Dumbungur

Ég er komin i fjörðinn minn sem ég á auðvitað ekki neitt í en hann aftur móti mikið í mér. Fyrsta gönguferðin á fornum slóðum rifjar upp gamlar minningar þegar ég gerði lítinn hálf hringlaga hvamm að útileikhúsi eins og í Grikklandi til forna, lét börnin sitja í brekkunni á meðan ég dansaði ballett fyrir þau á balanum.

Suðvestan áttin hér að undanförnu hefur orsakað mikið brim sem sópar sjávarþangi og þara upp í hvíta fjöruna. Enginn á ferli nema ég og engu líkara en allir hafi yfirgefið jörðina. Eitt krummapar í klettum við ströndina út með firði, annars ekki mikið fuglalíf enn sem komið er, heyri þó í hrossagauk og stelk og mófuglarnir eru að koma sér fyrir. Og ekki ein fluga á ferð heldur, þær koma ekki fyrr en fer að hlýna fyrir alvöru.

Það er af sem áður var þegar fjárbændur settu nýlembdar ærnar út á túnin, nú þekur skógurinn engjar og tún og teygir sig upp i fjallshlíðarnar. Sjómennirnar róa þó enn til fiskjar á litlum bátum, annað hvort með kvóta eða á skaki þótt ekki hafi gefið vel í suðvestan áttinni. Inni í firði er lítil sjálfsafgreiðslu fiskbúð og þangað sæki ég minn þorsk og lúðu sem er himnesk fæða og fiskinn borða ég með íslenskum tómötum og gúrku. Hollustan í fyrirrúmi á öllum sviðum.

 Fyrir utan stóran gluggann sem er kvikmyndatjald náttúrunnar, skiptir hafið stöðugt litum og fjöllin sömuleiðis. Hvergi í heiminum er hægt að sjá svona mörg afbrigði af bláu og gráu, það gerir dumbungsbirtan, sólin nær sjaldan í gegnum skýjaslæðurnar, þær sem umvefja fjöllin og hanga sem leiktjöld yfir firði og flóa. Úti á honum sigla svo skemmtiferðaskipin, í stað strandferðaskipanna hér áður fyrr, eftir velheppnað staldur í sjávarþorpunum. Þar bíða spennandi ferðir fyrir heimshornaflakkara, fossinn Dynjandi, lundinn á Látrabjargi (ef hann hefur ekki drukknað) og Rauðasandur fyrir þá sem þora. Allt er orðið að túrisma, allir eru ferðamenn, líka hér fyrir vestan þrátt fyrir að allir firðir séu fullir af sjókvíum sem breyta ásýnd hinnar eftirsóttu ósnortnu náttúru landsins.

Í gærkvöldi þegar ég fór í Pollinn taldi ég 24 kvíar af eldislaxi sem lóna í litla firðinum fagra. Ekki bara umhverfismengun eins og margoft hefur verið bent á heldur sjónmengun líka. Ætla ekki að hafa fleiri orð um það því þá móðga ég heimamenn, gestgjafa mína sem lifa á þessum nútíma sjávarbúskap. Ég hef sterklega á tilfinningunni þessi árin þegar græðgisbólgan er staðreynd, að ekki megi hafa aðra skoðun en þá sem kapítalið boðar. Við erum öll ofurseld kapítalinu, bönkunum, ólígörkum af öllum gerðum, mafíu og stríðsherrum.

Og það virðist langt í land þegar kemur að alvöru þjóðfélagsbreytingum, rödd þeirra sem hafa aðrar hugmyndir um hvernig best sé að skipa málum öllum til heilla, má sín lítils. Enginn kemst hjá því að vera hluti af þessu kerfi, hvernig sem hán hamast gegn því með eilífum mótmælum og aðgerðum. Við erum öll háð því fyrirkomulagi sem aðrir hafa skapað handa okkur. Því miður, því miður.

Það er sorglegra en tárum taki að upplifa það enn einu sinni á ævinni hvernig hagstjórnarkerfi þessa lands fer með almenning, í launamálum, húsnæðismálum, heilbrigðismálum, menntamálum, hring eftir hring. Svokallaður stöðugleiki í efnahagslífinu er álíka mikil tálsýn og samfélag á tunglinu eða Mars. Afleiðingarnar eru stöðugur óróleiki á vinnumarkaði, endalausar launadeilur, átök og rifrildi, heift og biturð. Segi ég sem er flutt frá þessu og sé þetta utanfrá, horfi á mitt gamla samfélag með augum hins brottflutta, flóttamannsins í margs konar merkingu þess orðs.

Satt best að segja hefur alltaf togast á í mér að vera virkur þátttakandi eða óvirkur áhorfandi að íslensku samfélagi. Einu sinni hélt ég að pólitísk virkni væri leiðin til að hafa áhrif, að breyta, að berjast fyrir réttlæti þeirra sem minna máttu sín. Og vissulega hafa orðið gífurlegar  breytingar og þar hefur feminisminn sem stjórnmálaafl haft afgerandi áhrif.

Þrátt fyrir aukna meðvitund og þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins, þurfum við þó enn að spyrja, hvernig samfélag viljum við sjá og hvernig förum við að því að ræða saman án þess að hatursfull orðræða drekki ásetningi okkar um vitrænt, upplýst samtal sem leiðir fólk saman en ekki sundur?

Það getur tekið á að vera óvirkur áhorfandi að þessu öllu, ekki bara ástandinu á Íslandi og hvernig Íslandsmaðurinn fer að því að lifa lífi sínu, heldur að heimsástandinu yfirleitt. Og alltaf vaknar sama spurningin eins og hjá Hamlet sjálfum:

„Að vera, eða ekki vera, þarna er efinn,
hvort betur sæmi að þreyja þolinmóður
í grimmu éli af örvum ógæfunnar,
eða vopn grípa móti bölsins brimi
og knýja það til kyrrðar.“

Æi, er þetta ekki orðið allt of djúpt hjá mér, best að þakka fyrir sig, þakka fyrir fjörðinn og friðinn sem hann gefur. Því eins og ég las einhvers staðar á dögunum, sá sem velur friðinn, þarf að kveðja margt. Og í því felst mikill sannleikur. En mikið rosalega getur það verið erfitt að kveðja, ekki síst átök og rifrildi. Stundum er mér allri lokið ef ég slysast til að opna samfélagsmiðalana á vitlausum stað. Þá er nú skáldskapurinn skárri ef hann er góður.

En nú snöggkólnar hér í firðinum og allt orðið helblátt út við sjónarrönd. Dumbungur, þetta fallega orð. Dumbungur getur líka átt við þagnardjúp gleymskunnar segir orðabókin. Best að snúa sér að alvöru lífsins. Dumbungnum. Gleyma því sem best er að gleyma en muna annað. Dansa ballett í litla hvamminum og hugsa til Grikklands.

 

 

 

 

Previous
Previous

Skreppitúrar

Next
Next

Dansmeistari á heimsmælikvarða