Skreppitúrar

Ég hitti einu sinni danska konu, Íslandsvin og þýðanda sem sagði að Íslendingar væru alltaf að skreppa eitthvert. Henni fannst þetta sagnorð “að skreppa” svo fyndið. Hún hafði orð á því eftir að ég sagðist ætla að „skreppa til London“ yfir eina helgi. Og já, það er mikið til í þessu, við erum alltaf að skreppa eitthvað eða skutlast yfir allan heiminn eins og það sé ekkert mál.

Ég skrapp í heimsókn til Íslands í lok maí og staldraði við á bestu eyju í heimi í rúmar þrjár vikur. Þetta var fyrsta heimsóknin eftir að ég flutti úr landi. Dagskráin var þétt, ég ætlaði að fagna hálfrar aldar stúdentsafmæli, skreppa vestur á firði á minn uppáhaldsstað, hitta skólasystkini úr æsku, funda með systkinum sem búa núorðið dreifð um Stór-Reykjavíkursvæðið og borða með nánum vinum. Ýmsir snúningar semsagt hjá bíllausri konunni.

Mér varð fljótlega ljóst (og vissi það svosem fyrir) að það er ógerlegt að vera bíllaus á Íslandi. Þá staðreynd þarf ekki að véfengja, allt samfélagið snýst í kringum bíla og bílaeign og hefur gert það í áratugi en aldrei verið eins áberandi og einmitt núna. Ég fann enn betur fyrir einkabílismanum sem tröllríður öllum samgöngum þegar ég kom aftur til Reykjavíkur að vestan. Biðraðir á álagstímum, eilíf bílastæðaleit, ný umferðarmannvirki og bílaflotinn aldrei stærri, meðvituð breikkun á rassgati út um allt.

Að komast milli staða í borginni var mikill útreikningur og krafðist skipulags, sérstaklega ef ég ætlaði mér að notast við strætó eins og fólk gerir í öllum siðuðum samfélögum sem íslensk stjórnvöld vilja bera sig saman við. Því miður gekk skipulagið ekki alltaf upp, svo ég fór ýmist fótgangandi eða tók leigubíl eins og á stúdentafagnaðinn. Ekki gat ég komið sveitt í síðkjól og hælaskóm með hárið út í veður og vind, það passaði ekki heldur að vera í gönguskóm við galadressið.  

Í mörgum tilvikum voru vinir og vandamenn boðnir og búnir að skutla mér hingað og þangað. Á ég ekki að skutla þér? Þarftu ekki skutl? Hvað er þetta manneskja, ég skutla þér. Ein vinkona skutlaði mér meira að segja vestur á firði! Ég, skutlan sjálf, komst að því að skutlið er þjóðaríþrótt íslendinga og ætti að vera keppnisgrein eins og glíman. Hver getur skutlað flestum sem oftast á sem skemmstum tíma með tilheyrandi snúningum þar sem virkilega reynir á snerpu og viðbragðsflýti. Svo er líka hægt að keppa í fegurðaskutli á fallegasta bílnum.

Auðvitað er þægilegt að eiga eða hafa aðgang að bíl í landi þar sem eini stöðugleikinn er óstöðugleikinn eins og veðrið, gengi krónunnar, lánavextir, kjaramál, húsnæðismál, fiskeldismál, orkumál, svo ekki sé minnst á einkamál. Um þennan óstöðugleika er svo hægt að rífast af enn meiri móð en um flugvöllinn og borgarlínuna. Aftur og aftur og hring eftir hring er tekist á um löngu úreltan lífsstíl en ekkert breytist, bílunum fjölgar stöðugt á götunum, þrengslin verða meiri í íbúðahverfum, bílastæðakjallari er norm við íbúðakaup. Um leið minnkar þolinmæði og umburðarlyndi í umferðinni. Fokkjú fingurinn sést oftar á lofti.

Ég átti kannski að vera eins og hver annar túristi og fá mér bílaleigubíl? Nei, það fannst skutlurum mínum af og frá og þess vegna þáði ég skutl. Eða tók strætó og fékk nýja innsýn í þjóðfélagið. Á stórum stoppistöðum eins og Hlemmi og skiptistöð í Ártúnsholti, sá ég veruleika sem einkabílstjórinn sér sjaldnast. Þar eru þjóðfélagsþegnarnir sem eiga ekkert, aldraðir, öryrkjar eða flóttamenn, klyfjaðar konur með kerrubörn, já og utangarðs ungmenni.

Bilið milli þeirra sem eiga og eiga ekki vex í þessu samfélagi og það gerist hratt og beint fyrir framan augun á okkur. En líklega er best að láta sem allt sé í lagi, halda áfram á hringekjunni, þessari sem hver kynslóð virðist þurfa að stíga á til að komast yfir bíl skömmu eftir fermingu, kaupa húsnæði með lánum á okurvöxtum og vinna fyrir þeim þar til kulnunin tekur yfir. En allt flýtur þetta einhvern veginn, óþarfi að hafa of miklar áhyggjur, þetta er bara svona og við því er ekkert að gera er gjarnan viðkvæðið.

En í alvöru, er okkur fyrirmunað að breyta um hugsunarhátt, lífsstíl, ferðamáta? Svona í ljósi loftslagsbreytinga og hamfarahlýnunar? Og hér er ég ekki að álasa almenningi, ábyrgðin er fyrst og fremst hjá stjórnvöldum og auðstéttinni. Það eru þau sem hafa búið þetta samfélag til utan um sífellt vaxandi einkaneyslu, einstaklingshyggju og græðgisvæðingu. Flestir vilja hafa það gott, leyfa sér að njóta, líkja eftir lífi hinna ríku. Festir vilja komast ofar í stéttastigann þótt þér séu einungis þrælar á galeiðunni.  

Já, eftir að hafa gengið yfir sjó og land, áttaði ég mig á að flestir eiga heima á Skutllandi en ég er ekki viss um að það sé á Íslandi hinu góða. Trú mín á manneskjuna og meðfædd bjartsýni segir mér að það sé hægt að snúa þessu skutli við. Þurfa allir að eiga bíl? Sjálf er ég ekki barnanna best, ég er alltaf að skreppa milli landa og borga, en ég hugga mig við að ég nota almenningssamgöngur á jörðu niðri eftir að ég losaði mig við einkabílinn.

Eftir helgi ætla ég ekki að skreppa til London, heldur til Aþenu og ég veit að það er ekki beint umhverfisvænt en Grikkland er álíka mikið uppáhald og Vestfirðir. Bara að ég skreppi ekki saman í öllum hitanum og hamfarahlýnuninni. Kærastinn ætlar að skutla mér út á flugvöll. Nema ég taki strætó. Ég segi bara eins og Oscar Wilde: Það er í samræmi við manneskjuna að vera í mótsögn við sjálfa sig.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Grikklandsárin

Next
Next

Dumbungur