Grikklandsárin

 Ég skrapp til Grikklands á dögunum. Hafði ekki komið þangað í heil átta ár. Ekkert land hefur haft jafnmikil áhrif á mig og Grikkland og ekki síst menning þess og tungumál. Ég átti því láni að fagna rúmlega þrítug að fá að starfa í tvö löng sumur sem fararstjóri í fallegum strandbæ utan við Aþenu og síðar meir bæði á Krít og Ródos.

Ég fékk því gullið tækifæri til að sökkva mér á bólakaf í sögu þjóðarinnar, ekki aðeins fornöldina, heldur eins sögu Rómverja og síðar Býsansríkisins með höfuðborgina Konstantínópel, betur þekkt í dag sem Istanbúl. Saga Grikklands er löng og eftir Býsans fengu önnur heimsveldi yfirráð á Eyjahafinu, fyrst Feneyingar og síðan Tyrkir.

Sjálfstæði öðluðust ekki Grikkir fyrr en um 1830 og eftir það hófst nýöldin í sögu þeirra. Þegar ferðast er um Grikkland er jafnan lögð áhersla á fornöldina og einkum gullöldina í Aþenu á fimmtu öld fyrir Krists daga þegar borgríkið reis sem hæst með byggingu Meyjarhofsins sem enn stendur á Akrópólishæð, sem og tilkomu lýðræðis, listsköpunar og leikhúss.

Ég kom fyrst til Aþenu árið 1979 rúmlega 25 ára gömul, gaf sjálfri mér vikuferð þangað í útskriftargjöf þegar ég lauk háskólaprófi í leiklistarfræðum frá Stokkhólmsháskóla. Í náminu var auðvitað lögð áhersla á uppruna leikhússins í Aþenu, á leikrit harmleikjaskáldanna sem enn eru leikin um allan heim. Af þeim hreifst ég mest af Evripídes sem skrifaði leikrit um ástir og hjónaband m.a. um Medeu sem deyddi börn hennar og Jasons þegar hann tók saman við aðra konu.

Ég varð að fá að sjá leifarnar af þessum leikhúsum þar sem leikhúsmenn fornaldarinnar höfðu sett þessi verk á svið, mig langaði nefnilega til að verða leikstjóri sjálf en þorði ekki fyrir mitt litla líf að gangast við því þá. Þessi eina vika í Aþenu breytti lífi mínu og opnaði dyr að horfnum heimi. Ég skoðaði Díónýsusarleikhúsið sem liggur í suðurhlíð Akrópólisar, settist í marmarasætin í fremstu röð sem sum hver voru merkt ákveðnum háttsettum persónum á tímum leiklistarhátíðanna miklu. Ég fékk smjörþefinn af landi, þjóð og tungu svo ég tali eins og Vigdís forseti.

Svo liðu sex ár þangað til ég komst aftur til Grikklands og þá sem fararstjóri í strandbænum Vouliagmeni. Ég fékk þrjár vikur til að undirbúa mig áður en ég tók á móti fyrsta hópnum. Og ég ætlaði sko að standa mig og ekki láta neinn koma að tómum kofanum hjá mér.  Las Grikkland hið forna eftir Will Durant í tætlur, Hómerskviður sömuleiðis og síðast en ekki síst bók Sigurðar A. Magnússonar Grískir reisudagar frá 1953 en Sigurður var með fyrstu Íslendingum sem dvaldi í Grikklandi nútímans.

Ég tók líka hús á Sigurði þar sem han bjó á Hálaeitisbrautinni en mátti ekki koma fyrr en eftir klukkan tvö til hans, hann fór ekki á fætur fyrr en þá. Í stofunni hjá honum fékk ég krasskúrs í grískri menningu og sögu, reyndi að setja allar þessar styrjaldir fornaldarinnar í samhengi, það var mikilvægt að ruglast ekki á Trójustríðum og Persastríðum, að átta sig á tímatalinu sem náði aftur á forsögulega tíma og framyfir daga Krists.

Sigurður hafði verið fararstjóri á sömu slóðum í mörg ár og afar rómaður sem slíkur eins og allir karlkyns fararstjórar voru alltaf. Þeir voru svo vel lesnir, fróðir, minnugir, skemmtilegir og vel máli farnir. Við konurnar urðum þekktari fyrir hjúkrunarstörfin, samviskusemina og fórnfýsina þegar eitthvað amaði að farþegum eins og flugnabit, sólstingur og ofþurrkun. En auðvitað kunnum við líka alla þessa karlasögu sem okkur var gert að þylja í míkrófónana í ferðunum á Akrópólis, til Delfí, Mýkene, Sounion og eyjarnar rétt utan við Aþenu.

Það er þó ekki fyrr en á okkar dögum að konurnar hafa orðið sýnilegar í fararstjórn og hlotið viðurkenningu fyrir frábæra leiðsögn og þar vil ég nefna aðalkonuna, Þóra Valsteinsdóttir, sem hefur verið búsett í Aþenu í meira en 40 ár. Ég fór með henni enn og aftur á Akrópólis  og í nýja Akrópólissafnið fyrir neðan sem er glæsilegt bygging, ekki síst úr frá sjónarhorni arkitektúrs og hönnunar og afar aðgengilegt fyrir alla sem vilja kynnast Aþenu fornaldarinnar.

Í þessari heimsókn til Grikklands varð mér hugsað til alls þess sem hefur breyst frá því ég kom þangað fyrst fyrir 44 árum síðan. Grískt þjóðfélag hefur stigið inn í nútímann og ekki síst Aþena sem hefur gjörbreyst. Það sem skipti sköpum var að flugvöllurinn var fluttur út úr borginni og staðsettur bakvið Esju þeirra Aþeninga eða Immitos fjallið sem umlykur borgina að hluta til. Neðanjarðarlestar hafa létt á bílaumferð um Aþenu sem áður var ein mengaðasta borg Evrópu. Allar þessar breytingar má þakka því að Olympíuleikarnir voru haldnir í Aþenu 2004.

Öll þjónusta við ferðamenn hefur stórbatnað ekki aðeins varðandi samgöngur, heldur einnig hvað varðar hreinlæti og þar hefur klósettmenninging tekið risastökk. Nú þarf ekki lengur að spyrja, „hvernig var klóið“ eins og kona gerði alltaf hér áður fyrr. Síðast en ekki síst eru konur orðnar áberandi þátttakendur í samfélaginu, þær gegna ekki eingöngu hefðbundnum kvennastörfum, þær keyra leigubíla um götur borgarinnar, karlamenning og karlayfirráð er á undanhaldi sem betur fer.

Nú er hægt að fljúga beint til Aþenu frá Íslandi og þaðan er auðvelt að komast út á eyjarnar bæði í nágrenni Aþenu og þær sem fjær liggja í Eyjahafinu. Í þetta sinn heimsótti ég nágrannaeyjurnar Poros og Hydru og endurnýjaði kynnin af þeim frá fararstjóratíma mínum. Og það verður að segjast eins og er að þau kynni ollu mér ekki vonbrigðum, þvert á móti urðu þau til þess að ég tók ákvörðun um að fara árlega í Eyjahafið það sem eftir er. Það er ekki nóg fyrir Grikklandsvin eins og mig að heimsækja landið á átta ára fresti.            

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Ég er ekki normal

Next
Next

Skreppitúrar