Dansmeistari á heimsmælikvarða

Allar götur frá því ég var hjá enskum dansmeistara við Hverfisgötu  hef ég hrifist af dansi, alls konar dansi, ekki bara klassískum ballett sem ég lærði í mörg ár og varð til þess að leið mín lá inn í leikhúsið síðar meir, heldur ekki síst því sem kallað er nútímadans. Margir kvarta yfir því að þeir skilji ekki nútímadans, ekkert frekar en nútímaljóð eða nútíma myndlist. Ég ætla ekki að nefna nútímatónlist, gagnvart henni eru mestu fordómarnir.

Natúralisminn tröllreið því miður öllu listuppeldi hér áður fyrr og fólki var kennt að listin ætti að vera eftirlíking af raunveruleikanum, auðmelt og auðskilin. Þetta átti sérstaklega við um bókmenntir en ekki síst um tónlist og dans. En málið er að einungis með list er hægt að tjá það sem ekki er hægt að skilja eins og finnskur rithöfundur orðaði það eitt sinn í sænsku dagblaði. Hann hét Henrik Tikkanen.

Mér detta þessi orð hans alltaf í hug þegar ég hef orðið fyrir stórkostlegri listrænni reynslu eins og gerðist á dögunum. Ég sat límd fyrir framan sjónvarpsskjáinn og horfði á útsendingu frá Gautaborg þar sem dansflokkur óperunnar þar í borg, sýndi rúmlega tveggja tíma langt verk eftir Alexander Ekman í tveimur þáttum. Alexander þessi Ekman er fyrir löngu orðinn þekktur danshöfundur og hefur unnið út um allan heim m.a. á Íslandi en hann gerði verkið Endastöð með Íslenska Dansflokknum árið 2008. Og af því ég minnist á Íslenska Dansflokkinn má ég til með að þakka aðstandendum hans fyrir öll verkin sem hafa stuðlað að auknum áhuga almennings á nútímadansi. Á sama hátt og evrópska dansleikhúsið, einkum það þýska og belgíska, hefur Íslenski dansflokkurinn verið leiðandi í umbreytingu sviðslista á undanförnum árum og ætti eiginlega að heita Íslenska dansleikhúsið. 

 Það þarf ekki að grúska lengi í sviðslistasögunni til að komast að því að uppruna leikhússins er að finna í dansinum. Út úr hreyfingu og dansi spratt orðið og ljóðið sem var sungið í kór á leiksviðum fornaldarinnar í Grikklandi. Síðar meir varð sjálft dramað til þegar einn úr kórnum klauf sig út úr honum. Og þegar sá næsti steig út úr kórnum varð samtalið til á leiksviðinu og þar með var leikritið fætt. Og af því ég var að tala um Alexander Ekman og sýningu hans í Gautaborg sem heitir Hammer, má ég til með að geta þess að þar fer allt saman sem gerir leikhúsreynsluna svo einstaka, í henni má finna drama og húmor, fegurð og ljótleika í samfélagi manna.

 Erindið sjálft er þó mikilvægast, dansmeistarinn hefur eitthvað að segja okkur, eitthvað mikilvægt um samtímann, um sjálfhverfa menningu, sýniþörf og hjarðhegðun sem gengur út í öfgar í nútímasamfélagi. Þá getur verið nauðsynlegt að taka fram hamarinn og brjóta glerið til að komast út eins og þegar lest fer út af sporinu eða nota hann til að slá réttan tón á ný. Svo er það útfærslan sjálf á þessu erindi, dansmeistarinn kann að virkja 25 manna danshóp sem er á hreyfingu allan tímann og er óþreytandi við að miðla margvíslegum hugmyndum sem skapa enn fleiri hugrenningatengsl hjá áhorfandanum.

 Sjaldan eða aldrei hef ég séð annan eins líkamlegan þrótt, sameiginlegan kraft og einbeitingu hjá einum dansflokki. Hér sannast það sem gamall breskur kennari sagði vera lykilatriði í allri leikstjórn og listrænni stjórnun en það er hæfileikinn til að skapa andrúmsloft þar sem  hópurinn gefur sig á vald og fylgir grunnhugmyndinni sem lagt er upp með í byrjun. Ekki af nauðung heldur einskærum vilja og ástríðu. Þannig fá hæfileikar og persónuleiki hvers listamanns að njóta sín. Og þar með verður magían til, sviðsgaldurinn eftirsótti, listin í sínu tærasta formi. 

 Í þessu tilviki er það ekki bara dansmeistarinn og hópur hans sem skapa galdurinn. Með í för eru tveir aðrir listamenn, tónskáldið Mikael Karlsson með sína örlagaþrungnu og ögrandi músík en þeir hafa unnið saman að nokkrum sýningum eins og Eskapist sem ég sá líka í sjónvarpi fyrir fáum árum og féll þá fyrir dansleikhúsi Alexanders Ekman. Þriðji maðurinn í listræna teyminu er svo danski búningahönnuðurinn Henrik Vibskov en hann er fyrst og fremst þekktur sem tískuhönnuður. Það er engum blöðum um það að fletta að sláandi búningar hans sem eru myndlist úr af fyrir sig, eiga stóran þátt í þeim sjónrænu áhrifum sem bæði Hammer og Eskapist ná að framkalla.

 Fyrir gamla áhugamanneskju um hreyfingu og dans var sérstaklega gaman að skynja kunnuglegar aðferðir og æfingar úr þjálfun leikara og dansara sem Ekman notast við í kóreógrafíunni eins og kontaktspuna og pilates en svo eru líka sjáanleg áhrif frá öðrum evrópskum dansmeisturum. Meðal þeirra má nefna Mats Ek sem var kennari Ekmans og  Cullbergballettinn sem var brautryðjandi í nútímadansi í Svíþjóð.  

Alexander Ekman er hiklaust einn af frumlegustu og djörfustu dansmeisturum í alþjóðlega dansleikhúsinu. Sýningar hans koma stöðugt á óvart og láta engan ósnortinn. Og það sem meira er, þær þola fleiri en eitt áhorf sem þýðir að hér er úrvalslist á ferðinni. Og þannig er það með alla góða og framúrskarandi list, hún kallar á mann aftur af því hún býr yfir óræðum töfrum sem ekki er endilega hægt að útskýra eftir eina yfirferð.  

Dansleikhús Alexanders Ekman er dæmi um nútímalist á heimsmælikvarða. Bakvið slíkan árangur liggur gífurleg vinna, úthald og þrautseigja. Öðruvísi verða afrekin ekki til. En það þarf jafnframt hæfileika til að njóta afrekanna án kröfunnar um tafarlausan skilning eða merkingu. Merkingin vex fram síðar. Allir sannir listamenn eru nefnilega alltaf að tjá það sem þeir ekki skilja og það er mikilvægt að skilja það.         

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Dumbungur

Next
Next

Hreinsun