Hreinsun

 Um áramótin síðustu var ég beðin um að tala í fimm mínútur um hreinsun í Ríkisútvarpinu undir dagskrárliðnum Uppástand. Ég las textann inn á símann minn og sendi hann síðan frá mér. Og þar sem ég er alltaf að hreinsa til í lífi mínu, fann ég þennan texta í tölvunni rétt í þessu og leyfi honum að fljóta hér með öðrum hugleiðingum. Niðurstaða mín er að við sálræna hreinsun sé best að hafa sjálfvirka hreinsibúnaðinn í lagi, sérstaklega þegar hreinsa þarf út íþyngjandi leyndarmál. En hér kemur mitt uppástand:

Það eru til margar tegundir af hreinsunum í þessum heimi. Það er hægt að hreina mannorð sitt, samvisku og áru svo eitthvað sé nefnt. En svo er líka hægt að hreinsa burt fólk með rangar skoðanir, af röngu kyni eða kynþætti eins og mannkynssagan sýnir og sannar. Í dag eru konur sem mótmæla afturhaldi klerkastjórnarinnar í Íran miskunnarlaust hreinsaðar af götunum í borgum landsins. En ég ætla ekki að tala um þannig hreinsanir. Og ekki einu sinni götuhreinsanir Reykjavíkurborgar í fannferginu. Ég ætla að tala um ytri og innri hreinsanir.   

 Ég hef alltaf álitið mig frekar snyrtilega manneskju. Já, eiginlega mjög hreinláta. En ég hef samt aldrei verið neinn sérstakur snyrtipinni. Hvorki ryksugan né borðtuskan eru bestu vinkonur mínar. En ég er rosalega flínk í að fengsjúa hýbýli mín, losa mig við allan óþarfa, dugleg að sortera og fer reglulega í Sorpu. Fyrir það hef ég hlotið mikla aðdáun raunverulegra vinkvenna minna. Ég hendi þó engu nema það lendi örugglega í réttum gámi. Og þar sem ég losa mig við allan óþarfa strax þarf ég ekki á neinni geymslu að halda. Það er ekkert að geyma og ekkert að fela. Allt sem ég á kemst fyrir í mínum hýbýlum, í tölvunni eða hausnum á mér.

En þótt ég sé snyrtileg og hreinlát manneskja, tek ég sjaldan til eða í hæsta lagi fjórum sinnum á ári. Og þá meina ég taka til, færa til húsgögn og fara út í öll horn og fljúga eins og dróni upp um allar eldhúshillur og skápa, smeygja mér ofan í og bakvið klósettskálina, undir klósettvaskinn, já á alla þá staði sem sjaldnast eru þrifnir, fæ gott og heilbrigt kast á allar bakteríur sem kunna að leynast í skorum og samskeytum, á flísum og fúgum.

 

En ég nota enga snyrtipinna við verkið, ég er ekki með nógu góðar fínhreyfingar til þess. Ég nota bara spraybrúsa með vellyktandi eiturefnum á allt ógeðið og hamast síðan með fjölnota trefjatusku á postulíninu, pússa svo yfir með sérstöku klósettviskastykki. Þegar best lætur þríf ég sjálf þrifáhöldin, baða eldhússópinn, hreinsa klósettburstann með vænum skammti af klóri, já, ég skrúbba allt í drasl, set síðan allan tuskuflotann í þvottavél og stilli á suðu. Þannig tel ég mér trú um að ég dauðhreinsi og drepi allar bakteríur þar til kemur að næstu ársfjórðungslegu tiltekt.  

 En svo er það innri hreinsunin. Hún er af margskonar toga, bæði líkamlegum og andlegum. Einu sinni þekkti ég konu sem drakk nokkur glös af vatni á dag með hörfræjum. Af þeirri blöndu hlaust mikil hreinsun sem konan líkti við innvortis sturtu. Kílóin bókstaflega fuku af henni og eftir allar þessar innvortis sturtuferðir varð hún nær óþekkjanleg en bæði föl og intressant. Allur líkamlegur skítur var á bak og burt en litlar spurnir fóru af þeim andlega. Hér áður fyrr var hann oft hreinsaður út með nokkrum glösum ef ekki lítrum af alkóhóli, að minnsta kosti þótti það heillaráð að detta ærlega í það með regulegu millibili til að hreinsa út allar bældar minningar og tilfinningalega óreiðu. Oft gerðist það einmitt um áramót og þá var farið á langþráð trúnó og grátið mikið.    

Í fyrstu sóttkvínni sem ég lenti í þegar heimsfaraldurinn var rétt að byrja, hreinsaði ég ærlega til í minningaskápnum þar sem bréf og ljósmyndir frá löngu liðnu lífi voru vandlega geymd. Það fór um mig þegar ég datt í að lesa löng bréf frá gömlum kærasta sem reyndi að hreinsa sig af óheilindum með tilheyrandi hrútskýringum. Þau lentu auðvitað öll í ruslinu eftir að hendur mínar og fingur breyttust í pappírstætara. Aftur fór um mig þegar ég fann ljósmyndir af löngu látinni hjásvæfu, ólukkulegum karlmanni sem var annaðhvort fullur eða skelþunnur þegar hann lenti á filmunni. Þær enduðu líka í lífræna pappírstætaranum. Af þessu varð mikil innri hreinsun. Það er svo gott að losa sig við minningar sem hafa ekkert gildi lengur, enga sögn, enga merkingu en óhreinka bara sálina.   

 Hreinsanir geta verið bæði skemmtilegar og leiðinlegar. Leiðinlegast er að hreinsa bakaraofn með brunninni fitu eða losa um stífluvaldandi hárflóka úr sturtuniðurfalli. Skemmtilegast er að hreinsa skrifborðið eftir langa vinnutörn. Allra skemmtilegast er að taka gamlan handritabunka eftir að skriftum lýkur og fleygja honum í pappírsgáminn í Sorpu. Að vísu hef ég stundum haft áhyggjur af því að starfsmenn Sorpu hirði eitthvað af þessum blöðum og komist að einhverju leyndarmáli sem ekki fékk pláss í endanlegri gerð handritsins, leyndarmáli sem má alls ekki koma fyrir sjónir annarra. En sem betur fer, er hugurinn fljótur að hreinsa sig af slíkum áhyggjum með sínum sjálfvirka hreinsibúnaði. Án hans værum við í djúpum skít. Án hans væri vandlifað.

 

 

Previous
Previous

Dansmeistari á heimsmælikvarða

Next
Next

Óvenjulegur höfuðverkur