á eftir gleðidögum koma sorgardagar. Gleðin getur ekki alltaf verið við völd. Ég verð að játa að ég hef verið sorgmædd að undanförnu yfir svo mörgu en aðallega yfir óhamingju annarra, ógæfu og dauða. Þorsteinn heitinn Gylfason heimspekingur skrifaði eitt sinn minningargrein um vinkonu sína og þar hnaut ég um eina setningu sem ég hef aldrei gleymt. Hún var eitthvað á þessa leið: óhamingjan er óskiljanlegri en dauðinn.

Í þessu felst mikill sannleikur svona álíka mikill og sá sem sænska leikskáldið Lars Norén lét bitran bróður segja um sjálfan sig í fjölskyldudramanu Laufin í Skuggadal, nefnilega að hann væri of greindur til að geta orðið hamingjusamur. Ég hnaut um þessa setningu þegar ég þýddi leikritið fyrir Þjóðleikhúsið og hef velt henni fyrir mér allar götur síðan ekki síst vegna þess að um leið og hún er sönn felst í henni mikil kaldhæðni. Það fer ekki alltaf saman að vera góðum gáfum gæddur og geta höndlað hamingjuna hver sem hún er þessi oft á tíðum óskilgreinanlega hamingja.

Sjálf hef ég ótal sinnum verið afskaplega óhamingjusöm og hreint út sagt sorgmædd og jafnvel gengið svo langt að hugsa að heimurinn væri betri án mín. Eða öllu heldur, ég betur sett án hans, sérstaklega á stundum þegar ég hef átt erfitt með að tengja mig við mína nánustu, samfélagið og tímann. Samt hef ég aldrei alveg gefist upp ekkert frekar en þorrinn allur af fólki sem vaknar á hverjum morgni til sinnar vinnu og verkefna og þraukar í gegnum mismikla gleði eða óhamingju.

Upp á síðkastið hefur mér hefur verið hugsað til móður minnar sem af ýmsum ástæðum var aldrei nógu ánægð með sitt hlutskipti. Hún virtist aldrei finna það sem hún leitaði að og því fylgdi gífurleg ófullnægja alla tíð svo mikil stundum að hún var að gera mig og aðra brjálaða. Óskilgreind óánægja hennar fólst að einhverju leyti í að koma því ekki almennilega í verk sem hún vildi helst en það var að fást við myndlist. En óánægja hennar var líka af öðrum toga spunnin og þar léku vanmetakennd og lélegt sjálfstraust stór hlutverk. Hún var aldrei ánægð með útlit sitt, barðist stöðugt við aukakíló en hélt jafnframt uppi stöðugum aðfinnslum og gagnrýni á útlit annarra, klæðaburð og heimili.

Það var varla hægt að bjóða henni heim án þess að hún fyndi að flestu sem fyrir hana var borið. Það mátti ekki setja smjörið í umbúðunum á borðið, heldur átti að sneiða það huggulega niður á disk. Hún strauk gjarnan fingrinum eftir bókahillum eða myndarömmum og sagði að það væri kominn tími til að þurrka af. Og svo var aldrei nógu gott loft fyrir hana, alltaf einhver vond lykt í hennar nösum enda óvenju lyktnæm kona. Eitt sinn fékk ég nóg af þessum athugasemdum og henti henni tæplega sjötugri út af mínu heimili og fékk auðvitað bilaðan móral á eftir.

Það liðu nokkrir mánuðir þar til við hittumst næst. Hún bauð mér í áramótagleði sem ég auðvitað þáði enda var alltaf svo fínt hjá henni og góður matur. Þegar líða tók að miðnætti og við vorum öll komin út á stétt klædd þykkum vetrarflíkum og bomsum í frostinu og snjónum og flugeldarnir boðuðu nýtt ár, gekk ég tilfinningaþrungin upp að mömmu og bað hana að fyrirgefa mér. Við féllumst í faðma og grátandi hvíslaði ég að henni: Elsku mamma, við erum orðnar svo fullorðnar að bráðum verðum við báðar komnar á elliheimili, kannski saman og þá getum við ekki verið í fýlu út í hvor aðra. Hún tók á móti fyrirgefningu minni og upp frá því reyndust samskiptin aðeins skárri þótt enn bæri á óánægju hennar með allt og alla. Ég var aldrei með réttu hárgreiðsluna, aldrei rétta varalitinn, aldrei alveg rétt klædd miðað við mitt sköpulag.

Oft fór ég sorgmædd af fundi mömmu, alveg miður mín og niðurbrotin en svo áttum við líka okkar gleðistundir, okkur þótti báðum gaman að ferðast og á síðustu æviárum hennar létti ég stundum á aðstandendum sem voru líka stundum að kafna úr aðfinnslum hennar og ók henni um allt Ísland svo hún gæti dáðst að litum landsins, formum og hrífandi landslagi. Á ferðalögum var hún aldrei óánægð, nógu margt bar þá fyrir augu hennar sem gladdi. Og ekki gat hún gagnrýnt náttúruna.

Já, á eftir gleðidögum koma vissulega sorgardagar en sorgin er ekki eilíf frekar en gleðin og þess vegna er svo gott að muna að óhamingjan er viðráðanleg. Þannig hef ég siglt í gegnum nokkur óhamingjutímabil, sest niður eða lagst í rúmið og hugsað: Þetta hlýtur að ganga yfir, líða hjá - sem það og gerir.

Stundum getur óánægjan þó verið svo uppáþrengjandi og frek að hún ætlar alveg að kljúfa mig í tvennt. Þá takast þeir á minn innri veruleiki og sá ytri. Milli þeirra myndast stundum hræðilega djúp gjá sem mér finnst ég muni aldrei getað brúað og óhamingjan hellist yfir mig.

 Innst inni veit ég þó að eftir sorgardaga koma gleðidagar og það er einmitt sú fullvissa sem gefur mér kjark til að halda áfram inn í nýtt tímabil, nýja áfanga, nýtt líf. Þá fullvissu hef ég öðlast með því að treysta fagfólki fyrir sjálfri mér og minni vanlíðan.

Já, óánægja og óhamingja sumra er óskiljanlegri en dauðinn sem í mörgum tilvikum leysir þetta ófremdarástand sálarinnar af hólmi. Hingað til hefur mér tekist að tolla hérna megin, það getur varla verið jafn gaman hinum megin eins og þegar það er virkilega gaman hérna megin. En ég get auðvitað ekkert fullyrt um það. Ætli ég tölti þetta ekki áfram.  

 

 

 

 

           

 

 

.

Previous
Previous

Heimskautaverur

Next
Next

Ég var yfirhomminn